Skip to main content

Gluggi til fortíðar

Elstu minjar um manninn sem vitsmunaveru eru listaverk sem eru að minnsta kosti 40.000 ára gömul. Þessi listaverk eru ýmist smáar útskornar styttur, bergristur, hellamálverk eða nytjahlutir. Þau segja frá frumstæðum samfélögum og gefa nútímafólki hugmyndir um líf á forsögulegum tíma. 

Dularfulli fjársjóðurinn – spennusaga frá Suður-Frakklandi

Í september árið 1940 voru fjórir unglingsstrákar úti í skógi ásamt hundinum Robot að leita að dularfullum neðanjarðargöngum sem þeir höfðu heyrt að væru til og geymdu mikinn fjársjóð. Robot fann djúpa gjótu sem var hulin gróðri og greinum. Gjótan kom í ljós vegna þess að risastórt tré hafði fallið og skilið eftir sig djúpa holu. Strákarnir klifruðu spenntir niður um þröngt opið, kveiktu á luktunum sínum og fundu þá miklar hvelfingar með stórkostlegum málverkum allt um kring. Loft og veggir hellanna voru prýddir nærri 600 málverkum og 1500 ristum. Hellarnir voru síðar nefndir Lascaux [Laskó]. Þeir eru í Dordogne héraði í Suður-Frakklandi. Flest málverkin eru af dýrum en margar tegundir þeirra eru núna útdauðar eða horfnar frá Evrópu. Þar má til dæmis sjá nashyrning og vísund.

Hellarnir vöktu strax mikla athygli og árið 1948 komu 1200 gestir daglega til að dást að listaverkunum. Þær heimsóknir höfðu fljótt áhrif á hellamálverkin. Rakinn sem myndaðist vegna öndunar gestanna varð til þess að málverkin fóru að skemmast. Hellunum var lokað almenningi árið 1963. Enn þann dag í dag berjast Frakkar gegn eyðingu málverkanna af völdum sveppagróðurs. Aðeins örfáir útvaldir vísindamenn fá að heimsækja Lascaux hellana. Einn af þeim var yngsti strákurinn úr hópnum sem uppgötvaði þá. Hann hét Jacques Marsal og var fjórtán ára þegar ævintýrið hófst. Hann helgaði líf sitt varðveislu hellanna en lést árið 1989. 

Rannsóknir leiddu í ljós að hellamálverkin eru meira en 17 þúsund ára gömul. Margir urðu undrandi að sjá hversu listamenn steinaldar voru snjallir að mála, teikna og rista þar sem líkamsbygging og hreyfingar dýranna voru svo eðlilegar og lifandi að halda mætti að þau myndu hlaupa af stað á hverri stundu.

En hvers vegna voru öll þessi listaverk gerð? Margar hugmyndir hafa skotið upp kollinum til að útskýra tilurð myndanna en enginn veit í raun hver ástæðan var. Listamennirnir lifðu á að veiða dýr, til matar og vegna skinnanna. Kannski tengdust myndirnar einhvers konar töfrum og áttu að hjálpa til við veiðarnar eða trúariðkun. 

Víða um heim hafa fundist fornar myndir, allt frá einföldum línudrætti eða ristum upp í flóknar myndir eins og í Lascaux. Hver sem ástæðan var hljóta myndirnar að hafa verið mikilvægar því mikil vinna var lögð í þær. 


Hellamálverk í Lascaux.


Málverk úr hellinum Chauvet. Árið 1994 fannst hellir nálægt Avignon í Frakklandi með elstu málverkum og teikningum sem fundist hafa eða yfir 30.000 ára gömlum. Þar má sjá myndir af ljóni, birni og hlébarða auk annarra rándýra sem ekki eru lengur til í Evrópu.