Fjallið heima – í anda impressjónismans

STUTT LÝSING

Nemendur velja sér grunnhugmynd/mótíf s.s. fjall og mála verk í anda impressjónista.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

 • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar,
 • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni,
 • haft sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni,
 • gert grein fyrir menningarlegu hlutverki list- og verkgreina,
 • gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefni hans,
 • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði,
 • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

 • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
 • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
 • tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu,
 • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,
 • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,
 • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,
 • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur,
 • gert grein fyrir og fjallað um ýmsar stefnur myndlistar með því að bera saman stíla og tímabil tiltekinna verka og sett þau í það menningarlega samhengi sem þau voru sköpuð,
 • greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu.

Hæfniviðmið fyrir náttúrugreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

Nýsköpun og hagnýting þekkingar

 • unnið undir leiðsögn í hópi eftir verkskiptri tímaáætlun við að hanna umhverfi, hlut eða kerfi,

Vinnubrögð og færni

 • framkvæmt og útskýrt einfaldar athuganir úti og inni,
  beitt vísindalegum vinnubrögðum við öflun einfaldra upplýsinga innan náttúruvísinda og útskýrt ferlið,
  sett fram og rætt niðurstöður athugana á skýran og skipulegan hátt,
  hlustað á, metið og rætt hugmyndir annarra.

Ábyrgð á umhverfinu

 • tekið eftir og rætt atriði í umhverfinu sínu, gert grein fyrir áhrifum þeirra á lífsgæði íbúa.

Að búa á jörðinni

 • lýst veðri í heimabyggð og loftslagi á Íslandi.

KVEIKJA

Ef þú lítur út um glugga á skólastofunni þinni, hvað sérðu? Ef þú sérð fjöll, þá veistu hvaða áhrif árstíðirnar og mismunandi birta hefur á litbrigði þeirra og umhverfið í kring.

Þó að fjall sé útgangspunktur í þessu verkefni þá er að sjálfsögðu hægt að vinna verkefnið án þess. Notast má við hvaða grunnhugmynd/mótíf sem er, hvort sem það er útsýnið út um gluggann á skólastofunni, uppstillingar eða jafnvel náttúruljósmyndir.

FRAMKVÆMD

Kennslustund 1 (80 mín.)
INNLÖGN og MÁLUN
Byrjað er á að kynna impressjónismann og helstu listamenn.
Að því loknu er nemendum sagt að verkefni þeirra felist í að mála mynd af fjöllunum sem við sjáum út um gluggann (eða öðru mótífi sem hentar) og nota aðferðir impressjónistanna. Þau mála tvær myndir, eina í þessum tíma og aðra í tíma þegar birtuskilyrðin eru önnur (sem gerist oft á Íslandi). Þannig fá þau tvö dæmi um mismunandi áhrif birtunnar á viðfangsefnið.

Áður en nemendur byrja er gott að vera með sýnikennslu í málunartækni og sýna að:

 • gott er að skissa landslagið lauslega með ljósri krít áður en byrjað er að mála
 • impressjónistar skelltu yfirleitt litunum óblönduðum á strigann í skellum og dreifðu helst ekkert úr þeim eftir það
 • hægt er að mála t.d. ljósbláan himinn með því að setja hvítan og bláan lit hlið við hlið beint á strigann í stað þess að blanda litunum fyrst saman á pallettunni
 • hægt er að ná í nýjan lit í pensilinn án þess að liturinn á pallettunni blandist (dýfa penslinum í kantinn á málningunni en ekki í miðjuna)
 • hægt er að nota andstöðuliti í skugga og sleppa því að nota svartan lit
 • hentugast er að byrja á að mála bakgrunninn (himininn), síðan miðrýmið (fjöllin) og síðast forgrunninn (láglendið)
 • ekki þurfi að mála nein smáatriði eins og hús eða slíkt, aðeins eigi að einbeita sér að litblæ náttúrunnar

Innlögnin og sýnikennslan gæti tekið drjúgan hluta og jafnvel alla kennslustundina. Meta þarf hvort nægur tími sé til að byrja að mála eða hvort nýta eigi restina af tímanum til að skissa gróflega með ljósri krít landslagið (mótífið) sem nemendur ætla að mála.

Kennslustund 2 (80 mín.)
MÁLUN
Byrjað er á að rifja upp atriðin sem komu fram í sýnikennslunni. Nemendur koma trönunum fyrir þannig að þeir hafi gott útsýni yfir það fjall (eða annað mótíf) sem þeir ætla að mála. Fyrri pappírsörkin er fest á spjaldið og landslagið gróflega skissað með ljósri krít (ef þeir eru ekki búnir að því). Nemendur fá því næst málningu og pensla og hefjast handa.

Kennslustund 3 (80 mín.)
MÁLUN (í öðruvísi birtu)
Smá upprifjun í byrjun kennslustundar og svo sama ferli og í síðustu kennslustund.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvað er impressjónismi?
Hvað einkennir myndirnar sem eru málaðar í þeim stíl?
Hvernig eru línur og áferð?
Horfðu á eitthvað fyrirbæri í náttúrunni, s.s. fjall, hvernig breytist það eftir því hvort það er dagur eða nótt, sumar eða vetur?

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2-3 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og náttúrugreinar.

EFNI OG ÁHÖLD

Flatur pensill (nr. 16 er fín stærð)
Plastlok (ca. 20 cm í þvermál), notað fyrir málningu
Trönur og spjöld til að setja pappírinn á
Þekjulitir: gulur, rauður, blár, hvítur (ekki svartur)
Þykkur teiknipappír ca. 32 x 45 cm

HUGTÖK

andstæðir litir
impressjónismi
rými

LISTAMENN

T.d.
Berthe Morisot
Claude Monet

LISTASAGA

Impressjónismi

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022