Skip to main content

Í listasögunni bárust nýjustu straumar og stefnur framan af seinna til Íslands en margra nágrannaþjóða. Eftir því sem leið á 20. öldina og íslenskir listamenn ferðuðust meira, lærðu og bjuggu í útlöndum eða unnu með erlendum listamönnum styttist tíminn sem tók nýjustu bylgjur að berast til landsins. Það þýddi þó ekki að allir landsmenn tækju þeim fagnandi. Í lok 6. áratugarins bárust byltingarkenndar hugmyndir um myndlist til landsins einkum með tveimur mönnum sem báðir bjuggu og störfuðu í útlöndum. Annar var Erró (1932) en hinn var Dieter Roth (1930–1998), þýsk-svissneskur listamaður sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á íslenska samtímalist og bjó á Íslandi um árabil. Hann starfaði með mörgum íslenskum listamönnum í ýmsum kimum lista og handverks og í gegnum hann kynntust þeir áhrifafólki í evrópskri samtímalist og straumum sem kenndir eru við Flúxus sem var alþjóðleg nýtónlistarhátíð sem tengdi saman ýmsar listgreinar. Erró er þekktastur fyrir popplist en á þessum árum vann hann mörg verk í anda hugmyndalistar; tilraunakennd kvikmyndaverk, m.a. með listakonunni Carolee Schneemann (1939–2019) og tók þátt í og stóð fyrir gjörningum, eða því sem á ensku kallast „happenings“.

Ýmsir ungir og róttækir íslenskir listamenn fylgdu í kjölfarið og margir störfuðu og sýndu saman undir undir merkjum SÚM-hópsins frá 1965 og fram á áttunda áratuginn en meðlimir hans voru frumkvöðlar í gjörningum og hugmyndalist hér á landi. Hreyfingin var fremur óformleg en rak um tíma gallerí og stóð fyrir ýmsum sýningum, bæði einkasýningum róttækra listamanna sem og samsýningum. Margir sem störfuðu með hópnum vildu breyta hugmyndum fólks um myndlist og litu á list sem lífsmáta fremur en skrautmuni. Listamenn sem sýndu með hópnum unnu í marga ólíka miðla og kröfðust meira frelsis í listsköpun sinni en almennt tíðkaðist í listsköpun á þeim tíma. Nýlistasafnið var stofnað árið 1978 eftir að SÚM hafði hætt starfsemi og varð þá til nýr vettvangur fyrir róttæka listamenn á Íslandi. 

Einn þeirra sem hefur verið leiðandi í nýlist á Íslandi er Magnús Pálsson (1929) sem vann verk sín í afar fjölbreytt form og tók þátt í starfi SÚM-hópsins um tíma. Hann hefur staðið fyrir gjörningum, búið til skúlptúra, vídeó-verk, bókverk og jafnvel veggfóður. Mörg verka hans eru fyndin og tjá andóf gegn því sem almennt þykir fagurt. Verk hans Bestu stykkin frá 1965 er gott dæmi um slíkt verk en það er gert út gömlum flíkum sem Magnús tróð út með pappír og herti með lími. Pappírsfyllingin var fjarlægð svo ekkert stóð eftir nema innantómar flíkurnar svo úr urðu sérstæðir skúlptúrar. Alls voru þeir 24 talsins og fékk minnsta flíkin og sú slitnasta nafnið Besta stykkið, sú næsta Næstbesta stykkið og sú síðasta Tuttugasta og þriðja besta stykkið. Magnús veitti nýlistadeildinni við Myndlista- og handíðaskólann forstöðu frá stofnun hennar árið 1975 til 1984 og hafði því mikil áhrif á marga upprennandi listamenn.


Magnús Pálsson, Bestu stykkin, þrír skúlptúrar – uppistaða vír, gifsi, pappi og fatnaður, allir holir að innan, 1965.
Nýlistasafnið: N-277

Bræðurnir Kristján (1941) og Sigurður Guðmundssynir (1942) voru meðal þeirra sem tóku þátt í starfi SÚM en báðir settust þeir að í Hollandi. Þeir, ásamt Hreini Friðfinnssyni (1943) áttu mikinn þátt í að tengja SÚM við hollenska samtímalistamenn. Sigurður er þekktastur fyrir ljósmyndaverk sín og skúlptúra. Kristján hefur unnið skúlptúra en er einnig þekktur fyrir teikningar sínar þar sem hann rannsakar tengsl tíma og teikningar og hvernig hægt er að lýsa tíma með línum dregnum á pappír. Ef línan er dreginn hratt dregur pappírinn minna blek í sig en ef hún er dregin hægt. Í verkinu 1440 einnar mínútu línur dró Kristján 60 línur á 24 arkir af A4 blöð en eina mínútu tók að draga hverja línu. Verkið sýnir því heilan sólarhring á myndrænan hátt, þar sem hver lína er ein mínúta, hvert blað klukkustund. 

Sigurður Guðmundsson
Sigurður Guðmundsson, Study for horizon, 1975.

Annar listamaður sem starfaði með SÚM var Róska (Ragnhildur Óskarsdóttir 1940–1996) en hún var ein fárra kvenna sem lét til sín taka í tilraunalist á sjöunda áratugnum. Hún var í andstöðu gegn abstraktlistinni sem var ráðandi hér á landi en vann málverk og teikningar sem fléttuðu saman stjórnmál og list. Konan og hlutverk hennar í samfélaginu er áberandi umfjöllunarefni í verkum Rósku. 

Róska
Róska, Tíminn og ég, akrýlmálverk, 153,5 cm x 170 cm, 1967.
Nýlistasafnið: N234

Rúrí (1951) vakti athygli fyrir gjörninga sína strax á áttunda áratugnum. Verk hennar hafa frá upphafi verið gagnrýnin og hvetja áhorfendur til umhugsunar um gildismat samfélagsins, náttúruna, ofbeldi og ranglæti. Gjörningur hennar og innsetning á verkinu Tileinkun fór fram í og við Drekkingarhyl á Þingvöllum. Gjörningurinn tók 90 mínútur í flutningi og minnti á atburði þegar fjöldagrafir eru opnaðar eftir styrjaldir, en kafarar sóttu stóra poka í hylinn, sem listakonan tók við og kom á börur. Börunum var raðað upp, pokarnir opnaðir en í þeim voru táknrænar líkamsleifar og „kennsl borin“ á þær stúlkur og konur sem líflátnar voru þar á 17. og 18. öld fyrir þunganir og barneignir utan hjónabands.

Rúrí, Tileinkun, gjörningur og innsetning, 2006.
Vefsíða