Borg í ljósaskiptum

STUTT LÝSING

Nemendur skoða hvernig áhrif birta hefur á umhverfið, t.d. hvernig ljósaskiptin geta búið til skuggamyndir og beita litafræði til að kalla fram ákveðin áhrif í mynd.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • unnið eftir einföldu ferli frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt þá leikni sem hann hefur öðlast í einföldum verkefnum,
  • tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt,
  • gengið frá eftir vinnu sína,
  • lagt mat á eigin verk.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
  • skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum,
  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki.

Hæfniviðmið fyrir náttúrugreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • aflað sér upplýsinga er varða náttúruna,
  • sagt frá eigin upplifun á náttúrunni og skoðun á lífveru í náttúrulegu umhverfi,

KVEIKJA

Nemendum eru sýnd myndir af sólarlagi eða sólaruppkomu þar sem borg eða landslag mynda skuggamynd (e. silhouette).

FRAMKVÆMD

1. kennslustund: Byrjað er á að fara í gegnum verkferlið með nemendum. Þau fá síðan blað (ca 32 x 22,5 cm) og þekjuliti (t.d. Neocolor I). Nemendur velja liti fyrir himininn og lita allt blaðið og mega gjarnan blanda saman litunum. Þekja þarf blaðið vel og lita þétt og fast. Að því loknu mála þau útlínur húsa á neðri hluta blaðsins og fylla neðri hlutann alveg með bleki. Látið þorna þar til í næsta tíma.

2. kennslustund: Nemendur nota stóra nagla til að skrapa glugga, hurðir, ljósastaura, götur, bíla og hvað annað sem þeim dettur í hug á blaðið. Svo merkja þau myndirnar sínar einnig með því að nota naglann. Nota má afgangstíma og virkja nemendur í að hengja upp myndirnar t.d. á ganga skólans. Setja má myndirnar allar saman í langa röð, nokkurs konar víðmynd (e. panorama).

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvers vegna myndast svona skuggamyndir?
Hvers vegna verður himinninn svona litríkur?
Hvaða litir eru ráðandi?

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og náttúrugreina

EFNI OG ÁHÖLD

pappír 120-170 gr (ca. 32 x 22,5 cm)
penslar í útlínur og stærri penslar til að fylla upp í
stórir naglar til að teikna með (ca. 7-10 cm langir)
svart blek (s.s. Indian Ink)
þekjulitir t.d. Neocolor I

HUGTÖK

andstæðir litir
heitir og kaldir litir
litafræði
ljós og skuggi
rými
skuggamynd (e. silhouette)

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022