Dúkrista – expressjónismi

STUTT LÝSING

Nemendur æfa sig í að skissa og beita litum til að fá fram áhrif í mynd. Þau velja sér eina skissu og vinna út frá henni dúkristu.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni,
  • haft sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni,
  • gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefni hans,
  • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði,
  • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
  • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
  • tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu,
  • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,
  • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,
  • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,
  • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur,
  • gert grein fyrir og fjallað um ýmsar stefnur myndlistar með því að bera saman stíla og tímabil tiltekinna verka og sett þau í það menningarlega samhengi sem þau voru sköpuð,
  • greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu.

 

Hæfniviðmið fyrir íslensku

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

Lestur og bókmenntir

  • greint og fjallað um aðalatriði í texta og helstu efnisorð og notað mismunandi aðferðir við lestur og skilning á texta,
  • lesið sér til ánægju og fróðleiks og gert öðrum grein fyrir þeim áhrifum sem texti hefur á hann,
  • lesið gamlar og nýjar bókmenntir, þar á meðal þjóðsögur, ljóð og bókmenntir ætlaðar börnum og unglingum.
  • beitt nokkrum hugtökum til að fjalla um form og innihald ljóða, svo sem ríma, ljóðstafi, hrynjandi, líkingar og boðskap,

KVEIKJA

Sýnið nemendum mynddæmi (bæði grafísk og máluð) eftir listamenn eins og Edvard Munch, Käthe Kollwitz, Karl Schmidt-Rottluff og fleiri. Ræðið um expressjónisma. Hvað einkennir þær myndir? Hvernig er myndbygging, línur og áferð notuð til að undirstrika tilfinningar? Hvaða tilfinningar vakna þegar þið skoðið þessar myndir? Hvað gæti hafa vakað fyrir listamönnunum með verkunum? Einnig er rætt um grafísku verkin út frá því hvernig þau eru gerð.

FRAMKVÆMD

Kennslustund 1 (80 mín.):
INNLÖGN, HUGMYNDAVINNA og SKISSUGERÐ
Byrjið á kveikju.

Því næst er nemendum sýnt hvernig dúkristur eru gerðar og farið í gegnum vinnuferlið framundan. Nemendur fá að velja sér ljóð eftir Davíð Stefánsson, t.d. „Konan sem kyndir ofninn minn“, „Lofið þreyttum að sofa“ eða „Mamma ætlar að sofna“. Davíð Stefánsson orti að mestu í ný-rómantískum stíl. Ljóð hans eru yfirleitt mjög myndræn og mörg lýsa vel mannlegum tilfinningum, örlögum, fátækt og eymd. Þau eru frekar auðskilin og henta því ágætlega nemendum á miðstigi grunnskólans. Nemendur vinna nokkrar skissur í A5 út frá ljóðinu sem þau völdu og prófa ýmis konar myndbyggingu með mismunandi uppröðun forma og lína.

Kennslustund 2-3 (2 x 80 mín.):
ÚTSKURÐUR
Nemendur velja eina skissu í samráði við kennarann. Skissan er tekin í gegn á þunnan gegnsæjan pappír og verður notuð sem vinnuteikning. Teikningunni er snúið við og farið ofan í línur með tússpenna. Með tússpennanum eru allar línur og fletir sem eiga að vera svartir litaðir. Síðan er teikningin færð yfir á dúkinn með því að nota kalkípappír. Nemendur fá svo mismunandi útskurðarhnífa og skera í dúkinn út frá vinnuteikningunni.

Kennslustund 4-5 (2 x 80 mín.):
PRENTUN OG FRÁGANGUR
Nemendur prenta myndirnar sínar. Fyrst prófa þau að prenta með svörtum prentlit á hvítan pappír. Því næst með svörtu á litaðan pappír. Að lokum fá þau að prófa að prenta með fleiri litum (jafnvel mörgum á sama pappír), bæði á hvítan og litaðan. Nemendur hengja upp til bráðabirgða eina mynd af hverju tagi. Síðan er rætt um mismunandi áhrif eftir lit á pappír og lit á prentlit. Því næst er valin ein mynd eftir hvern nemanda til að hengja upp í skólanum. Nemendur velja litað karton sem passar við myndina og búa til ramma.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvað er expressjónismi?
Hvernig er myndbygging, línur og áferð notuð til að undirstrika tilfinningar?
Hvaða tilfinningar vakna þegar þið skoðið þessar myndir?

ÍTAREFNI

Leitarorð: Edvard Munch linocut | Der Blaue Reiter | Woodcuts by Ernst Ludwig Kirchner | German Expressionists | Davíð Stefánsson frá Fagraskógi ljóð

Form – veggspjald í myndmennt

Litir – veggspjald í myndmennt

Rými – veggspjald í myndmennt

Kveikjur fyrir skapandi skólastarf

ALDUR

Miðstig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

5 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og íslensku

EFNI OG ÁHÖLD

1. tími: Myndvarpi eða skjávarpi, myndir af verkum, ljóð, skissupappír, blýantur.
2.-3. tími: Blýantur, svartir tússpennar, sniðpappír (þunnur gegnsær), kalkípappír, línóleum dúkur (A5), dúkristuhnífar, dúkristubretti.
4.-5. tími: Prentlitur í ýmsum litum, pappír í ýmsum litum, grafíkpressa og rúllur, litað karton.

HUGTÖK

áferð
dúkrista
expressjónismi
grafík
línur
myndbygging

LISTAMENN

T.d. Edvard Munch, Käthe Kollwitz, Karl Schmidt-Rottluff

LISTASAGA

Expressjónismi

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022