Skip to main content

Olíulitirnir uppgötvaðir – listmálarar koma til sögunnar

Árið er 1400 í Niðurlöndum eins og Holland, Belgía og Lúxemborg voru kölluð. Íbúarnir voru kallaðir Flæmingjar eftir landsvæðinu Flandri sem núna tilheyrir Belgíu. Í Niðurlöndum voru listamenn á þessum tíma að myndskreyta handrit af mikilli nákvæmni og smekkvísi. Fagurt dæmi um það er eitt dýrmætasta handrit heimsins: Ríkustu tíðir hertogans af Berry, sem flæmsku bræðurnir Herman, Paul og Johan frá Limburg myndskreyttu. Handritið er 416 blaðsíður með 131 málaðri síðu og 300 skreyttum upphafsstöfum. Það er í svokölluðum gotneskum alþjóðastíl og var málað á árunum 1410 til 1416. Handritið er dagatal sem birtir texta og myndir fyrir bænastundir hvers einasta dags á árinu. 


Hluti af handritinu Ríkustu tíðir hertogans af Berry.

Til þess að auka raunsæi í málverkum fóru hollenskir listamenn að nota olíuliti í stað egg-temperalita. Þannig litir þekktust en voru ekki vinsælir þar sem þeir voru svo lengi að þorna. Hinn langi þurrktími varð seinna að spennandi eiginleika því þannig fékk listamaðurinn tækifæri til að dýpka blæbrigði og mála smáatriði með mun meiri nákvæmni en áður.

Brúðkaup Arnolfinis

Glæsilegt dæmi um málaralist af þessu tagi er málverkið Brúðkaup Arnolfinis eftir flæmska listamanninn Jan van Eyck (1395–1441) sem var þekktasti málari Norður-Evrópu. Málverkið sameinar allt það besta í flæmskri málaralist, frumlega myndhugsun, nákvæma útfærslu, nýjan skilning á innanhússbirtu og mikið vald á túlkun smáatriða.

Arnolfini var ítalskur kaupmaður sem settist að í Brugge í Hollandi árið 1419. Takið eftir ljósakrónunni fyrir ofan hjónin. Við höfuð brúðgumans er logandi kerti en við höfuð brúðarinnar er kertið útbrunnið. Merking þess er talin vera sú að þegar myndin var máluð hafði konan verið látin af barnsförum en hún var ólétt eins og greinilega má sjá. Myndin var þá saknaðarverk um hana. Áritun málarans á vegginn bakvið hjónin, „Jan van Eyck var hér“ og spegillinn sem sýnir baksvip hjónanna og málarann hafa alla tíð valdið sérfræðingum miklum heilabrotum.


Brúðkaup Arnolfinis eftir flæmska listamanninn Jan van Eyck.

Arnolfine
Baksvipur hjónanna og málarans sést í speglinum.

Flórens á Ítalíu á 15. öld

Eftir því sem við færumst nær samtíma okkar fjölgar listamönnunum sem hafa áhrif á framvinduna. Flórensbúar höfðu forskot á aðra Evrópubúa lengst af á 15. öld og voru þar í fararbroddi nokkrir listamenn. Það voru Brunelleschi, Donatello (1386–1466) og málarinn Masaccio (1401–1428).

Donatello var fær með hamarinn og meitilinn og var harður marmarinn eins og mjúkt smjör í höndum hans. Stytta hans af Davíð með höfuð Golíats við fætur sér var fyrsta nakta styttan sem gerð var síðan á tímum Rómverja. Auk þess var styttan frístandandi og án allrar tengingar við byggingarlist en það var alger nýjung. Masaccio var yngstur brautryðjendanna. Hann lést langt fyrir aldur fram og sumir halda að hann hafi verið myrtur af öfundarmönnum sínum með eitri. Hans síðasta verk var sex og hálfs metra há freska af Heilagri þrenningu. Verkið er í Nýju Maríukirkjunni í Flórens. Þar má sjá Krist á krossinum, Föðurinn, Maríu Guðsmóður og Jóhannes skírara. Hjónin sem gáfu verkið krjúpa fremst á myndinni en algengt var að efnað fólk gæfi listaverk til kirkju sinnar. Auk þess er beinagrind neðst, eins og hún sé í grafhýsi undir gólfinu. Ofan við beinagrindina er ritað: „Ég var eitt sinn það sem þér eruð og það sem ég er munið þér einnig verða.“


Davíð eftir Donatello.

Heilög þrenning

Málverk Masaccios af heilagri þrenningu var fyrsta sjónblekkingarverk endurreisnar. Áhorfendum finnst þeir sjá inn í raunverulega bogahvelfingu því Masaccio notaði fjarvíddartæknina sem Brunelleschi hafði uppgötvað.


Heilög þrenning eftir Masaccio.