Skip to main content

Ný myndhugsun gerjast

Margir héldu að impressjónisminn væri kominn til að vera sem stefna en hann var aðeins upphafið á löngu ferli formbreytinga sem enn þá stendur yfir. 

Gegn impressjónískum skyndihrifum

Suðurfranski listmálarinn Paul Cézanne (1839–1906) gagnrýndi impressjónistana fyrir skort á traustri myndbyggingu. Hann vildi að myndlistin yrði yfirveguð líkt og áður fyrr og draga úr augnabliksáhrifum síbreytilegrar birtu. 

Fáir erlendir listamenn hafa haft jafn mikil áhrif á íslenska myndlist og Cézanne. Síðustu málverk hans af „Mt. Sainte Victoire“ eða Sigurfjalli sem rís yfir fæðingarborg hans Aix-en-Province varð landslagsmeisturum okkar Íslendinga leiðarljós í túlkun íslensks fjallalandslags. Eitt að því sem Cézanne þróaði var litafjarvídd. Í stað þess að láta hluti sem eru langt í burtu verða daufa að lit, líkt og við sjáum í landslagsmálverkum rómantíska tímabilsins, þá notaði Cézanne samspil heitra og kaldra lita þess í stað. Kaldir litir færa hluti fjær áhorfandanum en heitir litir færa þá að sama skapi nær. Þetta notfærði Cézanne sér óspart í verkum sínum og hafði mikil áhrif á listamenn í upphafi tuttugustu aldar. Jón Stefánsson (1881–1962) leit mjög til Cézanne í málverkum sínum. Fjarlægðin gerir fjöllin blá!


Sigurfjall eftir Paul Cézanne.

Handan evrópskrar menningar

Paul Gauguin (1848–1903) var verðbréfasali í París og frístundamálari. Árið 1883 gaf hann starf sitt upp á bátinn til þess að helga sig myndlistinni. Hann hætti ekki bara í vinnunni heldur yfirgaf hann danska konu sína og börn og tók upp einfaldara líferni. Hann fór fyrst til Bretagne-skaga í Frakklandi en síðar til eyjunnar Tahiti í sunnanverðu Kyrrahafi. Þar hafnaði hann evrópskri menningu.

Gauguin hafði mikil áhrif á nútímamyndlist með jákvæðum viðhorfum sínum til evrópskrar miðaldalistar og listar frumstæðra þjóða. Honum fannst sú list einfaldari og heiðarlegri tjáning en raunsæi tilgerðarlegt og persónulaust og hafnaði þar með fyrstur manna vísvitandi arfleifð endurreisnarinnar


Reiðmenn á ströndinni eftir Paul Gauguin.

Kraftmiklar tilfinningar 

Annar listamaður sem kenndur er við síð-impressjónisma er Hollendingurinn Vincent van Gogh (1853–1890). Van Gogh kynntist impressjónismanum í gegnum föðurbróður sinn og alnafna sem var umsvifamikill listmunasali í stærstu borgum Evrópu. Um tíma starfaði Van Gogh hjá frænda sínum í London og sá þar í fyrsta sinn málverk impressjónistanna. Þegar Van Gogh settist að í París nokkru síðar kynntist hann Pissarro (1830–1903), Degas, Gauguin, Georges Seurat (1859–1891) og Henri de Toulouse-Lautrec (1864–1901). Í febrúar árið 1888 settist Van Gogh að í Arles syðst í Frakklandi. Þar tók geðheilsu hans að hraka en hann hélt listsköpun sinni áfram þrátt fyrir að hafa verið lagður inn á sjúkrahús. Ári síðar fluttist hann til Norður-Frakklands til að vera nær bróður sínum Theo sem þá var nýkvæntur. Theo var aðalstuðningsmaður hans. Í júlílok 1890 varð Van Gogh fyrir voðaskoti og lést af sárum sínum. Síðustu tvö æviárin málaði hann nærri 500 málverk, að ótöldum hundruða teikninga og vatnslitamynda. 

Fáum listamönnum tókst að móta jafn persónulegan stíl og Van Gogh gerði á aðeins tíu ára löngum ferli. Hröð, ólgandi og þykkt smurð pensilför í sterkum gulum, bláum, grænum og rauðum litum bera vott um ótrúlega færni og tjáningarþörf. Franski málarinn Henri Matisse (1869–1954) lýsti verkum Van Gogh þannig: „Í verkum hans er enga geðveiki að finna; aðeins fullkomið vald yfir því sem hann vildi sagt hafa.“


Stjörnunótt eftir Vincent Van Gogh, 1889.

Ný-impressjónismi

Franska málaranum Georges Seurat (1859–1891) er eignuð heil listastefna; ný-impressjónismi. Þessi stefna var stundum köllum pointillisme eða punktastefna. Seurat fannst impressjónisminn ónákvæmur og óvísindalegur. Hann málaði þess í stað með hreinum litum og byggði myndir sínar upp á punktum sem hann lagði á strigann með stuttum og mjóum penslum. Ólíkt skyndimyndum impressjónistanna urðu verk Seurat og fylgismanna hans frosin og tímalaus þar sem engin hreyfing er í myndum hans.

Sunnudagssíðdegi á Grande Jatte frá árinu 1884 er frægasta verk ný-impressjónismans. Öllu fólkinu, dýrunum og trjánum er komið fyrir með stærðfræðilegu jafnvægi – rétt eins og í freskum endurreisnartímans frá 15. öld. Seurat lést langt fyrir aldur fram og lét fá verk eftir sig. Aðferðir hans höfðu engu að síður mikil áhrif á síðari tíma listamenn á borð við Kúbistana, Fútúristana á Ítalíu og Fauvistanna í Frakklandi.


Sunnudagssíðdegi á Grande Jatte eftir Georges Seurat.

Norðurlönd – Skagen málararnir

Franski impressjónisminn hafði áhrif um allan heim og þau áhrif vara enn í dag. Hugmyndin um ljúft og afslappað líf á sunnudagssíðdegi sem birtist í verkum þeirra fær fólk til að lygna aftur augunum og láta hugann reika. Hópur listamanna kom sér fyrir á Skagen í norðanverðri Danmörku í kringum árið 1870. Þeir dvöldust þar yfir sumartímann og fönguðu hina norrænu birtu sem umvafði allt. Þar lifðu og störfuðu listamenn í anda frönsku impressjónistanna. Margir þeirra dvöldu þar reglubundið yfir sumartímann langt fram á tuttugustu öldina. Þeirra á meðal voru Anna Ancher (1859–1935), Michael Ancher eiginmaður hennar (1849–1927) og P.S. Krøyer (1851–1909).


Herbergi með rauðum valmúa eftir Önnu Ancher.