Skip to main content

Risavaxnar kirkjur

Miklir konungar hafa gjarnan viljað reisa sér voldug minnismerki. Hið sama á við um afkomendur Karlamagnúsar. Þeir sóttust eftir að hafa í þjónustu sinni afburðamenn sem gætu hrint í framkvæmd hugmyndum sínum. Einn fyrsti þekkti listunnandinn á miðöldum var slíkur maður. Það var Bernvarður biskup í Hildesheim í Þýskalandi. Við skulum aðeins kynnast verkum hans nánar.

Bernvarður lét reisa tvær kirkjur í Hildesheim og eru þær báðar athyglisverð listaverk, hvor á sinn hátt. Sú fyrri er Mikjálskirkjan sem var reist á árunum 1001–1031. Hin síðari er Maríudómkirkjan, byggð á árunum 1010–1020. Mikjálskirkjan er ein elsta kirkjan í hinum rómanska stíl og markar upphaf nýrra hugmynda í byggingarlist. Maríudómkirkjan hefur hins vegar að geyma merkilegar bronshurðir og bronssúlu sem mörkuðu tímamót í listasögunni. Tæknin sem var notuð við að steypa bronshurðirnar er kölluð „horfið vax“.


Mikjálskirkjan í Hildesheim í Þýskalandi.

Bronshurðirnar í Maríudómkirkjunni

Á vinstri hurðinni eru átta myndir er tengjst Gamla testamentinu. Þar má sjá sköpun mannsins, Adam og Evu undir skilningstré góðs og ills, brottreksturinn úr aldingarðinum og dráp Kain á Abel, bróður sínum. Söguna má lesa frá efsta ramma til hins neðsta.

Á hægri hurðinni eru einnig átta myndir, þær sýna ævi Krists, allt frá boðun Maríu til upprisu Frelsarans. Öfugt við vinstri hurðina þá er sagan lesin frá neðstu mynd til þeirrar efstu. Lágmyndirnar á hurðunum eru svo frábærlega vel gerðar að þær voru fyrirmynd margra slíkra bronshurða allt fram að endurreisninni.


Bronshurðirnar í Maríudómkirkjunni í Hildesheim í Þýskalandi.

Refillinn frá Bayeux – Fyrsta teiknimyndasagan 

Refillinn er mikilvægur fyrir okkur Íslendinga því refilsaumur er handverk sem einungis hefur varðveist hér á Íslandi með einni norskri undantekningu. Refillinn er varðveittur í Dómkirkjunni í Bayeux á Normandí-skaga í Frakklandi. Refillinn, eða veggteppið, er sjötíu metra langur og hálfur metri að breidd. Hann er í raun myndasaga sem segir frá innrás Vilhjálms hertoga af Normandí inn í Bretland árið 1066. Það var í síðasta sinn sem nokkrum tókst að hernema Bretlandseyjar. 

Textinn er á latínu en myndirnar, herklæðin og skipin eru norræn. Í raun er Bayeux-refillinn nákvæmasta heimild sem til er um daglegt líf, klæðnað, vopn, siglingar og orustur norrænna manna. Ástæða þess að refillinn hefur varðveist jafn vel og raun ber vitni er sú að hann var aðeins tekinn fram við hátíðleg tækifæri en geymdur þess á milli á dimmum og þurrum stað. Ekki er vitað með vissu hverjir saumuðu refilinn en hann er markverðasta veraldlega listaverkið sem varðveist hefur frá miðöldum.


Refillinn frá Bayeux.