Skip to main content

Kúbismi er listastefna sem kom fram í kringum árið 1907. Það ár var haldin sýning til minningar um listmálarann Paul Cézanne. Cézanne hafði skoðað hvernig unnt væri að lýsa náttúrunni með geómetrískum formum eins og ferningum, kúlum og keilum. Margir listamenn hrifust af þessu, ekki síst spænski listamaðurinn Pablo Picasso (1881–1973). Árið 1907 málaði hann myndina Ungfrúrnar frá Avignon sem oftast er talin vera fyrsta kúbíska málverkið. Nafnið kúbismi er dregið af gríska orðinu „kybos“ sem þýðir teningur en  það tengist líka enska orðinu „cube“.

Ungfrúrnar frá Avignon eftir Picasso.
Wikipedia

Picasso og félagi hans, franski málarinn Georges Braque (1882–1963), þróuðu kúbismann með því að mála hluti og manneskjur í brotum sem raðað var saman á myndfletinum, þar sem hvert brot var málað frá ólíku sjónarhorni. Kúbísku málverkin þeirra virðast uppbyggð af kössum, þríhyrningum og keilum sem áhorfendum er ætlað að púsla saman í huganum. Sum verka þeirra frá þessum tíma eru svo áþekk að það er næstum eins og sami listamaðurinn hafi málað þau.

Kona með gítar eftir Georges Braque, 1913.
Wikipedia

Myndir kúbistanna gengu þvert gegn hefðbundinni framsetningu mannslíkamans og reglum um fjarvídd. Þeir máluðu oft hluti séða að ofan og frá hlið á sömu myndinni. Glas gat til dæmis verið málað séð ofan frá, frá hlið og að neðan á einni og sömu myndinni.

Picasso hreifst mjög af afrískri list, svo sem ristum og grímum. Honum fannst eins og hún byggi yfir frumkrafti sem evrópsk list hefði glatað. Picasso blandaði einföldum formum þeirra og kraftmiklum litum við hugmyndafræði kúbismans svo úr urðu frumleg og nýstárleg verk. Konurnar á mynd Picassos, Ungfrúrnar frá Avignon, eru með andlit sem minna á afrískar grímur. Þær voru með strengda andlitsdrætti og skrumskælda líkama. Það hefur sjálfsagt ekki verið ætlunin að myndin væri falleg og margir voru einmitt þeirrar skoðunar að myndir Picassos væru hræðilega ljótar. Nú er myndin talin meistaraverk. 

Picasso var mjög hæfileikaríkur og kom það fram strax á unga aldri. Hann varð langlífur en málaði aðeins í kúbískum anda hluta af löngum ferli sínum.

Margir íslenskir listamenn hrifust af kúbismanum og þótt engir hafi helgað sig honum má sjá áhrif stefnunnar í verkum þeirra. Sumar höggmyndir Ásmundar Sveinssonar eru undir greinilegum áhrifum af brotakenndum kúbismanum og Jóhannes S. Kjarval málaði myndir í kúbískum anda fljótlega eftir að hann lauk námi. Áhrifa kúbismans gætti þó í verkum hans mun lengur, til að mynda í hrauninu sem síðar varð eitt af höfundaeinkennum hans.