HÚS

STUTT LÝSING

Nemendur velta fyrir sér hver tilgangurinn er með byggingum. Hvað það er sem ræður lögun þeirra, stærð og efni. Þeir búa síðan til hús að eigin vali.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar getur nemandi …
• nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun
• unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk
Við lok 10. bekkjar getur nemandi …
• sýnt og útskýrt vinnuferli frá hugmynd að lokaverki sem felur m.a. í sér upplýsingaöflun,
tilraunir og samtal
• skrásett og sett fram hugmyndir á fjölbreyttan hátt byggðar á eigin ímyndunarafli og/eða
rannsókn, myndrænt eða í texta

Hæfnisviðmið fyrir stærðfræði. Rúmfræði og mælingar
Við lok 7. bekkjar getur nemandi …
• notað hugtök og aðferðir rúmfræðinnar til að útskýra hversdagsleg og fræðileg fyrirbrigði
• rannsakað og gert tilraunir í rúmfræði með því að nota tölvur og hlutbundin gögn, notað
hnitakerfi til að tjá og leysa rúmfræðileg verkefni
• tengt tölur og útreikninga við flatarmyndir og þrívíða hluti
Við lok 10. bekkjar getur nemandi …
• notað undirstöðuhugtök rúmfræðinnar, nýtt einslögun, hornareglur og hnitakerfi til að teikna
og greina rúmfræðilega hluti, sett fram einföld rúmfræðileg rök, mælt og reiknað lengd,
flöt og rými og nýtt tölvur til þessara hluta, notað undirstöðuhugtök rúmfræðinnar þar með
talin hugtök um stærðarhlutföll, innbyrðis afstöðu lína, færslur og fræðilega eiginleika tví- og
þrívíðra forma
• mælt ummál, flöt og rými, reiknað stærð þeirra og útskýrt hvað felst í mælihugtakinu

KVEIKJA

Mannabústaðir og byggingar eru breytilegar. Það eru margir þættir sem ráða lögun þeirra, stærð
og efni. Byggingar geta verið ólíkar eftir því hvar þær eru í heiminum eða á hvaða tíma þær voru
byggðar. Hvað ræður til dæmis stærð þeirra? Hvers konar byggingar eru það háar að þær kallist
skýjakljúfar? Hverjir byggja sér litla kofa? Af hverju eru sumar byggingar þaktar gleri en aðrar varla
með glugga, hvað ræður því?
Nú byggið þið hús í leir, það má vera skýjakljúfur, kirkja, listhús, verslun, hótel, hús sem einhverjir
geta búið í eða hús sem þið gætuð sjálf hugsað ykkur að búa í.

FRAMKVÆMD

• Ýmsar leiðir er hægt að fara í þessu verkefni og fer það eftir aðstæðum og þeim tíma sem
nýta á í verkefnið hvaða leið er farin.
• Ef valið er að nemendur skoði byggingar í nánasta umhverfi með eigin augum þá verður
námið tengt raunverulegum upplifunum eins stærð bygginganna, rými í kringum þær, birtu
og fleira. Hin leiðin er að nemendur skoði arkitektúr í bókum eða á netinu.
• Áður en nemendur fara í verklega vinnu skoðar kennari ásamt nemendum nokkrar myndir/
glærur af byggingum þar sem form þeirra er greint út frá stærðfræðilegum hlutföllum, t.d.
Þjóðmenningarhús (gullinsnið), eða skynrænum upplifunum, t.d. tónlistarhúsið Harpa (efni
og litir). Einnig er hægt að skoða staðsetningu bygginga og samhengi milli bygginga á sama
svæði.
• Nemendur teikna húsið sitt, sem annaðhvort er unnið eftir ákveðinni fyrirmynd eða eigin
ímyndunarafli. Á teikningunni þurfa að vera mál leirhússins, hæð, breidd og lengd. Stærð
hússins þarf að vera nokkurn veginn rétt með tilliti til efnismagns af leir og aðferð við að
vinna það.
Leirhúsið getur verið unnið með hvaða aðferð sem kennarinn og/eða nemandinn ákveður.
Nánar um aðferðir í bókinni Leirmótun-keramik fyrir alla á bls. 28–39. Mælt er með
klumpsaðferð fyrir þá sem eru óvanir að vinna með leir en plötuaðferð fyrir þá sem eru
vanari og ef tími er nægur.
• Þegar leirmótun er lokið fer húsið í þurrkun í a.m.k. eina viku og síðan í hrábrennslu.
• Eftir hrábrennslu er húsið málað með leirlitum, sjá bls. 46–47, og glerjað með glærum
glerung eða málað með pensilglerungum, bls. 50–51, eða brennt án allra litarefna upp í
t.d. 1060 °C með glerjuðu húsunum. Það er hægt að fá marga litríka pensilglerunga sem
brenndir eru við 1020–1080 °C.
• Að gljábrennslu lokinni mæla nemendur upp húsið sitt og skrifa hjá sér mál samkvæmt getu
í stærðfræði (sjá hæfniviðmið í stærðfræði hér fyrir ofan) og skila þeim inn ásamt húsinu.
• Að lokum eru verkin metin með kynningu nemenda á verkefnavinnu sinni og umræðum.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvernig hús byggðir þú og af hverju valdir þú að gera svona hús?
Hvar myndir þú vilja sjá hús eins og þú byggðir? Myndir þú byggja eins hús aftur?

ÍTAREFNI

Blaðagrein frá árinu 1997 um leitina að fegurstu húsunum á Íslandi.
Hús á Hverfisgötu, 101 Reykjavík, sjá hér.
Leitarorð á netinu t.d. „earth sheltering“, „modern movement architecture“, „byggingarlist“.
Verk Le Corbusier sem var svissneskur arkitekt og frumkvöðull í nútímabyggingalist, sjá hér.

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni og sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

Ca. 3 x 40 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista og stærðfræði

EFNI OG ÁHÖLD
  • 1–2 dagblaðsarkir
  • blað
  • blýantur
  • glerungar
  • hvasst verkfæri eða gaffall
  • kefli
  • Leirlitir
  • leirlím
  • módelpinni
  • netið og bækur um byggingalist
  • Penslar
  • Plastpoki
  • skál með vatni eða úðabrúsi
  • skurðarvír
  • sköfur
  • snúningsdiskur (má sleppa)
  • steinleir eða rauðleir; magn eftir stærð og aðferð
  • viðarplata
  • viðarspaði
HUGTÖK

Arkitekt
Arkitektúr
Glerungur
Gljábrennsla
Gullinsnið
Hrábrennsla
Klumpsaðferð
Leirlitur
Litarefni
Pensilglerungur
Tvívíð form
Þrívíð form

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022