Skip to main content

Manneskjan er mælikvarði alls

Við heyrum oft orðið „klassík“. Stundum er það notað um tónlist og stundum til að lýsa einhverju sem er sérlega gott, jafnvel fyrsta flokks. Öll sú myndlist sem kölluð er klassísk á rætur að rekja til Forn-Grikkja. Orðið er dregið af latneska heitinu classis sem þýðir flokkur eða stétt. Það verður viðmið annarra hluta því ekki er talið að hægt sé að gera betur.

Samræmi (harmonia) var kjörorð Forn-Grikkja. Þeir notuðu stærðfræði til að finna út klassísk tónbil og form. Þeim fannst manneskjan vera æðsta og flóknasta lífveran og bjuggu til mælieiningar út frá líkamanum; þumlung, fet og alin.


Þumlungur.


Fet.


Alin.

Þó stærðfræðilegt samræmi væri mikilvægt þá var sjónrænt jafnvægi mikilvægara í huga Forn-Grikkja. Munurinn á stærðfræðilegu og sjónrænu jafnvægi er fólginn í þeim þrívíða veruleika sem við búum í. Það þurfti stundum að svindla á stærðfræðilega jafnvæginu til að fullnægja þörfum hins sjónræna jafnvægis. Þetta má sjá á því hvernig súlnaraðir Parþenonhofsins á Akrópólishæð í Aþenu sveigjast inn á við að ofanverðu. Ef súlurnar hölluðust ekki inn myndi okkur finnast sem hofið væri að gliðna út á við og hrynja í sundur.


Dórískar súlur höfðu engan fót en ferkantað höfuð. Þær gildnuðu lítið eitt um miðjuna og mjókkuðu síðan upp. Þetta var gert til að láta þær sýnast hærri.

Jónískar súlur voru heldur skrautlegri en þær dórísku og voru grennri en þær. Þær voru með snúða á súluhöfðinu og höfðu hringlaga fót.

Korinþusúlurnar líktust þeim jónísku nema þær voru heldur grennri.
Helsti munurinn er fólginn í mjög skrautlegu súluhöfði með sveigðum laufblöðum og blómum.

Þekking á trúarbrögðum Forn-Grikkja er nauðsynleg til að skilja forn-grískri myndlist. Guðir og gyðjur voru í mannsmynd og áttu sér mannlegar hliðar og sýndu tilfinningar, ástríður og breyskleika. Til að draga fram mannlegt eðli guðanna lögðu Forn-Grikkir áherslu á nákvæma túlkun líkamans í listaverkum sínum. Íþróttamenn voru fullkomnastir allra í hugum Forn-Grikkja og margar fegurstu styttur þeirra sýna íþróttamenn. Með fullkomnum styttum af þeim vildu þeir sýna hið guðlega eðli þeirra. En með því að gera guðina mennska og mennina guðlega missti grísk list trúarlegt inntak sitt.

Það tímabil í sögu Grikkja sem hafði mest áhrif á þróun vestrænna samfélaga er kallað klassíska tímabilið. Það varði í aðeins tvö hundruð ár á fimmtu og fjórðu öld fyrir Kristsburð. Í hópi fremstu listamanna Forn-Grikkja var myndhöggvarinn Pólýkleitos (480–420 f.Kr.). Hans frægasta verk er Spjótberinn. Hann skrifaði bók um fagurfræði sem hann grundvallaði á stærðfræðilegu jafnvægi.


Spjótberinn eftir Pólýkleitos. Jafnvægi er náð með því að láta Spjótberann standa í annan fótinn og með því að sveigja hrygginn lítið eitt og lyfta gagnstæðri öxl.

Forn-Grikkir á klassíska tímanum gerðu fleira en styttur. Þeir reistu líka glæsileg hof. Þeir notfærðu sér forna byggingartækni frá Krít þar sem trésúlur héldu uppi veggjum og þökum. Í stað timburs notuðu Forn-Grikkir marmara sem hafði meira burðarþol.

Eitt fegursta dæmi um þessa byggingaraðferð er Parþenonhofið. Höfundur þess var Feidías (490–430 f.Kr.) en hann er talinn mesti listamaður þessa tímabils. Hann var myndhöggvari, málari og arkitekt. Súlurnar sem halda uppi þakinu á Parþenonhofinu eru kallaðar dórískar súlur. Þær eru elsta útgáfan af súlnagerð Forn-Grikkja. Feidías gerði einnig hina frægu risastyttu af Seifi sem var í borginni Ólympíu en þar voru fyrstu Ólympíuleikarnir haldnir 700 árum fyrir Krist. Styttan var eitt af sjö undrum veraldar í fornöld og talin hafa verið 12 metrar á hæð. Hún eyðilagðist í eldi árið 462 e.Kr. Feidías gerði einnig risastyttu af gyðjunni Aþenu sem stóð í Parþenonhofinu. Styrjaldir, skemmdarverk og tímans tönn hafa máð þessi listaverk af yfirborði jarðar.


Parþenonhofið.


Dórískar súlur.

Tengsl norrænna, grískra og rómverskra trúarbragða

Greinilegar hliðstæður eru milli trúarbragða. Hinn gríski Seifur, rómverski Júpíter og norræni Óðinn eiga of margt sameiginlegt til þess að það geti verið tilviljun. Hið sama gildir um Afródítu, Venus og Freyju. Afródíta var gyðja ástar og fegurðar hjá Forn-Grikkjum. Hún var líka gyðja alls þess góða og kyrra í hafinu. Eins og sést á myndunum er Venus þeirra Rómverja sláandi lík Afródítu. Freyja var gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Guðir og gyðjur Forn-Grikkja bjuggu á Ólympustindi í góðu yfirlæti eins og goð norrænna manna í Valhöll.


Afródíta.


Venus.


Freyja.