Manneskja í fullri stærð

STUTT LÝSING

Nemendur skoða hver hlutföll líkamans eru og gera samanburð á hlutföllum og stærðum eftir mælingum. Í lokin teikna þau manneskju í réttum hlutföllum.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni,
  • haft sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni,
  • gert grein fyrir menningarlegu hlutverki list- og verkgreina,
  • gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefni hans,
  • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði,
  • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
  • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
  • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,
  • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,
  • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,
  • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur,
  • greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu.

Hæfniviðmið fyrir stærðfræði

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

Tölur og reikningur

  • skráð hlutföll og brot á ólíka vegu.

Kveikja

Nemendur skoða myndir og skúlptúra sem sýna mismunandi útfærslur listamanna á mannslíkamanum í listaverkum sínum eins og t.d. listamennirnir Niki de Saint Phalle, Keith Haring, Picasso, Matisse (klippimyndir) o.fl.

Framkvæmd

Nemendur vinna í pörum og hjálpast að við að teikna hvort annað á stórar arkir af maskínupappír t.d. með hjálp mynd- eða skjávarpa eða með því að leggjast á pappírinn á gólfinu. Nemendur eiga að velja sér lifandi stellingu og þegar búið er að teikna útlínurnar vinnur hver nemandi sína mynd áfram (mega líka halda áfram að vinna saman í pörum). Nemendur útfæra sína mynd á sinn hátt, breyta og laga að eigin hugmyndum. Síðan mála nemendur myndirnar t.d. í skærum litum eða með lifandi mynstri allt eftir útfærslu. Myndirnar eru síðan klipptar út og hengdar upp til sýnis.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Í lok verkefnisins:

Er teikningin í réttum hlutföllum? Hvar og hvað gerir það að verkum? Hvar ekki og hvernig er þá hægt að laga það?
Er teikningin í jafnvægi? Ef svo er, hvað gerir það að verkum? Ef ekki, hvernig er þá hægt að laga það?

ÍTAREFNI

ALDUR

Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2-3 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og stærðfræði

EFNI OG ÁHÖLD

maskínupappír
penslar
skæri
teikniblýantar (mjúkir)
þekjulitir

HUGTÖK

form
hlutföll

LISTAMENN

Leonardo da Vinci, Michelangelo, Picasso, Matisse, Niki de Saint Phalle, Keith Haring

LISTASAGA

Endurreisn, háendurreisn

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022