Skip to main content

Hugtakið samtímalist nær yfir list samtímans. Helsta einkenni hennar er frelsi listamannsins til þess að beita ólíkum stíl og tæknibrögðum. Þess vegna er hugtakið samtímalist fremur safnheiti en nafn á tiltekinni stefnu eða stíl.

Listamenn dagsins í dag hafa nánast ótakmarkað val um efnivið og efnistök. Þeir geta málað hefðbundin olíumálverk, tekið ljósmyndir, sýnt gjörninga, unnið vídeóverk eða jafnvel notað demanta og dýrahræ í verk sín eins og listamaðurinn Damien Hirst (1965). Margir samtímalistamenn nota nýja tækni í listsköpun sinni.

Damien Hirst
Damien Hirst, Mother and Child (Divided), hér sést hluti af verkinu. Frumgerðin er frá 1993.

Samtímalist er, rétt eins og eldri list, oft andsvar við eða þróun frá eldri stefnum eða stílum. Listamenn geta tjáð afstöðu sína með verkum sínum eða vakið áhorfendur til umhugsunar. Það gerði listamaðurinn Ólafur Elíasson (1967) þegar hann tók myndir af íslenskum jöklum með 20 ára millibili svo áhorfendur gátu séð hve mikið þeir höfðu bráðnað á þeim tíma. Hann hefur einnig gert verk sem byggja á þátttöku áhorfenda. Stundum virðist samtímalist aðallega ætlað að skapa hughrif og jafnvel skemmta áhorfendum. Verk japönsku listakonunnar Yayoi Kusama (1929) eru auðþekkt á doppunum sem einkenna skúlptúra hennar, málverk, innsetningar, myndskreytingar og jafnvel hana sjálfa. Íslenska listakonan Hrafnhildur Arnardóttir (1969), sem kallar sig Shoplifter, hefur skapað verk úr gervihári sem reyna á skynjun og skilningarvit áhorfenda sem geta stundum farið inn í verkin.

Ólafur Elíasson, Ice Watch,
Ólafur Elíasson, ice Watch, 2014. Innsetning á Place du Panthéon, París, 2015.
Ljósmynd: Martin Argyroglo. Birt með leyfi listamannsins og i8 gallerís.
Vefsíða


Yayoi Kusama, Infinity room, innsetning, 2012.
Vefsíða

Shoplifter
Shoplifter, Hrafnhildur Arnardóttir, Study for an Opera I, hár, textíll, 2009.
Listasafn Íslands: LÍ-9198
Vefsíða