Skip to main content

Hið mikla herveldi

Öfugt við hina forvitnu Forn-Grikki  sem höfðu mestan áhuga á heimspeki, vísindum og listum þá kraumaði mikið hernaðarveldi norður á Ítalíuskaga. Rómverjar lögðu undir sig öll lönd við Miðjarðarhaf og þar á meðal Grikkland. Þeir hrifust svo mjög af grískri menningu að þeir gerðu hana að sinni eigin. Þeir fluttu inn listamenn frá Grikklandi og létu þá vinna fyrir sig. Flestar forn-grískar styttur sem við þekkjum í dag eru einungis eftirgerðir sem Rómverjar létu gera eftir frummyndunum. Í mörgum tilfellum eru frummyndirnar löngu týndar en eftir standa eftirgerðir Rómverja. 

Styrkur hringbogans

Rómverjar gerðu margt mikilvægt á listasviðinu. Þeir notuðu bogaform frá Mesópótamíumönnum í stað grísku súlnanna sem voru frekar notaðar til skrauts. Þannig gátu þeir aukið burðarþolið. Bogaformið er kallað rómanskur bogi og var hann uppistaðan í hinu mikla hringleikahúsi í Róm, Colosseum, sem var reist á árabilinu 70–80 eftir Krist. Á sama tíma fundu þeir upp steinsteypuna sem jók möguleika þeirra í húsagerðarlist. Steinsteypan gerði þeim kleift að byggja vatnsbrýr víða í Evrópu til að tryggja aðgengi að vatni og er vatnsbrúin í Segovia á Spáni dæmi um slíkt mannvirki. Líkt og sönnu heimsveldi sæmir lögðu Rómverjar mikla áherslu á skipulag og samgöngur. Til að auðvelda samgöngur lögðu þeir vandaða vegi um alla Evrópu, allt norður til Skotlands, suður til Spánar og austur að Asíu.
Colosseum í Róm á Ítalíu.

Segovia vatnsveitan á Spáni.

Pantheonhofið

Annað fagurt dæmi um byggingarlist Rómverja er Pantheonhofið í Róm. Það var reist á annarri öld eftir Krist. Framhlið þess er í anda Forn-Grikkja með Korinþusúlum en yfir sjálfu hofinu er risavaxið hvolfþak með hringlaga gati fyrir miðju. Hvolfþakið er úr ójárnbentri steinsteypu og er meira en sex metrar að þykkt neðst en ríflega einn metri efst. Í efstu lögum steinsteypunnar eru léttari steinar til að draga úr þyngd hvolfþaksins. Þessi nýja tækni Rómverja varð til þess að öll húsagerðarlist tók miklum breytingum og sýnir vel hvernig verkfræði getur haft áhrif á þróun listarinnar.


Pantheonhofið í Róm.


Hvolfþakið á Pantheonhofinu.

Kristni

Jesús Kristur fæddist á þeim tíma þegar Rómverjar voru valdamestir allra þjóða í Evrópu. Fæðing hans hafði mikil áhrif á þróun menningarinnar. Skýrt dæmi um það er tímatal okkar en það miðast við fæðingu Krists. Fylgjendur hans neituðu að beygja sig undir vald rómversku keisaranna og sögðust aðeins hlýða Guði. Í huga þeirra þýddi þetta að lífið væri aðeins undirbúningur undir dvölina í himnaríki. Þetta hafði mikil áhrif á alla list í Evrópu næstu aldir.