Sushidiskar, sojaskálar og matprjónastandar

STUTT LÝSING EÐA MARKMIÐ

Nemendur kynna sér japanska matargerð og útbúa þá fylgihluti sem þarf til að bera sushi fram.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar getur nemandi

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun
  • gert grein fyrir margvíslegum tilgangi myndlistar og hönnunar

Við lok 10. bekkjar getur nemandi

  • valið á milli mismunandi aðferða við sköpun, prófað sig áfram og unnið hugmyndir í fjölbreytta miðla
  • túlkað listaverk og hönnun með tilvísun í eigin reynslu, nærumhverfi, samtímann, siðfræði og fagurfræði

Hæfniviðmið fyrir heimilisfræði

Við lok 7. bekkjar getur nemandi

  • nýtt margvíslega miðla til að afla upplýsinga er varða matreiðslu, næringarfræði og meðferð matvæla
  • tjáð sig um ólíka siði og venjur og þjóðlegar íslenskar hefðir í matargerð

Við lok 10. bekkjar getur nemandi

  • nýtt margvíslega miðla til að afla upplýsinga á gagnrýninn hátt um næringafræði, neytendamál, hagkvæmni í innkaupum, aukaefni, geymslu og matreiðslu
  • sagt frá íslenskri og erlendri matarmenningu og matreitt ýmsa þjóðarrétti

KVEIKJA

Hvað er sushi? Hvaðan er það upprunnið? Er alltaf fiskur í sushi?
Vissuð þið að upprunalega voru ediklegin hrísgrjón, eins og eru í sushi, notuð til að geyma fisk á sama hátt og við Íslendingar geymdum kjötvörur og slátur í mysu? Sushi þýðir því soðin hrísgrjón með ediki og með þeim er hægt að borða ýmislegt annað en fisk t.d. grænmeti.

FRAMKVÆMD

Nemendur kynna sér matarmenningu Japana, sérstaklega þann hluta sem snertir sushi. Hönnun á sushidiskum, sojaskálum og matprjónastöndum er skoðuð í bókum og á neti (sjá ítarefni). Gerðar eru skissur og/eða nákvæmar teikningar með málum.

Sushidiskar

Hér eru sýndar tvær leiðir til að búa til sushidiska. Önnur er að fletja út leir, sjá plötuaðferð bls. 34 í bókinni Leirmótun keramik fyrir alla. Skera síðan út í leirplötuna eftir tilbúnu formi eða pappírssniði, sem nemandinn hefur búið til eftir eigin hugmynd. Hin aðferðin, lengst til hægri, er að hnoða leir, þrýsta honum út í nokkurn veginn rétta stærð og slétta út með kökukefli. Brúnirnar ráðast eftir því hvernig þær koma út þegar rúllað er yfir leirinn. Þessi plata endaði í stærðinni; lengd 22 cm og breidd 14 cm. Magn leirs er 400 grömm.

Plöturnar eru tilbúnar fyrir skreytingu. Á vinstri myndinni er búið að hrábrenna plötuna og hún er máluð með ýmsum tilbúnum pensilglerungum, sjá bls. 50–51.

Á hægri myndinni á að vera áferð á diskinum og þá er unnið með leirinn hráan, sjá bls.14. Hér er stimplum þrýst í hann til að fá mynstur, síðan er platan hrábrennd. Eftir hrábrennslu er hún máluð með bláum leirlit, sjá bls. 46–47, sem þveginn er af með rökum svampi að hluta til og glerjuð með glærum glerungi til að fá réttan lit á leirlitinn.

Ráð! Muna að láta brúnir eða hluta af brúnum disksins lyftast aðeins upp svo að auðveldara sé að taka hann af borði og einnig til að vökvi leki ekki út af honum. Það er gert með því að brjóta upp á dagblað, sem er lagt undir brúnina, og diskurinn látinn þorna þannig. Sjá mynd til hægri.

Ólíkar aðferðir og ólíkir diskar en báðir gljábrenndir við 1060 °C.

Sojaskálar

Takið u.þ.b. 120 gramma vel rakan leirbút og rúllið honum til í lófunum til að ná úr honum lofti. Þrýstið í miðjuna og síðan léttilega út frá henni. Mörg létt handtök eru betri en fá sterk og þá myndast síður sprungur í leirnum. Miðið við að stærð skálarinnar verði kringum 10 cm í þvermál og 2 cm að dýpt. Botninn þarf að vera sléttur svo að skálin standi kyrr og það er gert með því að slá með viðarspaða á hann. Yfirborðið og brúnir eru sléttaðar með fingrum og ef til vill rökum svampi líka. Skálin er látin þorna á viðarplötu þar til að hún er þurr og hægt að hrábrenna hana.

Skálin hefur verið máluð með bláum leirlit og rendur málaðar með bláu kóbaltoxíði, sjá bls. 47, og síðan dýft í glæran glerung, sjá bls. 49, og brennd við 1060 °C.

Matprjónastandar

Hér er sömu sögu að segja og með sushidiskana, tvær leiðir eru sýndar hvernig hægt er að móta matprjónastanda. Til vinstri eru skorin út blómaform sem hafa verið teiknuð á blað, búið til snið og skorið eftir. Til hægri er tekinn 25 gramma leirbútur og þrýst til í form sem prjónar geta legið á.

Matprjónastandarnir eru nú tilbúnir fyrir litun. Til vinstri er búið að hrábrenna þá, þar sem á að glerja þá í einum lit. Til hægri (undir prjónunum) er standur sem ennþá er hrár því hann á að mála með leirlit fyrir hrábrennslu. Til vinstri hefur verið glerjað með tilbúnum rauðum pensilglerungi. Til hægri hefur verið málað með leirlit og dýft í glæran glerung. Hvort tveggja var brennt við 1060 °C.

Á sýningu verkanna er tilvalið að nemendur útbúi sushi og borði af diskunum. Ef einhverjum líkar ekki sushi má útbúa annan mat, t.d. salat, og setja á sushidiskinn, gaffal á matprjónastandinn og salatsósu í sojaskálina.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvernig tókst til að búa til sushidiska? Hvaða munur er á sushidiskum og öðrum matardiskum?

Getið þið notað sushidiskana eða sojaskálarnar í eitthvað annað? Vitið þið hvað þýðir makisushi eða nigirisushi? (Sjá undir ítarefni).

ÍTAREFNI

Grein um japanska matarhefð (á ensku), sjá hér.
Um sushi, s.s. makisushi og nigirisushi (á ensku), sjá hér.
Uppskrift að sushibollum (á ensku), sjá hér.

Leitarorð: Sushigerð | sushi making

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, sjálfbærni, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

Ca. 4 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og heimilisfræði

EFNI OG ÁHÖLD
  • blað
  • blýantur
  • dagblaðsörk
  • form til að skera eftir
  • glær glerungur og
  • hnífur eða prjónn
  • hvítur eða ljós steinleir
  • kefli
  • leirlitir
  • litaðir glerungar
  • penslar
  • skurðarvír
  • skæri
  • stimplar
  • svampur
  • viðarplata
  • viðarspaði
HUGTÖK

Glerungur
Hrábrennsla
Kóbaltoxíð
Leirlitur
Pensilglerungur
Plötuaðferð

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

T.d. samtímalist

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022