Skip to main content

Léttleikandi eyjamenning

Sunnarlega í Miðjarðarhafinu er eyjan Krít, fögur og sólrík. Fyrir 3500–4000 árum voru íbúar hennar lífsglaðir og kraftmiklir eyjarskeggjar. Þeir stunduðu siglingar og áttu mikil viðskipti við Forn-Egypta. Þó að menning Forn-Egypta hafi haft áhrif á Krít var yfirbragð krítverskrar listar léttara og fjörlegra, öfugt við stöðlun og fastheldni Forn-Egypta.

Menningin á Krít var upphafið að hinni glæsilegu forngrísku menningu. Í litfögrum veggmálverkum sem kallaðar eru freskur fara Krítverjar heljarstökk á nautum og höfrungar synda um höfin. Á einni myndinni er stúlka með farða og varalit sem þótti svo lífleg og þokkafull, þegar hún fannst í upphafi 20. aldar, að hún hlaut viðurnefnið Parísardaman – La Parisienne.


Paradísardaman.

Freskur

Ein af ástæðunum fyrir léttleika krítverska stílsins var freskutæknin. Þá var málað á blautan kalkmúr en ekki þurran líkt og Forn-Egyptar gerðu. Þarna er komin skýringin á hinu alþjóðlega heiti; „Fresco“ sem er ítalska og þýðir ferskur eða nýr. Aðferðin byggist á því að fyrst er múrhúðin dregin á vegginn en aðeins á lítil svæði í einu. Meðan múrinn er blautur málar listamaðurinn með litarefnum sem hann hefur leyst upp í vatni. Litarefnin ganga í efnasamband við kalkið og renna saman við yfirborðið. Þetta þýðir að listamaðurinn þarf að vera snar í snúningum áður en múrinn þornar.


Freska, stokkið yfir naut.

Byggingarlist gefur tóninn

Byggingar Krítverja segja okkur heilmikið um menningu þeirra. Húsin voru ekki eins sterkbyggð og í Egyptalandi, þau voru léttari tilsýndar og féllu betur að umhverfinu. 

Rannsóknir á höllinni í Knossos á Krít hafa veitt miklar upplýsingar um lífið þar. Höllin er sannkallað völundarhús með nærri 1300 herbergjum umhverfis fallegan hallargarð. Í höllinni var frárennsliskerfi, skólpveita og vatnsveita en það var alveg óþekkt á þessum tíma. Korn, olía og vín var geymt í stórum leirkerum. Veggir hallarinnar voru skreyttir listaverkum og veggmálverkum sem lýsa fjörlegu lífi fólksins sem bjó þar. Trjábolir mynduðu burðarsúlur hallarinnar, sem og fleiri bygginga. Krítverjar létu trjábolina standa á hvolfi til þess að koma í veg fyrir að greinar færu að vaxa á nýjan leik út úr trjábolunum.


Höllin í Knossos.

Á Krít höfðu konur meira að segja um mál á opinberu sviði en þekktist í Evrópu á þessum tíma. Segja má að þar hafi verið móðurættarsamfélag, eignir erfðust frá móður til dóttur og frjósemisgyðjur voru dýrkaðar. Eyjan var einangruð og fyrir vikið var samfélagið bundið sterkum fjölskylduböndum. Það hefur þótt merkilegt hve mikil áhersla er lögð á kvenlega fegurð í krítverskri list og voru konur oft sýndar afar vel til hafðar í klæðaburði og hárgreiðslu. Líklegt er að sumar þessar konur tákni gyðjur fremur en dauðlegar konur. Þó er ljóst að uppábúnar konur, líka þær dauðlegu, eru að jafnaði sýndar berbrjósta. Það er ekki einsdæmi í myndlist fornaldar en þó hvergi eins áberandi og á Krít.

Annað sem einkenndi krítverska menningu eru „nautastökkin“ en talsvert er af þeim í krítverskri myndlist og íþróttafólk sýnt stökkva yfir mannýg naut.