Vatn er stór hluti af náttúrunni, þekur um 70% af yfirborði jarðar og er stór hluti af líkama okkar eða um 70%. Lífið á jörðinni þróaðist í vatni og í gegnum tíðina hafa lífverur lært að nýta sér eiginleika þess. Vatn og orka eru háð hvort öðru vegna þess að allir helstu orkugjafarnir okkar, sama hverjir þeir eru, eru háðir vatni.

97% vatns á jörðinni er salt eða ekki drykkjarhæft. Hringrás vatnsins sér til þess að vatnsmagnið á Jörðinni minnkar ekki eða verður meira. Hreint vatn er nauðsynlegt fyrir líf manna og spendýra á landi og það verða allir, sama hvar þeir eru staddir í heiminum, að vinna að því að vernda það. Afleiðingar hlýnunar jarðar og bráðnun jökla eru þær að hlutfall þess vatns sem verður salt eykst.

Veðurfarsbreytingar á jörðinni og aukin mannfjölgun auka eftirspurn eftir vatni. Á Íslandi eru miklar vatnsauðlindir á meðan víða í Afríku og í Mið–Austurlöndum er vatn af skornum skammti. Mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að ganga vel um vatnsauðlindina og nýta hana skynsamlega. Neysla Íslendinga á vatni er mun meiri en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, til dæmis notum við tvöfalt meira af vatni en aðrar Norðurlandaþjóðir. Hvers vegna ætli svo sé? Hvernig getum við dregið úr þeirri vatnsnotkun? 

Dagur vatnsins er haldinn hátíðlegur í mars ár hvert. Hann er alþjóðlegur hátíðisdagur sem minnir okkur á að hugsa um hvernig við umgöngumst þessa mikilvægu auðlind og vera þakklát fyrir það sem hún veitir okkur. Vatnsauðlind Íslands felur í sér nægilegt neysluvatn, heitt vatn til húshitunar og grænnar raforkuvinnslu. Vatn er því forsenda alls lífs og því ekki furða að það rati inn í listaverk listamanna sem vinna mikið með náttúruna og samfélag manna. Fyrir utan tenginguna við lífið, hefur vatnið líka sterka tengingu við Ísland. Eyjan er umkringd sjó og þjóðin hefur lifað af afurðum þess frá upphafi byggðar. Ferðamannaiðnaðurinn notar líka vatnið í auglýsingum á landinu: hreina drykkjarvatnið, Bláa lónið, heitir hverir og tilkomumiklir fossar laða ferðamenn til landsins. Vatnið er þannig hluti af ímynd Íslands og um leið hluti af sjálfsmynd okkar sem þjóð. Vatnið er þó ekki alltaf hættulaust, eins og með önnur náttúrufyrirbæri fylgja vatninu líka hættur og hafa margir lotið í lægra haldi fyrir afli þess. 

Hvað getum við gert?

Tilvalið er að vinna þemaverkefni tengd vatni í sinni fjölbreyttustu mynd á hverju ári. Með því að leggja áherslu á að vinna með tilfinningar gagnvart umhverfinu og vatni skapast forsendur til að þroska gildismat sem tengist vatni á víðtækan hátt. Vatn hefur mikil áhrif á það hvernig heimurinn þróast. Það er mikilvægt fyrir alla að skilja hvernig vatn tengist þróun kapítalisma, þjóðir heimsins byggja afkomu sína af vatnsbúskap og lífshættulegar aðstæður eru víða í heiminum vegna vatnsskorts. 

Mikilvægt er að velta fyrir sér hvers konar aðstæður skapa virk tengsl við náttúruleg fyrirbæri eins og vatn. Ein leið til þess er að velta fyrir sér tengslunum milli orsaka og afleiðingar.

Samband listaverka/listamanna við vatn

Vatn í öllum mögulegum myndum hefur verið listamönnum innblástur í gegnum tíðina. Þannig er vatn algengt viðfangsefni myndlistarmanna í öllum listgreinum. Í mjög mörgum listaverkum er vatn annað hvort yrkisefnið eða sjálfur miðillinn. Margir listamenn benda á í verkum sínum hvernig vatn hefur áhrif á heimsmyndina og hvetja okkur til að taka afstöðu.

Vatn og sjálfsmynd okkar

Vatn er hversdagslegur hlutur sem við tengjumst í gegnum neyslu, þvott og sundferðir. En það tengist einnig lífsviðurværi okkar sem þjóð sem hefur reitt sig á fiskveiðar.

Halldór Ásgeirsson (1956) hefur í sumum verka sinna velt fyrir sér sjálfsmynd Íslendinga og tengt hana vatni. Stundum notar hann vatn í verkin sjálf og þá gjarnan litar hann það með bleki og stillir því upp í ýmiskonar glerílátum og fremur gjörninga. En hann vísar líka stundum í sjóinn og líf sjómanna með því að sýna báta. Verkið Frá augnabliki til augnabliks er innsetning sem er samsett úr ljósmyndum af sjávarháska sem hanga fyrir ofan glerplötur í mannhæð. Á glerplöturnar er máluð hvít skuggamynd af gömlum sjómanni. Fyrir framan hverja glerplötu er svo skál með lituðu vatni. Halldór útskýrir gjörninginn sem hann framkvæmdi í tengslum við innsetninguna: „Á opnuninni blandaði ég litinn fyrir framan fólkið. Þetta er eiginlega mín aðferð til að tjá augnablikið. Ljósmyndin tjáir líka augnablik, að mínum dómi frystir hún augnablik. Af málaða skugganum fellur svo annar skuggi á vegginn. Enn eitt atriðið í verkinu er svo spegilmynd áhorfandans í glerinu, þar kemur augnablik hans inn í verkið.“ 

Halldór Ásgeirsson, Frá augnabliki til augnabliks, Nýir miðlar – innsetning, 1999–2000.
Listasafn Íslands: LÍ 6244

Roni Horn (1952) er bandarískur listamaður sem hefur unnið mikið á Íslandi. Hún hefur gert listaverk sem tengja vatn við sjálfsmyndina. Slík áhersla er t.d. í bókverkinu hennar sem nefnist Ísland. Í því verki eru 61 ljósmynd af myndlistarkonunni Margréti Blöndal í sundi. Hún er ýmist í mjólkurlitri, heitri og rjúkandi lind eða blátærri sundlaug. Myndirnar eru ýmist svarthvítar eða í mjúkum pastellitum. Í verkinu má lesa tengsl Margrétar við fjölbreyttar laugar á Íslandi. Leitarorð: Roni Horn You are the weather

Roni Horn, You are the Weather, 1994-1995 (hluti).
Birt með leyfi listamannsins og i8 gallerís.

Vatn og hlýnun jarðar

Roni Horn gerði líka listaverkið Vatnasafn sem er innsetning. Verkið samanstendur af þremur söfnum – vatns, orða og veðurfregna. Innsetningin sýnir hversu náin tengsl listakonan hefur við einstaka jarðsögu Íslands, loftslag þess og menningu. Listaverkið Vatn er innsetning 24 glersúlna sem eru fullar af vatni sem var safnað úr ís frá mörgum helstu jöklum Íslands. Þegar gengið er á milli glersúlnanna erum við minnt á fréttir um bráðnun jökla. Glersúlurnar endurvarpa ljósi á gúmmígólf sem á eru skrifuð fjölbreytt orð á ensku og íslensku. Orðin tengjast öll ólíku veðri og í mörgum tilfellum kemur vatn þar við sögu á borð við él, súld og rigningu. Einnig býðst gestum að hlusta á úrval frásagna fólks frá Snæfellsnesi af veðrinu. Roni Horn tengir þessar veðurlýsingar sameiginlegri sjálfsmynd Íslendinga. Í sjálfsmyndinni leikur veðrið stórt hlutverk í daglegu lífi fólks. Því má bæta við til gamans að Íslendingar gera gjarnan grín að sjálfum sér og landlægum veðuráhuga. Flestir kannast við mikinn áhuga okkar á veðrinu því hvar sem fólk kemur saman á Íslandi fara samræður að snúast um veðrið á einhverjum tímapunkti. Áhugi fólks á veðrinu og duttlungum þess getur þannig sameinað ólíka einstaklinga sem allir hafa eitthvað að segja um veðrið. Leitarorð: Roni Horn Vatnasafn

Margir listamenn hafa skapað verk þar sem þeir benda áhorfendum á afleiðingar loftslagsbreytinga. Þar er vatn í mikilvægu hlutverki. Ólafur Elíasson (1967) flutti tólf 10 tonna íshlunka frá Grænlandi til Parísar, þar sem hann kom þeim fyrir á Lýðveldistorginu í tilefni loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Ísinn jafngildir tíundahluta þeirrar bráðnunar sem á sér stað á hverri sekúndu á grænlensku sumri. Ísklumpunum var komið fyrir á torginu þannig að þeir mynduðu klukku og með tíð og tíma bráðnuðu þeir á táknrænan hátt. Með þessu móti tókst Ólafi að gera fyrirliggjandi gögn raunveruleg og tókst þannig að gefa staðreyndum tilfinningalegt gildi. Þar sem grænlensku ísjakarnir minntu alla sem fóru um svæðið á hve skamman tíma heimurinn hefur til að bregðast við hlýnun jarðar. Leitarorð: Ólafur Elíasson Ice watch | vefsíða

Ólafur Elíasson, Ice Watch, 2014. Innsetning á Place du Panthéon, París, 2015.
Ljósmynd: Martin Argyroglo. Birt með leyfi listamannsins og i8 gallerís.

Fegurð hversdagsleikans

Ólafur Elíasson notar oft vatn í verkunum sínum, allt frá því að setja það upp sem gufu, gosbrunn og jafnvel með því að útbúa manngerðan árfarveg innanhúss. Það gerði hann í verkinu Riverbed í Louisiana safninu í Danmörku. Með því verki sýndi hann áhorfendum hversdaglegt heiðarlandslag í nýju ljósi. Það er einmitt áhugavert að velta fyrir sér ólíkum sjónarmiðum einstaklinga, hvað hverjum finnst fallegt og hvers vegna. Með þeim hætti er hægt að stuðla að náttúruvernd og virðingu fyrir náttúrunni. Leitarorð: Ólafur Elíasson Riverbed | vefsíða

Ólafur Elíasson, Riverbed, 2014. Frá samnefndri sýningu í Louisiana, Humlebæk, Danmörku, 2014.
Ljósmynd: Anders Sune Berg. Birt með leyfi listamannsins og i8 gallerís.

Viðfangsefni flestra verka Guðbjargar Lindar Jónsdóttur (1961) er ímyndað landslag af fossum, skerjum og eyjum. Verkin eru oft þokukennd í ljósum litum sem minna á rómantíska og hástemmda landslagshefð sem tíðkaðist á átjándu og nítjándu öld þegar náttúran var upphafin. Verk Guðbjargar vekja okkur til umhugsunar um viðhorf okkar til landslags fyrr og nú. Verkin vinnur hún í mörgum lögum með mjög þunnu lagi af málningu sem skapar mikla dýpt. Í verkunum sýnir hún oft umbreytingu náttúrunnar úr einhverju háleitu sem við stöndum lítil og vanmegnug andspænis; í hráefni sem maðurinn mótar að vild. Þegar málverkin hennar af eyjum og skerjum eru skoðuð í samhengi við hækkun sjávarborðs er áhugavert að velta fyrir sér hvað verður um þessa stórbrotnu náttúru.

Guðbjörg Lind Jónsdóttir, Án titils, 125 x 170 cm, 2013.
Vefsíða

Málarinn Sigtryggur Bjarni Baldvinsson (1966) tekur einnig vatn fyrir á fjölbreyttan hátt. Myndirnar hans sýna gjarnan dulúð og hljóðláta fegurð hins íslenska landslags. Síðustu árin hefur Sigtryggur einbeitt sér að því að gera stökum náttúrufyrirbrigðum skil í málverki, vatnslitamyndum og ljósmyndum. Hann leitast við að draga fram ýmsa eðlisþætti náttúrunnar og myndgerir þá, t.d. vatnsfleti og iðuköst rennandi vatns. Málverk hans af mýrarlandslagi, þar sem er litadýrð og gróður, minna á mikilvægi þess að vernda votlendi. Framræstar mýrar hafa leitt til aukinnar losunar koltvísýrings úr mólögum út í andrúmsloftið. Með því að vernda mýrar eru sköpuð skilyrði til kolefnisbindingar í mó. Í mýrarmyndum Sigtryggs eru skuggarnir oft meginviðfangsefnið þar sem bæði mýrargróðurinn og vatnsfletirnir hafa verið fjarlægðir en eftir stendur vottur af veru þeirra á myndfletinum.

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson, Mýri 3, olía á striga, 200 x 190 cm, 2016.
Vefsíða

Vatn og náttúrulegar umbreytingar

Ólíkt Sigtryggi þá leitast vídeólistamaðurinn Steina Vasulka (1940) eftir að sýna kraft náttúrunnar í verkinu Orka. Um er að ræða innsetningarverk sem var fyrst sýnt á Feneyjatvíæringnum 1997. Verkið byggir á myndefni frá hálendi Íslands þar sem Steina einbeitti sér að hægfara umbreytingum í náttúrunni, bylgjuformum og sveiflum í flugi fugla. Hún nær fram miklum krafti með því að lýsa hreyfingu, sem stangast á við lögmál eðlisfræðinnar. Vatn sem flæðir upp á við eða til hliðar, sjónarhorn horft upp frá hafsbotni eða veðursveiflur sem tengjast jökulbræðslu. Orka er sýnt með þremur spilurum, þremur myndvörpum, sex hátölurum og samstillingartæki. Það er notað til að framkalla eitt myndverk með tveimur hljóðrásum sem endurtekur sig í fimmtán mínútna hringrás. Steina vann oft í samstarfi við eiginmann sinn, Woody Vasulka (1937–2019). Þau eru talin til merkilegustu tilraunalistamanna heims og eru frumkvöðlar á sviði vídeólistar. Sérstakt framlag þeirra til vídeólistarinnar byggist á rannsóknum þeirra á eiginleikum rafrænna mynda og sköpun tækjabúnaðar, vélmenna og ýmissa véla, sem hafa haft mikil áhrif á þróun vídeólistar. Leitarorð: Steina Vasulka Orka

Steina Vasúlka, Orka, vídeóverk, 1997.

Guðrún Kristjánsdóttir (1950) hefur líka leitað eftir að fanga náttúrulegar umbreytingar í verkum sínum. Með því að höndla hreyfingu og hringrás síkvikrar náttúrunnar, veðrabrigði, birtuskil og fasaskipti landsins erum við minnt á hversu marga fasa vatn getur haft. Hún skapar sérstaka sýn á náttúruna sem hún miðlar í málverkum sínum, prent- og vídeóverkum auk stórra veggmynda og innsetninga. Umhleypingar í veðri teikna í landslagið mynstur sem endurnýjast í sífellu. Í verkinu Vatn vann Guðrún með vatn sem tákn hins hreinsandi afls og lífgjafa. Guðrún sýndi verkið fyrst í Hallgrímskirkju og vísar í verkinu í tákn vatns í langri sögu kristinnar trúar sem og tákn í öðrum trúarbrögðum. Vatn er í þremur hlutum: í ljósmyndaröð er sýnd niðurstaða úr listrænum gjörningi sem líffræðingar, prestur og listamaður tóku þátt í. Vatn drýpur í glæra skál sem situr á svörtum sandi sem tákn um hringrás vatns og lífs. Þegar droparnir falla úr loftinu gárast vatnið í skálinni við niðandi undirleik tóna Daníels Bjarnasonar; veggir forkirkjunnar og 45 neðri gluggar í kór kirkjunnar eru litaðir bláir, til þess að undirstrika bláma náttúrunnar og lit Maríu guðsmóður. Verkið má einnig tengja sögunni um Guðmund biskup góða sem uppi var um aldamótin 1200 og vígði yfir 200 uppsprettur og lindir víða um land.

Guðrún Kristjánsdóttir, Vatn, 2013.
Vefsíða

Gagnvirk listaverk

Sumir listamenn vinna verk sem krefjast þátttöku áhorfenda til að virkja þau. Rúrí (1951) sem vinnur verk í fjölbreytta miðla hefur í marga áratugi tekið eindregna afstöðu til umhverfismála. Í verkinu Archive – Endangered Waters virkjar sýningagesturinn verkið með því að draga út ljósmyndaplötur sem sýna fossa á Íslandi. Um leið og myndin er dregin út berst niður fossins út úr verkinu í átt að áheyranda en þegar myndinni er rennt inn aftur þagnar fossinn.

Rúrí notar gjarnan skrásetningar, en um leið tilfinningaríka nálgun við efniviðinn þegar hún fæst við það sem hún kallar höfuðskepnur, vatnið og tímann. Hún líkir vinnu sinni oft við fræðimennsku í listum. Árið 2003 var hún fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum þar sem hún sýndi innsetninguna Archive – Endangered Waters. Verkið samanstendur af 52 ljósmyndum af fossum í íslenskri náttúru sem eru í hættu vegna virkjanaframkvæmda. Ljósmyndirnar voru framkallaðar á gegnsæja filmu sem komið var fyrir milli tveggja glerplatna í ramma sem áhorfendur gátu dregið út úr sérsmíðaðri stálhirslu og heyrt um leið upptöku af niðnum úr þeim fossi sem þeir voru að skoða. Þannig varð úr verkinu eins konar fossasafn sem dró bæði fram fegurðina í íslensku landslagi og beindi athygli að þeirri ábyrgð sem við berum á varðveislu hennar. Verkið vakti mikla athygli og hefur í kjölfarið verið sett upp víða og hlotið umfjöllun í fjölmiðlum og fagtímaritum um allan heim. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Rúrí: „Vatn er að verða mál málanna á alheimsvísu eða á mælikvarða jarðarinnar. Við hljótum að þurfa að taka á því á ábyrgan hátt. Við höfum lifað við allsnægtir af vatni – okkur hefur þótt það svo sjálfsagt – að kannski kunnum við ekki að meta það. Ekki síst hér þar sem er svo mikið af því. Þessir fossar hafa alltaf verið til og fólki finnst kannski að þar af leiðandi hljóti þeir alltaf að verða til, eða þá að eitthvað geti komið í þeirra stað. En náttúran er ekki þannig að það sé alltaf hægt að setja eitthvað í staðinn.“ Leitarorð: Rúrí Archive – Endangered Waters | Vefsíða

Óhefðbundin efnisnotkun

Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá (1957) hefur verið brautryðjandi hvað varðar þæfingu ullar til notkunar í myndverkum og hefur vakið athygli fyrir efnisnotkun sína. Í sumum verkum sínum stillir hún saman ull og plexígleri eða notar plexígler sem uppistöðu. Þessi verk eiga það sameiginlegt að fjalla um orð og vatn, tíma og hverfulleika. Þau samþætta veflist og ritlist og vísa jafnt til bókmenntaarfs og náttúru Íslands. Kristín notar oft orð og texta í verk sín. Hún setur textann gjarnan fram á gegnsæjum plötum sem varpa skuggum. Í sumum verkum leitar hún til íslenskra skálda og vinnur með ljóðlínur sem fjalla á einhvern hátt um vatn og strauma. Ljóðlínurnar eru ýmist skrifaðar með hennar eigin rithönd eða með tölvuletri. Í verkinu setti hún letur á bútum af gegnsæjum plexíglerleiðslum sem varpa skugga letursins á vegginn svo oftast nær er það læsilegt aðeins sem skuggi. Leitarorð: Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá

Myndmennt

Sjálfbærnimenntun byggir á tengslum nemenda við náttúruna (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013, bls. 20). Með því að vinna með fyrirbærið vatn fá nemendur tækifæri til að fást við raunveruleg viðfangsefni sem mikilvægt er að huga að í umhverfinu. Með því að vinna markvisst með vatn sem fyrirbæri gefast forsendur til að stuðla að aukinni umhverfisvitund og þar með hvatning fyrir nemendur til virkrar þátttöku í eigin samfélagi (Cornell, 1998).

Forsenda þess að fólk taki meðvitaðar ákvarðanir í umhverfismálum og tileinki sér umhverfisvænan lífsstíl er efling umhverfisvitundar (Dillon o.fl., 2006). 

Myndmennt hentar vel til að efla sjálfbæra hugsun, því að þar er bæði unnið með ímyndunarafl og eigin reynslu í tengslum við umhverfi og menningu. Þar gefst nemendum líka svigrúm til að vinna með eigin hugmyndir og gildismat. Þegar unnið er myndrænt með málefni sem tengist framkomu okkar við umhverfið og vatn opnast forsendur til aukinnar meðvitundar viðhorfsbreytinga. Með því að skapa aðstæður fyrir nemendur til að vinna sjálfstætt og skapandi í myndmennt þjálfast þeir í að eiga frumkvæði og bregðist við málefnum með gagnrýnum hætti. 

Með því að vinna markvisst með listasögu og skapandi nálgun er ímyndunaraflið virkjað. Í gegnum þátttöku, tengingu og hugleiðingar, hjálpa listamenn okkur til að hugsa á gagnrýninn hátt um hvernig hægt er að nálgast málefni umhverfisins á skapandi hátt. Til dæmis með því að taka fyrir málefni loftslagsbreytinga og önnur umhverfismál sem tengjast vatni. Myndmennt er mikilvægur lærdómsvettvangur fyrir fyrirbærið vatn þar sem náttúran og náttúruleg fyrirbæri örva sköpun (Beams, Higgins og Nicole, 2012). 

Tengsl við grunnþætti menntunar

Allir grunnþættir menntunar snerta myndmennt og meðvitun um mikilvægi vatns, hver með sínum hætti. Án vatns er ekkert líf. Stjarnvísindamenn sem leita að lífi annars staðar í alheiminum byggja leit sína fyrst og fremst á ummerkjum um vatn. Til að mynda urðu mikil þáttaskil þegar vísindamenn NASA töldu sig geta staðfest tilvist fljótandi vatns á reikistjörnunni Mars en ummerki um fljótandi vatn mátti greina á loftmyndum sem sýndu eðjustrauma niður brattar fjallshlíðar. Almennt er talið að vatnið á Mars sé frosið, ýmist undir yfirborðinu eða á pólunum. Varmi frá sólinni virðist geta brætt eitthvað af þeim ís sem er undir sandblásnu yfirborði Mars sem síðan blandast sandi og rennur fram sem eðja. Þessi staðreynd vakti miklar vonir um að hægt væri að finna ummerki um líf á Mars. Leitarorð: vatn á Mars | Water on Mars
Læsi: Með því að vinna verkefni sem tengjast vatni öðlast nemendur færni til að verða læs á umhverfið. Á sama tíma og þeir nýta eigið tungumál til að ræða um vatn í öllum sínum myndum þá virkja þeir einnig þögla þekkingu. Með því að skoða og ræða ólík verk listamanna sem fást við vatn þroskast einnig læsi nemenda á myndmál.
Sjálfbærni: Vatn er undirstaða alls lífs og er aðgengi fólks að vatni eitt af þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Að öðlast samkennd fyrir umhverfi sínu og fjölbreyttum myndum vatns í náttúrunni er grundvöllur sjálfbærnimenntunar. Verkefnin stuðla að aukinni meðvitund á fyrirbærinu vatn og eru markvisst tengd við reynslu nemenda.
Heilbrigði og velferð: Vatn og vatnsneysla er undirstaða heilbrigði og velferðar. Nemendur vinna út frá tilfinningum og gera tilraunir sem eflir gildismat þeirra og áhugasvið sem tengjast vatni. Þeir ræða ólíkar aðstæður í heiminum og mikilvægi þess að hafa nægt vatn til að drekka.
Lýðræði og mannréttindi: Í verkefnunum er gert ráð fyrir kynningum, skoðanaskiptum og sameiginlegri ígrundun þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt sjónarhorn. Það eru mannréttindi að hafa hreint neysluvatn þó svo að stór hluti jarðarbúa búi ekki við þann kost. Í þessu samhengi er tilvalið að ræða um mikilvægi þess að hafa frjálsan aðgang að þessari dýrmætu auðlind. Einnig mætti velta því fyrir sér hvort einhver geti slegið eign sinni á vatn yfirleitt því það vatn sem rennur í gegnum landareign á uppruna sinn í uppgufun á ótilteknum landsvæðum og hafsvæðum. Þannig ætti enginn að geta slegið eign sinni á vatn. En þá er áhugavert að velta fyrir sér hvort kapítalisminn segi annað.
Jafnrétti: Fyrirbærið vatn undirstrikar vel hversu mikil misskipting er á lífsgæðum í heiminum. Verkefni sem tengjast vatni gefa forsendur til umræðna um jafnrétti og tækifæri til að ræða mikilvægi þess að skilja þau forréttindi sem við búum við á Íslandi. Verkefnin kynna listamenn af báðum kynjum. Lögð er áhersla á fjölbreytileikann því að í listum er sjaldnast ein rétt útkoma.
Sköpun: Sköpun felst í því að gera tilraunir og læra af eigin mistökum. Lögð er áhersla á frumkvæði og að nemendur þrói með sér vilja til að prófa mismunandi efni og aðferðir. Áhersla er lögð á frelsi til velja sjálf ýmis viðfangsefni, aðferðir eða efni. Vatn er mikilvægt í mörgum aðferðum listsköpunar. 

Heimildir

Ásthildur B. Jónsdóttir. (2011). Listir og sjálfbærni: Áhrifamáttur sjónlista í menntun til sjálfbærni. Ráðstefnurit Netlu.
Beames, S., Higgins, P. og Nicol, R. (2012). Learning outside the classroom: Theory and guidelines for practice. New York: Routledge.
Cornell, J. (1998). Sharing nature with children: The classic parents’ & teachers’ nature awareness guidebook. Nevada City: DAWN.
Dillon, J., Rickinson, M., Teamey, K., Morris, M., Choi, M. Y., Sanders, D. og Benefield, P. (2006). The value of outdoor learning: evidence from research in the UK and elsewhere. School Science Review, 87(320), 107– 111.
Fréttablaðið. (2006, 22. mars). Vatn er undirstaða lífs. Fréttablaðið, bls. 16.
Jónas Haraldsson. (2012, 2.– 4. mars). Hlutverk listarinnar er að tendra athyglina [Umfjöllun um Rúrí]. Fréttatíminn, bls. 24.