Vatn er stór hluti af náttúrunni, þekur um 70% af yfirborði jarðar og er stór hluti af líkama okkar eða um 70%. Lífið á jörðinni þróaðist í vatni og í gegnum tíðina hafa lífverur lært að nýta sér eiginleika þess. Vatn og orka eru háð hvort öðru vegna þess að allir helstu orkugjafarnir okkar, sama hverjir þeir eru, eru háðir vatni.
97% vatns á jörðinni er salt eða ekki drykkjarhæft. Hringrás vatnsins sér til þess að vatnsmagnið á Jörðinni minnkar ekki eða verður meira. Hreint vatn er nauðsynlegt fyrir líf manna og spendýra á landi og það verða allir, sama hvar þeir eru staddir í heiminum, að vinna að því að vernda það. Afleiðingar hlýnunar jarðar og bráðnun jökla eru þær að hlutfall þess vatns sem verður salt eykst.
Veðurfarsbreytingar á jörðinni og aukin mannfjölgun auka eftirspurn eftir vatni. Á Íslandi eru miklar vatnsauðlindir á meðan víða í Afríku og í Mið–Austurlöndum er vatn af skornum skammti. Mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að ganga vel um vatnsauðlindina og nýta hana skynsamlega. Neysla Íslendinga á vatni er mun meiri en hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við, til dæmis notum við tvöfalt meira af vatni en aðrar Norðurlandaþjóðir. Hvers vegna ætli svo sé? Hvernig getum við dregið úr þeirri vatnsnotkun?
Dagur vatnsins er haldinn hátíðlegur í mars ár hvert. Hann er alþjóðlegur hátíðisdagur sem minnir okkur á að hugsa um hvernig við umgöngumst þessa mikilvægu auðlind og vera þakklát fyrir það sem hún veitir okkur. Vatnsauðlind Íslands felur í sér nægilegt neysluvatn, heitt vatn til húshitunar og grænnar raforkuvinnslu. Vatn er því forsenda alls lífs og því ekki furða að það rati inn í listaverk listamanna sem vinna mikið með náttúruna og samfélag manna. Fyrir utan tenginguna við lífið, hefur vatnið líka sterka tengingu við Ísland. Eyjan er umkringd sjó og þjóðin hefur lifað af afurðum þess frá upphafi byggðar. Ferðamannaiðnaðurinn notar líka vatnið í auglýsingum á landinu: hreina drykkjarvatnið, Bláa lónið, heitir hverir og tilkomumiklir fossar laða ferðamenn til landsins. Vatnið er þannig hluti af ímynd Íslands og um leið hluti af sjálfsmynd okkar sem þjóð. Vatnið er þó ekki alltaf hættulaust, eins og með önnur náttúrufyrirbæri fylgja vatninu líka hættur og hafa margir lotið í lægra haldi fyrir afli þess.
Tilvalið er að vinna þemaverkefni tengd vatni í sinni fjölbreyttustu mynd á hverju ári. Með því að leggja áherslu á að vinna með tilfinningar gagnvart umhverfinu og vatni skapast forsendur til að þroska gildismat sem tengist vatni á víðtækan hátt. Vatn hefur mikil áhrif á það hvernig heimurinn þróast. Það er mikilvægt fyrir alla að skilja hvernig vatn tengist þróun kapítalisma, þjóðir heimsins byggja afkomu sína af vatnsbúskap og lífshættulegar aðstæður eru víða í heiminum vegna vatnsskorts.
Mikilvægt er að velta fyrir sér hvers konar aðstæður skapa virk tengsl við náttúruleg fyrirbæri eins og vatn. Ein leið til þess er að velta fyrir sér tengslunum milli orsaka og afleiðingar.
Vatn í öllum mögulegum myndum hefur verið listamönnum innblástur í gegnum tíðina. Þannig er vatn algengt viðfangsefni myndlistarmanna í öllum listgreinum. Í mjög mörgum listaverkum er vatn annað hvort yrkisefnið eða sjálfur miðillinn. Margir listamenn benda á í verkum sínum hvernig vatn hefur áhrif á heimsmyndina og hvetja okkur til að taka afstöðu.
Vatn er hversdagslegur hlutur sem við tengjumst í gegnum neyslu, þvott og sundferðir. En það tengist einnig lífsviðurværi okkar sem þjóð sem hefur reitt sig á fiskveiðar.
Halldór Ásgeirsson (1956) hefur í sumum verka sinna velt fyrir sér sjálfsmynd Íslendinga og tengt hana vatni. Stundum notar hann vatn í verkin sjálf og þá gjarnan litar hann það með bleki og stillir því upp í ýmiskonar glerílátum og fremur gjörninga. En hann vísar líka stundum í sjóinn og líf sjómanna með því að sýna báta. Verkið Frá augnabliki til augnabliks er innsetning sem er samsett úr ljósmyndum af sjávarháska sem hanga fyrir ofan glerplötur í mannhæð. Á glerplöturnar er máluð hvít skuggamynd af gömlum sjómanni. Fyrir framan hverja glerplötu er svo skál með lituðu vatni. Halldór útskýrir gjörninginn sem hann framkvæmdi í tengslum við innsetninguna: „Á opnuninni blandaði ég litinn fyrir framan fólkið. Þetta er eiginlega mín aðferð til að tjá augnablikið. Ljósmyndin tjáir líka augnablik, að mínum dómi frystir hún augnablik. Af málaða skugganum fellur svo annar skuggi á vegginn. Enn eitt atriðið í verkinu er svo spegilmynd áhorfandans í glerinu, þar kemur augnablik hans inn í verkið.“
Halldór Ásgeirsson, Frá augnabliki til augnabliks, Nýir miðlar – innsetning, 1999–2000.
Listasafn Íslands: LÍ 6244
Roni Horn (1952) er bandarískur listamaður sem hefur unnið mikið á Íslandi. Hún hefur gert listaverk sem tengja vatn við sjálfsmyndina. Slík áhersla er t.d. í bókverkinu hennar sem nefnist Ísland. Í því verki eru 61 ljósmynd af myndlistarkonunni Margréti Blöndal í sundi. Hún er ýmist í mjólkurlitri, heitri og rjúkandi lind eða blátærri sundlaug. Myndirnar eru ýmist svarthvítar eða í mjúkum pastellitum. Í verkinu má lesa tengsl Margrétar við fjölbreyttar laugar á Íslandi. Leitarorð: Roni Horn You are the weather
Roni Horn, You are the Weather, 1994-1995 (hluti).
Birt með leyfi listamannsins og i8 gallerís.
Roni Horn gerði líka listaverkið Vatnasafn sem er innsetning. Verkið samanstendur af þremur söfnum – vatns, orða og veðurfregna. Innsetningin sýnir hversu náin tengsl listakonan hefur við einstaka jarðsögu Íslands, loftslag þess og menningu. Listaverkið Vatn er innsetning 24 glersúlna sem eru fullar af vatni sem var safnað úr ís frá mörgum helstu jöklum Íslands. Þegar gengið er á milli glersúlnanna erum við minnt á fréttir um bráðnun jökla. Glersúlurnar endurvarpa ljósi á gúmmígólf sem á eru skrifuð fjölbreytt orð á ensku og íslensku. Orðin tengjast öll ólíku veðri og í mörgum tilfellum kemur vatn þar við sögu á borð við él, súld og rigningu. Einnig býðst gestum að hlusta á úrval frásagna fólks frá Snæfellsnesi af veðrinu. Roni Horn tengir þessar veðurlýsingar sameiginlegri sjálfsmynd Íslendinga. Í sjálfsmyndinni leikur veðrið stórt hlutverk í daglegu lífi fólks. Því má bæta við til gamans að Íslendingar gera gjarnan grín að sjálfum sér og landlægum veðuráhuga. Flestir kannast við mikinn áhuga okkar á veðrinu því hvar sem fólk kemur saman á Íslandi fara samræður að snúast um veðrið á einhverjum tímapunkti. Áhugi fólks á veðrinu og duttlungum þess getur þannig sameinað ólíka einstaklinga sem allir hafa eitthvað að segja um veðrið. Leitarorð: Roni Horn Vatnasafn
Margir listamenn hafa skapað verk þar sem þeir benda áhorfendum á afleiðingar loftslagsbreytinga. Þar er vatn í mikilvægu hlutverki. Ólafur Elíasson (1967) flutti tólf 10 tonna íshlunka frá Grænlandi til Parísar, þar sem hann kom þeim fyrir á Lýðveldistorginu í tilefni loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Ísinn jafngildir tíundahluta þeirrar bráðnunar sem á sér stað á hverri sekúndu á grænlensku sumri. Ísklumpunum var komið fyrir á torginu þannig að þeir mynduðu klukku og með tíð og tíma bráðnuðu þeir á táknrænan hátt. Með þessu móti tókst Ólafi að gera fyrirliggjandi gögn raunveruleg og tókst þannig að gefa staðreyndum tilfinningalegt gildi. Þar sem grænlensku ísjakarnir minntu alla sem fóru um svæðið á hve skamman tíma heimurinn hefur til að bregðast við hlýnun jarðar. Leitarorð: Ólafur Elíasson Ice watch | vefsíða
Ólafur Elíasson, Ice Watch, 2014. Innsetning á Place du Panthéon, París, 2015.
Ljósmynd: Martin Argyroglo. Birt með leyfi listamannsins og i8 gallerís.
Ólafur Elíasson notar oft vatn í verkunum sínum, allt frá því að setja það upp sem gufu, gosbrunn og jafnvel með því að útbúa manngerðan árfarveg innanhúss. Það gerði hann í verkinu Riverbed í Louisiana safninu í Danmörku. Með því verki sýndi hann áhorfendum hversdaglegt heiðarlandslag í nýju ljósi. Það er einmitt áhugavert að velta fyrir sér ólíkum sjónarmiðum einstaklinga, hvað hverjum finnst fallegt og hvers vegna. Með þeim hætti er hægt að stuðla að náttúruvernd og virðingu fyrir náttúrunni. Leitarorð: Ólafur Elíasson Riverbed | vefsíða
Ólafur Elíasson, Riverbed, 2014. Frá samnefndri sýningu í Louisiana, Humlebæk, Danmörku, 2014.
Ljósmynd: Anders Sune Berg. Birt með leyfi listamannsins og i8 gallerís.
Viðfangsefni flestra verka Guðbjargar Lindar Jónsdóttur (1961) er ímyndað landslag af fossum, skerjum og eyjum. Verkin eru oft þokukennd í ljósum litum sem minna á rómantíska og hástemmda landslagshefð sem tíðkaðist á átjándu og nítjándu öld þegar náttúran var upphafin. Verk Guðbjargar vekja okkur til umhugsunar um viðhorf okkar til landslags fyrr og nú. Verkin vinnur hún í mörgum lögum með mjög þunnu lagi af málningu sem skapar mikla dýpt. Í verkunum sýnir hún oft umbreytingu náttúrunnar úr einhverju háleitu sem við stöndum lítil og vanmegnug andspænis; í hráefni sem maðurinn mótar að vild. Þegar málverkin hennar af eyjum og skerjum eru skoðuð í samhengi við hækkun sjávarborðs er áhugavert að velta fyrir sér hvað verður um þessa stórbrotnu náttúru.
Guðbjörg Lind Jónsdóttir, Án titils, 125 x 170 cm, 2013.
Vefsíða
Málarinn Sigtryggur Bjarni Baldvinsson (1966) tekur einnig vatn fyrir á fjölbreyttan hátt. Myndirnar hans sýna gjarnan dulúð og hljóðláta fegurð hins íslenska landslags. Síðustu árin hefur Sigtryggur einbeitt sér að því að gera stökum náttúrufyrirbrigðum skil í málverki, vatnslitamyndum og ljósmyndum. Hann leitast við að draga fram ýmsa eðlisþætti náttúrunnar og myndgerir þá, t.d. vatnsfleti og iðuköst rennandi vatns. Málverk hans af mýrarlandslagi, þar sem er litadýrð og gróður, minna á mikilvægi þess að vernda votlendi. Framræstar mýrar hafa leitt til aukinnar losunar koltvísýrings úr mólögum út í andrúmsloftið. Með því að vernda mýrar eru sköpuð skilyrði til kolefnisbindingar í mó. Í mýrarmyndum Sigtryggs eru skuggarnir oft meginviðfangsefnið þar sem bæði mýrargróðurinn og vatnsfletirnir hafa verið fjarlægðir en eftir stendur vottur af veru þeirra á myndfletinum.
Sigtryggur Bjarni Baldvinsson, Mýri 3, olía á striga, 200 x 190 cm, 2016.
Vefsíða
Ólíkt Sigtryggi þá leitast vídeólistamaðurinn Steina Vasulka (1940) eftir að sýna kraft náttúrunnar í verkinu Orka. Um er að ræða innsetningarverk sem var fyrst sýnt á Feneyjatvíæringnum 1997. Verkið byggir á myndefni frá hálendi Íslands þar sem Steina einbeitti sér að hægfara umbreytingum í náttúrunni, bylgjuformum og sveiflum í flugi fugla. Hún nær fram miklum krafti með því að lýsa hreyfingu, sem stangast á við lögmál eðlisfræðinnar. Vatn sem flæðir upp á við eða til hliðar, sjónarhorn horft upp frá hafsbotni eða veðursveiflur sem tengjast jökulbræðslu. Orka er sýnt með þremur spilurum, þremur myndvörpum, sex hátölurum og samstillingartæki. Það er notað til að framkalla eitt myndverk með tveimur hljóðrásum sem endurtekur sig í fimmtán mínútna hringrás. Steina vann oft í samstarfi við eiginmann sinn, Woody Vasulka (1937–2019). Þau eru talin til merkilegustu tilraunalistamanna heims og eru frumkvöðlar á sviði vídeólistar. Sérstakt framlag þeirra til vídeólistarinnar byggist á rannsóknum þeirra á eiginleikum rafrænna mynda og sköpun tækjabúnaðar, vélmenna og ýmissa véla, sem hafa haft mikil áhrif á þróun vídeólistar. Leitarorð: Steina Vasulka Orka