Stillukvikmynd (e. stop motion)

STUTT LÝSING

Samvinnuverkefni sem veitir nemendum tækifæri til að búa til stillukvikmynd (e. stop motion) eða stuttmynd sem byggir á einhverju tengdu vatni sem er sprottið frá þeim sjálfum.

MARKMIÐ

 • skapa aðstæður fyrir nemendur að vinna á skapandi hátt með eigin reynslu, þekkingu og áhugasvið. 
 • auka skilning nemenda á fyrirbærinu vatn með samvinnuverkefnum.
 • auka sjálfstæði nemenda með því að skapa aðstæður sem stuðla að því að þeir fari í gegnum vinnuferli þar sem þeir rannsaka, greina, tengja og skapa.
 • auka skilning nemenda á mikilvægi þess að taka ábyrgð.
 • Nemendur geri tilraunir með stillukvikmyndir og vatn

HÆFNIVIÐMIÐ

Verkefnið stuðlar að því að við lok 10. bekkjar geti nemandi …

 • túlkað listaverk og hönnun með tilvísun í eigin reynslu, nærumhverfi, samtímann, siðfræði og fagurfræði – s.s. kynnt listamann sem hefur látið sig varða náttúruna og vatn. (Sjónlistir, bls. 149)
 • skrásett og sett fram hugmyndir á fjölbreyttan hátt byggðar á eigin ímyndunarafli og / eða rannsókn, myndrænt og/ eða í texta – gert tilraunir með hugmyndir, notað til þess ýmis efni, áhöld og aðferðir, ígrundað framvindu, breytt hugmyndum og aðferðum í samræmi við það í virkri samvinnu. Auk þess rannsakað, leitað upplýsinga og sett fram niðurstöður á fjölbreyttan og skapandi hátt. (Sjónlistir, bls. 149)
 • sýnt og útskýrt vinnuferli frá hugmynd að lokaverki sem felur m.a. í sér upplýsingaöflun, tilraunir og samtal – kynnt niðurstöður sínar og sett upp sýningu. (Sjónlistir, bls. 149)
 • gagnrýnt af þekkingu, sanngirni og virðingu eigin verk og annarra bæði einn og í samvinnu – tekið virkan þátt í samræðum um sameiginlegt verk af sanngirni og virðingu. Þar með talið hlustað, tjáð skoðanir, komið með styðjandi ábendingar og fært rök fyrir máli sínu. (Sjónlistir, bls. 149)
 • greint hvernig samtímalist fæst við álitamálefni daglegs lífs með fjölbreyttum nálgunum sem oft fela í sér samþættingu listgreina – skipulagt og fjallað um vinnu sína með því að tengja við sjálfbærni og rökrætt umhverfismál frá ólíkum sjónarhornum er tengjast vatni, vatnsnotkun og sjó. (Sjónlistir, bls. 149)
 • tekið þátt í samvinnu með sameiginlegt markmið hópsins að leiðarljósi – unnið í hóp, ákveðið hvernig þeir ætla að nálgast verkefnið, skipt með sér verkum og borið ábyrgð. (Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar, bls. 142)

INNLÖGN OG KVEIKJA

Nemendur fara í leikinn Vefurinn. Hann hefst á því að nemendur standa í hring. Kennari heldur á hnykli með garni í bláum lit. Hann útskýrir að leikurinn gangi út á umhverfismál frá ólíkum sjónarhornum. Hnyklinum er kastað á milli og hver og einn á að reyna að nefna eitt umhverfisvandamál sem varðar vatn (t.d. lækkað vatnsyfirborð, mengun, þurrkar). Áhersla er á að virðing sé borin fyrir ólíkum sjónarmiðum og hvert fyrir öðru. 

Kennari heldur í bandið á hnyklinum, nefnir eitt umhverfisvandamál tengdu vatni og hendir hnyklinum til eins nemanda sem síðan nefndir annað vandamál og hendir til þess næsta Þegar allir nemendurnir hafa fengið hnykilinn þá segir kennarinn að næsta verkefni sé að leita lausna. Nú eigi að vinda hnikilinn aftur upp og segja frá hvað við getum gert, hvert og eitt okkar, til að laga þann vanda sem við erum stödd í.

ALDUR

Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun

ÞVERFAGLEG TENGING

Leiklist: undirbúningur fyrir leik í stuttmynd eða talsetningu í stillukvikmynd.

Heimilisfræði: setja upp veitingar fyrir opnunardag í tengslum við þemað.

Smíði og textílmennt; nemendur vinna muni fyrir innsetningu.

Lífsleikni: samvinna, samfélagsmyndun.

Tungumál: lesa heimildir um valda listamenn og búa til kynningu á þeim.

Náttúrufræði: samspil vatns og jarðvegs.

Tónlist: hljóðheimur vatns.

Samfélagsfræði: vatnsnotkun Íslendinga og þá vá sem getur stafað af vatni og vatnsskorti í heiminum.

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

9 x 40 mínútur 

EFNI OG ÁHÖLD

Spjaldtölva eða snjallsími og efniviður sem nemendur velja, garnhnykill

LISTAMENN / HÖNNUN

Guðrún Kristjánsdóttir
Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá
Ólafur Elíasson
og fleiri

VERKEFNIÐ

Kennslustundir 1–2

Farið er í leikinn Vefurinn þar sem rædd eru ólík umhverfismál sem tengjast vatni. Kennari heldur stuttan fyrirlestur þar sem hann sýnir myndbönd með íslenskum listamönnum sem láta sig vatn varða. Nemendur vinna saman í 2–3 manna hópum. Þeir finna vandamál sem höfðar til þeirra og skissa hvernig best er að koma vandamálinu til skila.

Kennslustund 3–5

Kennari sýnir nemendum stutt myndband sem útskýrir hvernig stillukvikmynd er gerð. Saman semur hver hópur handrit og ákveður ramma fyrir ramma (e. story line). Nemendur byrja að útbúa leikmynd.

Kennslustund 6-9

Nemendur taka upp hreyfimynd og hljóð og setja saman. Myndbönd eru birt og sýnd á heimasíðu skólans og haldin opnunarhátíð.