Hamskipti vatns

STUTT LÝSING

Verkefnið byggir á markvissri rannsókn á hamskiptum vatns, að vinna listrænt með hvernig vatn verður að ís og þegar vatn gufar upp.

MARKMIÐ

 • skapa aðstæður fyrir nemendur að skoða fjölbreytt form vatns og kynnast eiginleikum þess.
 • sýna hvernig listamenn vinna með vatn
 • sjá möguleika á að vinna með vatn og þrjá hami þess: Fast (ís), fljótandi (vökvi) og loftkennt (gufa).
 • kynna fjölbreyttar tilraunir og hugmyndavinnu, m.a. gera hreyfimynd (e. stop motion) í samvinnu.
 • efla ímyndunarafl.

HÆFNIVIÐMIÐ

Verkefnið stuðlar að því að við lok 7. bekkjar geti nemandi …

 • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun – unnið sjálfstætt og sýnt áræðni með tilraunum sínum og listsköpun. (Sjónlistir, bls. 149)
 • tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu – sagt frá verkum sínum og hugmyndum. (Sjónlistir, bls. 149)
 • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni – rætt um vatn og beitt fjölbreyttum hugtökum s.s. heitt, kalt, bráðna, storkna, frjósa, gufa upp, þéttast, fljótandi, ís, vatnsgufa, raki, hamur og hamskipti. (Sjónlistir, bls. 149)
 • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur – útskýrt á einfaldan hátt hvernig unnið var með ólíka fasa vatns og gert grein fyrir muninum á hreinu vatni og menguðu og hvað megi gera til að draga úr vatnsmengun. (Sjónlistir, bls. 149)

INNLÖGN OG KVEIKJA

Nemendum er sýnt myndband með verkum Ólafs Elíassonar (mikið efni til á RUV) þar sem vatn í ólíkum fasa er í lykilhlutverki. Hann hefur m.a. gert gufuverk, gosbrunn, frosið verk og verk í tengslum við bráðnun jökla.

VINNUSTOFA

Vatn

ALDUR

Miðstig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun

ÞVERFAGLEG TENGING

Náttúrufræði: Læra um muninn á föstu, fljótandi og frosnu vatni.

Samfélagsfræði: Staða vatnsmála í heiminum. Tengja við hlýnun sjávar.

Trúarbragðafræði: Vatn er mikilvægt í öllum trúarbrögðum.

Íslenska/Ritun: Skrifa sögur um vatn. Umræða um ólík nöfn á veðri.

Sund: Ræða uppgufun og hitamismun.

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

6 x 40 mínútur

EFNI OG ÁHÖLD

Fjölbreytt efnisveita með leir, náttúrulegum efnivið, pappír og öðru sem kemur upp í hugann.
Myndavélar (hægt að nota spjaldtölvur og snjallsíma).
Arkitektafígúrur, smádót, legó/playmó fígúrur.

LISTAMENN / HÖNNUN

Ólafur Elíasson

VERKEFNIÐ

Kennslustundir 1–2

Nemendur vinna hugarkort þar sem þau velta fyrir sér ólíkum formum vatns og birtingarmyndum þess. Þau gera tilraunir með hvernig hægt er að ná fram t.d. gufu. Niðurstöðurnar setja þau inn á hugarkortið. Hægt er t.d. að nota hraðsuðuketil en einnig geta þau sett blautt tau í poka og sett á ofn. Þá myndast gufa innan á plastpokann.

Kennslustund 3–7

Kennari ræðir við nemendur um aðstæður í heiminum. 

 • Af hverju er hafísinn að bráðna?
 • Hvað getum við gert til að sporna gegn hlýnun á jörðinni?

Nemendur skissa út frá vangaveltum sínum aðstæður sem þau vilja forðast.

Nemendur skissa hugmyndir sínar og ræða. Þau gera tilraunir hvernig þau geta náð fram áhrifum ólíks forms vatns.

Kennari varpar fram spurningum til að undirbúa nemendur fyrir myndatöku.

 • Hvað viltu segja með ljósmyndinni sem þú tekur?
 • Hvaða áhrifum viltu ná fram og hvers vegna?

Kennari skoðar með nemendum myndir eftir listamenn. Dæmi um áhugaverð leitarorð eru: A Small World: Photographs of Mini Toy Figures Posed in the Real World. 

Nemendur taka eigin ljósmyndir.

Ljósmyndir eru prentaðar út og ræddar.

Sett er upp sýning á verkum nemenda.