Listaverk geta hjálpað fólki að vera meðvitaðra um umhverfið. Þau geta opnað augu, hug og hjarta áhorfandans fyrir ákveðnum stöðum og aukið skilning á hinni stóru heimsmynd. Í myndlist þjálfast bæði hreyfigeta eins og fínhreyfingar sem og vitsmunalegir þættir eins og ímyndunarafl, fagurfræðilegur þroski og geta til að greina myndverk og tengja við eigin reynslu, gildismat og áhugasvið.
Þegar unnið er með valda staði og rými í myndlist er gott að tengja við fagurfræðilegar upplifanir. Fagurfræði snýst ekki bara um fallegt eða ljótt heldur hvernig við skynjum veruleikann (Eisner, 2002; Dewey, 2005; Greene, 1973; Langer, 1957). Fagurfræðilegar vangaveltur byggja á þeim gildum sem við lifum eftir, þar með talið tilfinningar fyrir stöðum og hvaða áhrif við getum haft á þá. Samkennd verður öflugri þegar við gerum okkur grein fyrir því að allir þættir í umhverfinu tengjast á einhvern hátt. Með því móti öðlumst við betri skilning á því hvaða áhrif okkar eigin athafnir og ákvarðanir geta haft á umhverfið og þá staði sem okkur þykir vænt um.
Sumir óttast að hraði samtímans geri það að verkum að fólk sé í auknum mæli hætt að tengja milli orsakar og afleiðingar (Allyson Macdonald & Ásthildur Jónsdóttir, 2015). Óumhverfisvæn hegðun í nærumhverfi getur haft mjög neikvæð áhrif langt í burtu. Nú finnast plastagnir í nánast öllum lífverum í sjónum. Þessar plastagnir berast í sjóinn eftir mörgum leiðum. Plastið er ekki einungis stórir hlutir sem hent er í sjóinn heldur berst það einnig í gegnum niðurfallið heima hjá okkur úr t.d. sjampói, tannkremi og öðrum snyrtivörum. Einnig berast litlar öragnir í sjóinn þegar við þvoum föt úr gerviefni. Í hverjum þvotti losna litlar agnir sem berast í frárennsliskerfi íbúðarhverfa. Þegar þær fara í gegnum hreinsistöðvarnar berast alltaf einhverjar þeirra út í sjó. Rannsóknarmenn sem voru að rannsaka sjóinn fyrir norðan Noreg fundu plast sem hafði borist alla leið frá Mexíkó.
Með því að leggja áherslu á að vinna með tilfinningar gagnvart umhverfinu og ákveðnum stöðum sem höfða til ólíkra hópa skapast forsendur til að þroska gildi og gildismat. Í því samhengi er mikilvægt að fá að taka þátt í að velja staði sem við tengjumst og vera virk í samvinnu.
Til að skilja umhverfi okkar betur má líta til aðferða listamanna sem byggja á reynslu og þekkingu á tungumáli lista. Margir listamenn hafa fjallað um náttúru og samfélag og með verkum sínum hjálpað okkur að skilja þau fyrirbæri betur. Með því að skoða og tileinka okkur þær aðferðir sem listamenn nota til að skilja umhverfi, samfélag og náttúru getum við öðlast nýja þekkingu og skilning í tengslum við okkur sjálf. Við getum notað verkfæri listanna til að skynja og skilja og lesa skilaboð umhverfisins. Þegar talað er um að læra af listaverkum og handverki er ekki bara átt við listviðburði, sýningar og verkstæði heldur er allt umhverfi okkar og daglegt líf mótað af listum og handverki (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013).
Þegar myndmennt er sjálfsagður hluti af almennri menntun styrkist hæfni okkar til að tengja á milli námsgreina. Til þess að geta tekið meðvitaðar ákvarðanir verðum við að þróast í og með umhverfi okkar, þannig að við getum stuðlað að því að bæta lífsskilyrði okkar (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013).
Margir listamenn vinna með ákveðna staði í verkum sínum hvort heldur sem er í náttúrunni eða í þéttbýli. Hvers eðlis sem verkið er þá tekur listamaðurinn oft afstöðu og endurspeglar það jafnvel samfélagið og staði í samfélaginu. Hægt er að beita fjölbreyttum aðferðum við flokkun slíkra verka. Sumir listamenn búa til verk sem endurspegla náttúruna og staði í umhverfinu í raunsærri mynd, meðan aðrir upphefja ákveðna staði. Upphafningin þarf ekki að tengjast einum ákveðnum stað heldur staðalmynd ákveðinna gerða afstöðum eins og t.d. heiðarlandslags eða öræfa.
Í því samhengi má skoða verk Georgs Guðna (1961 – 2011). Í málverkum sínum leitaðist hann við að túlka íslenska birtu og landslag. Íslensk náttúra; fjöll, gljúfur, dalir, heiðar og sandar eru innblástur verka hans. Hann máði í burtu skörp skil himins og jarðar þannig að ekki er ljóst hvort landið er tekið að svífa eða loftið að síga. Verk Georgs Guðna eru undir áhrifum frá rómantískum sem og hefðbundnum
landslagsmálurum þó svo að hann hafi náð að skapa sinn eigin stíl og fara sínar eigin leiðir. Georg Guðni ferðaðist með föður sínum, sem var jarðfræðingur, og kynntist á ferðum sínum fjölbreyttu landslagi. Það voru minningarnar af landslaginu og upplifanir hans í náttúrunni sem veittu honum drifkraft í listsköpuninni.
Georg Guðni, Án titils, 210 x 200 cm, 2008.
Listasafn Íslands: LÍ 8916
Sumir listamenn leggja áherslu á verndun mikilvægra staða. Ósk Vilhjálmsdóttir (1962) er einn þeirra. Hún hefur unnið fjölbreytt listaverk sem hafa það markmið að fá áhorfendur til að hugsa og taka afstöðu. Hún vann einu sinni verk í Þýskalandi sem nefndist Skítland. Í gjörningnum skrifaði hún á þýsku með eldrauðum stöfum á vegg í sýningarrýminu: „Í Skítlandi er allt að fara í skít. Skítþjóðverjarnir elska Skítland. Þeir halda að Skítlendingarnir lifi í sátt við náttúruna. Skítþjóðverjarnir sjá skítálf eða skíttröll í hverjum einasta Skítlendingi. Á hálendi Skítlands mun verða til risastórt skítlón svo að amerískt skítfyrirtæki geti keypt ódýra skítorku til þess að reka stóra skítálbræðslu. Þetta risavaxna skítverkefni mun eyðileggja hálendi Skítlands. Skítlendingarnir halda að þeir muni græða fullt af skítpeningum. Nú hafa skítþýskir listasafnstjórar sett upp sýningu á skítlist frá Skítlandi.“ Þetta verk er ádeiluverk þar sem Ósk er að benda á hvernig sumir eru tvöfaldir í roðinu þegar þeir ræða um náttúruna. Sama manneskjan gæti t.d. rætt um Ísland sem land hreinnar ósnortinnar náttúru en jafnframt verið samþykk því að reisa risastórar stíflur fyrir rafmagnsframleiðslu vegna stóriðjuvæðingar.
Ósk Vilhjálmsdóttir, Skítland, 2005.
Vefsíða
Sumir listamenn beina athygli okkar að því að á meðan andrúmsloftið hitnar og fjölbreytni plöntu- og dýrategunda minnkar eru gefin fögur fyrirheit um verndun. Anna Júlía Friðbjörnsdóttir (1969) hefur skoðað samhengi á milli vistkerfis og samfélagslegra málefna. Í sýningu hennar „Erindi“ skoðar hún breytingar á vistkerfinu en hingað til lands berast litlir flækingsfuglar árlega. Um er að ræða söngvara (e. Old World warblers) sem flækjast aðallega um Evrópu, austur til Asíu og jafnvel til Afríku en ber síðan stundum af leið og berast hingað til Íslands með vindum að austan.
„Koma söngvaranna og aukin tíðni þeirra hér sýnir fram á ákveðnar breytingar í vistkerfinu. Þær breytingar auka líkur á að þeir nái að setjast hér að. Þetta tengist hlýnun Jarðar og aukið skóglendi hérlendis gæti líka stutt við það. Austanáttin sem ber þá hingað vekur líka upp hugrenningatengsl við það fólk sem hingað kemur á flótta frá eigin heimkynnum og einnig við þau margbreytilegu áhrif sem vestræn menning hefur orðið fyrir frá austrænum straumum, til dæmis í menningu og listum.“