Óskastaðir

STUTT LÝSING

Samvinnuverkefni sem veitir nemendum tækifæri til að gera eitthvað sem er sprottið frá þeim sjálfum. Eina krafan er að þeir eiga að útbúa einhvers konar svæði. Nemendur geta valið að gera annað hvort eitthvað stórt eða fjölbreytt sem samanstendur af mörgum smærri einingum sem saman mynda eitt sameiginlegt verkefni sem allir geta fundið sitt hlutverk í. Svæðið er unnið á skólalóðinni, í félagsmiðstöðinni eða inni í skólanum þar sem allir nemendur geta nýtt það í frítíma sínum. Nemendur verða í sameiningu að greina eiginleika svæðisins og meta hvað hentar því rými sem þeir hafa til ráðstöfunar. Það gæti verið t.d. tjald, skýli, musteri, með sætum, hengirúmum eða skynjunarrými þar sem gestir geta upplifað ólíka hluti. Um er að ræða raunverulegt samfélagsverkefni, með áherslu á að nemendur sjái daglegt umhverfi sem vettvang listsköpunar (Sobel, 2005).

MARKMIÐ

  • skapa aðstæður fyrir nemendur að vinna á skapandi hátt með eigin reynslu, þekkingu og áhugasvið. 
  • auka skilning nemenda á hugtakinu þátttökulist með samvinnuverkefni.
  • nemendur geri sér grein fyrir að aðstæður á ólíkum stöðum krefjast ólíkrar nálgunar.
  • auka sjálfstæði nemenda með því að skapa aðstæður sem stuðla að því að þeir fari í gegnum vinnuferli þar sem þeir rannsaka, greina, tengja og skapa.
  • auka skilning nemenda á mikilvægi þess að taka ábyrgð.
  • nemendur geri tilraunir með hringrásir náttúrunnar.

HÆFNIVIÐMIÐ

Verkefnið stuðlar að því að við lok 4. bekkjar geti nemandi …

  • valið á milli mismunandi aðferða við sköpun, prófað sig áfram og unnið hugmyndir í fjölbreytta miðla, með því að gera tilraunir með hugmyndir, nota ýmis efni, áhöld og aðferðir, ígrunda framvindu, breyta hugmyndum og aðferðum í samræmi við það í virkri samvinnu (Sjónlistir, bls. 148)
  • greint og beitt fjölbreyttum aðferðum og tækni. Með því að vinna í hóp, ákveða nemendurnir hvernig á að nálgast verkefnið, skipta með sér verkum og bera ábyrgð (Sjónlistir, bls. 149)
  • greint, borið saman og lýst ýmsum stílum og stefnum í myndlist og hönnun, bæði á Íslandi og erlendis og tengt það við þá menningu sem hann er sprottinn úr, með því að afla sér upplýsinga um og kynna listamann sem skapar listaverk sem býður upp á þátttöku (Sjónlistir, bls. 149)
  • greint hvernig samtímalist fæst við álitamálefni daglegs lífs með fjölbreyttum nálgunum sem oft fela í sér samþættingu listgreina (Sjónlistir, bls. 149)
  • greint hvernig sjónrænt áreiti daglegs lífs hefur áhrif á líf okkar og gildismat með því að leita upplýsinga og setja fram niðurstöður á fjölbreyttan og skapandi hátt (Sjónlistir, bls. 149)
  • tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu og gagnrýni á samfélagið, með því að kynna niðurstöður sínar fyrir öðrum og setja upp sýningu (Sjónlistir, bls. 149)
  • gagnrýnt af þekkingu, sanngirni og virðingu eigin verk og annarra bæði einn og í samvinnu, tekið virkan þátt í samræðum um sameiginlegt verk af sanngirni og virðingu. Þar með talið hlustað, tjáð skoðanir, komið með styðjandi ábendingar og fært rök fyrir máli sínu (Sjónlistir, bls. 149)
  • notað orðaforða og hugtök til að tjá skoðanir sýnar á myndlist og hönnun og fært rök fyrir þeim út frá eigin gildismati, með því að skipuleggja og fjalla um vinnu í tengslum við málefni sjálfbærni (Sjónlistir, bls. 149)

KVEIKJA

Leikur: Farið er í leikinn Sprengja – skjöldur úr smiðju Augusto Boal.

Markmiðið er að kanna samspil og athygli hóps (10-15 mínútur). Nemendur ganga um herbergið. Á einhverjum tímapunkti gefur kennarinn fyrirmæli um að allir velji í huganum hver úr hópnum verður hans eða hennar „sprengja“. Leikurinn heldur áfram, allir ganga um herbergið og reyna að vera eins langt frá sinni „sprengju“ og mögulegt er. Eftir stutta stund eru gefnar frekari leiðbeiningar þar sem allir velja sér „skjöld“ (annan bekkjarfélaga) í huganum. „Skjöldurinn“ ver gegn „sprengjunni“, þannig að það sem eftir er leiks reyna nemendur að staðsetja sig þannig að „skjöldurinn“ sé alltaf á milli þeirra og „sprengjunnar“. Í lok leiks er talið niður frá 10 og „sprengjurnar“ springa. Við það standa allir í stað og leiðbeinandinn gengur á milli og spyr þátttakendur hvort þeir séu á lífi og hvort þeim hafi gengið vel eða illa. 

Listaverk: Kynntir eru listamenn sem hafa unnið þátttöku- eða venslalistaverk af þeim toga sem stuðlar að því að brjóta niður múra og brúa bil á milli ólíkra einstaklinga. Þátttöku- og venslalist eru félagsleg form listsköpunar sem hafa öðlast vinsældir og viðurkenningar á undanförnum áratugum innan listheimsins. Þetta eru listform sem byggja á nánum samskiptum ýmist við afmarkaða þjóðfélagshópa og/eða áhorfendur almennt. Nemendum er sagt frá hvernig listamenn sem aðhyllast þátttöku búa til verk í samstarfi við fólk eða fyrir almenning. Þannig að sá sem skapar og sá sem nýtur eða notar verkið eiga í virku samtali. Kennari spyr nemendur hversu mikilvæga þeir telji tengslamyndun vera í mannlegu samfélagi. Margir listamenn leita eftir auknu frelsi í sköpun sinni og margir þeirra nota tækni til að nálgast áhorfendur. Með því móti verður listin raunverulegri og getur orðið að afli til að virkja áhorfendur og hvetja þá til að mynda sér skoðun. Margir listamenn vilja bæta félagslega aðstöðu fólks og um leið hvetja til að hugað verði að umhverfi og því hvernig megi bæta heiminn. 

VINNUSTOFA

Staðir og rými

ALDUR

Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun.

ÞVERFAGLEG TENGING

Leiklist: Leikir sem stuðla að aukinni meðvitund fyrir mikilvægi samvinnu.
Heimilisfræði: Sjálfbærni, matargerð ákveðinna svæða.
Textílmennt, hönnun og smíði: Nemendur vinna muni fyrir innsetningu.
Lífsleikni: Samvinna, samfélagsmyndun.
Tungumál: Lesa heimildir um valda listamenn og búa til kynningu á þeim.
Upplýsingatækni: Upplýsingaleit, útbúa glærusýningu og boðsbréf.

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

12 x 40 mínútur

EFNI OG ÁHÖLD

Fjölbreyttur efniviður frá heimilum en einnig frá ýmsum aðilum eins og til dæmis netagerð og endurvinnslustöðvum.

HUGTÖK

gildi
gildismat
rými
samvinna
vellíðan
venslalist
þátttökulist

LISTAMENN / HÖNNUN

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (vefsíða) – Róla í Hafnarborg
Ólafur Elíasson (vefsíða) – The weather project
Ólöf Nordal (vefsíða) – Þúfa, Bríet Bjarnhéðinsdóttir memorial, Bollasteinn
Allora & Guillermo Calzadilla – Chalk
Andrea Zittel (1965) – A-Z Cellular Compartment
Carsten Höller (1961) – Ætest, Superflex
Ernesto Neto (1964) – SunForceOceanLife, OPAVIVARÁ!, Mierle Laderman Ukeles,
Félix González-Torres (1957–1996) – Untitled (Portrait of Ross in L.A.)
Jeremy Deller (1966) – Sacrilege
Jr-Shin Luo (1984) – „Ong Lai,“ „Bird’s Nests,“ „Moss Balls“
Surasi Kusowlong (1965) – Golden Ghost (Reality)

VERKEFNIÐ

Kennslustund 1–2

Byrjað er á kveikju. Kennari kynnir markmið verkefnisins. Hópurinn ræðir saman um væntingar og hugmyndir. Kennari sýnir nemendum myndir af völdum verkum listamanna. Hver nemandi velur eitt verk og rannsakar tilurð þess. Tilvalið er að vera í samstarfi við enskukennara skólans þar sem flestar heimildir um þessa listamenn eru á ensku.

Kennslustund 3–4


Nemendur kynna verkin og listamennina sem unnu þau. Þeir draga fram hvað í verkinu höfðaði til þeirra og hvers vegna.

Kennslustund 5–6


Nemendur vinna sameiginlegt hugarkort (A1 blað) þar sem þeir draga fram hvað þeir vilja gera. Þeir velta fyrir sér eiginleikum rýmisins, hvaða efniviður hentar, tilgang svæðisins o.s.frv. Nemendur vinna skissur í litlum hópum og ræða kosti og galla með tilvísun í listamenn sem þeir hafa kynnst í ferlinu.

Kennslustund 7–10


Framkvæmd.

Kennslustund 11–12


Lokafrágangur; nemendur semja boðsbréf til að bjóða á opnun á rýminu. Þeir semja notkunar- og umgengnisreglur þar sem bræðralag og jafnrétti er haft að leiðarljósi. Nemendur kynna verkið fyrir samnemendum í skólanum á opnum viðburði í skólanum.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvernig geta listamenn máð út mörkin á milli listar og lífsins sjálfs?
Hvernig er hægt að skapa verk sem veitir áhorfendum tækifæri til að taka þátt í verkinu?
Er mikilvægt að framlag hvers og eins sé sýnilegt?
Hvað lærðuð þið í ferlinu?
Hvað einkennir staði sem manni líður vel á?
Hvernig getið þið nýtt það sem þið lærðuð í önnur verkefni?
Breyttust tengsl ykkar við umhverfið/valinn stað eitthvað með þessu verkefni?
Hvað hefðuð þið viljað leggja meiri áherslu á?

Heimildaskrá

Aðalnámskrá grunnskóla 2011 – greinasvið 2013. (2013). Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Dewey, J. (2005). Art as experience. London: Penguin.
Eisner, E.W. (2002). The arts and the creation of mind. New Haven: Yale University Press.
Greene, M. (1973). Teacher as stranger. Belmont: Wadsworth Publishing.
Langer, S. K. (1957). Problems of Art: Ten philosophical lectures. New York: Scribner’s Sons.
Sobel, D. (2005). Place-Based Education: Connecting Classrooms & Communities. U.S.A.: The Orion Society.
http://www.ruv.is/frett/litlir-fuglar-sem-segja-stora-sogu

http://hafnarborg.is/exhibition/erindi/

http://www.visir.is/g/2016160909788

https://www.vanceartworks.com/