Steingervingar framtíðarinnar – gifsafsteypur

STUTT LÝSING

Setja sig í spor fornleifafræðings og upphugsa hvað er þess virði að muna í framtíðinni. Nemendur vinna mót úr leir, fundnu efni og á sama tíma læra þeir um jákvætt og neikvætt rými. Nemendur búa til mót úr leir af steingervingum framtíðarinnar.

MARKMIÐ

Að nemendur kynnist samtímalistamönnum sem vinna með minningar og minni.
Að þeir læri að nota hugtökin jákvætt og neikvætt rými þegar þeir vinna þrívítt verk.
Að nemendur fái innsýn í það hvernig hlutir í samtímanum verða fornleifar í framtíðinni.
Að nemendur öðlist skilning á áhrifum tímans á minningar og hluti, bæði til fortíðar og framtíðar – rætt um minningar, bæði persónulegar og menningarleg minni.
Að nemendur geti unnið sjálfstætt og sýnt áræðni með tilraunum sínum og listsköpun.
Að nemendur kynnist því að skapa þrívíð verk.
Að nemendur geti sagt frá verkum sínum og hugmyndum.
Að nemendur endurnýti efnivið.
Að nemendur geti útskýrt á einfaldan hátt hvernig þeir unnu mót og steyptu.
Að nemendur geti útskýrt virkni jákvæðs og neikvæðs rýmis í þrívíðum hlut.
Að nemendur geti sett upp sýningu í samvinnu við aðra.

HÆFNIVIÐMIÐ

Verkefnið stuðlar að því að við lok 7. bekkjar geti nemandi …

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun (bls. 148 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • gert grein fyrir og fjallað um ýmsar stefnur myndlistar með því að bera saman stíla og tímabil tiltekinna verka og sett þau í það menningarlega samhengi sem þau voru sköpuð (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar).
  • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar).
  • beitt helstu tækni sem námsgreinin býr yfir (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar).
  • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar).
  • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar).
  • greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum (bls. 199 – hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar).

KVEIKJA

Kennari byrjar á því að raða upp u.þ.b. 20-30 hlutum sem eru algengir í daglegu lífi (dúkka, farsími, leikfangabíll, dósaopnari, myndavél, svefnpoki, gönguskór, bók, o.s.frv.)

Kennari spyr nemendur hverjir þessara hluta þeir haldi að verði enn í notkun eftir 500 ár. Hverjir þeir telji að verði ekki í notkun og hvers vegna?

Allir nemendur eru beðnir um að velja sér einn hlut og segja 2-3 setningar sem tengjast minningu um valinn hlut.

VINNUSTOFA

Minningar

ALDUR

Miðstig

GRUNNÞÆTTIR

Samfélagsfræði: Ræða hlutverk safna t.d. Þjóðminjasafnsins.
Náttúrufræði: Hvað er steingervingur, hvernig verða þeir til?
Stærðfræði: Reikna út hversu djúpt hlutir grafast á 10 árum, 100 árum o.s.frv.
E.t.v. heimilisfræði og smíði.

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

6 x 40 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING
EFNI OG ÁHÖLD

Skissupappír, fundnir hlutir, leir, mjólkurfernur, dósir, gifs.

HUGTÖK
Jákvætt rými
Leir
Neikvætt rými
Þrívídd
LISTAMENN / HÖNNUN

Bjarki Bragason
Hiroshi Sugimoto
Olga Bergmann
Þorgerður Ólafsdóttir

Kennslustund 1–2

Kveikja og kynning á listamönnum.

Nemendur skissa fornleifar framtíðarinnar sem þeir ætla að taka mót af. Nemendur verða að skissa í raunstærð og velja hluti sem ekki eru of stórir.

Nemendur velja þann hlut sem þeir vilja vinna mót af og byrja að skipuleggja hvaða hluti þeir vilja nota í mótið.

Á meðan vinnan fer fram gengur kennari á milli nemenda, ræðir við þá um framvinduna og spyr spurninga.

Í lok tíma útskýrir kennari fyrir nemendum hvað ber að varast við gerð gifsmóta.

Kennslustund 3–4

Nemendur koma með notað ílát að heiman sem hentar undir lágmyndina (fernu, kassa, dós undan jógúrt, skyri eða majonesi). Nemendur setja mjúkan leir í botn ílátsins og þrýsta síðan hlutnum sem þeir skissuðu eftir í leirinn. Kennari blandar gifs og hellir í mótin. Þegar nemendur eru búnir, semja þeir stutta kynningu um sinn fornmun sem tilvalið er að flytja fyrir yngstu nemendur skólans.

Kennari varpar fram umræðuspurningum í lok tímans.

Þeir nemendur sem eru fyrst búnir gera kynningarveggspjald fyrir sýninguna.

Kennslustund 5–6

Nemendur stilla upp verkum fyrir sýningu.

Hægt er að skoða innsetningar Þorgerðar, Bjarka og Olgu Bergmann til að fá hugljómun. Gott væri að vera í samvinnu við smíðakennara skólans og e.t.v. heimilisfræðikennarann ef áhugi er á að vinna saman að sviðsmynd og veitingum.

Á sýningardaginn kynnir hver og einn nemandi sinn framtíðar fornmun fyrir nemendum á yngsta stigi. Boðið er upp á veitingar og í lokin stýra nemendur umræðum með yngri nemendunum og spyrja spurninga sem þeir hafa samið í sameiningu.

Umræðuspurningar

– Hver er munurinn á að vinna með menningarlegar minjar og minningar einstaklingsins?

– Hvers vegna haldið þið að listamenn búi til listaverk sem byggir á persónulegum minningum?

– Hvernig vinna listamennirnir sem ræddir voru á undan með fortíðina?

– Hver skrifar söguna og hvað viljum við vita um fortíðina? Getur myndlist hjálpað okkur að skilja fortíðina, sögulega viðburði og fyrri menningarheima?

– Hvað finnst þér um hugmynd Hiroshi Sugimoto að ljósmyndir virki eins og steingervingar? – Getið þið ímyndað ykkur einhvern annan miðil sem getur virkað á svipaðan hátt?