Sameiginlegar minningar

STUTT LÝSING

Minningar samfélags eða hópa. Hópverkefni. Atburðir í samfélaginu sem velja mætti úr, bæði nýlegir og eldri atburðir (stórir atburðir sem virðast hafa verið mikið í umræðunni) eða eitthvað annað sem nemendur álíta mikilvægt. Í þessu verkefni safna nemendur gögnum frá fólki sem man tiltekna atburði og sköpunin tengist því að vinna úr frásögnum þeirra til þess að skapa heildstætt verk sem dregur fram nokkur ólík sjónarhorn á hvern atburð.

MARKMIÐ

Að efla þekkingu og skilning nemenda á því hvernig sameiginleg þekking og minningar verða til og hvernig það leggur grundvöll að sjálfskilningi okkar.

Að nemendur verði meðvitaðir um eigið hlutverk í viðhaldi sameiginlegrar þekkingar og minninga.

Að nemendur geti rætt um minningar, bæði persónulegar og menningarleg minni.

Að auka hæfni nemenda til sjálfstæðra vinnubragða með áræðni og tilraunir að leiðarljósi.

Að nemendur þjálfist í að segja frá verkum sínum og hugmyndum.

Að nemendur geti útskýrt á einfaldan hátt hvernig þeir þróuðu og framkvæmdu verkið. 

Að nemendur geti útskýrt hvernig einstök atriði geta myndað merkingarbæra heild.

Að nemendur geti sett upp sýningu í samvinnu við aðra.

HÆFNIVIÐMIÐ

Verkefnið stuðlar að því að við lok 10. bekkjar geti nemandi …

  • valið á milli mismunandi aðferða við sköpun, prófað sig áfram og unnið hugmyndir í fjölbreytta miðla (bls. 148 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • greint og beitt fjölbreyttum aðferðum og tækni (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • tjáð skoðanir eða tilfinningar (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
    í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu og gagnrýni á samfélagið (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • notað orðaforða og hugtök til að tjá skoðanir sýnar á myndlist og hönnun og fært rök fyrir þeim út frá eigin gildismati (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • greint hvernig samtímalist fæst við álitamálefni daglegs lífs með fjölbreyttum nálgunum sem oft fela í sér samþættingu listgreina (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • túlkað listaverk og hönnun með tilvísun í eigin reynslu, nærumhverfi, samtímann, siðfræði og fagurfræði (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • gert grein fyrir margvíslegum tilgangi myndlistar og hönnunar og sett hann í persónulegt, menningarlegt og sögulegt samhengi (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • greint hvernig sjónrænt áreiti daglegs lífs hefur áhrif á líf okkar og gildismat (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir).
  • sett verkefni sín í menningarlegt samhengi (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir). 
  • beitt þeirri tækni sem námsgreinin býr yfir á sjálfstæðan hátt (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar).
  • tjáð sig um verkefni sín með því að nota hugtök sem greinin býr yfir (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar).
  • tekið þátt í samvinnu með sameiginlegt markmið hópsins að leiðarljósi (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar).
  • sýnt frumkvæði í góðri umgengni og frágangi á vinnusvæði (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar).
  • sýnt fram á skilning á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum, félagslegu réttlæti, jöfnuði og helgi mannlegs lífs (bls. 198 – hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar).
  • gert sér grein fyrir hlutverki heimilda, sjónarhorna og gildismats í sögu og sameiginlegum minningum (bls. 199 – hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar). 
  • lýst margbreytileika tilfinninga og bent á víxlverkun tilfinninga, hugsunar, hegðunar og samskipta, (bls. 201 – hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar).
  • fengist við samfélagsleg og siðferðileg málefni af mismunandi sjónarhólum (bls. 202 – hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar).

KVEIKJA

Þjóðir og hópar skilgreina sig gjarnan út frá sameiginlegum minningum. Þetta er gjarnan tengt sameiginlegum uppruna og viðhorfum til hans. Til að mynda má nefna að Íslendingar hafa lengi horft til sveitanna með ákveðinni fortíðarþrá. Þannig virðist sveitin og upplausn hennar við flutninginn á mölina vera sterkt minni í skáldskap og listaverkum íslenskra listamanna. Slíkar þjóðfélagsbreytingar höfðu varanleg áhrif á samsetningu samfélagsins. Til þess að vekja tilfinningu nemenda fyrir því hvað sameiginlegar minningar fela í sér og hvernig þær skapa grundvöll fyrir samkennd hópa væri hægt spyrja nemendur hvað það sé sem geri það að verkum að þeir upplifi sig sem hluta af þeim skóla sem þeir eru í og hvernig sameiginleg reynsla þeirra af skólanum móti þessa kennd.

Hluti af því að gera upp sársaukafulla fortíð getur stundum falist í því að fjarlægja eða eyðileggja tákn sem standa fyrir fortíðina. Dæmi um þetta má sjá þegar valdamiklum leiðtogum hefur verið steypt af stóli eru styttur af þeim brotnar niður og ummerkjum um valdatíð þeirra eytt með skipulögðum hætti. Á hinn bóginn hafa þjóðfélagshópar í mörgum ríkjum og valdamiklir leiðtogar gert tilraunir til að eyða sameiginlegum minningum með það að augnamiði að brjóta niður samtakamátt þegnanna og tilfinningu þeirra fyrir fortíðinni og upprunanum. Slíkar aðferðir hafa þannig verið notaðar af kúgandi valdhöfum með það að markmiði að knýja þjóð til þess að ganga á hönd tiltekinni hugmyndafræði. Talibanar í Afghanistan eyðilögðu 5000 ára gömul Buddha-líkneski í tilraun til þess að þurrka út þá menningu sem hafði verið á svæðinu í þúsundir ára og eiga þannig auðveldra með að innræta íbúum svæðisins hugmyndafræði öfgamannanna. Svipuð eyðilegging var framkvæmd með skipulögðum hætti á þeim svæðum sem glæpasamtökin ISIS réðu yfir á tímum styrjaldarinnar í Sýrlandi og Írak. Eyðilegging borgarinnar Palmyra er líklega þekktasta dæmið um þetta.

VINNUSTOFA

Minningar

ALDUR

Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun

ÞVERFAGLEG TENGING

Samfélagsfræði: Hægt er að vinna verkefnið í samstarfi við samfélagsfræðikennara sem eru að fjalla um stóratburði.
E.t.v. smíði, textíll.

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

að lágmarki 6 x 40 mínútur

 
EFNI OG ÁHÖLD

Efnisveita með fjölbreyttum, fundnum og endurnýttum efnivið er hentug og skapar óvænt tækifæri fyrir nemendur. Allt almennt efni og áhöld sem til staðar er í myndmenntastofum. Val á efni og áhöldum veltur á hugmyndum nemenda um útfærslur.

HUGTÖK

Minni

LISTAMENN / HÖNNUN

Ólöf Nordal

Kennslustundir 1–2

Tíminn hefst á kveikju, þar sem niðurstaðan verður sú að nokkrir atburðir eru nefndir. Kennari kynnir möguleg viðfangsefni fyrir nemendum, til dæmis með því að skrifa þau á töfluna og bæta við hugmyndum frá nemendum eftir því sem þær skjóta upp kollinum. Þegar komið er dágott safn af atburðum á töfluna spyr kennarinn að því hvaða atburð hópurinn vilji læra um. Þetta má gera með því að lesa upp þá atburði sem voru nefndir og nemendur kjósa síðan með handauppréttingu. Líklegt er að nemendur hafi áhuga á fleiri en einu viðfangsefni, því er þeim heimilt að kjósa eins oft og þeir vilja en þegar upp er staðið verður væntanlega eitt verkefni ofan á. Nú hefst gagnaöflun og verkaskipting. Mikilvægt er að gefa nemendum svigrúm til að þróa úrvinnsluhugmyndir sínar. Nemendur vinna verkefnið í litlum hópum, í þeirri stærð sem þeir kjósa (2–4 saman er heppileg stærð). Næstu skref ráðast af eðli viðfangsefnisins; hvort það þurfi að leita langt eftir hráefni til úrvinnslu, taka viðtöl við aldrað fólk eða einstaklinga sem eru ekki innan seilingar. Hvetja má til þess að nota snjalltæki við öflun gagna. Dæmi um möguleg viðfangsefni:

  • Eldgosið í Heimaey
  • Guð blessi Ísland – efnahagshrunið 2008
  • Búsáhaldabyltingin
  • Þátttaka Íslendinga á stórmótum erlendis (EM eða HM)
  • Eyjafjallajökulsgosið
  • Lýðveldisstofnunin 1944
  • Eitthvað annað viðfangsefni sem nemendur leggja til og tengist þeirra veruleika

Hluti af gagnaöflun nemenda felst einnig í því að skoða hvernig listamenn hafa fjallað um viðfangsefnið sem um ræðir. Sem dæmi má nefna hvernig Geirfugl Ólafar Nordal minnir okkur óþyrmilega á þann sorgaratburð þegar síðasti geirfuglinn var drepinn 1844 í Eldey suð-vestur frá Reykjanestá. Sá atburður er afar mikilvægur í sögulegu samhengi séu höfð í huga mörg þau óafturkræfu spjöll sem mannkynið hefur unnið á náttúrunni á grundvelli skammtímasjónarmiða. 

Kennslustundir 3–4

Talsverður hluti verkefnisins felst í gagnaöflun nemenda. Það er mikilvægt að gefa nemendum svigrúm til þess að afla gagna utan skólans. Gagna er unnt að afla með leit á netinu eða í bókum og samtölum við einstaklinga sem hafa reynslu af atburðinum sem um ræðir svo eitthvað sé nefnt.

Kennslustundir 5–6

Hóparnir taka að vinna úr gögnunum, vinna skissur og gera tilraunir með hugsanlegan efnivið. Það er hentugt að hafa aðgang að ríkulegri efnisveitu með fundnu efni og öðru því sem til fellur. Það væri mjög gott að geta haft aðgang að smíðastofu og textílstofu og átt í skapandi samstarfi við smíða- og textílkennara. Hópurinn þarf í sameiningu að ákveða hvernig heildarverkinu verður best fyrir komið og þarf að leggja drög að uppsetningu.

Kennslustundir 7–8

Hóparnir vinna áfram að sínum verkefnum með aðstoð kennara.

Kennslustundir 9–10

Lokahönd er lögð á listaverkið í sýningarrýminu (sem gæti verið valið svæði innan veggja skólans) og uppsetningu þess.

Kennslustundir 11–12

Sýningin er opnuð með málþingi um viðfangsefnið. Gestum er boðið til skrafs og ráðagerða.

Umræðuspurningar

Hvernig hefur þátttaka í verkefninu dýpkað skilning á viðfangsefninu?

Hver eru áhrif minninga á mikilvægi þess að læra af fortíðinni? 

Hver eru tengsl fortíðar, nútíðar og framtíðar?