KÖNGULÆR

STUTT LÝSING

Fjallað er um köngulær og nemendur búa síðan til sína eigin.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 4. bekkjar getur nemandi …
• nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og
myndbyggingar, skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum

Hæfniviðmið fyrir íslensku
Við lok 4. bekkjar getur nemandi …
• sagt frá eftirminnilegum atburði og lýst ákveðnu fyrirbæri, endursagt efni sem hlustað hefur
verið á eða lesið
• tengt þekkingu sína og reynslu við lesefni í því skyni að ná merkingu þess
• aflað sér upplýsinga úr ýmsum tiltækum gagnabrunnum, svo sem bókum og á rafrænu formi

Hæfniviðmið fyrir náttúrufræðigreinar
Við lok 4. bekkjar getur nemandi …
• sagt frá eigin upplifun á náttúrunni og skoðun á lífveru í náttúrulegu umhverfi
• útskýrt einkenni lifandi vera, skýrt með dæmum lífsskilyrði lífvera og tengsl við umhverfi

KVEIKJA

Hvað hafa köngulær margar fætur? En hvað mörg augu og hvað kallast þau?

Köngulær hafa átta fætur, sem allir eru á frambolnum en þær hafa tvo boli og sex til átta augu sem kallast depilaugu.
Nú veljið þið ykkur könguló til að lesa um, mótið hana í leir og málið. Þegar þessu öllu er lokið segið
þið okkur frá köngulónni ykkar.

FRAMKVÆMD

Ef að ákveðið er að búa til könguló er lesin bókin Milli himins og jarðar – köngulær eftir Jón Guðmundsson og unnið aðallega út
frá henni. Jafnframt er hægt að leita að ítarefni á netinu eða í öðrum bókum.

1.
Byrjað er á kveikju.

Vel rakur leir er hnoðaður í kúlu til að ná lofti úr leirnum. Ljósrit eða teikning í þeirri stærð sem mótaða köngulóin á að vera er höfð til hliðsjónar þegar verið er að móta.

2.
Hlutföll eru mótuð í réttri stærð í höndunum og formið skorið til með módelpinna. Ef köngulóin er lítil svo sem 6 cm á lengd, þarf aðeins að skera smávegis innan úr henni að neðanverðu. Ef hún er stærri en 12 cm skal frekar nota klumpsaðferðina, sjá bls. 37 í bókinni Leirmótun-keramik fyrir alla.

3.
Eftir að búið er að móta búkinn eru gerð átta göt með viðarprjóni til þess að stinga síðar vír í sem fætur. Götin eiga að vera fjögur hvorum megin á efri frambol og ná í gegn um búkinn, þ.e. opið þvers á milli hverra tveggja gata svo að það sé auðveldara að festa vírfæturna þegar þar að kemur. Miða skal stærð gatanna við þykkt vírsins.

Köngulóin er þurrkuð, það tekur nokkra daga og síðan hrábrennd.

4.
Eftir hrábrennslu er köngulóin máluð með akrýllitum. Að sjálfsögðu er líka hægt að glerja hana í litum og gljábrenna

5.
Vír er klipptur niður í búta og stungið í gegnum götin. Ef götin eru allt of stór eða það hefur ekki tekist að láta gatið ná í gegnum búkinn þarf að setja lím í gatið svo fæturnir festist. Ef köngulærnar eru litlar er hægt að nota töfluvír eða ídráttarvír eins og rafvirkjar nota. Fyrir  tærri köngulær þarf málmteina eða breiðari vír svo hann haldi köngulónni uppi.

6.-7.
Köngulærnar eru nú tilbúnar. Fyrir kynningu er skemmtilegt að búa til svið fyrir þær með upplýsingum um viðkomandi tegund. Sviðið getur verið úr náttúrulegum efnum s.s. grasi eða sandi eða málað með akrýllitum.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvaða köngulær völduð þið til að búa til? Segið okkur frá þeim.

ÍTAREFNI

Milli himins og jarðar – Köngulær. Jón Guðmundsson. 2015.
Leitarorð á netinu „köngulær á Íslandi“.

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

T.d. læsi, sjálfbærni og sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

Ca. 3 x 40 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista, íslensku og náttúrugreina

EFNI OG ÁHÖLD
  • akrýllitir
  • fíngerður leir án grogs
  • ljósrit eða mynd af könguló
  • módelpinni
  • penslar
  • spónaplata
  • viðarprjónn
  • vír
  • vírklippur
HUGTÖK

akrýll
gljábrennsla
hrábrennsla
klumpsaðferð

LISTAMENN

s.s. Louise Bourgeois,
Pablo Picasso

LISTASAGA

T.d. samtímalist

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022