Línur í berg
Í Norður-Noregi hafa fundist margar ristur frá nýsteinöld á klettaveggjum. Þó að ísaldarjökullinn hafi verið horfinn á þessum tíma, eða fyrir um 4500 árum, þá er merkilegt að finna elstu leifar norrænnar menningar langt norðan við heimskautsbaug. Ólíkt eldri hellamálverkum í Suður-Frakklandi eru risturnar í Noregi og víðar mjög stílfærðar. Það þýðir að aðeins eru teiknuð þau atriði sem einkenna hlutinn á myndinni. Gott dæmi er Óli prik sem dugar til að sýna manneskju.
Við vitum ekki hvers vegna myndir frá steinöld eru stílfærðari en nákvæmu hellamálverkin en mögulega skiptir efnið og áhöld miklu. Erfitt er að rista nákvæmar myndir í stein en auðveldara að gera línur. Þá er mögulegt að steinaldarfólkið hafi líka málað myndir ofanjarðar sem hafa horfið í tímans rás, ólíkt hellamálverkunum sem varðveittust neðanjarðar.
Hér er von um veiði
Listaverk, rist á stein, er oft að finna nærri góðum fiskimiðum eða vatnsbólum dýra. Steinaldarfólkið hefur kannski viljað merkja sér góða veiðistaði og eigna sér þannig staðinn, svona eins og það vildi segja: „Ég kom hingað fyrst!“ Risturnar eru miklu einfaldari og stílfærðari en hellamálverkin. Hugsanlega hafa þær verið einskonar skilaboð eða veggjakrot og eru jafnvel dæmi um einfalda samskiptatækni. Þessar stílfærðu ristur benda til að meira skipulag hafi verið komið á samfélag þeirra sem teiknuðu þær en hjá þeim sem gerðu hellamyndirnar í Suður-Frakklandi á fornsteinöld. Sumar bergristurnar í Norður-Noregi gefa til kynna að hirðingjabúskapur hafi verið hafinn þar. Samar í Finnlandi og Norður-Noregi stunda enn í dag slíkan búskap. Hér að neðan má sjá stílfærða mynd af hreindýri sem er um 11.000 ára gömul. Hún er frá JoSarseklubben í Norður-Noregi og er 1,8 m á lengd.
Risavaxnir bautasteinar
Steinaldarfólkið gerði ekki bara myndir á veggi, það reisti líka stóreflis mannvirki. Stonehenge í Wiltshire á Suður-Englandi er frægast þeirra. Þar er risavöxnum bautasteinum sem eru jafn þungir og stór vörubíll fullur af grjóti eða nærri 25 tonn, raðað saman. Bautasteinarnir eru rúmlega 4 metrar á hæð og mynda 33 metra stóran hring. Ofan á sumum þeirra hvíla enn aðrir steinar sem tengja þá saman. Stonehenge er dularfullur staður og ekki vitað til hvers hann var. Ein kenning er að þar hafi verið stjörnurannsóknarstöð en aðrir telja að þar hafi verið trúarhof eða miðstöð lækninga. Enginn veit hvaða tækniFærni eða aðferð í handverki og listum. More var notuð við bygginguna.
Stonehenge í Wiltshire á Suður-Englandi.
Bronsöld í Norður-Evrópu – Sólvagninn
Sólvagninn frá Trundholm fannst í Danmörku árið 1902. Hann hafði legið í mógröf í 3600 ár. Hann er eitt elsta minnismerki sem fundist hefur í Evrópu um notkun hesta. Sólvagninn er úr bronsi og er gulli sleginn hægra megin. Hann sýnir okkur hvernig mennirnir hafa alltaf leitað skýringa á náttúrulegum fyrirbærum, svo sem hvaðan sólin kæmi og hvert hún færi. Sjálf sólin er dregin af hesti yfir himininn. Að morgni fer hesturinn frá austri til vesturs, þá snýr gyllta hliðin að Jörðinni og til baka um nætur frá vestri til austurs. Gripurinn er 60 sentímetra langur en sólarskjöldurinn er 25 sentímetrar að þvermáli.
Sólvagninn frá Trundholm í Danmörku.
Çatal Hüyük – Gengið á húsþökum
Hugsaðu þér að bærinn þinn eða borgin hefði engar götur. Ef þú vildir heimsækja vini þína þá yrðir þú að klifra upp stiga, fara út um op á loftinu og hlaupa yfir þakið á húsinu þínu, niður á næsta þak og þannig áfram og loks niður um gat á þakinu heima hjá vini þínum.
Þannig var bærinn Çatal Hüyük [Tsjatahl Hujugh] en hann var í sunnanverðu Tyrklandi fyrir 7–9 þúsund árum. Allur bærinn var byggður eins og ein stór blokk og fyrir vikið fengu veggir húsanna stuðning hver af öðrum. Vísindamenn hafa fundið margt athyglisvert við rannsóknir á Çatal Hüyük. Þar er til dæmis eitt elsta landslagsmálverk sem vitað er um en það sýnir eldfjallið Hasan Dag gjósa. Neðan við eldfjallið má sjá yfirlitsmynd af bænum og segja sumir að það sé fyrsta landakortið í heiminum. Húsin í Çatal Hüyük voru með miklum skreytingum og var algengt að fólk hefði hauskúpur af nautgripum á veggjunum. Það segir okkur mikið um mikilvægi húsdýra. Eitt það merkilegasta sem fundist hefur í Çatal Hüyük er stytta af sitjandi frjósemisgyðju úr brenndum leir. Hlébarðar sitja sinn hvorum megin við hana og sýna vald hennar. Sjá hér til hliðar.