Jón Engilberts, Gullkálfurinn, trérista, 42 x 55,5 cm, 1952.
Listasafn Íslands: LÍ 1027

UM AÐFERÐINA

Orðið grafík kemur úr grísku, graphie, sem merkir að rista, teikna eða skrifa. Grafíkmyndir eru unnar með því að rista eða æta mynd í grafíkplötu, sem getur verið málmplata, steinn, tré eða línóleum dúkur. Litur er borinn á plötuna og þrykkt af henni í grafíkpressu. Með aðferðum grafíklistarinnar er hægt að þrykkja mörg eintök af sömu mynd og í því felst sérstaða hennar. Hvert eintak er sjálfstætt listaverk, áritað og merkt af listamanninum eftir ákveðnum reglum. Þar kemur yfirleitt fram hvaða tækni er notuð, númer eintaks og upplag, titill verksins, nafn listamannsins og ártal.

Aðferðir grafíklistarinnar eru margskonar og skiptast í meginatriðum í þrjá flokka: háþrykk, djúpþrykk og flatþrykk. Hver aðferð hefur sína eiginleika og einkenni og listamaðurinn velur þá aðferð sem hentar best hugmyndum hans. Hægt er að þrykkja grafíkmyndir á einfaldan hátt til dæmis er hægt að þrykkja dúk- og tréristur með skeið eins og margir þekkja. Yfirleitt krefst þó grafíkin sérstakra tækja, eins og grafíkpressu, og sérstakra áhalda. Hún reynir á færni og tæknikunnáttu en bíður um leið upp á spennandi ferli þar sem hið óvænta getur tekið yfirhöndina í vinnuferlinu.

Mikilvægt er að velja réttan pappír við gerð grafíkmynda. Þykkt og sveigjanleiki pappírsins þarf að henta þeirri aðferð sem unnið er með, stundum hentar þunnur pappír eins og í háþrykki en þykkur í djúpþrykki þar sem hann er bleyttur. Pappírinn þarf að vera rakadrægur og sýrufrír.

Aðferðum grafíktækninnar fylgir notkun alls konar efna sem sum geta verið varasöm eins og til dæmis sýra sem notuð er til þess að æta málmplötur. Olíulitir og önnur efni kalla á óvistvæn hreinsiefni með tilheyrandi uppgufun. Þetta hefur leitt til þess að grafíklistamenn huga nú meira en áður að notkun heilnæmari og umhverfisvænni efna við listsköpunina eins og t.d. vatnsleysanlegra lita án þess að listrænir og tæknilegir eiginleikar miðilsins tapist.[1]
[1] www.nontoxicprint.com/thegreenartschool.htm

Saga grafíklistar

Upphaf grafíklistar má rekja allt aftur til um 3500 fyrir Krist þegar farið var að útbúa innsigli úr steini með upphleyptri mynd og vaxi. Þau voru ígildi áritunar og hægt var að nota þau aftur og aftur. Það þekktist líka að nota útskorin mót til þess að þrykkja á leirker og tau. Þegar pappírinn var fundinn upp í Kína, líklega í kringum 140 fyrir Krist var farið að þrykkja á pappírsarkir. Pappírsgerð barst til Evrópu á 12. öld en það var ekki fyrr en með uppfinningu prentvélarinnar á miðri 15. öld sem pappírinn leysti af hólmi bókfell og skinn sem hafði verið notað til þess að skrifa trúarlega texta og opinber skjöl.[1] Grafíkverk voru ódýr í framleiðslu og ólíkt málverki og skúlptúr var auðvelt að dreifa þeim. Í fyrstu voru grafíkverk einmitt unnin í þeim tilgangi og myndefnið aðallega trúarlegs eða sögulegs eðlis. Eftir því sem grafíktæknin þróaðist fóru listamenn að nýta miðilinn til persónulegrar listsköpunar og tjáningar.
[1] Covey, Sylvie, Modern Printmaking, A Guide to Traditional and Digital Techniques. Watson-Guptill, Berkeley Publicaions, 2016, 1

Grafíklist á Íslandi

Saga grafíklistar á Íslandi er ekki löng í samhengi listasögunnar og fá íslensk grafíkverk voru gerð fyrir 1930. Þó má rekja íslenska grafíklist til 16. aldar þegar sett var upp prentsmiðja á Hólum í Hjaltadal. Þar voru skornir út skrautlegir upphafsstafir og smámyndir í Guðbrandsbiblíu sem prentuð var á Hólum. Fyrsta fréttamyndin á Íslandi birtist í Morgunblaðinu árið 1913, dúkrista gerð af dönskum listamanni Bang að nafni.[1]
[1] Aðalsteinn Ingólfsson,Ágrip af sögu íslenskrar grafíklistar. Íslensk Grafík 1979, 8

Dúkrista af Dúkskoti birtist í Morgunblaðinu í nóvember 1913 í tengslum við morð sem þar var framið og telst vera fyrsta fréttamyndin sem birtist í íslensku dagblaði, sjá hér til hliðar.
Wikimedia

Edward Munch, Kossinn, trérista, 47 × 77 cm, 1902.
Wikimedia

Frumkvöðlar íslenskrar myndlistar sem héldu utan til náms í kringum aldamótin 1900 kynntust grafíklist á námsárunum og gerðu tilraunir með grafískar aðferðir. Þar má nefna Jóhannes Kjarval (1885–1972) sem gerði steinþrykk á námsárum sínum í Danmörku og Kristinn Pétursson (1896–1981) sem vann ætingar árið 1931 í Vínarborg. Guðmundur Einarsson frá Miðdal (1895–1963) var þó fyrstur Íslendinga til að leggja grafíklist fyrir sig. Hann flutti einnig til landsins fyrstu grafíkpressuna og hélt fyrstu grafíksýninguna á Íslandi árið 1925. Guðmundur vann aðallega ætingar og þurrnálarmyndir í hefðbundnum stíl. Jón Engilberts (1908–1972) telst til brautryðjenda í grafíklist á Íslandi, hann lærði myndlist í Danmörku og Noregi á árunum 1927–1933. Þar kynntist hann meðal annars verkum norska málarans og grafíklistamannsins Edwards Munchs (1863–1944). Sjá má greinileg áhrif frá honum í verkum Jóns frá þessum tíma bæði í vinnubrögðum og efnisvali.

Jón vann tréristur, ætingar og þurrnálarmyndir þar sem myndefnið var gjarnan líf og störf alþýðunnar og atvinnulífsmyndir. Hann lét sig varða kjör alþýðufólks og verkamanna og grafíklistin hentaði vel til þess að koma skoðunum á framfæri til almennings.[1]
[1] Sama, 10

Jón Engilberts, Sjómenn að störfum, trérista, 19,5 x 25,5 cm, 1936.
Listasafn Íslands: LÍ 4343

Barbara Árnason, Þvottur á snúru, 19 x 23 cm, 1935.
Gerðarsafn: LKG 1663

Barbara Árnason (1911–1975) sem ættuð var frá Bretlandi settist að á Íslandi árið 1937. Hún lærði kopar- og tréstungu í London og bjó yfir mikilli tæknikunnáttu. Þau Jón Engilberts og Barbara áttu stóran þátt í framgangi grafíklistar á Íslandi.

Félagið Íslensk grafík var stofnað árið 1954 af hópi listamanna með Jón Engilberts í fararbroddi.

Félagið lagðist þó fljótlega niður vegna ytri aðstæðna eins og áhuga- og aðstöðuleysis. Þegar Bragi Ásgeirsson (1931–2016) kom heim frá myndlistarnámi árið 1956 og hóf að kenna grafík í Handíðaskólanum jókst áhugi fyrir miðlinum mikið. Einar Hákonarson (1945) sem verið hafði nemandi Braga fór til náms í Svíþjóð og kom á fót koparætingarverkstæði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands að því loknu.

Aukinn áhugi á grafíklist leiddi til þess að félagið Íslensk grafík var endurvakið árið 1969. Segja má að þá hafi blómaskeið íslenskrar grafíklistar hafist og grafíkin öðlast varanlegan sess í íslenskri myndlist. Þeir grafíklistamenn sem voru í fararbroddi þessarar vakningar voru Jens Kristleifsson, Ragnheiður Jónsdóttir, Björg Þorsteinsdóttir, Guðmundur Ármann, Jón Reykdal, Þórður Hall, Valgerður Bergsdóttir og Edda Jónsdóttur. Þau sýndu list sína víða bæði á Íslandi og erlendis. Þessi mikli áhugi og ný tækifæri fyrir grafíklistamenn leiddi til þess að fleiri bættust í hópinn. Af þeim má nefna Sigrúnu Eldjárn, Valgerði Hauksdóttur, Hafdísi Ólafsdóttur, Þorgerði Sigurðardóttur og Magdalenu Margréti Kjartansdóttur sem hafa allar getið sér gott orð innan grafíklistarinnar.

Þó að margir listamenn hafi helgað sig grafík eingöngu, í lengri eða skemmri tíma, þá hefur fjöldi myndlistarmanna brugðið fyrir sig grafíktækni á ferli sínum samhliða öðrum miðlum. Eins og fram hefur komið skiptast aðferðir grafíklistarinnar í þrjá flokka: háþrykk, djúpþrykk og flatþrykk. Hér á eftir skulum við kynnast aðferðunum betur.

Nína Tryggvadóttir, Abstrakt, dúkrista, 18 x 23 cm, 1951.
Listasafn Íslands: LÍ 1660

Árið 1951 var gefin út fyrsta grafíkmappan á Íslandi í 25 eintökum, með dúkristum eftir Nínu Tryggvadóttur (1913–1968), Þorvald Skúlason (1906–1984) og Valtý Pétursson (1919–1988). Framtakið fékk ekki góðar viðtökur sem ef til vill má rekja til lítillar almennrar þekkingar á grafíklist og þeirri staðreynd að verkin voru öll abstrakt.

HÁÞRYKK

Háþrykk byggist á því að mynd er skorin út í tréplötu eða línóleumdúk með sérstökum skurðarhnífum þannig að sá hluti myndarinnar sem ekki á að taka í sig lit er skorinn burt. Eftir verða upphleyptir fletir sem litur er borinn á og þrykkt á pappír sem lagður hefur verið yfir plötuna. Myndirnar má þrykkja með handþrykki eða í grafíkpressu. Ef þrykkja á mörg eintök af sömu mynd eða ef verkin eru stór þá er betra að nota pressu.

Til háþrykks teljast trérista, tréstunga og dúkskurður.

TRÉRISTA/TRÉSKURÐUR

Tréristan er elsta þrykkaðferðin. Við gerð tréristu er mynd teiknuð á tréplötu og skorin út með beittum hnífum sem eru annaðhvort u eða v laga. mynd

Þeir hlutar myndarinnar sem ekki eiga að taka í sig lit eru skornir burt þannig að eftir standa upphækkaðar línur og fletir. Litur er borinn á plötuna með valsi eða rúllu, pappírinn lagður yfir og þrykkt af í grafíkpressu eða með einfaldari áhöldum, til dæmis skeið. Ef myndin er í mörgum litum er gerð ein plata fyrir hvern lit og einn litur í einu þrykktur á sama pappír. Litríkar myndir eru því jafnvel þrykktar mörgum sinnum sem gefur möguleika á fjölbreyttum litatónum þegar litirnir blandast saman á pappírnum. Æðarnar í viðnum sem oft eru sýnilegar auka blæbrigði þrykksins. Margir íslenskir myndlistarmenn hafa gert tréristur.

Í Sjálfsmynd Braga Ásgeirssonar sem er þrykkt með svörtum lit kemur skurðtæknin vel fram. Skorið er í tréplötuna með misbreiðum hnífum og misþétt til þess að ná bæði fram bæði grófum og fínum línum og blæbrigðum. Bragi lagði alla tíð megináherslu á teikninguna í grafíkverkum sínum og þróaði snemma persónulegan stíl. Traust tæknikunnátta og öruggt handbragð einkenndi verk hans sem hann vann með mismunandi tækni.

Bragi Ásgeirsson, Sjálfsmynd, 44 x 30 cm, 1952–1953.
Listasafn Íslands: LÍ 1015

Dröfn Friðfinnsdóttir, Kundalini II, trérista, 145 x 69 cm, 1999.
Listasafn Íslands: LÍ 6140

Verk Drafnar Friðfinnsdóttur (1946-2000) Kundalini II frá 1999 er trérista þar sem skorið er í tréplötur og þrykkt í mörgum lögum svo litir og fletir blandast. Skurðurinn er grófur og kraftmikill og æðarnar í viðnum fá að njóta sín svo útkoman verður líflegt lita- og línuspil með vísun í náttúruna.

TRÉSTUNGA

Tréstunga er unnin í tréplötu sem er skorin þvert á æðar trésins svokallað endatré öfugt við tréristuna þar sem skorið er langsum á æðarnar. Myndin er skorin eða stungin þvert á æðarnar í viðnum sem gefur möguleika á mjög fínum línum. Grafíkverk sem unnin eru með þessari aðferð eru því oft fíngerð og nákvæm í teikningu. Þessi aðferð var oft notuð við bókaskreytingar. Barbara Árnason vann fíngerð og innileg verk með tréstungu sem byggja á hinu smæsta í íslenskri náttúru, sakleysi barnsins svo og dýramyndir.[1]
[1] Sama, 11

Nína Tryggvadóttir, abstrakt, dúkrista, 19 x 22,5 cm, 1951.
Listasafn Íslands: LÍ 1661

DÚKRISTA/DÚKSKURÐUR

Dúkrista/dúkskurður er sennilega sú aðferð sem flestir hafa komist í kynni við til dæmis í myndmennt í grunnskóla. Aðferðin byggist á því að skorið er í línóleumdúk á sama hátt og gert er í tréristu. Litafletirnir verða jafnari en í tréristunni og línurnar skýrari vegna þess að dúkurinn hefur slétt yfirborð. Þetta sést vel í abstrakt verki Nínu Tryggvadóttur frá 1951. Þar hefur Nína skorið í tvær plötur. Af annarri er þrykkt með grænum lit en hinni með svörtum. Litir og fletir eru hreinir og skýrir og henta abstrakt myndefninu vel.

Jón Reykdal (1945–2013) vann margar dúkristur á ferli sínum. Í verkinu Náttúrumaður III sést hvernig hann beitir skurðtækninni. Til þess að ná fram blæbrigðum skugga og birtu er ýmist skorið lárétt eða lóðrétt, fínt eða gróft og litirnir blandast þegar þrykkt er yfir í mörgum umferðum.

Jón Reykdal, Náttúrumaður III, 28 x 32 cm, 1978.
Listasafn Íslands: LÍ-4010

DJÚPÞRYKK

Djúpþrykk er þrykkaðferð sem byggist á því að mynd er rist eða teiknuð í málmplötu sem síðan er ætt í sýrubaði. Þeir hlutar myndarinnar sem eiga að þrykkjast eru lægri en yfirborð plötunnar. Koparstunga, þurrnál, æting og akvatinta eru aðferðir sem teljast til djúpþrykks.

KOPARSTUNGA

Koparstunga er elsta aðferð djúpþrykksins, næstum jafngömul tréristunni. Með oddhvössum stikli er myndin grafin eða rist í málmplötuna. Litur eða prentsverta er borin jafnt á plötuna, liturinn sest í teikninguna en yfirborðið er hreinsað vandlega áður en þrykkt er á pappír. Það sem einkennir þessa aðferð er að hægt er að ná fram hreinum og fínum línum. Þetta sést vel í grafíkmyndum Guðmundar Einarssonar frá Miðdal sem þrykkti flestar myndir sínar í Þýskalandi og myndefnið var oftast þorp og landslag í Þýskalandi og á Íslandi.[1]
[1] Sama, 8

Guðmundur Einarsson, koparstunga

Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Klettar á Þingvöllum, 15 x 19,5 cm, 1925.
Listasafn Íslands: LÍ 4948

Björg Þorsteinsdóttir, Óskasteinn I, æting, 58,6 x 49,5 cm, 1986.
Listasafn Íslands: LÍ 4678

ÆTING

Æting er grafíkaðferð sem kom fram um 1500. Unnið er á kopar-, zink- eða aðrar málmplötur. Sýruheldur grunnur er málaður á plötuna og síðan er teiknað í hann með oddhvössum járnum. Platan er lögð í sýru sem ætir teikninguna en grunnurinn ver þá hluta plötunnar sem eiga að haldast ólitaðir. Grunnurinn er hreinsaður af en teikningin stendur eftir. Sverta eða litur er borinn á plötuna sem sest í teikninguna en aðrir hlutar plötunnar eru hreinsaðir. Þrykkt er á rakan pappír í grafíkpressu. Ætingin krefst mikillar nákvæmni og kunnáttu og margir íslenskir grafíklistamenn hafa náð mikilli leikni sem gerir þeim kleift að vinna stór og flókin verk. Björg Þorsteinsdóttir (1940) er þekkt fyrir stórar ætingar sem hún vann með persónulegri tækni af mikilli nákvæmni og næmni. Í verkinu Óskasteinn I frá 1986 sjáum við áferð steinsins og fínlegt mynstur sem magnað er upp af bláum lit sem gefur honum ævintýrablæ. Í fyrstu verkum Bjargar eru sterkar abstrakt áherslur þó að greina megi hluti úr hversdagslífinu en síðar bættust við ýmiss konar form og tilvísanir í himingeiminn og óravíddir hans í verkum hennar.

Ragnheiður Jónsdóttir (1933) er ein þeirra sem tileinkaði sér ætingartæknina en hún hefur gert stór og áhrifamikil grafíkverk þar sem hún notar akvatintu til þess að ná fram tónum og blæbrigðum. Konan í heimi karla var viðfangsefni verka hennar á 8. áratug tuttugustu aldar. Í verkinu 24. október frá 1976 fjallar Ragnheiður á táknrænan hátt um kvennabaráttu með vísun í kvennafrídaginn árið 1975. Stólar með svuntur gefa fyrirheit um breytingar í jafnréttismálum.[1]
[1] Dagný Heiðdal, Myndlist í þágu jafnréttisbaráttunnar. Íslensk Listasaga IV, Forlagið, Reykjavík, 2011, 138

Ragnheiður Jónsdóttir, 24. október, æting, 63 x 66 cm, 1976.
Listasafn Íslands: LÍ-5890

AKVATINTA

Akvatinta er gjarnan notuð með ætingu til þess að vinna stóra blæbrigðaríka fleti eins og t.d. verk Ragnheiðar Jónsdóttur og Bjargar Þorsteinsdóttur sýna. Platan er undirbúin þannig að smáum viðarkvoðukornum (asfaltdufti) er stráð jafnt yfir plötuna. Platan er svo hituð, kornin bráðna og eftir standa örsmáir auðir blettir á milli þeirra. Platan er ætt í sýru og hreinsuð og þá er hún tilbúin fyrir myndgerðina sjálfa. Þeir hlutar plötunnar sem eiga að vera hvítir eru varðir með sýruheldu lakki áður en platan er sett í sýrubað. Sýran ætir málminn milli kornanna. Til þess að ná fram fjölbreyttum tónum er ferlið endurtekið, aðrir fletir málaðir og platan höfð mislengi í sýrubaðinu. Akvatintan er yfirleitt notuð með ætingu.

Edda Jónsdóttir, þurrnál, Hringrás II A, 48 x 48 cm, 1983.
Listasafn Íslands: LÍ-4354

ÞURRNÁL

Þurrnál er aðferð sem hefur verið notuð frá upphafi 15. aldar og er einfaldasta tegund málmgrafíkur. Myndin er rist með oddhvassri nál sem gefur loðna línu beint í fægða kopar- eða zinkplötu. Litur er borinn á plötuna og honum nuddað vel ofan í línuteikninguna. Platan er síðan hreinsuð vel en liturinn situr eftir í línum og köntum. Þrykkt er af plötunni í grafíkpressu. Edda Jónsdóttir (1942) gerði myndaröðina Hringrás I-VI A með þurrnálartækni. Teikningin verður lifandi þegar unnið er beint á plötuna og gefur tilfinningu fyrir hreyfingu hringsins. Edda þrykkir líka upphleypt form sem myndar eins konar kjarna í verkinu.

MEZZÓTINTA

Mezzótinta er stundum kölluð drottning grafíktækninnar en hún var fundin upp á fyrri hluta 17. aldar. Málmplatan er ýfð upp með sérstökum járnum svo yfirborðið verður hrjúft en þeir fletir sem eiga að vera ljósir eru sléttaðir með sérstöku slípijárni. Sverta er borin á plötuna og hún situr eftir á hrjúfu yfirborðinu. Með þessari tækni er mögulegt að ná fram fínum grátónum en erfitt er að þrykkja mörg eintök. Sigrún Eldjárn (1954) er ein fárra íslenskra grafíklistamanna sem unnið hefur mezzótintur. Hún fór til Póllands árið 1978, sérstaklega til þess að læra aðferðina.

Sigrún Eldjárn, Annað sprell, Mezzótinta, 39,3 x 33,2 cm, 1985.
Listasafn Íslands: LÍ 9378

FLATÞRYKK

Í flatþrykki er yfirborð þrykkplötunnar slétt þannig að þeir fletir og línur sem taka við litnum eða svertunni liggja á sama grunni og þeir sem ekki taka við lit. Til flatþrykks teljast steinþrykk (litógrafía), silkiþrykk (sáldþrykk) og offsetprent.

STEINÞRYKK

Steinþrykk (litógrafía) er algengasta flatþykksaðferðin en hún var fundin upp fyrir tilviljun á 18. öld. Upphaflega voru aðeins notaðir kalksteinar en á tuttugustu öld var líka farið að nota zink og álplötur sem eru léttari og auðveldari í meðförum. Aðferðin byggir á því grundvallarlögmáli að vatn hrindir frá sér fitu. Mynd er teiknuð eða máluð á steininn eða plötuna með feitri krít eða bleki. Strokið er yfir steininn með sýrublöndu sem ætir hreina fleti og gerir þá vatnsdræga. Teikningin er þvegin af með terpentínu, steinninn bleyttur með vatni og prentsvertunni valsað á þrykkflötinn með gúmmívalsi. Þar sem vatnið og fitan blandast ekki og prentsvertan er feit festist hún ekki á blautu flötunum heldur einungis þar sem krítað var á steininn. Þrykkt er af steininum í sérstakri steinþrykkspressu og þrykkin eru spegilmynd myndarinnar sem teiknuð var á steininn. Hægt er að þrykkja mörg eintök án þess að gæðin tapist. Margir málarar hafa unnið steinþrykk því að það kemst næst málverki og teikningu þar sem unnið er beint á steininn. Norski málarinn Edward Munch vann til dæmis steinþrykk af þekktustu málverkum sínum eins og Ópinu.

Edward Munch, Ópið, 91 x 73 cm, 1893.
Wikimedia

Kjarval, Skip, steinþrykk, 30 x 43 cm, 1919.
Listasafn Íslands: LÍ-4652

Spænski listamaðurinn Pablo Picasso (1881–1973) hreifst líka af steinþrykkinu og hann átti sinn þátt í því að auka virðingu þess innan listheimsins.[1] Þó að enn séu notaðir kalksteinar við steinþrykkið þá hefur notkun ál- og pólýesterplatna aukist, sérstaklega þegar mynd er unnin með ljósmyndatækni. Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972) var einn þeirra íslensku listamanna sem kynntist grafíklist erlendis og árið 1919 lét hann þrykkja og gefa út fjögur steinþrykk í Kaupmannahöfn. Sjálfur sagðist Kjarval vilja auðga með því íslenska listmenningu og færa nær listmenningu annarra þjóða.[2] Myndefnið, sem er unnið með fíngerðri teikningu á stein, er landslag, skútur og huldufólk í landslagi sem hann vann á huglægan hátt.
[1] Sylvie Covey, 174
[2] Kristín G. Guðnadóttir, Listferill Kjarvals. Kjarval, Nesútgáfan, Reykjavík, 135

Bragi Ásgeirsson gerði fjölda steinþrykkja á 6. áratug tuttugustu aldar bæði fígúratífar myndir og abstrakt verk. Hann kenndi steinþrykk við Handíðaskólann, fyrst 1956–1958 og svo samfellt á árunum 1960–1979.

Bragi Ásgeirsson, Sakleysi, steinþrykk, 65 x 48 cm, 1983.
Listasafn Íslands: LÍ-4315

Ríharður Valtingojer, án titils, mezzotint, 9 x 9 cm, 2013.
Vefsíða

Ríkharður Valtingojer (1935–2019) er ættaður frá Austurríki en gerðist íslenskur ríkisborgari. Hann kenndi um árabil steinþrykk við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðar Listaháskóla Íslands og var um tíma deildarstjóri grafíkdeildar. Hann hefur átt stóran þátt í að endurvekja áhuga á steinþrykki á Íslandi.

Í fyrstu fjölluðu verk Ríkharðs meðal annars um lifnaðarhætti manna og þær hröðu breytingar sem vélvæðingin hafði í för með sér. Í síðari verkum sínum vann hann með lífríki fjörunnar í nostursamlega unnum þrykkjum þar sem blæbrigðarík teikningin dregur fram lífræn formin.

Valgerður Hauksdóttir (1955) vinnur steinþrykk, ætingar og verk með blandaðri tækni. Í verkinu Vetrarmyrkur sem er steinþrykk frá 1993 er leikið með mismunandi gráa litatóna sem koma vel fram í þrykkinu. Valgerður er þekkt fyrir að fara nýjar leiðir í þrykktækninni en hún hefur gert umfangsmiklar innsetningar þar sem hún notar þrykk og hljóð sem magnar upp skynjun áhorfandans.

Valgerður Hauksdóttir, Vetrarmyrkur, steinþrykk, 55 x 76,5 cm, 1993.
Listasafn Íslands: LÍ 5888

SILKIÞRYKK/SÁLDÞRYKK

Silkiþrykk (serigrafí) er elsta þrykkaðferðin en hana má rekja allt til Kína um 960–1279 og síðan í til Japan á 15. öld þegar aðferðin var notuð til þess að prenta mynstur á silki. Aðferðin kom inn í vestræna menningu á síðari hluta 18. aldar en varð ekki vinsæl fyrr en í byrjun 20. aldar. Hún var í fyrstu mest notuð í auglýsingagerð en um 1930 fóru myndlistarmenn að nýta sér tæknina í auknu mæli.[1]

Orðið sericum er úr latínu og merkir silki og grapho er gríska sem merkir að teikna eða skrifa.[2] Aðferðin byggist á því að lit er þrykkt í gegnum fínofið net sem strekkt er á tré- eða álramma. Fylliefni er borið á þá fleti sem eiga að vera ólitaðir en aðrir fletir skildir eftir opnir. Einnig má nota skapalón eða ljósmyndatækni til þess að yfirfæra myndir á vefinn. Ramminn er lagður ofan á pappírinn og liturinn skafinn jafnt yfir flötinn með gúmmísköfu.
[1] Covey, Sylvie, 226
[2] Sama, 227

Liturinn fer þá í gegnum opnu fletina og þrykkist á pappírinn. Ef myndin er í mörgum litum er hver litur þrykktur í einu og einn rammi notaður fyrir hvern lit. Silkiþrykk er eina grafíska aðferðin sem ekki er unnin í spegilmynd. Þórður Hall (1949) er þekktur fyrir silkiþrykk sín sem hann vann á 8. og 9. áratug tuttugustu aldar. Hann var einn þeirra sem tileinkaði sér tæknina og náði góðu valdi á henni. Þórður skapaði sér ákveðinn stíl þar sem myndefnið var oft samspil manns og náttúru eins og verkinu Í þokunni III, frá 1977.

Þórður Hall, Í þokunni III, silkiþrykk, 47 x 43 cm, 1977.
Listasafn Íslands: LÍ 3885

Erró, Astronauts de Rubens, silkiþrykk, 65 x 40,5 cm, 1977.
Listasafn Íslands: LÍ-4003

Erró (1932) er einn þeirra listamanna sem hafa gert silkiþrykk á sínum víðtæka listferli. Í verkinu Astronaut de Rubens frá 1977 sem unnið er með ljósmyndatækni, blandar listamaðurinn saman þekktum sögutengdum minnum úr listasögunni og tækniheimi samtímans eins og hann er svo þekktur fyrir.

EINÞRYKK/MÓNÓTÝPA

Einþrykk/mónótýpa er aðferð sem felst í því að mynd er máluð beint á plötu eða stein og þrykkt á pappír. Það er líka hægt að valsa lit á plötuna skafa af eða teikna í litinn og þrykkja af. Þannig fæst áhugaverð blanda af málverki og þrykki. Eins og nafnið gefur til kynna þá er aðeins hægt að gera eitt afþrykk af hverri plötu og því verður bara til eitt eintak. Hafdís Ólafsdóttir (1956) vakti athygli fyrir stórar tréristur sem hún vann í upplagi á níunda og tíunda áratug tuttugustu aldar. Hún sneri sér síðar að því að gera einþrykk og málverk. Í verkum Hafdísar Ísvölur og Ísvatn frá 1991 sjáum við vel tenginguna við málverkið þar sem hún hefur málað á plötuna og þrykkt á rakan pappír. Litirnir verða tærir og eiginleikar vatnsins koma vel fram í fínlegum blæbrigðum.

Hafdís Ólafsdóttir, Ísvölur, einþrykk, 67 x 100 cm, 1998.
Listasafn Íslands: LÍ-6115

Magdalena Margrét Kjartansdóttir, Dagur, einþrykk, 100 x 70 cm, 1994.
Listasafn Íslands: LÍ 5655

Magdalena Margrét Kjartansdóttir (1944) vinnur gjarnan stór einþrykk með dúk- og tréristum Hún sker alls konar mynstur, form og fígúrur í plötur, sker þær út og þrykkir með mismunandi bútum og flötum svo útkoman verður lífleg, margslungin og efniskennd.

BLÖNDUÐ TÆKNI

Aukist hefur að listamenn blandi saman ýmsum aðferðum, tækni og miðlum. Það gefur endalausa möguleika og oftast er þá aðeins um að ræða eitt eintak af hverju verki. Daði Guðbjörnsson (1954) blandar saman grafík og málverki í verkum sínum. Hann vinnur ætingar sem hann svo málar í með vatnslitum svo engin tvö eintök verða eins.

Daði Guðbjörnsson, Ást og stærðfræði, ætingar, 40 x 32,5 cm, 1986.
Listasafn Íslands: LÍ 4684

Valgerður Hauksdóttir, Vænting I, blönduð tækni, 200 x 130 cm, 2000.
Listasafn Íslands: LÍ 6207

Valgerður Hauksdóttir blandar saman ljósmyndum og þrykki í verkinu Vænting I.

OFFSETPRENT/TÖLVUÞRYKK

Offsetprent/tölvuþrykk er notað í prentiðnaði en líka við gerð myndverka. Þá kemur ál- eða zinkplata í stað steinsins en hún er meðfærilegri og gefur ýmiss konar nýja möguleika, til dæmis þegar unnið er með ljósmyndir. Aðferðin felst í því að mynd er lýst yfir á álplötu sem fest er á þrykkvals. Platan er bleytt og sverta borin á. Myndin færist af plötunni yfir á gúmmívals og af honum á pappírinn eins og í steinþrykki.

Með auknum tækniframförum og tölvutækni hafa skapast nýir möguleikar í þrykktækni. Tölva og laser- eða bleksprautuprentari koma þá í stað prentplötu og grafíkpressu. Sumir notfæra sér tæknina með því að blanda saman tölvuprenti og hefðbundinni grafíktækni.