Minningar eru stór hluti af því hvernig við skiljum okkur sjálf. Sú reynsla sem við verðum fyrir í lífinu mótar okkur á einn eða annan hátt. Minningar okkar verða þá eins konar vegvísir um fyrri reynslu og segja má að þær stuðli að heildstæðum sjálfsskilningi; hver við erum og fyrir hvað við viljum standa. Minningarnar sem móta okkur eru ekki einungis persónulegar heldur tengjast þær einnig minningum genginna kynslóða. Menning þjóðar og gildismat byggir líka á minningum um liðna atburði.

Minningar geta verið hlýjar og notalegar eða óþægilegar og komið okkur í uppnám. Sumar minningar höfum við ef til vill bælt niður til þess að þurfa ekki að horfast í augu við óþægilega og sársaukafulla reynslu. Sumir halda því fram að þeir séu að safna góðum minningum. Það má líta svo á að sérhvern dag ætti maður að breyta þannig, að dagurinn verði síðar að góðri minningu. Skynjun okkar á veröldinni er einatt lituð viðhorfum okkar til lífsins og reynsla okkar spilar þar inn í. Auk þess skipta tilfinningar og geðshræringar miklu máli í þessu tilliti. Þannig beinist athygli okkar mun frekar að atburðum sem varða okkur persónulega en að atburðum sem okkur finnst ekki koma okkur við á neinn hátt. Þannig virðist heilinn strax hefja flokkun á atvikum í reynslunni; varðveita það sem er merkingarbært en gleyma hinu strax. Margt af því sem heilinn skrásetur er þó ekki aðgengilegt í vitundinni en býr djúpt í undirmeðvitundinni. Þannig geta minningar sprottið fram fyrirvaralaust þegar eitthvað sérstakt áreiti á sér stað; áreiti sem tengist reynslunni beint. Margir kannast við það að finna tiltekna lykt eða ilm og upplifa sterka minningu sem stekkur ljóslifandi fram.

Í gegnum skynfærin streymir heimurinn til okkar; flóðbylgja gagna og upplýsinga skellur á okkur. Heilinn vinnur úr þessum flaumi; flokkar, raðar og geymir sumt sem á daga okkur drífur en fleygir öðru. Þau atvik sem við munum eru oft tengd tilfinningalegri upplifun. Þannig munum við miklu betur það sem skiptir okkur máli tilfinningalega.

Til þess að stuðla að sjálfbæru samfélagi er mikilvægt að hlúa að tilfinningu fyrir náttúrunni. Minningar okkar um náttúruleg fyrirbæri auka líkur á því að við lærum að virða náttúruna og höfum samkennd með henni og undrum hennar.

Tengsl listamanna og listaverka við minningar

Anna Hrund Másdóttir, Fantagóðir minjagripir, 2017.

Minningabrot: Á sýningunni Fantagóðir minjagripir í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, sem stóð frá janúar til mars 2017, fjallaði listakonan Anna Hrund Másdóttir (1981) um möguleikann á því að sameina undirmeðvitundina og raunverulega hluti sem hún hefur fundið á ýmsum stöðum víða í veröldinni. Hlutina hefur Anna Hrund tekið í sundur og endurraðað á nýjan og ferskan hátt. Þannig verður til nýr veruleiki, samsettur úr brotum þess raunveruleika sem við teljum traustan og áþreifanlegan. Hérna á sér stað mikilvæg samsvörun við minningar. Við höldum yfirleitt að minni okkar sé óskeikult en stundum getur komið í ljós þegar við ræðum við samferðafólk okkar að upplifun tveggja aðila á sama atviki kann að reynast afar ólík. Þá vaknar spurningin um það hvor aðilinn hafi á réttu að standa; hvor búi yfir sannri þekkingu um atvikið. Líklegt er þó að hvorugur búi yfir hinni fullkomnu og réttu mynd en þó hafi báðir eitthvað til síns máls. Þannig virðast minningar okkar vera dularfullt sambland óskhyggju, skapgerðareiginleika okkar og raunverulegs atviks. 

Endursköpun Önnu Hrundar á raunveruleikanum veitir tækifæri til þess að leika sér að því hvernig minningar virðast samsettar og hversu stórt hlutverk sjónarhóll áhorfandans hefur í túlkun þeirra. Leitarorð: Anna Hrund Másdóttir fantagóðir minjagripir

Málverkasería Birgis Snæbjörns Birgissonar (1966) af Ljóshærð ungfrú heimur 1951 kallast skemmtilega á við það hvernig minningar okkar virðast virka. Í fyrsta lagi tekur áhorfandi eftir því að allar konurnar á málverkunum, sem eru í stærri kantinum, eru málaðar í afar daufum litum. Svo daufum að áhorfandinn þarf að dvelja stundarkorn frammi fyrir hverju verki og skynja hvernig myndin kemur til hans þegar augun hafa drukkið í sig formin og litina. Engu að síður er erfitt að henda reiður á andlitunum; áhorfandinn áttar sig kannski á helstu dráttum en margt er óljóst og þá þarf að fylla í eyðurnar. Þessu svipar mjög til þess hvernig minningar geta oft verið óljósar og óáreiðanlegar. Minningar eru oft daufar; þær hafa á sér einhvern tiltekin blæ eða tilfinningu, oft eitthvað sem erfitt getur verið að koma orðum að en sem finna má fyrir innra með sér. Á svipaðan hátt má finna fyrir konunum í málverkum Birgis Snæbjörns en persónuleikar þeirra virðast huldir áhorfandanum, þess í stað vaknar aðeins óljós grunur um hvern mann þær hafa að geyma; hverjar þær eru. Í öðru lagi blasir við að hvert málverk er eins og perla í perlufesti tiltekinnar framvindu; eitt leiðir af öðru, rétt eins og sérhver sigurvegari tók við af hinum fyrri í áferðarfallegri samfellu. 

Þegar við rifjum upp líf okkar og þau atvik sem við höfum upplifað myndast einhvers konar þráður sem liggur til fortíðarinnar og eftir þessum þræði fetum við okkur þegar við hendum reiður á lífi okkar; minningar okkar verða þannig eins og akkeri eða fótfesta sem sjálf okkar treystir á. Án slíkrar akkerisfestingar, ef minningar okkar væru tætingslegar og án nokkurrar samfellu, værum við í raun ekkert annað en stefnulaust rekald. Ef Birgir Snæbjörn hefði valið sér andlit af handahófi hefði þráðurinn rofnað og heildarsýn verksins leyst upp. Hann valdi að mála allar konurnar með sama ljósa háralitinn og með sama ljósa húðlitinn og fletja þannig út margbreytileikann; allar konurnar virðast vera af sama uppruna. Birgir áréttar að þar sé hann ekki að fella dóm yfir ágæti tiltekins kynþáttar eða uppruna heldur virðist upplifun okkar af verkunum mótast af okkar eigin hugmyndaheimi. Þrátt fyrir fjölbreytta lífsreynslu og margbreytilegt áreiti virðumst við fella reynsluna, minningarnar, í form sem hæfir okkar eigin sýn. Um leið og Birgir Snæbjörn sýnir okkur ásýnd fegurðardrottninga sem settar hafa verið á stall, þá deilir hann á þær staðalímyndir sem þær hafa verið gerðar að. Önnur myndaröð eftir Birgi Snæbjörn er Ljóshærðir hjúkrunarfræðingar. Daufir litir geta gefið í skyn að myndefnið sé minning en einnig verið vísbending um sótthreinsað umhverfi hjúkrunarfræðinga og hugmynd fólks um hreinleika.

Birgir Snæbjörn Birgisson, Úr myndaröðinni Ljóshærð ungfrú heimur 1951, olía á striga, 120 x 120 cm, 2007. Ljósmynd Vigfús Birgisson.
Vefsíða

Birgir Snæbjörn Birgisson, úr myndaröðinni Ljóshærðir Hjúkrunarfræðingar, olía á striga, 150 x 230 cm, 2003. Ljósmynd Vigfús Birgisson.

Birgir Snæbjörn Birgisson, úr myndaröðinni Ljóshærðir Hjúkrunarfræðingar, olía á striga, 160 x 130 cm, 1998. Ljósmynd Vigfús Birgisson.

Bjarki Bragason (1983) fjallar í verkum sínum um áhrif sögulegra atburða og hugmyndafræði á einstaklinga og stillir gjarnan saman frásögnum skáldsagnapersóna og lifandi einstaklinga. Þannig verður óljóst hvað er minning og hvað er uppspuni. Verk hans fjalla m.a. um ímyndir, tungumál og tíma líkt og fram kemur í viðtali við hann í Morgunblaðinu árið 2013:
„Ég hef verið að velta fyrir mér af hverju samtíminn er upptekinn af endurskoðun sögunnar. Ég hef lengi haft áhuga á að skoða hvernig byggingar fólk reisir á hverjum tíma og hvaða strúktúra það skilur eftir sig. Þessir staðir sem ég skoða tengjast hugarfarslegum og pólitískum breytingum, umbyltingum.“

Í verkinu, Eiginlega eins og þeir eru, næstum því þar sem þeir voru, er tekist á við minni og unnið út frá heimili Walters Gropiusar (1883–1969) en hann stýrði Bauhaus-skólanum sem var listaakademía fyrir málara og myndhöggvara. Húsið var byggt árið 1926 en eyðilagt í seinni heimsstyrjöldinni. Eftir stríð reis þess í stað lágreist bygging úr hluta þeirrar rústar sem fyrir var, sem Bjarki segir hafa minnt meira á hús í ævintýrinu um Hans og Grétu. Þegar hann kom á staðinn voru bæði húsin horfin og rústahaugur eftir. Eftir niðurrif beggja húsanna gróf Bjarki í rústunum og eru brot þessara tveggja bygginga, sem erfitt er að þekkja í sundur, burðarás sýningarinnar. Verkin fjalla um skörun og árekstra mismunandi hugmyndafræði og þoku minnisins.

Ljósmyndainnsetningin Eiginlega eins og þeir eru, næstum því þar sem þeir voru byggir á munum sem Bjarki fann í rústunum.
Ég rýndi í brotin úr báðum þessum byggingum og skoðaði þau í samhengi við aðrar rannsóknir sem ég var að vinna í á þessum tíma, meðal annars samtöl mín við pólska arkitektinn Olgierd Czerner sem hefur sérhæft sig í endurgerð bygginga … Ég rogaðist heim með fullar töskur af múrbrotum.“

Leitarorð: Bjarki Bragason rýnir í rústabrotin 

Bjarki Bragason, Eiginlega eins og þeir eru, næstum því þar sem þeir voru, ljósmyndir, viður og gler. Sýnt á einkasýningunni Hluti af hluta af hluta: Þættir I–III í Listasafni ASÍ, 2012. Ljósmynd Vigfús Birgisson.

Í samvinnu við hliðarsjálf sitt, Doktor B, hefur Olga Bergmann krukkað um nokkurt skeið í möguleika erfðavísindanna og hugsanleg áhrif þeirra á þróunarsöguna til langs tíma litið. Á sýningunni Innan garðs og utan sýndi Olga Bergmann vettvangsathuganir á atferli dýra, postulínsstyttur og leynisafn. Verkin á sýningunni fjalla um villta náttúru og tamda, dýralíf og hugmyndir um framtíðina sem meðal annars tengjast ævintýrum og óljósum minningum. Leitarorð: Olga Bergmann Innan garðs og utan

Ljósmyndarinn og arkitektinn Hiroshi Sugimoto (1946) er listamaður sem hefur mikinn áhuga á fornminjum og steingervingum. Á vefsíðu sinni segir hann um steingervinga í tengslum við eigin verk:
„Steingervingar virka næstum eins og filmuljósmyndir; sem skrá yfir sögu. Uppsöfnun tíma og sögu verður neikvæð á myndinni. Setlögin umhverfis steingervinginn samsvara hinu neikvæða formi (negatífunni) en sjálfur steingervingurinn samsvarar hinu jákvæða formi (pósitífunni). Þegar ég var að ljósmynda neðansjávarstemningu sem átti að endurskapa Cambrian tímabilið sem lauk fyrir 490 milljón árum fékk ég hugmynd um að vinna með steingervinga.“
Leitarorð: Hiroshi Sugimoto

Magnús Pálsson (1929) er einn þekktasti rýmislistamaður Íslands. Undir lok 7. áratugarins gerði hann gifsverk þar sem hann lék sér með jákvætt og neikvætt rými. Í verkinu Flæðarmál (1975) er hann að vinna þvert á hugmyndir fólks af landslagsmálverkum. Í stað þess að sjá landið, hafflötinn og himininn sem þrjá samliggjandi fleti, flata út frá einu sjónarhorni þá gerði hann gipsafsteypu í þremur hlutum sem fela í sér „afsteypu“ af jörðinni, sjónum og andrúmsloftinu. Afsteypuna gerði hann ekki af hverjum hlut heldur byggði hann á minningum sínum um þá. Hann byggir á tveimur ólíkum sjónarhornum: sjónarhorni áhorfandans á jörðina (beint niður) en sjóinn og andrúmsloftið sýnir hann frá sjónarhorni jarðarinnar. Saman mynda þessar einingar samloku sem hægt er að fella saman.

Magnús Pálsson, Flæðarmál, gifs, 45 x 39 x 23 cm, 1976.
Listasafn Íslands: LÍ 7189

Breski listamaðurinn Michael Landy (1963) hefur unnið með tengsl fortíðar og minninga í verkum sínum. Hans þekktasta verk er gjörningurinn Break Down sem hann framkvæmdi í London í febrúar 2001. Landy safnaði öllum veraldlegum eigum sínum saman í tómt verslunarhúsnæði. Eigurnar voru flokkaðar og síðan var þeim eytt skipulega á færibandi sem tíu starfsmenn unnu við í allra augsýn. Þegar gjörningnum lauk átti Landy engar veraldlegar eigur og hafði hann engan fjárhagslegan ávinning af verkinu. Með því að eyða öllum sínum eigum eru minningar hans einungis bundnar því sem hann man en ekki veraldlegum hlutum. Leitarorð: Michael Landy | Michael Landy break down

Mörg verka listakonunnar Huldu Hákon (1956) tengjast með einhverjum hætti sameiginlegri þekkingu og skilningi hópa og samfélags. Til að mynda má nefna verk hennar sem sýna makríltorfu. 

Hulda Hákon, Paradísarhola, 2000.
Vefsíða

Hugmyndin að verkinu fæddist við höfnina í Vestmannaeyjum en Hulda hefur oft verið í Eyjum og á minningar þaðan við að veiða makríl á bryggjunni með barnabarni sínu. Sjálfsmynd Vestmannaeyinga á djúpar rætur í sjávarsókn og fiskveiðum. Makríllinn kom óvænt inn í íslenska fiskveiðilögsögu og veiðar á honum sköpuðu miklar og kærkomnar tekjur á því tímaskeiði þegar Ísland var að vinna sig upp úr djúpri efnahagslægð. Á verkin eru letruð heitin á þekktum fiskimiðum í nágrenni þess staðar sem þau eru sýnd á. Þannig er verkið Paradísarhola tilkomið sem og fleiri verk eins og Rás en það eru fiskimið. Leitarorð: Hulda Hákon Hús&Hillbilly