Gerður Helgadóttir, Abstraktion, málmskúlptúr, 91 cm, 1952.
Listasafn Íslands: LÍ 7079 

Um aðferðina

Hefðbundinn skúlptúr/höggmynd/stytta, er þrívítt myndverk höggvið í stein eða mótað úr málmi, tré eða öðru efni. Oft er hann á stöpli sem hægt er að ganga í kringum eða lágmynd sem er fest á vegg eða unnið beint á ákveðinn flöt. Víða má sjá skúlptúra á torgum, í almenningsgörðum, við merkilegar byggingar eða sögulega staði. En skúlptúrar geta líka verið innandyra bæði stórir og smáir.

Skúlptúrar eru unnir úr margskonar efnum og með fjölbreyttum aðferðum. Þá má móta í leir, höggva og skera í stein, tré eða fílabein, gifs og vax og steypa í mismunandi málma. Skúlptúrar eru líka gerðir úr steypu, gleri, pappír, plasti og jafnvel ís og alls kyns samsettum hlutum. Orðið skúlptúr kemur út latínu, sculpere, sem merkir að höggva eða meitla, en þrívíð listaverk eru líka nefnd höggmyndir.

Sagan

Fyrstu skúlptúrarnir sem vitað er um voru gerðir í trúarlegum tilgangi, sem verndargripir eða til tilbeiðslu. Sumar litlar styttur eru jafnvel taldar hafa verið leikföng fyrir börn. Styttur af guðum og höfðingjum þekktust í Mesópótamíu, Egyptalandi, Grikklandi og Róm en sögulegar og goðsögulegar myndir voru gerðar til að skreyta byggingar og minnismerki um sögulega atburði. Egyptar til forna gerðu stóra skúlptúra úr graníti og kalksteini og Grikkir notuðu marmara og brons.[1]

Á miðöldum (tímabilið frá um 400 til um 1500) og á endurreisnartímanum (1400–1600) voru höggmyndir og önnur myndlist nær eingöngu gerð í trúarlegum tilgangi. Kirkjubyggingar voru skreyttar með höggmyndum úr steini bæði að innan og utan. Tré var notað í altaristöflur með útskornum fígúrum og bein var notað í sama tilgangi. Á endurreisnartímanum fóru myndhöggvarar aftur að nota marmara og dálítið hefur varðveist af bronsskúlptúrum.

Á 17. öld varð myndefnið veraldlegra/almennara. Þegar kirkjan hætti að vera ein um að fjármagna verk urðu myndir af kóngum og goðsögulegum fígúrum meira áberandi og brjóstmyndir algengar. Verkin voru stór og mikilfengleg, oft gerð úr mismunandi litum marmara. Brons var notað í stórar riddarastyttur en tré var minna notað. Á 18. öld varð myndefnið enn fjölbreyttara og dýramyndir voru algengar. Marmari var mikið notaður og brons var líka vinsælt.[2]

Svokölluð akademísk aðferð kom fram á 17. öld. Þá er gerð frummynd af verkinu með því að móta það í leir og svo er tekin af því gifsafsteypa. Frummyndin er notuð þegar verkið er unnið í marmara eða önnur varanleg efni.

Aðferðir klassískrar höggmyndagerðar felast annars vegar í því að móta myndina með því að hlaða leirnum upp (additive aðferð) og hins vegar að höggva burt eða sneiða af efninu (súbtraktíf aðferð).

Skúlptúrum er skipt í tvo meginflokka annars vegar frístandandi verk og hins vegar lágmyndir sem eru ýmist alveg eða að hluta föst á vegg eða annan flöt og eru oft hluti af útliti bygginga en líka sjálfstæð listaverk.

Brjóstmynd er ákveðin tegund höggmynda sem oftast er gerð af þekktum einstaklingum og sýnir höfuð og efri hluta líkama frá öxlum niður að brjósti.
[1] Dorthe Falcon Møller: skulptur i Den Store Danske, Gyldendal. sótt 4. maí 2018. http://denstoredanske.dk/index.php?sideId=160633
[2] sama

Þó að myndhöggvarar gerðu enn mannamyndir og verk í raunsæjum stíl í byrjun 20. aldar varð þróun í gerð skúlptúra eins og í öðrum greinum myndlistar. Fram komu ný efni og framsetningarmöguleikar og ný stílbrögð þar sem unnið var með rými og form á óhlutbundinn hátt. Hugmyndalist og blöndun listgreina varð algeng á níunda áratugnum þar sem listamenn leituðust við að afmá mörk milli listgreina.

Hannes Lárusson, Decoy II, tréskúlptúr, 28 x 36 x 18 cm, 1991.

Margir myndhöggvarar nota enn klassísk efni eins og stein, brons og tré en allskonar fundið efni, tilbúnir hlutir, iðnaðarefni, tau og fleira, þar sem handbragð listamannsins skiptir minna máli, hefur gefið listamönnum meira frelsi í listsköpuninni og býður upp á fjölbreytta nálgun.

Anna Líndal, Eldhúslíf, skúlptúr – blönduð tækni, 35 x 30 x 30 cm, 1994.
Listasafn Íslands: LÍ 7312

Bertel Thorvaldsen. Sjálfsmynd Thorvaldsens með Vonargyðjuna, málmskúlptúr, 1839.

Höggmyndalist á Íslandi

Höggmyndalist á Íslandi á sér ekki langa sögu eða hefð. Fyrsta höggmyndin var reist á Íslandi árið 1875, það var sjálfsmynd danska myndhöggvarans Bertels Thorvaldsens (1770–1844) en hann var íslenskur í föðurætt. Höggmyndin nefnist Sjálfsmynd Thorvaldsens með Vonargyðjuna og var hún til að byrja með á Austurvelli en stendur nú í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. FHöggmyndin var gjöf Kaupmannahafnar til íslensku þjóðarinnar í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar 1874.

Stafrænn tvíburi af listaverkinu Sjálfsmynd Thorvaldsens með Vonargyðjuna eftir Bertel Thorvaldsen. Upprunalega listaverkið er staðsett í Hljómskálagarðinum
Hægt er að skoða listaverkið út frá óvenjulegu sjónarhorni sem erfitt er að sjá í verkinu sjálfu þar sem það er 2,5 metrar á hæð.

Frumkvöðlar

Höggmyndalist var lítið þekkt á Íslandi fram að því og þeir listamenn sem vildu leggja hana fyrir sig þurftu að fara í nám til útlanda því að ekki var boðið upp á nám í höggmyndalist á Íslandi á þessum tíma fremur en annað listnám. Þeir íslensku myndhöggvarar sem komu heim frá námi á fyrstu áratugum tuttugustu aldar ruddu því braut höggmyndalistar á Íslandi. Íslensk náttúra og náttúruform veitti þeim innblástur sem þeir nýttu á ólíkan hátt í verkum sínum. Þeir unnu verkin með hefðbundnum aðferðum, mótuðu í leir og yfirfærðu í varanlegri efni eins og til dæmis brons, gifs eða steypu.

Á níunda áratugnum varð mikil vakning í íslenskri höggmyndalist. Það má meðal annars rekja til þess að árið 1980 var stofnuð myndmótunar- og höggmyndadeild við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Myndhöggvarafélag Reykjavíkur sem var stofnað árið 1972 efldist og beitti sér fyrir sýningarhaldi og bættri aðstöðu myndhöggvara á Íslandi.

Hér á eftir eru helstu frumkvöðlum íslenskrar höggmyndalistar gerð skil sem og kynntir nokkrir af þeim listamönnum sem vinna skúlptúra á Íslandi í dag.

 

Einar Jónsson (1874–1954) myndhöggvari var fyrstur til að gera höggmyndalist að aðalstarfi og eini starfandi myndhöggvarinn á Íslandi um árabil. Hann fór til náms í Kaupmannahöfn og útskrifaðist úr Konunglega Listaháskólanum árið 1899. Einar sýndi fyrsta verk sitt á sýningu í Charlottenborg í Kaupmannahöfn árið 1901. Það var verkið Útlagar sem nú stendur við Hólavallakirkjugarð í Reykjavík en það markar upphaf listferils hans og þar með íslenskrar nútímahöggmyndalistar.[1] Myndefnið er sótt í íslenskar þjóðsögur og sýnir útlaga sem arkar áfram með látna konu sína á herðunum og barn sitt í fanginu. Hundurinn þeirra fylgir þeim. Útlaginn er á leið til byggða til þess að jarða konu sína í kristnum reit.[2]

Mörg af verkum Einars eru orðin hluti af borgarlandslagi Reykjavíkur, til dæmis styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli, styttan af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum og styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Auk þess að gera mannamyndir leitaði Einar gjarnan myndefnis í þjóðsögur, goðsagnir og trúarlegar hugmyndir og náttúruformin fengu táknræna merkingu í verkum hans.

Snemma á tuttugustu öld gaf Einar íslenska ríkinu öll verkin sín og byggt var yfir þau hús á Skólavörðuholtinu í Reykjavík sem ber nafnið Hnitbjörg sem í dag er Listasafn Einars Jónssonar. Þar má bæði sjá höggmyndir og málverk eftir hann en á efstu hæð hússins er hægt að skoða heimili Einars og konu hans. Fyrir utan húsið er höggmyndagarður með verkum hans.[3]

[1] Listasafn Einars Jónssonar, http://www.lej.is/ sótt 4. maí 2018.
[2] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist I, Helgafell, Reykjavík, 1964, 63
[3] Ritgerð Oddný Björg Daníelsdóttir

Einar Jónsson, Útlagar, gifsmynd, hæð 228 cm, 1901.

Listasafn Íslands, gjöf frá Ditlev Thomsen.
Listasafn Íslands: LÍ 7007

Útlagar, Hnitbjörg
Stafrænn tvíburi af listaverkinu Útlagar.
Upprunalega listaverkið er staðsett í Listasafni Einars Jónssonar (Hnitbjörgum) en bronsafsteypur af verkinu eru við Hólavallakirkjugarð á horni Suðurgötu og Hringbrautar í Reykjavík og við Eyrarlandsveg rétt hjá Menntaskólanum á Akureyri. Stafræni tvíburinn býður upp á að skoða styttuna frá óvenjulegu sjónarhorni sem erfitt er að sjá í listaverkinu sjálfu þar sem það er yfir tvo metra á hæð.

Sigurjón Ólafsson, Ásgrímur Jónsson, steinskúlptúr, 56 cm, 1947.
Listasafn Íslands: LÍ 7085

Sigurjón Ólafsson (1908–1982) er einn af frumherjum íslenskrar höggmyndalistar en hann lærði klassíska höggmyndagerð í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn á árunum 1928–1935 og vann mörg af sínum þekktustu verkum þar. Þegar hann kom heim árið 1945 í stríðslok kom hann sér fyrir í hermannabragga við sjóinn í Laugarnesi en þar er Listasafn Sigurjóns Ólafssonar nú staðsett.

Eftir heimkomuna hjó Sigurjón í íslenskt grjót en skar líka í tré. Hann gerði margar portrettmyndir og brjóstmyndir af þekktum einstaklingum meðal annars af Halldóri Laxness rithöfundi og Ásgrími Jónssyni listmálara.

Verkið Fótboltamaður frá 1936 er dæmi um það hvernig listamaðurinn vann stór og hrein form af nákvæmni og öryggi, enda vakti verkið mikla athygli á sínum tíma. Á vinnslustiginu var verkið með hendur en Sigurjón sá þó fljótt að verkið væri mun meira abstrakt og áhrifaríkara án handa og sagaði þær því af.

Sigurjón gerði ýmiss konar tilraunir með efni og aðferðir á ferli sínum og var mjög fjölhæfur listamaður. Við gerð steinverkanna lagði hann áherslu á að einkenni steinsins kæmu fram, hjó ýmist grunnt eða djúpt í steininn og lék sér með ljós og skugga til þess að gefa efninu líf.[1] Sigurjón gerði líka myndir úr járni, skar út form og vann með speglun og andhverfu þeirra. Hann gerði tréskúlptúra úr rekaviði og ýmsu sem hann fann í náttúrunni. Sigurjón vann bæði abstrakt verk og fígúratíf og er talinn meðal helstu portrettlistamanna samtímans og meðal frumkvöðla abstrakt höggmyndalistar.
[1] Æsa Sigurjónsdóttir, Spor í sandi, „List er ekki hátíðleiki heldur lífið sjálft“, Listasafn Íslands. 2014, 37

Ásmundur Sveinsson (1893–1982) var einn afkastamesti myndhöggvari á Íslandi á tuttugustu öld. Hann lærði tréskurð hjá Ríkharði Jónssyni (1888–1977) í Reykjavík og stundaði nám í myndlist í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og París. Hann flutti til Íslands árið 1929 og fyrstu verk hans eftir heimkomuna voru lágmyndir á Austurbæjarskólann í Reykjavík sem hann vann í klassískum stíl. Einfaldur massívur stíll einkennir verk hans frá 4. áratug tuttugustu aldar og myndefnið er oft sótt í störf alþýðunnar, eins og verkin Vatnsberinn (1937), Þvottakonan (1937) og Járnsmiðurinn (1936). Hann notaði sement og kvarts í verkin sem hann stækkaði og setti út undir bert loft.[1] Þessi verk og mörg önnur verka Ásmundar setja svip sinn á Reykjavík enda vildi hann að útilistaverk væru sýnileg og sett upp á torgum og í almenningsgörðum til þess að sem flestir fengju að njóta þeirra.[2] Stíllinn í verkum Ásmundar var í stöðugri þróun, verkin hans urðu léttari og opnari á 5. áratugnum. Á 6. og 7. áratugnum vann hann mest óhlutlæg verk í málm sem virðast svífa og hafa tilvísun í tækni og vísindi og sum verkanna hafa skírskotun í himingeiminn og víddir alheimsins.

Ásmundur byggði sér hús og vinnustofu við Sigtún í Reykjavík þar sem nú er safn Ásmundar Sveinssonar.
[1] Íslensk höggmyndalist 1900–1950. „Efni“ Gunnar B. Kvaran. Listasafn Reykjavíkur, 108
[2] Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, „Abstraktlist í opinberu rými“ í Íslensk listasaga III, Abstrakt list. Reykjavík, 2011
Íslensk listasaga II, 140
Íslensk listasaga IV, 42
Íslensk myndlist, V, 235

Ásmundur Sveinsson, Helreiðin, tréskúlptúr, 56,50 x 71 cm, 1944.
Listasafn Íslands: LÍ 7072

Nína Sæmundsson vinnur að gerð höggmyndar af Nonna (Jóni Sveinssyni) í Iðnskólanum árið 1958.
Listasafn Íslands, ljósmyndari óþekktur.

Nína Sæmundsson (1892–1965) var fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi. Hún lærði klassíska höggmyndagerð við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn og lauk námi þar árið 1920. Verk hennar eru flest unnin samkvæmt klassískri hefð og eru oft bæði dramatísk og rómantísk. Hún vann í margs konar efni, mótaði í leir, hjó í stein og skar í tré.

Nína Sæmundsson, Rökkur, gifs, 90 cm, 1922.
Listasafn Íslands: LÍ 7013

Nína ferðaðist víða og hafði um tíma vinnustofu í Róm þar sem hún vann meðal annars verkið Rökkur (1922). Mýkt og ró einkennir verkið eins og mörg verka Nínu. Höggmynd Nínu Móðurást (1924) sem stendur í Mæðragarðinum í Reykjavík er fyrsta stytta eftir konu sem sett er upp á almannafæri hér á landi og sem ekki er minnismerki heldur frjálst listaverk. Nína flutti til Bandaríkjanna 1925 og vann að list sinni þar um árabil og gerði meðal annars styttur af frægum leikurum. Hún settist að á Íslandi árið 1955. Höggmynd Nínu Hafmeyjan var sett upp í Tjörninni í Reykjavík árið 1955 en ekki voru allir sammála um staðsetninguna og svo fór að styttan var sprengd upp en aldrei var upplýst hver framdi skemmdarverkið.

Gerður Helgadóttir (1928–1975) var brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist. Hún var við nám í Flórens en bjó og starfaði í París mestan hluta ævi sinnar. Verk danska myndhöggvarans Róberts Jacobsen (1912–1993) höfðu mikil áhrif á Gerði. Það kemur til dæmis fram í járnverkum hennar sem hún vann með því að grisja efnið þannig að verkið varð létt og svífandi eins og Abstraktion frá 1952.

Gerður Helgadóttir, Abstraktion, málmskúlptúr, 91 cm, 1952.
Listasafn Íslands: LÍ 7079

Gerður vann líka fíngerð verk úr járnvírum, eins konar þrívíðar teikningar eins og við sjáum í verkinu Síðsumar (án ártals) þar sem vírarnir mynda opin abstrakt form og línur.

Gerður notaði fjölbreytt efni í verk sín meðal annars járn, leir, gifs, gler og steinsteypu. Hún var mjög fjölhæfur myndlistarmaður en auk höggmyndanna var hún þekkt fyrir steinda glugga og mósaíkverk.

Gerður Helgadóttir, Síðsumar, málmskúlptúr, 65 x 55 x 55 cm, án ártals.
Listasafn Íslands: LÍ 7086

Hreinn Friðfinnsson, Komið við hjá Jóni Gunnari, tréskúlptúr, 200 x 172,5 cm, 1965.
Listasafn Íslands: LÍ 7256

Skúlptúrhugtakið endurnýjað

Um miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar kom fram hópur myndlistarmanna sem vildi fara aðrar og frumlegri leiðir í myndsköpun sinni og innleiða nýja strauma og spurningin um eðli listarinnar og hvað væri list varð ágeng. Á þessum tíma má segja að hugmyndir um skúlptúr list hafi verið endurnýjaðar.[1] Hefðbundnum efnum og aðferðum var hafnað en þau efni valin í verkin sem best komu hugmyndinni til skila.

SÚM hópurinn með Jón Gunnar Árnason (1931–1989), Sigurjón Jóhannsson (1939), Hrein Friðfinnsson (1943) og Hauk Dór Sturluson (1940) í fararbroddi var ekki lengur bundinn við gamlar aðferðir og efni en nú mátti nýta allan efnivið bæði hefðbundinn og óhefðbundinn við listsköpunina. Þeir nýttu sér alls kyns hluti, gamalt dót og annað fundið efni í verkin sín sem fengu nýja merkingu í nýju samhengi.

Þó að klassísk efni eins og steinn og brons séu enn notuð þá hafa bæst við ný efni sem gefa listamönnum meira frelsi og bjóða upp á annars konar framsetningu t.d. innan hugmyndalistar og í innsetningum. Gömul hurð verður að listaverki hjá Hreini Friðfinnsson (1943) sem gerir göt á hana og bætir við litum og formum. Verkið nefnist Komið við hjá Jóni Gunnari. Um er að ræða hvíta viðarhurð með tveimur götum þar sem sjá má málaða viðarbúta. Hreinn hafði komið auga á hurðina heima hjá Jóni Gunnari og þar sem hún var ekki í notkun fékk hann að eiga hana. Jón Gunnar Árnason gerði einn þekktasta skúlptúr landsins, Sólfarið.

Hreinn var í fararbroddi svokallaðra hugmyndalistamanna á Íslandi. Verk hans eru fjölbreytt og unnin í margskonar miðla oft samsett úr mörgum þáttum sem skapa hugmyndafræðilega heild sem byggir á minningum og frásögnum sem hann setur fram á ljóðrænan hátt.
[1] Skúlptúr/Skúlptúr/skúlptúr, Íslensk samtímalist, Gunnar B. Kvaran, aðfararorð Listasafn Reykjavíkur, 1994, 11

Magnús Pálsson (1929) var í forystu þeirra listamanna sem vildi breyta hugmyndum manna um myndlist. Í stað þess að nota hefðbundin efni og aðferðir notar hann margvíslegan efnivið fyrir fjölskrúðugar hugmyndir sem eru í anda svokallaðrar flúxus listar. Hann leyfir gjarnan efninu að ráða og nýtir sér tilviljanir og óvænta hegðun þess í lokaútliti verkanna. Verkið Erðanú borð er samsett úr allskonar efnisbútum og pappírsræmum. Það er eins og fjall sé að brjótast upp úr borðplötunni en landslagið er undir yfirborðinu. Húmor og glettni einkennir mörg af verkum Magnúsar eins og kemur fram í titli verksins enda er það tæplega nothæft sem borð.

Magnús Pálsson Erðanú borð, blönduð tækni – tré, málmur, pappír og gifs, 80,5 x 40 cm, 1962.
Listasafn Íslands: LÍ 8639

Hulda Hákon, Leikhús, lágmynd, 169 x 317 cm, 1988.
Listasafn Íslands: LÍ 7273

Hulda Hákon (1956) gerir bæði skúlptúra og lágmyndir þar sem hún skoðar stöðu og hegðun mannsins í nútímasamfélagi á persónulegan hátt. Efniviður hennar eru timburbútar, gifs og málning, gróf og sýnileg samsetningin er hluti af verkunum. Í verkinu Leikhús raðar hún saman viðarbútum, leir, málverki og texta eins og hún gerir oft í verkum sínum. Við þekkjum strax Þjóðleikhúsið og prúðbúna leikhúsgesti sem standa í röð fyrir framan það.

Guðjón Ketilsson (1956) hóf feril sinn sem listmálari en fór seinna að skera út myndverk í tré eins og sjá má í viðfangsefni verksins Þyrping en þar er hann að vinna með fjarvídd í útskornum húsformum. Hann er líka þekktur fyrir útskorna hluti þar sem hann skoðar meðal annars fegurð hlutanna í samhengi við notagildi þeirra.

Guðjón Ketilsson, Þyrping, skúlptúr – lágmynd, tré, 38 x 24 x 5 cm, 1995.
Listasafn Íslands: LÍ 7342

Svava Björnsdóttir, Arcus, pappírsskúlptúr, 170 x 170 cm, 2007.
Listasafn Íslands: LÍ 8086

Skúlptúrar geta líka verið úr pappír eins og við sjáum í skúlptúrum Svövu Björnsdóttur (1952). Þeir eru mótaðir úr lituðu pappírsmauki og sellulósa sem hún blandar saman á ákveðinn hátt og sumir eru mjög stórir. Efnið sem Svava hefur þróað á sér ekki hefð eða sögu innan höggmyndalistarinnar eins og til dæmis marmari eða málmur. Formin eru oft einföld og óhlutbundin en litir og áferð vísa gjarnan í eitthvað sem við þekkjum.

Með því að setja saman ólíka fundna hluti úr ýmsum efnum býr Sólveig Aðalsteinsdóttir (1955) til framandi skúlptúr sem fær sjálfstæða merkingu. Verkið sem við sjáum hér heitir einfaldlega Skúlptúr og hefur yfir sér hefðbundið yfirbragð skúlptúrs, þar sem það stendur á stöpli, þó efniviðurinn sé nýstárlegur.

Sólveig Aðalsteinsdóttir, Skúlptúr, blönduð tækni, 20 x 20 cm, 1994.
Listasafn Íslands: LÍ 7299

Anna Líndal, Eldhúslíf, skúlptúr – blönduð tækni, 35 x 30 x 30 cm, 1994.
Listasafn Íslands: LÍ 7312

Anna Líndal (1957) setur gamaldags súpuskál með loki á stall í verkinu Eldhúslíf. Gafflar sem vafðir eru með mislitum tvinna stingast ofan í skálina. Í verkum hennar frá 9. og 10. áratug tuttugustu aldar vinnur hún með hversdagsleika heimilisins og heimilisstörfin á táknrænan og gagnrýninn hátt. Með því að setja skálina á stall minnir hún á mikilvægi heimilisstarfanna og tvinninn vísar í hannyrðir myndarlegrar húsmóður.

Saga, menning og tími koma saman í verki Steingríms Eyfjörð (1954) Ekki gleyma Benedikt Gröndal. Hann gerir nákvæmt líkan úr tré af sögufrægu húsi Benedikts Gröndals skálds sem bjó í húsinu.

Steingrímur Eyfjörð, Ekki gleyma Benedikt Gröndal, tréskúlptúr, 148 x 101,5 x 100 cm, 2007.
Listasafn Íslands: LÍ-8094

Rósa Gísladóttir, Uppstilling I, gifs, 1999.
Listasafn Íslands: LÍ 7379

Rósa Gísladóttir (1957) raðar saman stökum formum sem eru steypt í gifs í verkinu Uppstilling I frá 1999. Hún tekur mót af hversdagslegum ílátum og formum og raðar saman í hefðbundna uppstillingu í ætt við málverk. Hvítur liturinn á gifsinu dregur fram fegurð formanna.

Ragna Róbertsdóttir (1945) vinnur með náttúruefni í sínum verkum eins og stein, vikur og hraun og er meðal annars þekkt fyrir lágmyndir úr vikri sem hún kastar á ferhyrndan veggflöt. Steinskúlptúr frá 1993 er gerður úr steyptum hraungrýtissúlum sem raðað er þétt saman og mynda massíft form.

Ragna Róbertsdóttir, steinskúlptúr, 1993.
Listasafn Íslands: LÍ 7295

Ólöf Nordal, Hvítir hrafnar, gifs, 190 x 40 cm x 105,5, 1996.
Listasafn Íslands: LÍ 7353

Ólöf Nordal (1961) er þekkt fyrir fjölbreytt verk og er Þúfan sem stendur á Granda í Reykjavík einna þekktast. Hún hefur unnið skúlptúra á marga ólíka vegu, t.d. úr súkkulaði. Hvítir Hrafnar er verk eftir Ólöfu en það samanstendur af hvítum hröfnum í mismunandi stellingum sem eru mótaðir í gifs og standa á fjórum svörtum stálstöplum. Ólöf hefur gert mörg verk þar sem dýr koma við sögu. Tvíræðni og óljós merking kemur oft fram í þessum verkum sem vísa til tengsla milli þjóðsagna, goðsagna og vísinda. Hvítir hrafnar voru forboðar óvæntra atburða samkvæmt íslenskum þjóðsögum en eru um leið dæmi um frávik frá því eðlilega vegna skorts á litarefni.

Í verkum sínum vinnur Kristinn E. Hrafnsson (1960) með hugmyndina um staði, út frá tungumálinu, staðsetningu, efniviði og tíma. Verkið Tveir skyldir staðir er samsett úr tveimur hellum sem liggja á gólfi eða jörð og eru tengdir saman með málmhandriði. Verk Kristins má sjá víða í Reykjavík við byggingar og í alfaraleið t.d. í miðbænum, eins og í Austurstræti og á horni Vesturgötu og Pósthússtrætis.

Kristinn Hrafnsson, Tveir skyldir staðir, skúlptúr – blönduð tækni, 90 x 275 x 200 cm, 2000.
Listasafn Íslands: LÍ-7401

Ragnhildur Stefánsdóttir, Ingibjörg H. Bjarnason, steypt í brons, 2015.
Shutterstock

Minnismerki og höggmyndir á opinberum stöðum geyma minningar um atburði og einstaklinga. Þó að margar höggmyndir/styttur hafi verið gerðar af þekktum einstaklingum frá upphafi höggmyndalistar á Íslandi þá var það ekki fyrr en árið 2015 sem stytta af konu í fullri stærð var afhjúpuð á Íslandi. Það er styttan af Ingibjörgu H. Bjarnason eftir Ragnhildi Stefánsdóttur (1958) myndhöggvara. Ingibjörg var fyrsta konan sem kjörin var til setu á Alþingi en styttan sem er steypt í brons stendur framan við skála Alþingishússins. Ragnhildur hefur gert fjölda mannamynda en hún er annars þekkt fyrir verk sem hún vinnur í leir, gúmmí, silíkon, vax og gifs þar sem viðfangsefnið tengist innri og ytri gerð mannslíkamans.

Ingibjörg Bjarnason
Stafrænn tvíburi af verki Ragnhildar Stefánsdóttur myndhöggvara, Ingibjörg Bjarnason.
Listaverkið er staðsett við Alþingishúsið. Stafræni tvíburinn býður upp á að skoða styttuna frá óvenjulegu sjónarhorni sem erfitt er að sjá í listaverkinu sjálfu þar sem það er á háum stöpli.