Skip to main content

Hughrifin taka völdin

Impressjónisminn er oftast talinn vera fyrsta nútímalistastefnan. Impressjónistarnir voru franskir málarar sem bjuggu í París og nágrenni. Þeir yfirgáfu vinnustofur sínar og fóru að mála utandyra. Hin nýja uppfinning, að setja tilbúna olíuliti í túpur, auðveldaði listamönnum slíkt. Fyrir vikið varð litavalið mun bjartara. Þeir máluðu hratt því þeir vildu fanga augnablikið og birtubrigðin. Það þýddi að í myndunum var ekki mikið um smáatriði og pensilförin voru þykk og öll á iði. Almenningur hló að myndum þeirra, fannst þær vera ókláruð klessumálverk. Á þessum tíma hafði ljósmyndatæknin rutt sér til rúms og gerði listamönnum auðveldara að skilja eðli sjónarinnar. Það eina sem listmálarar höfðu framyfir ljósmyndara voru litirnir því ljósmyndirnar voru enn þá bara svarthvítar.

Að fanga augnablikið

Claude Monet (1840–1926) er frægasti impressjónistinn. Ungur kynntist hann listamanninum Eugène Boudin (1824–1898) sem var einn sá fyrsti til að mála utandyra. Boudin kenndi Monet meðferð olíulita og listmálun í náttúrulegu umhverfi. Faðir Monet var ekki hrifinn en ekkert gat stöðvað Monet í ástríðu hans fyrir listinni. Faðir Monet vildi að sonurinn færi í viðurkenndan listaskóla. Ef hann gerði það ekki myndi hann senda hann í hina alræmdu frönsku útlendingahersveit í Alsír. Monet var þrjóskur og kaus frekar að fara í herþjónustu í eyðimörkinni. Þar fékk hann taugaveiki en frænka hans bjargaði honum heim og taldi hann á að fara á eitt námskeið í klassískri málaralist til að sættast við föður sinn. Það var mikið gæfuspor fyrir Monet því þar kynntist hann listamönnunum Auguste Renoir (1841–1919), Alfred Sisley (1839–1899) og Camille Pissarro (1830–1903) sem urðu vinir hans og samstarfsmenn. Þetta var árið 1862 og áður en langt um leið var hann orðinn óskoraður leiðtogi þeirra. 


Hughrif, sólarupprás (Impression, levée du soleil) eftir Claude Monet.

Monet málaði þessa mynd snemma að morgni við fjölfarna höfn við ána Signu árið 1872. Hann sóttist eftir að mála í þoku og mistri þegar öll smáatriði hverfa inn í heildarmyndina. Þetta er í fyrsta sinn sem nafnið „impressjón“ var notað í tengslum við myndlist. Gagnrýnendur voru ekki seinir á sér að uppnefna Monet og félaga „impressjónista“. Það heiti var í fyrstu skammaryrði en Monet og vinir hans gengust við því og fóru að kalla sjálfa sig impressjónista og slógu þannig öll vopn úr höndum andstæðinga sinna.


Brú yfir tjörn með vatnaliljum eftir Claude Monet.

Monet gamlan draum sinn rætast og eignaðist dálitla landareign utan við París. Þar gat hann sinnt garðrækt en hún hafði alla tíð verið honum mikið áhugamál. Í garðinum var allstór tjörn með vatnaliljum og málaði Monete myndir af þeim á öllum tímum sólarhringsins. Monet málaði líka nokkur ægistór málverk þar sem hann smurði litunum þykkt á strigann. Ef þú skoðar verkin í návígi sérðu eiginlega bara málningarklessur en þegar þú fjarlægist þau birtist þér tjörnin með vatnaliljum á floti allt um kring. Sólskinið glitrar á yfirborðinu og þér finnst þú heyra dauft öldugjálfur, jafnvel fuglasöng.

Umbrotatímar

Þetta voru miklir umbrotatímar í menningunni. Margir aðrir listamenn vöktu athygli og þótt þeir hafi staðið lítið eitt til hliðar við impressjónistana þá voru þeir hluti af vinahópnum. Þetta voru Edouard Manet (1832–1883) og Edgar Degas (1834–1917). Þeir voru nokkru eldri en hinir og töldust betri borgarar. Þeir höfðu engu að síður meiri áhuga á skrautlegu mannlífinu en náttúrunni. Manet þráði viðurkenningu samborgara sinna og gerði tilraunir til að færa goðsögulegt myndefni í nútímabúning með tveimur málverkum sem hann málaði árið 1863. Þetta voru Morgunverður í skóginum og Ólympía. Bæði verkin ollu hneykslun og fyrirlitningu. Einkum var það hispurslaus málaratækni hans og blygðunarlausar naktar fyrirsætur sem fóru fyrir brjóstið á Parísarbúum. 


Morgunverður í skóginum eftir Manet.


Barinn á Les Folies Bergére eftir Manet.

Manet var næmur fyrir hinu mannlega eins og þessi mynd ber með sér. Myndin sýnir afgreiðslustúlku á þekktasta næturklúbbi Parísar innan um áfengisflöskur. Manet túlkar þarna lífsleiða nútímamannsins með afar nærfærnum hætti. Stúlkan er sviplaus, hugur hennar er ekki á staðnum. Það er engu líkara en hún óski sér að vera einhverstaðar allt annarsstaðar en við barinn á þessari stundu.

Franska listakonan Berthe Morisot (1841–1895) var meðal þeirra listamanna sem voru í fararbroddi impressjónistana. Hún var af ætt listamanna og lærði hjá franska landslagsmálaranum Camille Corot (1796–1875) sem var einn virtasti undanfari impressjónismans. Berthe Morisot kynntist Manet sem hafði djúp áhrif á hana. Sumir segja að hún hafi kennt Manet að mála utandyra og kynnt honum ýmsar nýjungar, eins og að raða litunum í hring á litaspjaldinu. Hún sýndi mikla teiknihæfileika og djörfung í tjáningu. Léttleikandi málverk hennar og vatnslitamyndir vísa langt út fyrir impressjónismann sem stílbrigði. Í sumum verkum nálgast hún sjálfsprottna abstraktlist


Stúlka með hund eftir Berthe Morisot.

Berthe Morisot málaði þessa mynd af dóttur sinni Julie Manet sem hún átti með eiginmanni sínum Eugene Manet en hann var yngri bróðir listamannsins Edouard Manet.

Edgar Degas var einnig lauslega tengdur impressjónistunum. Hann var næmur á samtíma sinn rétt eins og Manet. Hann túlkaði sambandsleysið milli einstaklinga í borgarsamfélaginu meistaralega í Absintuglasinu. Spænski listmálarinn Pablo Picasso (1881–1973) var einlægur aðdáandi Degas og gerði fjölmörg listaverk sem fjalla um Degas á einn eða annan hátt.

Mary Cassatt (1844–1926) var fædd í Bandaríkjunum en ferðaðist til Evrópu og kynntist Edgar Degas sem hreifst af verkum hennar. Cassatt og Morisot voru einu konurnar sem tilheyrðu hópi impressjónista. Þær voru báðar af stétt betri borgara en það þótti óviðeigandi að fólk úr efri stétt legði stund á listir. Cassatt lagði áherslu á skýrar og fastmótaðar línur í verkum sínum öfugt við Morisot sem vildi léttar og lifandi línur. 


Ung móðir saumar eftir Mary Cassatt, 92,4 × 73,7 cm, 1900.
Wikipedia


Absintuglasið eftir Degas. Í þessu málverki túlkar Degas einmanaleika og fyrringu nútímamannsins. Tómleiki tilverunnar endurspeglast í vonleysislegum svip konunnar á myndinni. Myndin olli talsverðu fjaðrafoki og var sett í geymslu í nokkur ár.