Skip to main content

NÝTT MÁLVERK

Með hinu svokallaða Nýja málverki sem spratt fram á árunum kringum 1980 varð málverkið að aðallistformi margra ungra myndlistarmanna á Íslandi en segja má að það hafi ekki átt upp á pallborðið hjá þeim á tíma hugmyndalistarinnar. Nýja málverkið hafði blómstrað víða í Evrópu sérstaklega í Þýskalandi en þangað fóru margir íslenskir listamenn til náms, auk Spánar, Ítalíu og Frakklands en líka til Bandaríkjanna. Tjáning listamannanna var hispurslaus þar sem tilvist mannsins og tilvistarkreppa var aðalviðfangefnið. Málverkin voru oft stór og vinnubrögðin groddaleg og kraftmikil. Segja má að nýja málverkið hafi stuðlað að endurkomu málverksins því það opnaði fyrir frjálsa tjáningu og frelsi til þess að fara eigin leiðir í málverkinu. Nýja málverkið var ærslafullt, hrátt og pönkað í nokkur ár en svo fundu flestir listamannanna sinn persónulega stíl og stefnu, ýmist í hefðbundnu málverki, máluðum myndum sem einkenndust af frásögn eða hugmyndamálverkum þar sem hugmyndalist er sett fram í myndrænni framsetningu í málverki.