Skip to main content

HANDÍÐASKÓLINN (SÍÐAR HANDÍÐA- OG MYNDLISTASKÓLINN)

Handíðaskólinn (síðar Handíða- og myndlistaskólinn) var stofnaður árið 1939 af Lúðvíg Guðmundssyni (1897-1966) sem jafnframt var fyrsti skólastjóri hans. Skólinn útskrifaði handavinnukennara fyrir barna- og unglingastigið og húsmæðraskólana. Markmið skólans var að efla verklega kennslu með því að móta íslensk stíleinkenni og leggja áherslu á íslenskt handverk. Með skólanum þróaðist heimilisiðnaðurinn yfir í listiðnað sem fór smám saman að skipa hærri sess í íslensku menningarlífi og réðst það helst af þeirri stefnu að gefa gamalli og þjóðlegri iðn nýtískulegan blæ. Með skólanum opnuðust augu manna fyrir mikilvægi handíða og spilaði íslenska ullin, listvefnaður og listsaumur þar stórt hlutverk í ýmiss konar listvarningi. Árið 1965 fékk skólinn nafnið Myndlista- og handíðaskóli Íslands og upp frá því var lögð meiri áhersla á myndlist og sjálfstæða listsköpun.