GRUNNFORM Í FRUMLITUM

STUTT LÝSING

Kynnt eru hugtökin grunnform og frumlitir og nemendur þjálfast í að beita þeim í myndgerð. Nemendur þjálfa fínhreyfingar með því að teikna eftir skapalóni, klippa út form og líma á blað. Einnig læra þau um umferðarmerki og hvað þau tákna.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi:

  • unnið eftir einföldu ferli frá hugmynd til afurðar,
  • gengið frá eftir vinnu sína.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 4. bekkjar getur nemandi

  • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
  • skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum,
  • greint á einfaldan hátt áhrif myndmáls í nærumhverfi hans.

Hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi

  • varast hættur á heimili sínu og í nágrenninu.

KVEIKJA

Byrjað er á að sýna nemendum umferðamerki og útskýrt að þau séu tákn og farið yfir hvað umferðamerki þýða. Síðan er rætt um lögun þeirra, lit o.fl. Nemendum eru einnig sýnd veggspjöld með grunnformum (hringur, þríhyrningur og ferningur) og frumlitum (gulur, rauður, blár) og farið í gegnum hvað formin og litirnir heita. Nemendur reyna nú að finna grunnform og frumliti í skólastofunni og umhverfinu. Því næst er þeim sýnt hvernig vinna eigi verkefnið og svo er hafist handa.

KENNSLUSTUND 1-2

Nemendur fá hvert um sig 1 A4 blað í hverjum frumlit fyrir sig. (Önnur útfærsla er að láta þau sjálf mála A4 blað í grunnlitunum en þá þarf að gera næstu stig verkefnisins í næsta tíma þegar málningin er þornuð.)

Nemendur nota skapalón til að teikna grunnformin þrjú á frumlitablöðin og klippa þau út. Best er að ljósrita skapalónin á karton (ef ljósritunarvélin þolir það). Nemendur geta notað hvort sem er formin sjálf eða negatífu formin.

Síðan búa nemendur til mynd að eigin vild úr sínum formum og líma á A3 karton.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvaða liti sérðu? Sérðu gula, rauða eða bláa?
Hvaða form sérðu í kringum þig? Sérðu hringi, ferninga eða þríhyrninga?

 

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, heilbrigði og velferð, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista og samfélagsgreina.

EFNI OG ÁHÖLD

A3 karton í hlutlausum lit til að líma formin á
blýantar (og strokleður ef þarf)
grunnform og frumlitir (veggspjöld)
límstifti
ljósritunarpappír eða karton í frumlitunum, eitt blað í hverjum lit á nemanda
skapalón með grunnformum
skæri
umferðarmerki (e.t.v. prenta út og hengja upp)

HUGTÖK

frumlitir

grunnform

LISTAMENN

T.d. Piet Mondrian

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022