Rannsókn á nærumhverfi

STUTT LÝSING

Verkefnið byggir á markvissri nálgun á nærumhverfi nemenda. Þar sem margir skólar kenna lotuskipt og því mismunandi á hvaða árstíma nemendur tækju svona verkefni, er gott að vinna með efnið sem hægt er að finna úti í náttúrunni á viðkomandi tíma. Einnig er hentugt að leita til blómabúða í nærumhverfi skólans sé þess kostur og fá að kaupa gömul, afskorin blóm.

MARKMIÐ

  • skapa aðstæður fyrir nemendur að vinna á skapandi hátt með eigin reynslu, þekkingu og áhugasvið. 
  • nemendur þjálfist í að beita ólíkum skynfærum við rannsókn og túlkun nærumhverfis.
  • kynna fyrir nemendum hugtakið sjónarhorn og hvernig þeir geta gert tilraunir með náttúruleg efni og fjölbreyttar aðferðir.
  • auka tengsl nemenda við nærumhverfi sitt og náttúru.
  • nemendur þroski með sér virðingu og samkennd með lífi, náttúru og umhverfi með því að skapa listaverk.
  • efla ímyndunarafl nemenda.

HÆFNIVIÐMIÐ

Verkefnið stuðlar að því að við lok 4. bekkjar geti nemandi …

  • greint á einfaldan hátt áhrif myndmáls í nærumhverfi hans, með því að ræða og greina ólíka staði í nærumhverfi skólans (Sjónlistir, bls. 149)
  • valið efni út frá umhverfissjónarmiðum og sagt frá kostum þess að nota efni úr nærumhverfi (Hönnun og smíði, yngsta stig, bls. 157)
  • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar, með því að skapa dýr og og líkan sem sýnir valinn stað í náttúrunni úr náttúrulegum og endurnýtanlegum efnivið (Sjónlistir, bls. 148)
  • unnið út frá kveikju við eigin listsköpun, með því að taka þátt í að ákveða hvað vert er að skoða og skrá niðurstöður í rannsóknardagbók (Sjónlistir, bls. 149)
  • skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum, með því að vinna sjálfstætt og sýna áræðni með tilraunum sínum og listsköpun (Sjónlistir, bls. 149)
  • fjallað um eigin verk og annarra (Sjónlistir, bls. 149)
  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki, með því að segja frá verkum sínum og hugmyndum (Sjónlistir, bls. 149)
  • útskýrt á einfaldan hátt áhrif vinnu sinnar á umhverfið, með því að tengja við hvernig umhverfið og það efni sem unnið var með hafði áhrif á listsköpunina (Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreina, bls. 142)
  • tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt, með því að tengja við eigin reynslu, skoðanir og/eða tilfinningar með fjölbreyttum efnivið (Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreina, bls. 142)
  • lagt mat á eigin verk með því að tengja við upplifun á samspili manns og náttúru (Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreina, bls. 142)

VINNUSTOFA

Staðir og rými

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun

ÞVERFAGLEG TENGING

Náttúrufræði, stærðfræði, heimilisfræði, samfélagsfræði, upplýsingatækni

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

8 x 40 mínútur

EFNI OG ÁHÖLD

A2 teiknipappír

A3 / A4 þykkur pappír, vatnslitapappír eða þykkur pappi

Kol, blýantar, litakrítar, tússpennar, vatnslitir, vaxlitir

Mjög fjölbreytt efnisveita með náttúrulegan efnivið, endurnýtt efni og símjúkur leir

Krukkur, box eða pokar til að safna sýnum

Myndavél (símamyndavél), prentari

HUGTÖK

Land Art
fundið efni
samhverfa
form
áferð
sjónarhorn

LISTAMENN / HÖNNUN

Andy Goldsworthy
Hildur Bjarnadóttir
Kristján Steingrímur Jónsson
Richard Long
Raku Inoue

 

KVEIKJA

Kennari kynnir markmið verkefnisins. Áður en lagt er af stað í vettvangsferð skapar hann umræðu um hvað hægt er að skoða á ólíkum stöðum.
Leikur: Kennari/nemendur finna til ýmist smádót, náttúrulegt eða manngert, eins og t.d. köngul, stein, laufblað, kubb, bolta, dúkku. Smádótið setur hann í poka. Hver og einn nemandi þreifar á hlutunum og velur síðan einn hlut. Áður en hann dregur hlutinn upp, giskar hann á hvað hluturinn er. 

Listaverk: Kennari sýnir verk eftir Kristján Steingrím Jónsson, Hildi Bjarnadóttur, Richard Long og útskýrir hvernig þau nýta efni af völdum stöðum. Hann sýnir líka verk eftir Raku Inoue og útskýrir hvernig hann vinnur skordýr úr plöntum. Með því að nota blóm, lauf, kvisti og fræ skapar Raku Inoue flóknar myndir af skordýrum. Nemendur raða hlutunum sem þeir fundu upp í skordýr í anda dýranna hans Inoue. Leitarorð: Raku Inoue | Raku Inoue insects

Verkefnið

Kennari velur svæði þar sem náttúru er að finna í nærumhverfi skólans.

Kennslustundir 1-2

Kennari útbýr með nemendum rannsóknardagbók þar sem hver og einn nemandi fær A2 örk og brýtur hana og klippir á eftirfarandi hátt:

Kennari ræðir við nemendur um hvað hægt er að skoða á ólíkum stöðum. Rætt er um skynfærin, hvað við nemum með ólíkum skynfærum. Hópurinn ræðir hljóð, hreyfingu, áferð, yfirborð, form á gróðri, það sem sést og það sem ekki sést, tilfinningar fyrir stöðum, liti o.s.frv. Kennari ræðir líka hugtakið sjónarhorn, áhrif tíma á staði og hvaða áhrif manneskjan hefur á staði. Kennari kynnir nemendur fyrir völdum listamönnum, eins og þá sem nefndir eru hér að framan.

Kennari og nemendur útbúa lista yfir þá þætti sem þeir ætla að skoða í rannsóknarferðinni. Mikilvægt er að nemendur upplifi að þeir séu hluti af ákvörðuninni. Hver nemandi velur sér dýr sem sinn fulltrúa til að skoða staðinn. Það getur verið ímyndað furðudýr ef áhugi er á því. Í næstu kennslustund taka nemendur mynd af staðnum út frá sjónarhorni þess dýrs sem þeir völdu. Tilvalið er að vinni þetta verkefni í pörum eða litlum hóp til að fá áhugaverðar umræður.

Kennslustundir 3-4

Kennari og nemendur fara í könnunarleiðangur. Hver nemandi er með rannsóknardagbókina meðferðis, liti, blýant, penna, litakrítar, vaxliti og kol. Gott er að vera með ódýra vatnsliti sem nemendur geta auðveldlega blandað með því að bleyta fingurna og náð niður þeim litum sem höfða til þeirra. Nemendur og kennari rifja upp hvað þeir skráðu á listann í síðustu kennslustund og nemendur vinna í rannsóknardagbókina. Kennari minnir nemendur á að gera tilraunir með ólíkan efnivið. Hann hvetur nemendur til að snerta á hlutum og túlka áferðina og tilfinninguna sem fylgir snertingunni.

Hver nemandi skoðar staðinn út frá sjónarhorni dýrsins sem hann valdi og tekur mynd frá því sjónarhorni. Ef dýrið er hávaxið þá er myndavélin hátt uppi, ef dýrið er lágvaxið þá er sjónarhornið tekið frá jörðinni. Hvar myndi dýrið vilja vera á staðnum? 

Nemendur safna saman í box hlutum sem þeir finna á staðnum, bæði náttúrulegum og aðskotamunum. Nemendur og kennari taka jarðvegssýni (mold, leir, laufblöð, ber o.s.frv.) sem notað verður til listsköpunar í kennslustofu.

Kennslustundir 5-6

Nemendur og kennarar skoða og ræða rannsóknardagbækurnar. Hvað er líkt og hvað er ólíkt í þeim? Nemendur mála myndir af staðnum með rannsóknardagbókina til hliðsjónar. Hver nemandi fær útprent með ljósmyndinni sem þeir tóku af sjónarhorninu. Nemendur nota jarðveginn og gróðurinn sem efnivið. Ef verkefnið er unnið að hausti er hægt að safna grasi og ýmiskonar gróðri og búa til úr því vatnsliti í anda Hildar Bjarnadóttur. Þá er gróðurinn soðinn í vatni. Verkefnið býður upp á samvinnu við heimilisfræði, náttúrufræði og upplýsingatækni.

Kennslustundir 7-8

Kennari útbýr efnisveitu þar sem munirnir sem nemendur komu með úr vettvangsferð eru í lykilhlutverki. Einnig er lögð áhersla á mjúkan leir og ýmiskonar annað efni. Nemendur nota efnisveituna til að búa til dýrið sem þeir unnu með í vettvangsferðinni. Þeir geta ýmist raðað saman efni ofan á myndina sem þeir gerðu í kennslustund 3 eða útbúið þrívítt dýr. Þá getur kennari/nemandi tekur ljósmynd af dýrunum með myndina úr kennslustund 3 sem bakgrunn. Kennari prentar út eina ljósmynd fyrir hvert barn eða nemendur eru með myndina í snjalltæki. Nemendur hengja upp verkin sín og ræða inntak þeirra og nærumhverfi skólans.

Sýning á verkum nemenda getur verið á stafrænu formi og sett á heimasíðu skólans eða stillt upp á ákveðinn stað í skólanum. Bjóða má foreldrum og forráðamönnum á sýningu.

Umræðuspurningar

  • Hver gerði umhverfið okkar?
  • Hver er munurinn á manngerðu og náttúrulegu umhverfi? 
  • Hvar líður ykkur best í nágrenni skólans? 
  • Hvaða dýr gætu viljað búa á þessum stað? 
  • Með hvaða efni fannst ykkur skemmtilegast/þægilegast að vinna? Hvers vegna? 
  • Fannst ykkur óþægilegt eða jafnvel ógeðslegt að koma við eitthvað af þeim efnum sem stóðu til boða?