Það er fátt í tilverunni sem hefur jafn mikil áhrif á okkur og tíminn en samt eigum við oft erfitt með að skilja tímann til hlítar. Hann er einhvers konar einstefnugata sem við ferðumst eftir; við getum litið til baka og rifjað upp fortíðina en við getum ekki stoppað og snúið til baka ef við hefðum viljað gera eitthvað öðruvísi. Okkar eini kostur er að halda áfram að ganga tímans veg og þá er gott að geta horfst í augu við tímann, sæst við það sem liðið er frekar en að streitast á móti. Þannig getum við lært af reynslu okkar í fortíðinni og haft áhrif á hvaða stefnu framtíð okkar tekur, því þekking og skilningur færir okkur ákveðið vald yfir lífi okkar.
Tíminn hefur á sér tvær hliðar; hina áþreifanlegu, mælanlegu annars vegar og hina skynjuðu, huglægu hins vegar. Hina mælanlegu hlið tímans má sjá til dæmis í skólagöngu okkar þar sem tíminn birtist okkur sem skólaár, annir, vikur, kennslustundir og frímínútur. Tíminn er einnig sýnilegur í öllu umhverfi okkar. Hann birtist okkur sem hrörnun og niðurbrot; ryð á bílum, fallinn torfbær, slitinn klæðnaður, veðrun, öldrun og úrelt tækni svo sem gamall skífusími. En tíminn birtist okkur einnig sem uppvöxtur og framrás; tré stækka, börn þroskast og tækninýjungar skjóta upp kollinum. Þessar tvær sýnilegu birtingarmyndir tímans, sú skynjaða og sú mælanlega, mynda hina óstöðvandi hringrás alls sem er.
Lífi okkar er skipt niður í hólf; við teljum aldur okkar í árum sem við mælum með árstíðunum. Árstíðunum er skipt upp í mánuði sem hver hefur sinn blæ, mánuðir líða áfram viku fyrir viku sem aftur eru samsettar af sólarhringum sem líklega eru sá hluti framvindu tímans sem við dveljum mest við; nýr dagur, nýtt líf. Sérhverjum degi er skipt niður í smærri einingar; klukkustundir, mínútur, sekúndur og jafnvel millisekúndur. Við krýnum gullverðlaunahafa í spretthlaupi á grundvelli sekúndubrota; andartaks sem líður hjá áður en við áttum okkur á því að það hafi komið.
Hver kannast ekki við að finna fyrir þyngd tímans (e. weight of time). Þegar við glímum við viðfangsefni sem falla ekki að hinni hröðu framvindu hans finnum við hvernig mínúturnar silast áfram: biðstofa hjá lækni, daufleg kennslustund, strætóferð og uppvaskið eru dæmi um fyrirbæri sem mörgum virðast hægja á framrás tímans. Okkur fer að leiðast og við verðum skyndilega meðvituð um okkur sjálf, við seilumst eftir símanum í vasanum, tímaritinu á borðinu eða lítum endurtekið á klukkuna; fer þessu ekki að ljúka? Á hinn bóginn virðist tíminn stundum þyngdarlaus, einkum þegar við erum að fást við verkefni sem vekja hjá okkur ánægju og eru hæfilega krefjandi. Þetta er kallað að komast í flæði en það er ástand þar sem við rennum saman við viðfangsefni okkar, skynjun okkar á tímanum dofnar eða hverfur og nánasta umhverfi virðist gufa upp. Ungverski sálfræðingurinn Mihály Csíkszentmihályi skilgreindi fyrirbærið fyrstur manna og tengdi það við hina æðstu reynslu (1990). Talið er að innihaldsríkt og merkingarbært nám fari fram þegar nemendur komast í flæðisástand. Til þess að nemendur komist í flæði er talið mikilvægt að skapa aðstæður fyrir þá svo þeir nái að tengja við eigin reynslu bæði utan skóla sem og milli ólíkra námsgreina.