Hreinn Friðfinnsson, Attending, 1973.
Listasafn Íslands: LÍ 8048

UM AÐFERÐINA

Ljósmyndir skipa veglegan sess í daglegu lífi fólks í samtímanum og erfitt er að ímynda sér lífið án ljósmynda svo samofnar sem þær eru persónulegu og almennu umhverfi okkar í dag. Ljósmyndir búa yfir ýmsum eiginleikum sem almenningur jafnt sem menntaðir ljósmyndarar nýta sér. Þær geyma minningar og geta gegnt hlutverki heimilda um ýmsa atburði í lífi fólks og merka viðburði í veraldarsögunni. „Kosturinn við ljósmyndina fram yfir allt annað er að það er ekki til svo ómerkileg mynd að hún verði ekki stórmerkileg með aldrinum“[1], er haft eftir Guðmundi Ingólfssyni ljósmyndara sem hefur verið í framvarðasveit íslenskra ljósmyndara um árabil. Það er einmitt grundvallareðli ljósmynda að þær skrá heiminn eins og hann er á því augnabliki þegar linsunni er beint að honum. Hagnýtt gildi ljósmynda er óumdeilanlegt og í dag hafa flest allir aðgang að myndavél og óhætt er að segja að aldrei fyrr hafi jafn mikið verið tekið af ljósmyndum.

En ljósmynd er líka listrænt form og miðill sem á sér merka sögu þar sem þróun ljósmyndatækninnar og listræn framsetning ljósmynda fléttast saman. Í samhengi listasögunnar er saga ljósmyndunar stutt þó að áhrif hennar á aðra listmiðla og þróun myndlistar hafi verið mikil allt frá upphafi ljósmyndunar. Ljósmyndin varð fljótt umdeild innan listarinnar og menn voru ekki á einu máli um hvar staðsetja ætti þetta nýja listform enda var ýmist litið á það sem tækni eða listmiðil. Í fyrstu var ljósmyndinni stillt upp sem andstæðu málverksins, margir listamenn afneituðu ljósmyndinni og fannst hún ógna myndlistinni, sérstaklega málverkinu. Aðrir fögnuðu og sáu í henni tækifæri til þess að fanga veruleikann á hlutlausan hátt. Enn aðrir nýttu sér tæknina sem hjálpargagn við listsköpunina og höfðu ljósmyndir til hliðsjónar við vinnu sína. Ljósmyndin er form fjölföldunar en málverkið einstakur listhlutur.[2]
[1] Einar Falur Ingólfsson, „Guðmundur Ingólfsson, „Þetta gerist hratt“, Skírnir, 01.04.2009, 241
[2] Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, „Ljóslifandi saga“, https://www.mbl.is/greinasafn/grein/691138/

Camera obscura (myrkvað herbergi).
Shutterstock

Upphaf ljósmyndunar

Fyrirrennari myndavélarinnar kallast Camera obscura eða myrkvað herbergi. Tæknin felst í því að gera örlítið gat, ljósop, á svartan kassa eða gluggalaust herbergi og láta geisla sólarinnar varpa skuggamynd á hvolfi á gagnstæða hlið eða vegg kassans sem er svo teiknað eftir.[1] Heimildir sýna að menn voru farnir að gera tilraunir með slíka tækni í fornöld en það var þó ekki fyrr en á 16. öld sem listamenn fóru að nota camera obscura markvisst sem hjálpartæki við listsköpun til að teikna útlínur myndarinnar sem varpaðist á vegginn eða efnið.
[1] Sigrún Sigurðardóttir, Afturgöngur og afskipti af sannleikanum, Þjóðminjasafn Íslands, 2009, 17

Camera lucida var líka notað sem hjálpartæki til að draga upp myndir. Aðferðin sem leit dagsins ljós árið 1807 fólst í svipaðri tækni og camera obscura en var minna og handhægara tæki. Í stað myrkvaðs rýmis er vörpunin gerð í birtu. Glerplata sem brýtur upp ljósgeisla er fest á stiku fyrir ofan teiknibretti. Glerið er staðsett milli teiknarans og pappírsins þannig að hann sér myndina sem ætlunin er að teikna eftir varpast á flötinn og getur þannig dregið útlínur eftir henni.

Camera lucida.
Wikimedia

David Hockney enskur ljósmyndari, prentari, teiknari, málari og sviðshönnuður.
Wikimedia

Margir af „gömlu meisturunum“ notuðu þessa tækni en af síðari tíma málurum má t.d. nefna breska listmálarann David Hockney (1937) sem hefur meðal annars nýtt sér aðferðina við gerð portrettmynda.

Fyrstu myndatökurnar tóku óralangan tíma og mikla fyrirhöfn og þær fölnuðu fljótt. Vandamálið var því að gera myndina varanlega á pappír og margir kepptust um að verða fyrstir til þess.[1] Frakkinn Joseph Nicéphore Niépce (1765–1833) gerði tilraunir með að taka mynd á pappír og árið 1826 tókst honum að taka ljósmynd á tinplötu sem þó átti enn eftir að þróa.
[1] Sama heimild 18

Joseph Nicéphore Niépce franskur uppfinningamaður.
Wikimedia

Louis Jacques Daguerre listamaður og efnafræðingur.
Wikimedia

Eftir áratuga tilraunir manna til að festa myndir á pappír kom Frakkinn Jacques Daguerre (1787–1851), sem jafnan er talinn faðir ljósmyndatækninnar, fram með nýja tækni árið 1838 sem markar upphaf ljósmyndunar.[1] Hann einbeitti sér að því að stytta myndatökutímann og þróaði aðferðir sem byggðust á niðurstöðu Niépces. Aðferð Daguerre sem kallast „Dagerrótýpa“ fólst í því að bera silfurnítrat á koparplötu sem var gerð ljósnæm með joðblöndu, platan var svo lýst í myndavél og myndin framkölluð í kvikasilfursgufu.[2]
[1] Inga Lára Baldvinsdóttir, Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945, JPV útgáfa og Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík, 2001, 10
[2] Sigrún Sigurðardóttir, 2009, 19

Englendingurinn William Henry Fox Talbot (1800–1877), sem var einn af frumkvöðlum ljósmyndatækninnar, fann upp aðferð sem kallast Talbottýpa árið 1841. Með þeirri aðferð var hægt að gera jákvæðar pappírskópíur eftir frummyndinni og fjölfalda myndir.[1]

Þáttaskil urðu í sögu ljósmyndarinnar árið 1888 þegar Georg Eastman (1854–1932) fór að framleiða filmur á spólum hjá fyrirtæki sínu Eastman Kodak Company sem auðveldaði almenningi að spreyta sig á ljósmyndun. Fyrirtækið var leiðandi í þróun ljósmyndatækni á síðustu öld.

Árið 1886 skrifaði Peter Henry Emerson greinina „Photography: A Pictorial Art“ þar sem lögð er áhersla á að ljósmyndun skuli flokkast meðal annarra listgreina. Ný stefna í ljósmyndun, Piktorialismi, varð til í kjölfar greinarinnar. Þar var lögð áhersla á að fagurfræðilegt gildi ljósmyndarinnar hefði meira vægi en sannleiksgildið. Ljósmyndarar áttu að líkja eftir vinnubrögðum listmálaranna, þar sem fegrun og lagfæring er möguleg og leikið með litbrigði ljóss og skugga. Hinn fagurfræðilegi þáttur ljósmyndarinnar sem miðils var aðalatriðið. Þeir ljósmyndarar sem aðhylltust þessa stefnu litu á sig sem listamenn fyrst og fremst og héldu sýningar á verkum sínum. Með piktorialismanum var brotið blað í ljósmyndasögunni því hann ýtti undir sjálfstæði listformsins þar sem eiginleikar og möguleikar miðilsins voru aðalatriðin.[2]
[1] Inga Lára Baldvinsdóttir, 10
[2] Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir

Starfsfólk William Henry Fox Talbot’s.
Wikimedia

Einn þekktasti ljósmyndari síns tíma Julia Margaret Cameron (1815–1879) fékk myndavél að gjöf þegar hún var 48 ára gömul og þar með hófst ljósmyndaferill hennar. Hún gerði ýmsar tilraunir með ljósmyndun og leit fyrst og fremst á sig sem listamann. Hún vildi upphefja ljósmyndina og taldi hana með æðri listum. Í ljósmyndum lagði hún áherslu á fegurð og ljóðræna túlkun án þess að fórna sannleiksgildi ljósmyndarinnar. Margar af portrettmyndum hennar eru meðal þeirra allra þekktustu í ljósmyndasögunni.[1] Í myndum sínum af vinum og ættingjum jafnt sem þekktum einstaklingum, leitaðist hún við að fanga persónuleika fólksins sem sat fyrir hjá henni bæði útlit þess og skapgerð. Mjúk skerpa einkenndi myndir hennar eins og þær væru aðeins úr fókus. Cameron hélt margar sýningar á ljósmyndum sínum sem vöktu mikla athygli.
[1] Sama heimild

Bandaríski ljósmyndarinn Alfred Stieglitz (1864–1946) var fremstur í flokki piktorialista í Bandaríkjunum. Hann hreifst af fagurfræði borgarinnar og myndaði daglegt líf borgarbúa, vélar og tækni og endurspeglaði þannig samtímann í verkum sínum. Stieglitz beitti sér fyrir viðurkenningu ljósmyndunar sem listmiðils og rak þekktan sýningarsal í New York þar sem hann kynnti nýjustu stefnur og strauma í myndlist.[1]

Eftir margskonar tilraunir með litmyndatækni og litljósmyndun festi hún sig loks í sessi árið 1907. Menn voru í fyrstu hugfangnir af þessum nýja möguleika í ljósmyndun en greindi þó á um kosti hans og sumir voru hreinlega á móti ljósmyndum í lit. Ákveðinn rígur skapaðist á milli þeirra sem unnu af listrænum metnaði með ljósmyndina í svarthvítu og þeirra sem unnu í lit.[2] Á síðari tímum velja ljósmyndarar það sem helst hentar viðfangsefni þeirra hverju sinni.
[1] Marien, Mary Warner, Photography, A Cultural History, Laurence King Publishing, 2006, 182
[2] Einar Falur Ingólfsson, „Hin umdeilda bylting litmyndin“, Morgunblaðið 13. ágúst 2007

Alfred Stieglitz, The Steerage, 1907.
Wikimedia

Sigfús Eymundsson, ljósmynd af fyrsta bílnum sem kom til Íslands, mynd tekin 1904.
Wikimedia

Ljósmyndun á Íslandi

Elstu varðveittu ljósmyndir sem teknar eru á Íslandi eru yfirlitsmyndir af Reykjavík sem franski vísindamaðurinn Alfred Des Cloizeaux (1817–1897) tók á árunum 1845 og 1846 þegar hann var hér við rannsóknir. Myndirnar eru einu daguerró–týpurnar sem teknar eru utandyra á Ísland og hafa varðveist.[1] Aðeins tveir Íslendingar þeir Helgi Sigurðsson (1815–1888) og Siggeir Pálsson (1815–1866) lærðu að taka ljósmyndir með aðferð Daguerres en myndir þeirra hafa ekki varðveist. Um og eftir miðja 19. öld komu margir erlendir leiðangursmenn til Íslands í ýmsum erindagjörðum. Þeir tóku myndir sem eru mikilvæg heimild um lifnaðarhætti fólks á þeim tíma.

Fyrsti íslenski ljósmyndarinn sem gerði ljósmyndun að ævistarfi var Sigfús Eymundsson (1837–1911). Hann var bókbindari og fór til frekara náms til Bergen þar sem hann lærði einnig ljósmyndun. Heimkoma Sigfúsar árið 1866 markar þáttaskil í ljósmyndun á Íslandi. Hann rak ljósmyndastofu í Reykjavík í rúm 40 ár allt til ársins 1909 og bryddaði upp á ýmsum nýjungum. Hann er einna þekktastur fyrir mannamyndir sínar enda var enginn maður með mönnum nema hafa verið myndaður af Sigfúsi.[2] Árið 1874 hóf hann markvisst að taka myndir af landslagi og ferðamannastöðum eins og Þingvöllum, Gullfossi, Geysi og Heklu. Myndir hans frá þjóðhátíðinni á Þingvöllum árið 1874 eru elstu ljósmyndir af sögulegum atburði á Íslandi.[3]
[1] Inga Lára Baldvinsdóttir, 12
[2] Sama heimild, 27
[3] Sama heimild, 29

 

Ljósmyndurum fjölgaði smám saman á Íslandi og ljósmyndastofur spruttu upp samfara því á fyrstu árum tuttugustu aldar. Einn þeirra var Magnús Ólafsson (1862–1937) en hann opnaði ljósmyndastofu í Reykjavík árið 1901. Myndir sem hann framleiddi með svokallaðri stereóskóptækni nutu mikilla vinsælda. Hún fólst í því að teknar voru tvær myndir frá sama sjónarhorni með þriggja þumlunga millibili og þær skoðaðar hlið við hlið í sérstökum kíki. Þannig renna myndirnar saman í eina mynd sem virðist í þrívídd. Magnús ferðaðist víða til þess að taka myndir af landinu sem hann svo framleiddi í því skyni að kynna landsmönnum og erlendum ferðamönnum allar byggðir landsins.[1] Hann var fyrsti ljósmyndarinn hér á landi sem notaði leifturljós við myndatökur en það gerði ljósmyndurum kleift að að taka myndir í heimahúsum og af fólki við vinnu á fjölbreyttum vinnustöðum. Magnús lærði ljósmyndun hjá Sigfúsi Eymundssyni og hjá danska hirðljósmyndaranum Peter Elfelt í Kaupmannahöfn.[2]
[1] Sama heimild, 54
[2] https://www.ljosmyndarafelag.is/, Hilmar Karlsson, Saga félagsins

Sigríður Zoëga. Ferðamaður, flautuketill, hópmynd, kaffiketill, prímus, tjald. Mynd tekin um 1920–1930.
Ljósmyndasafn Íslands: Lpr/2015-325-89

Sigríður Zoëga. Hópmynd, kona. Mynd tekin um 1918.
Ljósmyndasafn Íslands: SZ1 6909

Sigríður Zoëga (1889–1969) var ein þeirra ljósmyndara sem komu fram á sjónarsviðið á Íslandi á árunum 1913–1925. Hún lærði ljósmyndun í Reykjavík, Kaupmannahöfn og Þýskalandi og rak ljósmyndastofu í Reykjavík í fjóra áratugi. Hún helgaði sig myndatökum af fólki og lagði áherslu á formræna byggingu sviðsetningu í rýminu og mjúka birtu.[1]

Miklar tæknibreytingar hafa orðið í ljósmyndagreininni í tímans rás og árið 1994 kom á markað fyrsta stafræna myndavélin. Íslenskir ljósmyndarar voru fljótir að tileinka sér nýju tæknina. Frá árinu 2000 hefur stafræn ljósmyndun að mestu komið í stað filmuljósmyndunar. Þessi aðferð gerir það mögulegt að skoða myndina strax eftir að hún er tekin og vinna hana með stafrænni myndvinnslu.

Ljósmyndun kemur víða við sögu og ljósmyndarar vinna á ólíkum sviðum þó markmiðið sé alltaf það sama, að fanga augnablikið í víðum skilningi. Þannig starfa ljósmyndarar sem blaðaljósmyndarar, iðnaðar- og auglýsingaljósmyndarar, tískuljósmyndarar, á ljósmyndastofum auk þeirra sem nýta tæknina sem listmiðil.

Hér eru nokkrir íslenskir ljósmyndarar kynntir til sögunnar og fjölbreytt viðfangsefni þeirra.
[1] Inga Lára Baldvinsdóttir, 71

Guðmundur Ingólfsson (1946) hefur meðal annars starfað við iðn- og auglýsingaljósmyndun á eigin ljósmyndastofu. Hann hefur líka sinnt heimildaljósmyndun og tekið myndir fyrir leikhús auk þess að vinna að eigin verkefnum. Í ljósmyndum sem Guðmundur vinnur út frá eigin forsendum fer iðulega saman skrásetning og formræn áhersla. Undanfarin ár hefur Guðmundur skrásett með svarthvítum ljósmyndum byggingar, oft gamalt iðnaðarhúsnæði og arkitektúr á fallanda fæti. Guðmundur hefur einnig ljósmyndað íslenskt landslag þar sem hann leggur áherslu á mörk náttúrunnar og hins manngerða. Ljósmyndir hans eru því í senn persónuleg listaverk en einnig heimildir um staði, hönnun og arkitektúr.[1] Guðmundur lærði ljósmyndun hjá Otto Steinert í Essen í Þýskalandi á árunum 1968–1971.
[1] http://www.ljosmyndaskolinn.is/index.php/gudmundur-ingolfsson/

Mynd: Guðmundur Ingólfsson. Baðstaður, gufuaflsvirkjun, kona, lón, orkuver, póstkort. Mynd tekin um 1995–1999.
Ljósmyndasafn Íslands Pk/2003-14-6

Guðmundur Ingólfsson. Baðstaður, gufuaflsvirkjun, kona, lón, orkuver, póstkort. Mynd tekin um 1995–1999.
Ljósmyndasafn Íslands Pk/2003-14-6

Ragnar Axelsson (1958) lærði ljósmyndun hjá Ingibjörgu Kaldal og hóf störf sem fréttaljósmyndari aðeins átján ára gamall en hann hefur auk þess unnið sjálfstætt að verkefnum víða um heim. Hann hefur meðal annars myndað fólk, dýr, landslag og veður á afskekktustu stöðum á norðurslóðum, á Íslandi, Grænlandi og Síberíu sem er meginuppistaða bókanna Andlit norðursins (2004 / 2016), Veiðimenn norðursins (2010) og Fjallaland (2013). Ljósmyndabókin Jökull (2018) er einskonar óður til jökla á Íslandi. Svarthvítar ljósmyndirnar sem teknar eru úr flugvél birta nánast abstrakt sýn á form, áferð og mynstur jöklanna og mannlaust landslag. Ragnar eða RAX eins og hann er oft kallaður hefur haldið fjölda sýninga og myndir hans hafa birst í þekktum tímaritum eins og LIFE, Newsweek, Time og fleiri og hann hefur unnið til fjölda viðurkenninga fyrir verk sín.

Mynd: Ragnar Axelsson, Andlit norðursins, 2004.

Katrín Elvarsdóttir (1964) lauk B.F.A. gráðu frá Art Institute í Boston árið 1993 og stundaði nám í ljósmyndun við Brevard Community College í Boston árið 1990.

Hún hefur sýnt verk sín víða, bæði í Bandaríkjunum, Evrópu og á Íslandi og gefið út bækur með verkum sínum. Hún leitast við að fanga augnablikið og kyrrðina. Segja má að hið ímyndaða renni saman við hversdagslegan veruleikann þar sem undirliggjandi frásögn gefur ímyndunaraflinu lausan taum. Mjúk skerpa, andstæður ljóss og skugga, mynda dulúðuga áferð og draumkennt andrúmsloft.

Katrín Elvarsdóttir, Sporlaust. 2013.

Einar Falur Ingólfsson (1966) stundaði nám í ljósmyndun í School of Visual Arts í New York. Hann hefur unnið sem blaðaljósmyndari jafnframt því að gera ljósmyndaverk sem hann hefur sett fram á sýningum og bókum. Í myndröðinni Skjól frá 2010 myndar Einar Falur ýmiss konar skjól í náttúrunni sem skepnur nýta sér og gerir þau að táknmyndum skjólsins sem þjóðin leitaði að í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Hann hefur líka fetað í fótspor W.G. Collingwood sem ferðaðist um Ísland á síðari hluta 19. aldar og málaði vatnslitamyndir af sögustöðum á Íslandi. Einar Falur tók röð ljósmynda á sömu slóðum sem hann nefnir Sögustaðir þar sem ummerki samtímans eins og skilti, skurðir, malbik, hús og fólk hafa bæst við sögusviðið og landslagið. Gefin var út bók um verkefnið samhliða sýningu í Þjóðminjasafninu.

Mynd: Einar Falur Ingólfsson – Elínborg Una í sóttkví vegna kórónuveirunnar covid-19, Skógarseli á Mosfellsheiði, mars 2020.
Listasafn Íslands: LÍ 11717

Pétur Thomsen (1973) skoðar samband mannsins við umhverfi sitt í samhengi náttúru, byggingarlistar og skipulags í verkum sínum. Hann beinir sjónum að því á hvaða hátt virkjanir, skurðgröftur og byggingarframkvæmdir hafa áhrif á landslag og umhverfi svo mörk hins manngerða og náttúrulega raskast. Meðal verka hans er ljósmyndaröðin Aðflutt landslag sem unnin var á árunum 2003–2006, þar sem hann fjallar um framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun sem er í senn ádeila á inngrip mannsins og skráning á stórtækum framkvæmdum. Pétur lauk MFA gráðu í ljósmyndun í Frakklandi og hlaut alþjóðleg unglistarverðlaun árið 2004. Árið 2005 var hann valinn einn af 50 áhugaverðustu ljósmyndurum framtíðarinnar.

Mynd: Pétur Thomsen, Aðflutt landslag, 2003.
Listasafn Íslands: LÍ 8643

Hallgerður Hallgrímsdóttir. Dauðadjúpar sprungur. Mynd tekin um 2015–2018
Listasafn Íslands: LÍ-11545-0

Hallgerður Hallgrímsdóttir (1984) stundaði nám í Listrænni ljósmyndun við Glasgow School of Art og lauk MA prófi frá Valand Academi í Gautaborg. Hún skoðar hversdagslega staði í fjölbreyttum verkum sínum hvort sem um er að ræða landslag, uppstillingar eða myndir af fólki og leggur áherslu á að ljósmyndin sé aðeins tillaga að túlkun veruleikans en ekki sannleikurinn. Hún hefur haldið sýningar á verkum sínum hér á landi og erlendis.

Saga Sigurðardóttir (1986) lærði tískuljósmyndun í London college of fashion. Hún hefur unnið fjölda verkefna á sviði tískuljósmyndunar fyrir þekkt vörumerki og myndir hennar hafa birst í tímaritum víða um heim. Hún fer gjarnan óhefðbundnar leiðir í myndbyggingu og leikur sér með samspil ljóss og skugga og óvæntar samsetningar hvort sem um er að ræða mannamyndir eða myndir sem teknar eru í náttúrunni eða borgarlandslagi.

Margir myndlistamenn nota ljósmyndina til þess að miðla hugmyndum sínum án þess að telja sig ljósmyndara, sérstaklega þeir sem vinna innan hugmyndalistar. Ljósmyndin uppfyllti einmitt þau skilyrði sem hugmyndalistin setti, að hafna handverki og handbragði listamannsins. Ljósmyndin var kjörin til þess að varðveita liðin augnablik frásagna og hugmynda sem listamennirnir settu gjarnan fram í myndröðum. Ljósmyndin er áberandi í verkum listamanna sem störfuðu innan SÚM hreyfingarinnar sem var formlega stofnuð árið 1968. SÚM var hópur listamanna sem gerði uppreisn gegn stofnanavæðingu listarinnar og hafnaði fagurfræðilegu inntaki listarinnar líkt og erlendir áhrifavaldar sérstaklega frá Hollandi.

Ljósmyndari Saga Sigurðardóttir.

Sigurður Guðmundsson, Mountain

Sigurður Guðmundsson, Mountain, mynd tekin um 1980–1982.
Listasafn Íslands: LÍ-8101

Verk Sigurðar Guðmundssonar (1942), sem eru á skáldlegum og heimspekilegum nótum, vinnur hann í marga miðla, ljósmyndir, höggmyndir, teikningar, grafík og gjörninga þar sem áherslan er á skáldlega og heimspekilega nálgun. Hann lærði myndlist hér á landi á árunum 1960–1963 en hélt síðan til framhaldsnáms í Hollandi um þriggja ára skeið. Hann settist að í Hollandi til frambúðar árið 1970 sem leiddi til sterkra tengsla við hollenska listasenu en margir íslenskir listamenn fóru þangað til náms og dvalar á áttunda áratug tuttugustu aldar.

Ljósmyndaverk hans byggjast gjarnan á hugmyndum um tengsl tungumáls, texta, mynda og hluta á oft spaugilegan hátt. Hann hefur þó ekki viljað líta á ljósmyndaverk sín sem hreinar ljósmyndir heldur sem höggmyndir og vindur þannig upp á hefðbundna skilgreiningu á miðlunum. Ljósmyndirnar vitna meðal annars um samsvörun tungumálsins og hlutveruleikans þar sem gerður er greinarmunur á áþreifanlegum hlut, mynd af hlut og orðinu sem greinir hann frá öðrum hlutum eins og í ljósmyndinni Realisatie frá 1970–71. [1]

Í ljósmyndaverkum frá miðjum áttunda áratug síðustu aldar er Sigurður sjálfur hluti myndefnisins þar sem hann er sýndur við ýmsar aðstæður en verkin nefnir hann Situations. Þar er áherslan á inntakið en ekki miðilinn sjálfan, ljósmyndina, enda eyðilagði hann filmuna til staðfestingar á því að þetta væru einstök verk en ekki ljósmyndir sem mætti fjölfalda.[2]
[1] Íslensk listasaga IV, „Sigurður Guðmundsson“, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Listasafn Íslands, Forlagið, 2011, 200
[2] Sama heimild 203

Eitt þessarra verka er Mountain frá 1980–1982. Listamaðurinn liggur á hleðslu úr mó og grjóti en ofan á hann hefur verið raðað brauði yfir miðju líkamans, bókum yfir höfuð hans og skóm yfir fætur. Þessi lagskipta hleðsla myndar fjall sem er táknrænt fyrir hugmyndir mannsins um náttúruna, skynjun, og tengsl manns og náttúru. Ljósmyndin er aðeins til í einu eintaki sem varðveitir gjörninginn og hugmyndina að baki honum.

Eins og margir þeirra listamanna sem vinna verk í anda hugmyndalistar nýtir Hreinn Friðfinnsson (1942) sér ljósmyndina í ljóðrænum ljósmyndaverkum. Í verkinu Attending frá 1973 leikur Hreinn með hugmyndir mannsins um umhverfi sitt, nálægð og fjarlægð sem hann sýnir með spegilmyndum Jarðar og himins. Mörk hins sýnilega og áþreifanlega markast af speglinum sem birtir ásýnd heimsins en utan hans er raunveruleikinn. Hreinn sem er einn af stofnendum SÚM hreyfingarinnar lærði myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hefur verið búsettur í Hollandi frá 1971.

Hreinn Friðfinnsson, Attending, 1973.
Listasafn Íslands: LÍ 8048

Rúrí (1951) vinnur verk sem eru hugmyndafræðilegs eðlis og unnin í margvíslega miðla svo sem skúlptúr, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörninga, bókverk, kvikmyndir, hljóðverk og ljósmyndir. Hún stundaði nám við í Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1971–74 og lærði málmsmíði í Iðnskólanum í Reykjavík 1974–75. Frá 1976–78 lærði hún nýmiðlun í De Vrije Academie í Haag í Hollandi. Listaverk hennar hafa verið sýnd á alþjóðlegum vettvangi og hefur hún hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín. Hún gerði meðal annars skúlptúrinn Regnbogi við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Umfangsmikil innsetning Rúríar Archive – Endangered Waters frá 2003 samanstendur af stórri hirslu úr stáli með fimmtíu og tveimur útdraganlegum fögum sem í eru stórar litskyggnur af fossum í útrýmingarhættu, eins konar skjalasafn fossa. Það dynur í fossunum þegar myndirnar eru dregnar út sem eykur áhrifamátt ljósmyndanna. Verkið sem Rúrí vann fyrir Tvíæringinn í Feneyjum tekur á umræðunni um náttúruvernd og ábyrgð mannsins gagnvart umhverfi sínu en það eru einmitt meginþræðir í inntaki verka hennar.

Mynd: Rúrí, ArchiveEndangered Waters, 2003.
Vefsíða

Hrafnkell Sigurðsson (1963) er einn þeirra myndlistarmanna sem nýtir ljósmyndina í verkum sínum. Hann fjallar gjarnan um tengsl manns og umhverfis í verkunum sem hann vinnur í myndröðum. Myndefnið er oft hversdagslegir hlutir eins og rusl og sorppokar, snjóskaflar á bílastæðum og manngert umhverfi borga og bæja sem tekur á sig form skúlptúra. Ljósmyndaserían Uplift frá 2008, sýnir rusl sem bundið hefur verið í stóra bagga sem eru lýstir upp á svörtum grunni svo litríkt plastið er kallað fram. Þannig upphefur hann ruslið og magnið um leið og verkið er ádeila á neyslumenningu nútímans.

Hrafnkell lærði myndlist í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og stundaði framhaldsnám bæði í London og Maastricht.

Hrafnkell Sigurðsson, Uplift 1, litljósmynd, 2008.
Vefsíða

Ljósmyndanám og ljósmyndasöfn

Ljósmyndun er löggilt iðngrein á Íslandi og er kennd í Tækniskóla Íslands en námi í greininni lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni á fjölbreyttum vettvangi. Einnig er hægt að læra ljósmyndum í Ljósmyndaskóla Íslands sem hefur verið starfræktur frá 1997. Markmið skólans er að kenna ljósmyndun og auka veg ljósmyndunar á Íslandi jafnframt því að bjóða upp á valmöguleika í menntun ljósmyndara þar sem listsköpun er höfð að leiðarljósi.

Ljósmyndarafélag Íslands var stofnað árið 1926. Félagsmenn hafa allir lokið viðurkenndu námi í ljósmyndun og/eða hafa atvinnu af ljósmyndun. Félagið hefur staðið fyrir mörgum ljósmyndasýningum þar sem verk félagsmanna eru sýnd.

Blaðaljósmyndarafélag Íslands starfar innan Blaðamannafélagsins og meðlimir þess hafa atvinnu af ljósmyndun fyrir fjölmiðla. Félagið stendur fyrir árlegum sýningum á myndum félagsmanna þar sem veitt eru verðlaun í ýmsum flokkum auk þess sem valin er mynd ársins.

Annað félag ljósmyndara Félag íslenskra samtímaljósmyndara, var stofnað árið 2007 og er vettvangur fyrir skapandi ljósmyndun. Markmið þess er að stuðla að framþróun fagurfræðilegrar ljósmyndunar á Íslandi og að auka virðingu og skilning á ljósmyndamiðlinum sem listformi. Félagið hefur staðið fyrir ýmsum sýningum og viðburðum bæði hér á landi og erlendis.

Söfnun ljósmynda með formlegum hætti hófst hér á landi árið 1908. Heimildagildi ljósmynda er ótvírætt og því er söfnun þeirra og varðveisla mikilvæg í sambandi við rannsóknir á ýmsum sviðum mannlegs lífs.

Ljósmyndasafn Íslands heyrir undir Þjóðminjasafn Íslands og hlutverk þess er að safna skrá og varðveita ljósmyndir, glerplötur, filmur, skyggnur og önnur gögn sem tengjast ljósmyndun. Um 6.5 milljónir mynda eru í safninu frá upphafi ljósmyndunar 1839 og fram yfir aldamót 2000.[1]

Ljósmyndasafn Reykjavíkur er miðstöð ljósmynda þar sem fortíð og nútíð mætast. Markmið safnsins er að varðveita, safna og sýna bæði sögulega og samtímaljósmyndun í listrænu, félags- og menningarlegu samhengi. Í safneigninni eru nú um 6 milljónir ljósmynda af fjölbreyttu tagi, þær elstu frá því um 1860 og þær yngstu frá 2010.[2]
[1] https://www.thjodminjasafn.is/
[2] http://borgarsogusafn.is/is/ljosmyndasafn-reykjavikur