STUTT LÝSING
Verkefnið byggir á rannsókn nemenda á því hvernig ólíkir hlutir eldast með tímanum.
MARKMIÐ
- vekja nemendur til meðvitundar um framgang tímans og áhrif hans á hluti og lífverur.
- þróa með nemendum tilfinningu fyrir innri tíma og ytri tíma.
- nemendur geti tjáð skynjun sína á framgangi tímans í listaverki.
HÆFNIVIÐMIÐ
Verkefnið stuðlar að því að við lok 4. bekkjar geti nemandi …
- nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræðiÖll listaverk eru byggð upp úr formum. Þeim er raðað á myndflöt eða í höggmynd og mynda heildstætt listaverk. Formfræði fjallar um tengslin á milli punkta, lína og flata sem mynda listaverkið. Með því að skoða form og tengslin á milli þeirra má læra margt um myndlist. More og myndbyggingar (bls. 148 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
- tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
- fjallað um eigin verk og annarra (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
- þekkt og gert grein fyrir völdum verkum listamanna. Lýst þeim og greint á einfaldan hátt yrkisefnið og lýst þeim aðferðum sem beitt var við sköpun verksins (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
- greint að einhverju leyti á milli mismunandi aðferða við gerð listaverka (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
- útskýrt á einfaldan hátt áhrif vinnu sinnar á umhverfið (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
- unnið út frá kveikju við eigin listsköpun (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
- hagnýtt þá leikni sem hann hefur öðlast í einföldum verkefnum (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
KVEIKJA
Stutt saga lesin upp:
Þegar afi var ungur maður eignaðist hann forláta hamar. Með hamrinum smíðaði hann hús og skemmu í sveitinni og margt annað gagnlegt. Þó kom að því að skaftið á hamrinum hans afa var orðið lélegt af öllum hamarshöggunum og einn góðan veðurdag brotnaði skaftið og við lá að afi fengi hamarinn í hausinn við það. Nú voru góð ráð dýr og afi fór í kaupfélagið í þorpinu og keypti nýtt skaft á hamarinn. Hann smíðaði marga góða hluti með hamrinum góða eftir þetta, þar til svo illa vildi til að hamarshausinn var orðinn mjög slitinn eftir alla naglana sem afi hafði kafrekið. Fór afi þá aftur í kaupfélagið og keypti nýjan haus á hamarinn. Hann notaði síðan hamarinn þar til hann hætti að smíða en þá gaf hann mér hamarinn góða og sagði mér að ég ætti eftir að smíða marga góða hluti með honum. Þegar ég sýndi stoltur konunni minni hamarinn hans afa spurði hún: Er þetta sami hamarinn og afi þinn eignaðist í upphafi?
Þessa kveikju má nota eins og hún kemur fyrir eða útfæra hana sem stuttmynd/örmynd. Biðja nemendur um að hugsa um hvaða hluti tengjast ástvinum þeirra líkt og hamarinn hans afa. Hvaða hlutum muna þeir eftir og hvers vegna þeim?
VINNUSTOFA
Tíminn
ALDUR
Yngsta stig
GRUNNÞÆTTIR
Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun.
ÞVERFAGLEG TENGING
Íslenska: Segja má söguna af Miðgarðsorminum.
Samfélagsfræði: Sýna myndir t.d. af hval/fisk þar sem í ljós hefur komið plastagnir eða hlutir þegar innyfli hans hafa verið könnuð.
Náttúrufræði: Setja aldur jarðlaga og nánasta umhverfis í samhengi við þann stutta tíma sem við höfum verið á Jörðinni.
Textílmennt: Tíminn er mikilvægt atriði þegar um er að ræða sköpun; t.d. við vefnað eða prjón.
FJÖLDI KENNSLUSTUNDA
6 x 40 mínútur
EFNI OG ÁHÖLD
- fundnir hlutir úr umhverfinu
- bókbandspappi eða masonit-plötur til að festa hlutina á
- ef verkið verður sett upp á vegg eða á opið svæði innan skólans, þá þarf:
- lím
- nagla
- skrúfur
- bönd
LISTAMENN
Alexander Calder
Marcel Duchamp
Þorgerður Ólafsdóttir
VERKEFNIÐ
Hópverkefni
Kennslustundir 1–2
Byrjað er á kveikju. Nemendur fara síðan í vettvangsferð og safna sýnum af hlutum úr nærumhverfinu sem ýmist virðast mjög gamlir eða mjög nýir. Nemendur skrásetja hlutina í rannsóknardagbók með því að teikna af þeim einfalda mynd eða lýsa þeim í orðum. Þeir skrá hugleiðingar sínar um það hvers vegna þeir álíta þennan hlut mikilvægan í verkefnið þar sem verið er að kanna áhrif tímans á hluti í nærumhverfi. Í skólastofunni er hlutunum safnað saman og þeim raðað á tímalínu; frá þeim hlut sem virðist vera elstur til þess hlutar sem virðist vera yngstur. Vinnan við tímalínuna býður upp á samræður um það hvernig tíminn hefur leikið hlutina. Steinn úr fjörunni kann að vera elstur allra hlutanna en tíminn hefur í raun gert hann fagran og sléttan. Laufblað að hausti er hugsanlega nýjast því það þolir verr tímans tönn. Manngerðir hlutir fá sömu meðferð; spýtukubbur, sælgætisbréf – lífræn og ólífræn efni. Hér er tækifæri til að tala um það hvað plastið eyðist hægt; varanleiki – forgengileiki.
Kennslustundir 3–4
Hlutirnir eru settir saman í Miðgarðsorminn sem gleypir allt sem fellur til jarðar; elstu hlutirnir eru því aftastir en þeir nýjustu fremstir; ormurinn stækkar eftir því sem nýir hlutir bætast við. Tilvalið er að láta Miðgarðsorminn liggja í spíralformi sem endurspeglar endurtekninguna og framrás tímans með því að stækka eftir því sem tíminn líður. Einnig má hugsa sér að hlutirnir verði festir í band eða garn; til dæmis sláturgarn eða hör og festir upp í óróa; með mislöngum böndum. Í þessu samhengi mætti skoða verk Alexander Calder (1898–1976) til að leita að hugmyndum um útfærslu. Einnig mætti leita ráða hjá nemendum; biðja þá um að koma með hugmyndir sem grundvallist á því að hengja hlutina upp með bandi. Nemendum er sagt frá Dadalistamönnum og hvernig þeir unnu með fundna hluti. Hér má t.d. segja frá Marcel Duchamp (1887–1968) og Ready-made hugmyndafræði hans.
Kennslustund 5–6
Nemendur velja sér a.m.k. þrjá hluti úr Miðgarðsorminum. Hver nemandi vinnur þrívítt verk þar sem hann nýtir einnig efnisveitu kennslustofunnar. Verkunum er raðað upp og rædd í samhengi við verk Þorgerðar Ólafsdóttur (1985). Hvaða hlutir verða áfram í náttúrunni, hverjir verða að mold og hverjir eiga eftir að vera lítið óbreyttir þegar við verðum orðin gömul.
Umræðuspurningar
- Hvers vegna virðast sumir hlutir verða fallegri með aldrinum en aðrir ljótari?
- Hvað ræður því að okkur finnast hlutirnir fallegir eða ljótir?
- Hvaða sögu hafa hlutirnir að segja okkur?
- Hefur gamall hlutur meira að segja en nýr?