Samklipp (collage) er miðill og aðferð í myndlist þar sem úrklippum úr dagblöðum, tímaritum, auglýsingabæklingum eða öðru prentuðu efni, lituðum pappír, miðum og jafnvel umbúðum er raðað saman og það svo límt á tvívíðan flöt. Franska orðið „collage“ er alþjóðlegt heiti yfir samklipp eða klippimynd en límmynd væri þó nákvæmari þýðing því að orðið „coller“ þýðir að líma á frönsku. Gerð klippimynda má rekja langt aftur í tímann og þær má meðal annars finna í japanskri skrautritun frá 12. öld og talið er að evrópskir munkar hafi notað samklipp í handritslýsingum á miðöldum. Það var þó ekki fyrr en í byrjun 20. aldar sem tæknin öðlaðist sess í listasögunni. Flestallir framúrstefnulistamenn á fyrri hluta 20. aldar sem unnu verk undir merkjum dadaisma, súrrealisma og kúbisma heilluðust af samklippinu og þeim möguleikum sem það bauð upp á.
(e. collage) | Samklipp