Mynd gerð með grafískri djúpþrykksaðferð. Sink- eða koparflötur er ýfður upp og fletir sem eiga að vera ljósir eru sléttaðir. Að lokum er myndin svert og þrykkt. Koparplata er ýfð upp með sérstöku smátenntu verkfæri svo yfirborðið verður allt hrjúft. Myndin er síðan unnin í plötuna með því að slípa niður þá fleti og línur sem eiga að vera ljósir, mest þá sem eiga að vera hvítir. Sverta er borin á plötuna og síðan strokin af og situr hún þá eftir í hrjúfa hluta plötunnar, mest þar sem hrjúfast er. Þrykkt er á rakan pappír í grafíkpressu. Einkenni mezzotintu eru djúpsvartir og gráir tónar (úr ít. mezzotinto, miðlungs tónn).