UM AÐFERÐINA
Munurinn á bók og bókverki er ekki alltaf augljós. Segja má að bók sé umgjörð eða form sem inniheldur sögur, frásagnir eða upplýsingar á meðan bókverk er myndlistarverk í bókarformi þar sem bókin er sjálft verkið og formið órjúfanlegur hluti af hugmynd verksins. Bóklist getur sameinað mismunandi listform og verið á mörkum hefðbundinna bóka og bókverka og brotið upp hefðbundnar hugmyndir manna um prentlist og myndlist.
Tengsl bóka og myndlistar eiga sér langa sögu sem kemur helst fram í skreytingum og myndlýsingum í bland við texta. Bækur voru þá gjarnan metnar eftir útliti, hvernig þær voru skreyttar eða búnar eins og til dæmis íslensku skinnbækurnar og handritalýsingar fyrr á öldum. Það var þó ekki fyrr en á 19. öld sem menn fóru að tengja bókarformið við hugmynd verksins. Þetta kom fram í tilraunum skálda og myndlistarmanna með letur, leturstærðir og uppsetningu bókanna.