TEXTÍLL

Loji Höskuldsson, Fífur í Galtalæk og útilegudót, útsaumsverk, 90 x 140 cm, 2018.
Listasafn Íslands: LÍ 9244

UM AÐFERÐINA

Orðin textíll og texti eru komin af latneska orðinu texere sem merkir að vefa saman.

Textíll tengist daglegu lífi mannsins og vinna með þráð og voð hefur í gegnum aldir verið stunduð bæði í hagnýtum og listrænum tilgangi og er einn af elstu listmiðlunum. Textíllist byggir á rótgróinni handverkshefð sem á sér djúpar rætur í menningu flestra þjóða og hefur þróast með breyttum lifnaðarháttum og þörfum í samtímanum. Því má segja að saga textíls sé einn þáttur í sögu mannsins. Grunnaðferðirnar til að búa til voð eða klæði eru vefnaður, prjón og þæfing. Oft eru myndlíkingar sóttar í heim textíllistarinnar eins og á við um málsháttinn „Neyðin kennir naktri konu að spinna“, sem bendir á þörfina á að kunna til verka þegar á reynir vegna þess að allir þurfa föt, fyrst og fremst til þess að halda á sér hita.

Ofin teppi má rekja til austrænna hirðingjaþjóða sem notuðu þau í híbýlum sínum í margvíslegum tilgangi, þau voru mikilvægur nytjahlutur sem „húsgagn“ og til þess að verjast kulda en einnig sem skreyting þar sem þau voru oft fagurlega ofin með myndum.[1] Teppin bárust til Evrópu á miðöldum með krossferðunum og urðu vinsæl meðal riddara og aðalsmanna sem skreyttu og einangruðu húsakynni sín með myndteppum sem sýndu sögulega og persónulega atburði og trúarlegt myndefni.[2]
[1] Kurt Zier, „Að vefa mynd“, Vísir, 19.11.1962
[2] Sama heimild.

Þjóðminjasafnið 800/1870-50

Riddarateppi, rúmábreiða, gamli krosssaumurinn, 1690-1720.
Sarpur: Þjóðminjasafnið 800/1870-50

Textíllinn tengist einnig skreytilist í formi myndverka og nytjahluta af ýmsu tagi sem annaðhvort byggjast á því að sýna ákveðna færni og listfengi eða koma á framfæri skilaboðum. Helstu aðferðir skreytilistar í textíl hér á landi eru í útsaumi, vefnaði og klæðagerð.[1] Á Þjóðminjasafni Íslands er að finna ríkulega skreytta textílmuni frá fyrri tíð sem vitna um listrænt handverk íslenskra kvenna og sterka arfleifð í textílgerð.[2]
[1] Margrét Hallgrímsdóttir, Þjóðminjar, Þjóðminjasafn Íslands/Crymogea, 227
[2] Ásdís Jóelsdóttir

Á sarpi má sjá rúmábreiðu sem saumuð er með fléttusaumi eða „gamla krosssaumnum“ svonefnda. Myndirnar eru af riddurum með axir og atgeira, hjartardýrum í skógi og hefðarmönum við borð, en í reitunum umhverfis eru fuglar og smærri dýr. Myndirnar eiga sér sumar uppruna í riddarasögum miðalda og er ábreiðan því oft nefnd „riddarateppið.“ Einnig er hinn alkunni akantusteinungur áberandi, sem þekktastur er úr tréskurði. Frá um 1800.

Meðal annars eru varðveitt veggtjöld frá 17. og 18. öld sem voru bæði notuð á heimilum og í kirkjum. Elstu útsaumsverkin sem varðveitt eru á safninu eru frá seinni hluta 15. aldar aðallega altarisklæði, höklar og fleiri kirkjugripir. Myndefnið er oft frásagnir úr Biblíunni en líka stílfærðar jurta- og dýramyndir.[1] Önnur söfn sem geyma áhugaverða textílmuni frá fyrri tíð eru Árbæjarsafn, Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og minjasöfn víðsvegar um land.

Hér á landi hafa varðveist merkar munsturbækur, svokallaðar sjónabækur allt frá 17. öld með munstrum fyrir vefnað og útsaum sem henta líka sem prjónamunstur. Í bókinni Íslensk sjónabók frá árinu 2009 eru birt munstur úr munsturbókum frá 17., 18. og 19. öld sem sýna vel íslenska munstursögu en rætur þeirra liggja þó djúpt í heimsmenningunni. Íslendingar eiga líka langa prjónahefð en talið er að prjónið hafi borist hingað með erlendum sjómönnum á 16. öld. Litríkt útprjón er aðallega að finna á fallega skreyttum vettlingum og peysum eins og íslenska lopapeysan ber vitni um.[2] Jurtalitun hefur verið þekkt allt frá landnámsöld eins og vefnaðurinn. Jurtalitað garn var notað bæði í útsaum og munsturvefnað. Algengustu útsaumsgerðirnar voru glitasaumur, skakkaglit, gamli krosssaumur, augnsaumur, blómstursaumur og refilsaumur sem þykir einna merkastur.[3] Í refilsaumi er myndefnið fyrst teiknað á grunnefnið og síðan eru útlínur saumaðar. Eftir það er fyllt upp í fleti með útsaumsgarni þannig að þræðirnir liggi þétt hlið við hlið og síðan er það saumað niður með litlum sporum. Refilssaumur dregur nafn sitt af reflum eða veggtjöldum sem unnin voru hér á landi fram á 17. öld og höfð í híbýlum manna en þekktastur er hann í altarisklæðum frá síðmiðöldum. Saumgerðin hefur hin síðari ár verið endurvakin og viðhaldið.[4] Íslenski refilsaumurinn er náskyldur þeim sem notaður er í Bayeuxreflinum sem nefndur er eftir borginni Bayeux í Frakklandi en hann er eitt merkasta veraldlega listaverkið sem varðveist hefur frá miðöldum.
[1] Margrét Hallgrímsdóttir, Þjóðminjar, 227
[2] Ásdís Jóelsdóttir
[3] http://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/sersyningar/eldri-syningar/med-silfurbjarta-nal-spor-midalda-i-islenskum-myndsaumi
[4] Margrét Hallgrímsdóttir, Þjóðminjar, 228

Bayeux refillinn er frá síðari hluta 11. aldar en uppgötvaðist ekki fyrr en á 18. öld. Í refilinn sem er rúmir 70 m á lengd og 0,5 m á breidd, er saumuð myndasaga sem segir frá því þegar Vilhjálmur hertogi af Normandý réðist inn í Bretland árið 1066. Útsaumsmyndirnar, sem unnar eru með refilsaumi, eru merk heimild um daglegt líf manna á víkingaöld, klæðnað, vopn, skipasmíðar, siglingar og orustur.

Refillinn er sönnun þess að saumgerðin hefur verið viðhöfð í Evrópu en hún hefur hvergi varðveist nema á Íslandi.[1]
[1] Björn Th. Björnsson, Aldateikn, Mál og menning, Reykjavík 1973, 92

Hluti af Bayeux reflinum.
Wikipedia

Bauhaus-skólinn sem starfræktur var í Weimar og í Dessau í Þýskalandi á árunum 1919–1933 var þekktur fyrir nýjar hugmyndir um listkennslu. Stjórnendur skólans með Walter Gropius (1883–1969) í fararbroddi höfðu það meðal annars að markmiði að binda endi á þá íhaldssömu skiptingu í myndlist og handverki sem hafði verið viðhöfð og leggja þess í stað áherslu á tækni og verkkunnáttu samhliða listrænni sköpun. Þó að stjórnendur skólans hafi verið framsæknir þá var vefnaðardeildin eina deildin sem var opin fyrir konur.

Anni Albers, Hönnun á silkiteppi, 1926.
Wikimedia

Anni Albers (1899–1994) er einn þekktasti textíllistamaður 20. aldar. Hún lærði vefnað í Bauhaus-skólanum og varð síðar kennari þar. Anny Albers hreifst af möguleikum textílsins og gerði tilraunir með ný efni og notaði meðal annars málmþræði og hrosshár í verk sín í bland við hefðbundið band.

Á fjórða og fimmta áratugnum voru stofnaðir fjölmargir húsmæðraskólar á Íslandi. Með þessum skólum var ýtt undir húsmóðurhlutverkið en auk þess stóðu skólarnir fyrir víðtækri fræðslu á sviði listiðnaðar og voru helstu námsgreinar á því sviði vefnaður, saumur og prjón. Handíðaskólinn (síðar Handíða- og myndlistaskólinn) var stofnaður árið 1939 af  Lúðvíg Guðmundssyni (1897–1966) sem jafnframt var fyrsti skólastjóri hans. Skólinn útskrifaði handavinnukennara fyrir barna- og unglingastigið og húsmæðraskólana. Markmið skólans var að efla verklega kennslu með því að móta íslensk stíleinkenni og leggja áherslu á íslenskt handverk. Með skólanum þróaðist heimilisiðnaðurinn yfir í listiðnað sem fór smám saman að skipa hærri sess í íslensku menningarlífi og réðst það helst af þeirri stefnu að gefa gamalli og þjóðlegri iðn nýtískulegan blæ.[1] Með skólanum opnuðust augu manna fyrir mikilvægi handíða og spilaði íslenska ullin, listvefnaður og listsaumur þar stórt hlutverk í ýmiss konar listvarningi.[2] Árið 1965 fékk skólinn nafnið Myndlista- og handíðaskóli Íslands og upp frá því var lögð meiri áhersla á myndlist og sjálfstæða listsköpun.
[1] Sama heimild, 19
[2] Sama heimild, 21

Júlíana Sveinsdóttir (1889–1966) var einna fyrst íslenskra kvenna til að gera myndlist að ævistarfi og á sviði vefnaðar gegndi hún mikilvægu brautryðjandahlutverki í danskri og íslenskri listasögu.[1] Eftir tilsögn í teikningu og málun hjá Þórarni B. Þorlákssyni fór hún til Kaupmannahafnar árið 1909 til að læra myndlist og var í miklum tengslum við danska myndlistarhefð allan sinn feril. Júlíana er þekkt fyrir málverk og vefnað sem tengdi hana við upphafstíma óhlutlægrar listar á Norðurlöndum á árunum upp úr 1930.[2] Málverkið var hennar aðal miðill í fyrstu en hún var leitandi og reyndi fyrir sér með ýmsa miðla eins og til dæmis mósaík og múrmálverk sem hún kynntist á Ítalíu. Árið 1920 áskotnaðist henni gamall vefstóll sem varð til þess að hún fór að vefa ýmis konar nytjaklæði, eins og gluggatjöld, áklæði, fataefni og ábreiður úr íslenskri ull til þess að afla sér tekna því hún gat ekki lifað af málaralistinni.[3] Júlíana stundaði síðar nám í myndvefnaði hjá Astrid Holm í Kaupmannahöfn samhliða námi í fresku- og mósaíkmyndagerð. Á ferðum sínum til Íslands á sumrin safnaði hún litunarjurtum eins og skófum og hreindýramosa og litaði ullina sjálf.[4] Smám saman gerði Júlíana sér grein fyrir listrænum möguleikum vefnaðarins og fór að vefa myndverk sem hún fékk alþjóðlega viðurkenningu fyrir. Hún byggði vefnaðinn á geómetrískum og lífrænum abstrakt formum, vann með heila fleti og fáa en sterka liti.[5] Þessi einföldun myndmálsins hafði áhrif á málverk hennar þar sem huglæg túlkun viðfangsefnisins varð meginþáttur.
[1] Vefur lands og lita, Júlíana Sveinsdóttir, Listasafn Íslands, 2003, 7
[2] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist, II, Helgafell, MCMLXXIII, 162
[3] Sama heimild, 167
[4] Sama heimild,167
[5] Íslensk listasaga II, Hrafnhildur Schram, „Júlíana Sveinsdóttir“, Listasafn Íslands, Forlagið, 123

Júlíana Sveinsdóttir, Án titils, myndvefnaður, 141,5 x 93 cm, 1957.
Listasafn Íslands: LÍ 6315

Ásgerður Búadóttir, Vúlkan, myndvefnaður, 216 x 200 cm, 1986.
Listasafn Íslands: LÍ 4686

Ásgerður Búadóttir (1920–2014) var í framvarðasveit íslenskrar nútímaveflistar og átti stóran þátt í miklum uppgangi veflistar á miðjum áttunda áratug tuttugustu aldar. Hún lærði myndlist við Handíða- og myndlistaskólann og síðan við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Í fyrstu einbeitti hún sér að málverki en eftir að hún kynntist nútímavefnaði á ferðalagi um Frakkland varð ekki aftur snúið. Hún hóf feril sinn sem veflistamaður á fyrstu árum sjötta áratugarins og vann aðallega svokallaðan röggvavef í bland við formrænan og sléttan vefnað. Hún fór að nota hrosshár í verk sín á sjöunda áratugnum sem gerði vefnaðinn áferðameiri og skapaði þrívíddaráhrif  sem mótvægi við þéttofinn grunninn. Ásgerður leitaði sífellt nýrra leiða í vefnaðinum og þróaði persónulegan stíl. Árið 1978 kynntist hún gamalli textílaðferð sem kallast tenning. Uppfrá því varð sú aðferð fastur liður í vefnaði Ásgerðar sem hún vann í bland við hrosshár og abstrakt form. Tenning byggist á því að flétta saman á víxl svörtum og gráum böndum úr ullar- eða hrosshárum.[1] Þannig tengdi Ásgerður fornar og nýjar aðferðir í verkum sínum. Verkin byggjast á abstrakt formum þar sem grátóna grunnur ofinn með tenningu er gjarnan brotinn upp með flötum í bláum og rauðum litatónum og hrosshári. Eins og titlar margra verka hennar benda til hafa þau sterka skírskotun til íslenskrar náttúru og landslags. Ásgerður átti stóran þátt í að opna augu almennings fyrir listvefnaði.
[1] Sama heimild, 35

Textíllist í samtímanum

Textíldeild var stofnuð við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1970 og árið 1974 stofnuðu nemendur, kennarar og starfandi textíllistamenn Textílfélagið sem starfar enn. Uppgangur textíllistar á Íslandi, á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar helst  að mörgu leyti í hendur við kvennabaráttu í landinu á þeim tíma. Baráttan fyrir viðurkenningu textíllistar, sem gjarnan er kennd við kvennalist, sem fullgildrar listgreinar endurspeglar um leið baráttu kvenna fyrir fullri viðurkenningu á störfum sínum í þjóðfélaginu.[1] Textílfélagið stendur fyrir stórum samsýningum á fimm ára fresti auk minni sýninga. Meðlimir félagsins hafa unnið til verðlauna, meðal annars fékk Hrafnhildur Sigurðardóttir (1963) hin virtu Norrænu textílverðlaun fyrst íslenskra textílistamanna árið 2005 og Hrafnhildur Arnardóttir (1969) sem einnig kallar sig Shoplifter hlaut verðlaunin árið 2011. Hildur Bjarnadóttir (1969) hlaut Íslensku sjónlistaorðuna árið 2006. Það má því segja að textíllist hafi verið í sviðsljósinu innan samtímalistanna á Íslandi og fest sig í sessi sem áhugaverður miðill.
[1] Íslensk listasaga IV, Dagný Heiðdal, „Myndlist í þágu jafnréttisbaráttunnar, 143

Meðal þeirra kvenna sem nýttu sér miðilinn í þágu kvennabaráttunnar er Hildur Hákonardóttir (1938). Í vefverkum frá áttunda áratugnum fjallar hún um hlutskipti kvenna og vanmetið vinnuframlag þeirra. Í verkinu Fiskikonurnar má sjá konur við hefðbundna fiskvinnslu meðan verkstjórinn „gnæfir yfir“ og fylgist með störfum þeirra úr „hásæti“ sínu. Hildur lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands sem myndvefari árið 1968 og stundaði framhaldsnám í Edinborg. Hún kenndi vefnað við MHÍ og var skólastjóri skólans á árunum 1975–1978.

Hildur Hákonardóttir, Fiskikonurnar, myndvefnaður, 150 x 101 cm, 1971.
Listasafn Íslands: LÍ 4058

Staða konunnar var einnig viðfangsefni Þorbjargar Þórðardóttur (1949) í vefverkum frá áttunda áratugnum. Hún beinir sjónum að húsmóðurhlutverkinu, umönnun barna og heimilisstörfum í verkinu Lífsmynstur konunnar (1974). Í anda kvennabaráttunnar er farið yfir lífshlaup giftrar konu og það hlutskipti hennar að gæta bús og barna. Þorbjörg lærði myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í myndvefnaði í Svíðþjóð þar sem mikill uppgangur var í myndvefnaði sem hafði sterka stöðu innan listarinnar.

Gott dæmi um það hvernig gamlar textílaðferðir hafa verið endurvaktar í samtímanum eru tjöld sem unnin voru í Tjarnarsal Ráðhússins í Reykjavík og sett upp árið 2??? Tjöldunum var ætlað að afmarka rými salarins og vera hljóðeinangrandi. Efnið í tjöldunum er ofið úr hör og í þau eru saumaðar stjörnur með handlituðu silkigarni og refilsaumi. Stjörnurnar eru staðsettar með tilliti til sólargangs og í hverri þeirra er lítill spegill sem endurkastar ljósgeislum sem falla á þá. Myndlistarkonurnar Guðrún Erla Geirsdóttir (1951) og Erla Þórarinsdóttir (1955) unnu verkið í sameiningu. Guðrún Erla (Gerla) stundaði myndlistarnám á Íslandi og í Amsterdam og hefur starfað sem búningahönnuður, myndmenntakennari og við leikmyndagerð en Erla stundaði myndlistarnám í Svíþjóð og hefur aðallega fengist við málverk.[1]
[1] Lesbók Morgunblaðsins, 27. febrúar, 1993, 9

Guðrún Gunnarsdóttir, Refill, vír, 80 x 280 x 5 cm, 1996.
Listasafn Íslands: LÍ 7347

Þráðurinn er meginþáttur í verkum Guðrúnar Gunnarsdóttur (1948). Hún vann í fyrstu vefverk en færði sig síðar inn á nýjar slóðir og fór að vinna frjálslega með vefinn sem leiddi til þrívíddarteikninga úr margvíslega gerðum þráðum úr ull, vír eða pappír. Hún vinnur gjarnan út frá gömlu handverki sem hún færir í nýjan búning. Guðrún sækir viðfangsefni í náttúruna og þræðir línur fjalla, mosa og norðurljósa í verkum sínum. Í verkinu Genateikning er uppruni og eðli mannslíkamans teiknað með marglitum þráðum sem sett er saman í knippi. Guðrún segist líta á sig sem þráðlistakonu þar sem hún vinnur með línuna, hinn endalausa þráð.[1] Guðrún lærði vefnað í Kaupmannahöfn á árunum 1972–1975.
[1] Guðrún Gunnarsdóttir, http://www.artotek.is/gu%C3%B0r%C3%BAn-gunnarsd%C3%B3ttir

Mörk textíls og málverks er viðfangsefni Hildar Bjarnadóttir (1969). Hún „endurvinnur textílhefðina inn í málaralistina“ eins og hún segir sjálf.[1] Í verkum sínum sem eru í senn handvefnaður og málverk, litar hún hörþræði með akrílmálningu og vefur þá saman í köflótta striga sem hún strekkir á blindramma. Segja má að verkin séu málverk án myndar þar sem handverkið sjálft er bæði uppistaða og inntak verkanna. Hildur lauk námi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 og stundaði framhaldsnám í New York og doktorsnám í myndlist í Bergen. Hildur notar svokallaðan einskeftuvefnað í verk sín þar sem þræðir uppistöðu og ívafs skarast á víxl. Með verkunum skírskotar hún til handverks og kvennamenningar um leið og hún vísar í þau karllægu gildi sem fylgt hafa málverkinu í aldanna rás.[2] Hildur litar ullarbandið í verkum sínum sjálf úr íslenskum jurtum sem hún safnar í kringum heimili sitt á Suðurlandi.
[1] „Fer á bak við málverkið“, Morgunblaðið, 30. júlí, 2006, 44
[2] http://hugras.is/2016/12/kerfi-skynjunar/

Hildur Bjarnadóttir, mjög snemma sumars,  akrýllitur, hör, jurt, ull, 84 x 69 x 2,5 cm, 2021.
Listasafn Íslands: LÍ 11679

Í textílskúlptúrum og innsetningum Rósu Sigrúnar Jónsdóttur (1962) sem hún vinnur með hekli og prjóni hefur fegurðin mikilvægt gildi. Íslenskar lækningajurtir mynda heklaða fíngerða og litríka gróðurþekju í verkinu Grös þar sem veikburða styrkur plantnanna kemur vel fram. Lækningajurtir koma líka við sögu í tvívíðum verkum þar sem hún blandar saman blýantsteikningu og útsaumi. Svelgir í jöklum eru fyrirmyndir stórra litríkra innsetninga þar sem svelglaga form hanga niður úr lofti, sum allt að fjórir metrar. Við gerð verkanna fékk hún til liðs við sig handverkskonur sem höfðu frjálsar hendur við litaval og munstur. Rósa Sigrún lauk námi frá Listaháskóla Íslands árið 2001. Hún hefur verið virk í sýningarhaldi bæði hér á landi og erlendis.

Í verkinu Viðgerðarmaðurinn frá 1994 fjallar Anna Líndal (1957) um hversdagsleikann og vinnu kvenna inni á heimilinu. Verkið er samsett úr meira en þúsund tvinnakeflum af ýmsum stærðum og gerðum sem hanga hvert um sig á einum þræði og nál. Í þessu verki vindur Anna ofan af heimilisverkunum, fataviðgerðum, saumaskap og annars konar heimilisverkum sem hafa í gegnum tíðina aðallega verið unnin af konum. Þetta er hugleiðing um konur sem hafa unnið verk sín í hljóði, „sífellt að lagfæra bæði huglæg og efnisleg göt …“, eins og Anna segir um verkið.[1] Anna lærði fatasaum áður en hún hóf nám í myndlist og vinnur í ýmsa miðla eins og vídeó, gjörninga og innsetningar þar sem hún rannsakar lífið og tilveruna frá ýmsum sjónarhornum meðal annars útfrá jöklarannsóknum.
[1] Art Textiles of the World, SCANDINAVIA, TELOS, edit. MatthewKoumis, 2004, 70

Anna Líndal, Viðgerðarmaðurinn, tvinni, 220 x 3260 cm, 1994.
Listasafn Íslands: LÍ 11546

Hrafnhildur Arnardóttir, Study for an Opera I, hár, 164 x 217 cm, 2009.
Listasafn Íslands: LÍ 9198

Hrafnhildur Arnardóttir (1969) sem er einnig þekkt sem Shoplifter, notar litríkt gervihár í veggverk og viðamiklar innsetningar. Í fyrstu notaði hún alvöru mannshár í verkin í náttúrulegum litum sem hún fléttaði í alls konar munstur. Verkin hafa m.a. tilvísun í hárgreiðslu blökkukvenna í New York þar sem Hrafnhildur hefur búið um alllangt skeið. Gervihárið gefur meiri möguleika og innsetningarnar hafa orðið sífellt stærri og flóknari. Hrafnhildur rekur áhugann á hári til þess að hún sá afklippta fléttu hjá frænku sinni sem barn. Hárið, áferð þess og líkamleiki vekur upp mótsagnakenndar tilfinningar, ónotakennd og fegurðartilfinningu í senn. Áferðin er mjúk, hlýleg og áþreifanleg en á sama tíma getur hún vakið hroll. Áhrifin koma frá veggteppum, hönnun, prjóni og hekli sem hún hefur þróað í persónulegum verkum þar sem húmor og gáski er undirliggjandi. Hrafnhildur fékk Norrænu textílverðlaunin árið 2011 og var fulltrúi Íslands á tvíæringnum í Feneyjum árið 2019.

Loji Höskuldsson (1987) hefur vakið athygli fyrir litríkar saumaðar myndir þar sem hann kannar bæði hefðbundnar og nýjar leiðir í útsaumi. Viðfangsefnið sækir hann í hversdagsleikann, plöntur, ávexti og kunnuglega heimilishluti, sumarið og tilfinningar sem tengjast því. Áhugann á saumaskap má rekja til móður hans sem er hannyrðakona og hjá henni kynntist hann möguleikum útsaumsins. Hann vinnur fleti og form með flosnál á grófan striga sem strekktur er á blindramma og blandar saman öðrum aðferðum eftir því sem hentar myndefninu. Loji útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2010.

Loji Höskuldsson, Fífur í Galtalæk og útilegudót, útsaumsverk, 90 x 140 cm, 2018.
Listasafn Íslands: LÍ 9244

Textílhönnun í samtímanum

Listaháskóli Íslands tók við af Myndlista- og handíðaskólanum árið 1999 og frá árinu 2001 hefur skólinn boðið upp á nám í vöru- og fatahönnun. Fatahönnunarfélag Íslands var stofnað árið 2001 en árið 1986 hafði verið stofnað Félag fata- og textílhönnuða (FAT) sem starfaði aðeins í nokkur ár. Útskriftarnemendur í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands hafa í gegnum árin sýnt fatnað á tískusýningum eða með annarri framsetningu í listasölum.

Nokkrar samsýningar á verkum íslenskra hönnuða hafa markað tímamót í hönnunarsögu þjóðarinnar og má þar helst nefna sýningarnar MÓT sem haldin var á Kjarvaldsstöðum, Futurice sem haldin var í Bláa lóninu og var hún jafnframt fyrsta alþjóðlega tískusýningin hér á landi og Úr og í sem haldin var í Listasafni Akureyrar.  Sýningarnar voru hluti af Reykjavík menningarborg árið 2000 en mikil gróska var í fata- og textílhönnun hér á landi á þessum tíma.

Sýningin Íslensk tískuhönnun sem sett var upp í Þjóðmenningarhúsinu árið 2006 (nú Safnahúsið) markaði ákveðin tímamót þar sem lögð var áhersla á frumlegan og tímalausan fatnað íslenskra fatahönnuða með listrænni nálgun. Með sýningunni mátti greina viðurkenningu á fatahönnun sem mikilvægri listgrein í íslenskri sjónmenningu.

Árið 2007 var Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumherjastörf í þágu fatahönnuna hér á landi. Hún hefur hlotið fjölda alþjóðlegra verðlauna. Steinunn stundaði nám í Parsons School of Design í New York  á árunum 1982–1986. Hún hefur starfað hjá þekktum tískuhúsum erlendis og með mörgum þekktum hönnuðum. Hún hefur sýnt föt sín um allan heim og tekið þátt í fjölda sýninga þar sem mörk listforma skarast. Árið 2009 var haldin yfirlitssýning á verkum hennar á Kjarvalsstöðum og hún var valin Borgarlistamaður sama ár.

Hönnunarmiðstöð Íslands var stofnuð árið 2008 en hún er í eigu fagfélaga hönnuða meðal annars Fatahönnunarfélags Íslands og Textílfélagsins. Meginhlutverk miðstöðvarinnar er að efla skilning á mikilvægi hönnunar fyrir samfélagið og íslenskt efnahagslíf og stuðla að framgangi íslenskra hönnuða erlendis.

Hönnunarsafn Íslands er iðnhönnunar- og listiðnaðarsafn sem varðveitir muni Íslendinga frá aldarmótum 1900 til nútíðar, til dæmis fatnað og nytjahluti. Safnið stendur meðal annars fyrir sýningum á fata- og textílhönnun bæði núlifandi hönnuða og í sögulegu samhengi. Árið 2018 var meðal annars haldin sýning þar sem uppruni, saga og hönnun íslensku lopapeysunnar var rakin. Peysan þróaðist frá því að vera vinnufatnaður í að verða að þjóðlegri minjavöru og vinsælli tískuvöru. Sýningin var unnin út frá rannsókn Ásdísar Jóelsdóttur, lektor í textíl við Háskóla Íslands, og ritrýndu fræðiriti hennar, Íslenska lopapeysan – uppruni, saga og hönnun, sem kom út árið 2017.

Textíllist samtímans spannar breitt svið innan samtímalista þar sem fjölbreytileiki og breidd er einkennandi og oft eru gamlar aðferðir færðar í nýjan búning.

Allt í kringum okkur eru hlutir sem eru unnir með textílaðferðum hvort sem um er að ræða fjöldaframleidda nytjahluti eins og til dæmis föt, áklæði, rúmföt og hönnunarhluti sem framleiddir eru í litlu upplagi eða einstök listaverk. Gerð nytjahluta byggist á hönnun og handverki sem myndlistarmenn nýta sér í frjálsri myndgerð með því að gera tilraunir með miðilinn og vinnuaðferðir oft með framandi efnum og aðferðum. Þannig skara textílverk gjarnan hefðbundin mörk annarra miðla eins og til dæmis málverks og skúlptúrs.