Meira námsefni tengt listum

LISTASAFN ÍSLANDS

Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi
Höfundur: Fræðsluteymi Listasafns Íslands

Sjónarafl er fræðsluefni sem miðar með markvissum hætti að því að tengja myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þekkingu og skilning nemenda á myndlist og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Myndlæsisþjálfun býður upp á samþættingu margra ólíkra greina og snertir þannig á hæfniviðmiðum úr ólíkum námsgreinum: sjónlistum, íslensku og samfélagsgreinum. Þá tengist Sjónarafl beint inn í hæfniviðmið fyrir lykilhæfni tjáningar og miðlunar, auk skapandi og gagnrýnnar hugsunar.

Myndlæsisþjálfunin fer fram með því að styðjast við valin verk úr safneign Listasafns Íslands og er fræðsluefnið sjálft unnið sérstaklega með kennara í huga – þannig að hvaða kennari sem er geti tekið efnið og notað í kennslu. Efnið er unnið út frá alþjóðlegum rannsóknum og kennsluaðferðum í myndlæsi og skiptist í:
Kennaraefni
Umræðuspurningar – Hvað sérðu?
Fleiri skýringarmyndir – Hvað segja myndirnar?

 

MENNTAMÁLASTOFNUN

Ég sé með teikningu
TEIKNING
Höfundur: Björg Eiríksdóttir

Námsefninu Ég sé með teikningu er ætlað að efla nemendur í teikningu og sköpun og gera þá hæfa til að teikna eftir fyrirmyndum sem og eftir eigin ímyndun. Að þeir geti lýst þeim raunveruleika sem þeir skynja og sett eigin sjónræna hugsun fram á frumlegan hátt í tengslum við eigin markmið.

Námsefnið er sett fram sem hugmyndabanki sem inniheldur efnivið fyrir kennara til að búa nemendum aðstæður eða vettvang fyrir upplifun þar sem þeir læra í gegnum eigin reynslu.

Að vefa utan vefstóls
TEXTÍLL
Höfundur: Hanna Ósk Helgadóttir

Um er að ræða hugmyndir að verkefnum sem unnin eru fyrir utan hefðbundinn vefstól með endurnýtingu að leiðarljósi. Unnið er með fjölbreyttar vefuppistöður sem fá nýjan tilgang í tilverunni. Verkefnaheftið er hugsað fyrir kennara til að byggja upp vefnað í kennslu sinni og endurnýta efni og fyrir nemendur til að styðjast við.

Leirmótun
LEIRLIST
Höfundur: Kristín Ísleifsdóttir

Markmiðið er að kenna undirstöðuþætti og grunnaðferðir leirmótunar og geta kennarar búið til verkefni sem hæfa getustigi nemenda út frá aðferðunum sem kenndar eru. Þó að grunnþættir leirmótunar séu meginatriði efnisins er því jafnframt ætlað að gefa nemendum tækifæri til sjálfstæðrar vinnu sem á að hvetja þau til eigin sköpunar.

Veggspjöld í myndmennt
Höfundar: Auður Björnsdóttir og Edda Ýr Garðarsdóttir

Litir, form, rými og dýpt.

Myndamáttur
LJÓSMYNDUN
Höfundar: Eva Harðardóttir og Tinna Ottesen

Um er að ræða heildstætt þemaverkefni sem kallast Myndamáttur og er sjónræn og þátttökumiðuð kennsluaðferð. Efnið byggist á kennslu- og rannsóknaraðferð sem ber enska heitið photovoice og hefur það markmið að efla raddir ólíkra samfélagshópa með aðstoð ljósmynda.

Hönnun Könnun
GRAFÍSK HÖNNUN
Höfundur: Helga Gerður Magnúsdóttir

Um er að ræða 17 verkefni sem þjálfa nemendur m.a. í mynd- og táknlæsi, færni í greinandi, gagnrýninni og skapandi hugsun og fjölbreyttum leiðum við hugmyndavinnu, skissugerð og hönnunarvinnu. Efninu er ætlað að þjálfa ungmenni í greinandi hugsun samhliða því að vinna á skapandi hátt.