A

Alfreð Flóki Nielsen

(1938–1987)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Þegar Alfreð Flóki var lítill langaði hann að verða trúður í fjölleikahúsi þegar hann yrði stór. (1) Það gekk ekki eftir en í staðinn bjó hann til sína eigin ævintýraveröld gegnum myndirnar sem hann teiknaði. Fyrsta sýning Alfreðs Flóka vakti mikla athygli í Reykjavík enda líktist hún engu sem fólk hafði séð áður. Hún var haldin árið 1959 í Bogasal Þjóðminjasafnsins og voru bæði stíllinn og viðfangsefnin framandi. Meðal gesta á sýningunni var Kjarval sem horfði víst vel og lengi á hvert verk og sagði að myndirnar væru alveg gilligogg.(2) Hvað Kjarval átti við vitum við ekki en víst er að myndlistin hreyfði við fólki sem bæði dáðist og hneykslaðist á listamanninum og myndlistinni hans. Alfreð Flóki klæddist iðulega grænum flauels jakkafötum og stórri þverslaufu. 

Alfreð Flóki stundaði nám í myndlist í Reykjavík og Kaupmannahöfn þar sem hann bjó lengi. Hann var feiminn að eðlisfari en fór sínar eigin leiðir í myndlistinni. Í myndum hans eru konur oft í forgrunni, myndirnar eru stundum ógnvekjandi og dálítið grófar. Furðuverur, dulspeki, dauðinn, vísar í kynlíf og ýmis tákn koma fyrir í myndunum. Alfreð Flóki varð fyrir áhrifum frá hreyfingum í málaralist sem kenndar eru við súrrealima og expressionisma, meðal þeirra sem talið er að hann hafi orðið fyrir innblæsti af eru Otto Dix, Salvador Dalí, Aubrey Beardsley og Rene Margitte

Blóm flagarans er teikning í eigu Listasafns Íslands eftir Alfreð Flóka sem ber öll helstu höfundareinkenni hans: mynd af konu þar sem fegurð og ljótleiki kallast á og myndin er dularfull og myrk.

Alfreð Flóki, Blóm flagarans, blek á pappír, 41 x 38 cm, 1966.
LÍ 1326

 

 1. Jóhann Hjálmarsson. Alfreð Flóki Teikningar. 1963. Reykjavík.
 2. Nína Björk Árnadóttir, sýningarskrá Listasafns Reykjavíkur, Alfreð Flóki, verk úr eigu Listasafns Reykjavíkur ágúst – október 1992.

Anna Líndal

(1957)

Fædd að Lækjarmóti í Víðidal

Miðlar: textíllist, skúlptúr, vídeólist, innsetningar.

Anna Líndal lærði myndlist í Reykjavík, Antwerpen, London og Berlín eftir að hafa klárað fataiðn í Iðnskólanum í Reykjavík árið 1978. Framan af ferli sínum vann hún mikið með heimilislíf og hversdagsleikann í verkum sínum og tvinnaði saman textíl og umfjöllun um samfélagið. Íslensk hannyrðahefð og kynjahlutverk voru áberandi. Sem dæmi er verkið Eldhúslíf þar sem gafflar eru vafðir með tvinna í mörgum litum. Verkið minnir okkur á mikilvægi vinnu kvenna inni á heimilunum í áranna rás. 

Á síðari árum hefur náttúran og náttúruvísindi orðið fyrirferðameiri í verkum Önnu en hún hefur farið með náttúruvísindamönnum á hálendi Íslands frá árinu 1986, fylgst með vinnu þeirra og fengið hugmyndir og efnivið í ný verk. Árið 2017 var yfirlitssýning á 30 ára myndlistarferli Önnu í Listasafni Reykjavíkur sem bar heitið Leiðangur. Þar gat að líta verk sem urðu til í kjölfar jöklaleiðangra þar sem hún bjó til handsaumuð landakort.

Anna Líndal, Eldhúslíf, skúlptúr, blönduð tækni, 1994.
LÍ 7312

J

Jóhann Briem

(1907–1991)

Fæddur að Stóra Núpi í Gnúpverjahreppi

Miðlar: málaralist

Jóhann ólst upp í sveit þar sem hann sinnti sveitastörfum á sumrin en gekk í skóla á veturna. Einar Jónsson myndhöggvari ólst upp á næsta bæ og Ásgrímur Jónsson málari var tíður gestur á heimilinu. Jóhann hafði því nálægar fyrirmyndir í æsku en hann byrjaði snemma að teikna og mála. 13 ára flutti hann til Reykjavíkur og byrjaði í teiknitímum hjá Jóni bróður Ásgríms. Eftir stúdentspróf árið 1927 stundaði hann nám í málaralist fyrst í Reykjavík en svo í Dresden í Þýskalandi. Árið 1934 flutti Jóhann heim til Íslands og hélt sína fyrstu sýningu í Góðtemplarahúsinu sem vakti mikla athygli. Þá stofnaði hann málaraskóla ásamt Finni Jónssyni sem var rekinn til ársins 1940.

Miklar hræringar voru í listalífinu í Reykjavík á þessum tíma. Jóhann var formaður nýstofnaðs Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) á árunum 1941-3. Hann ásamt fleiri myndlistarmönnum háði ritdeilu við Jónas frá Hriflu sem hafði ráðist á málara sem voru að prófa sig áfram með nýja hluti í málaralistinni. Jónas setti upp háðssýningu á verkum nokkurra listamanna í Alþingishúsinu og upp spratt Listamannadeilan, deila milli þjóðlegra gilda Jónasar og kröfu listamanna um frelsi til að gera það sem þeim sýndist í listinni. 

Árið 1944 var Jóhann fenginn til að gera málverk í forsal Laugarnesskóla og áttu þau að vera úr íslensku þjóðlífi og þjóðsögum. Auk þess málaði hann altaristöflur í nokkrar kirkjur og myndskreytti fjölda bóka. Jóhann málaði frá mars og fram á haust, aldrei á veturna en hann lét dagsbirtuna stýra ferðinni. Á veturna kenndi hann teikningu í gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Verk Jóhanns eru litrík og frekar einföld ásýndar. Litavalið var oft óvenjulegt, grænir hestar eða bleikt gras. Hann málaði sveitalíf, dýr og fólk við vinnu en leitaði líka í brunn ævintýra og þjóðsagna í myndum sínum. Jóhann ferðaðist til Palestínu árið 1951 sem var svo óvenjulegt á þeim tíma að um það var skrifað í blöðin. Hann ferðaðist líka til Sýrlands, Líbanon og Egyptalands.  Á ferðalögunum sá hann nýja liti og öðruvísi líf sem hann notaði sem efnivið í þó nokkur málverk. Í safneign Listasafns Íslands eru  19 verk eftir Jóhann. Eitt þeirra kallast Svört fjöll og er frá árinu 1963. Verkið er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar.

Jóhann Briem, Svört fjöll, olíumálverk, 70 x 65 cm, 1963.
LÍ 1252

Jóhanna Kristín Ingvadóttir

(1953–1991)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhanna hélt sína fyrstu sýningu í Reykjavík árið 1983 vöktu verk hennar mikla athygli. Hún hafði lært myndlist í Myndlistar- og handíðaskólanum og síðar í Ríkisakademíunni í Amsterdam. Hún bjó líka vetrarlangt í Svíþjóð og Sikiley. Jóhanna sagðist vera alltaf að mála sjálfa sig og tilfinningar sínar en myndirnar hennar eru óvenju dökkar og oft drungalegar. Hún hefði ekkert um verkin að segja, þau töluðu sínu máli sjálf. Hún sagðist ekki vera orðsins manneskja og feimin að eðlisfari. (1) 

Jóhanna Kristín var virk í sýningahaldi á 9. áratugnum og hélt sig alla tíð við expressíónískan stíl og málaði fólk, aðallega konur og börn. Hún glímdi við veikindi og lést fyrir aldur fram aðeins 37 ára árið 1991. Þrátt fyrir stutta ævi skildi hún eftir sig stórt safn verka með mjög sterk og sérstök höfundareinkenni. Yfirlitssýningar á verkum hennar voru haldnar á Kjarvalsstöðum árið 1992, í Gerðarsafni árið 2013 og á Listasafni Íslands árið 2019. Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands gáfu út bækur í tilefni af sýningunum um Jóhönnu og verk hennar. Í safneign Listasafns Íslands eru fimm verk eftir Jóhönnu Kristínu. Eitt þeirra er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar og kallast Á ögurstundu

 1. Heimsmynd. 6. tbl. 2. árg. November 1987

Jóhanna Kristín Ingvadóttir, Á ögurstundu, olía á striga, 190 x 190 cm, 1987.
LÍ 5602

Jóhannes Sveinsson Kjarval

(1882–1972)

Fæddur í Meðallandi í V-Skaftafellssýslu

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhannes Sveinsson Kjarval var fimm ára var hann sendur í fóstur til Borgarfjarðar Eystri en foreldrar hans voru fátækir og áttu 13 börn. Þar var hann umkringdur náttúru og fór snemma að teikna. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1902 og sameinaðist þar fjölskyldu sinni. Jóhannes réði sig á skútu árið 1905 og málaði víst mikið á sjónum. 1911 sigldi hann til London og þaðan ári síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í myndlist. Hann giftist danskri konu sem hét Tove og þau fluttu heim til Íslands árið 1922. Þau eignuðust tvö börn sem Tove tók með sér til Danmerkur eftir að þau skildu árið 1924.

Þegar lesið er um Kjarval í blöðum og bókum er hann iðulega ávarpaður meistari Kjarval og segir það sögu um hversu mikil virðing var borin fyrir honum. Meistari Kjarval var sérstakur maður og dálítill sérvitringur. Hann notaði orðið gillígogg við ýmis tækifæri, t.d. þegar hann var yfir sig hrifinn af einhverju, og sagði aðspurður að þetta væri alíslenskt orð þótt hann hafi búið það til yfir allt það „sem gott er, halló, húrra og bravó, glym hill og bikini“. (1) Kjarval tók oft leigubíl á Þingvöll eða annað út fyrir bæjarmörkin og setti upp trönurnar sínar til að mála. Svo biðu leigubílstjórarnir heilu og hálfu dagana eftir að hann væri búinn að mála. Á sumrin var hann margar vikur úti á landi, bjó oft í tjaldi og málaði úti í öllum veðrum. 

Í ævisögu sinni segir Erró frá því hvað Kjarval hafði mikil áhrif á hann í æsku. Hann lýsir því hvernig var að fá Kjarval í heimsókn í sveitina á sumrin og sagði að það hafi ævinlega verið uppi fótur og fit þegar Kjarval mætti á drossíu frá Reykjavík, rétt eins og þjóðhöfðingi væri á ferð. (2)

Kjarval sagði að íslensk náttúra yrði sinn skóli og eftir 1930 einbeitti hann sér nær eingöngu að náttúrunni í sínum myndum. Auk þess teiknaði hann andlitsmyndir. Sagt er að Kjarval hafi kennt Íslendingum að meta náttúru landsins. Hann horfði niður á landið og málaði mosa og steina og stundum læddust furðuverur inn í málverkin. Kjarval er ástsælasti málari þjóðarinnar og þegar fyrsta byggingin var reist í Reykjavík fyrir myndlist, var hún nefnd eftir Kjarval, Kjarvalsstaðir sem tilheyra Listasafni Reykjavíkur. 

Eitt af verkum Kjarvals sem er í eigu Listasafns Íslands kallast Reginsund og er málað eftir draum sem konunni hans dreymdi. Myndin er þakklætisvottur Kjarvals til Tove og var máluð árið 1938. (3)

 1. Morgunblaðið. (8. september 1965). Gilligogg.
 2. Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró. Margfalt líf. Mál og menning: Reykjavík
 3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands.

Kjarval, Reginsund, olía á striga, 161 x 115 cm, 1938.
LÍ 1146

Jón Engilberts

(1908–1972)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Jón Engilberts byrjaði að hugsa um myndlist þegar hann var mjög lítill og sá alltaf fyrir sér myndir þegar amma hans las fyrir hann sögur um álfa og huldufólk. Jón lærði fyrst myndlist hjá Muggi, í Teikniskóla Guðmundar Thorsteinssonar en hélt síðar til Kaupmannahafnar og Osló þar sem hann hélt áfram námi. Málverkin hans voru undir áhrifum stéttabaráttu og þjóðfélagshræringa þess tíma á Norðurlöndunum en seinna meir breyttust viðfangsefni hans, fyrst í átt að náttúrunni, síðar urðu þau meira abstrakt.

Árið 1943 hélt hann sína fyrstu sýningu í Reykjavík eftir dvölina í útlöndum. Auk þess voru verk hans sýnd á Norðurlöndunum og greindu íslensk dagblöð frá því að þau hafi vakið mikla athygli. Verkin væru ævintýraleg, fögur og ljómandi var skrifað um þau í Kaupmannahöfn árið 1952. (1)

Eitt af verkum Listasafns Íslands eftir Jón fjallar um vinnandi fólk en það málaði hann á námsárunum í Kaupmannahöfn. Verkið kallast Fólk að koma frá vinnu, og var málað árið 1936. 

 1.  (Verk Jón Engilberts vekja mikla athygli á sýningu í Kaupmannahöfn, Þjóðviljinn 24. nóv, 1952).

Jón Engilberts, Fólk að koma frá vinnu, olía á striga, 126 x 175 cm, 1936.
LÍ 794

Ó

Í vinnslu

Ú

Í vinnslu

Æ

Í vinnslu

Á

Ásgerður Búadóttir

(1920–2014)

Fædd í Borgarnesi

Miðill: textíllist, vefnaðarlist

Ásgerður Búadóttir lærði myndlist í Reykjavík og við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Á ferðalagi um Frakkland árið 1949 kynntist hún vefnaði sem listformi og heillaðist svo að hún keypti sér vefstól og flutti með sér heim til Íslands. Ásgerður notaði ull til að vefa sem hún litaði sjálf með náttúrulegum litum. Hún teiknaði fyrst upp það sem hún ætlaði sér að vefa og vefaði svo. Það tók hana aldrei minna en tvo mánuði að gera hverja mynd.

Árið 1956 vann Ásgerður til gullverðlauna á alþjóðlegri list- og handverkssýningu í Munchen í Þýskalandi sem var hvati fyrir hana að halda áfram á braut sinni með vefnaðinn.

Þrátt fyrir að vefnaður væri ein elsta listgrein á Íslandi voru nær engir myndlistarmenn að vefa á þessum tíma en Ásgerður átti stóran þátt í því að opna augu almennings fyrir listvefnaði. Ásgerður leitaði sífellt nýrra leiða í vefnaðinum og þróaði persónulegan stíl, meðal annars notaði hún hrosshár í verkin en í vefnaði sínum tengdi hún nýjar og gamlar aðferðir. Verkin eru mörg hver í rauðum og bláum tónum með skírskotun í íslenska náttúru. Þetta verk eftir Ásgerði er frá árinu 1981 og kallast Tenning með tilbrigði ll og er búið til úr ull og hrosshárum.

Ásgerður Búadóttir, Tenning með tilbrigði II, ull og hrosshár, 63 x 55 cm, 1981.
LÍ 4156

Ásgrímur Jónsson

(1876–1958)

Fæddur í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa

Miðlar: Málaralist

Ásgrímur Jónsson var heillaður af náttúrunni og má rekja áhuga hans strax til ársins 1878 þegar hann var aðeins tveggja ára. Þá hófst eldgos í Kötlu og sá hann gosið af bæjarhlaðinu heiman frá sér. Hann var upp frá því upptekinn af náttúrunni, bæði fegurð hennar og líka því hvað hún getur verið ógnvekjandi. 

Þegar Ásgrímur var 21 árs ákvað hann að gerast listmálari og flutti stuttu síðar til Kaupmannahafnar til að læra myndlist. Hann  dvaldi 11 ár í Danmörku og eitt ár á Ítalíu og sneri aftur heim til Íslands árið 1909 reynslunni ríkari. Ásgrímur hóf strax handa við að mála íslenska náttúru sem hann hafði hugsað svo mikið um en líka tröll, skessur, álfa og huldufólk. Hann teiknaði og málaði mikið upp úr íslensku þjóðsögunum meðal annars þessa mynd sem ber heitið Nátttröllið á glugganum.

Ásgrímur var brautryðjandi í íslenskri myndlist og hafði mikil áhrif á þá listamenn sem á eftir komu. Hann var líka sá fyrsti til að hafa myndlist að aðalstarfi á Íslandi. Ásgrímur var upptekinn af litum og birtu í íslenskri náttúru, ljósaskiptum, sumarnóttum, bjarma af eldgosum og öðrum slíkum blæbrigðum. Hann var alla tíð heillaður af eldgosum eftir lífsreynsluna á bæjarhlaðinu og gerði um 50 verk af eldgosum um ævina.

Ásgrímur gaf íslenska ríkinu allar eigur sínar árið 1952 en hann átti ekki maka og börn. Við Bergstaðastræti 74, þar sem Ásgrímur bjó og starfaði, rekur Listasafn Íslands safn honum til heiðurs þar sem hægt er að kynnast verkum hans.

Ásgrímur Jónsson, Nátttröllið á glugganum, vatnslitur, 1950–1955.
LÍÁJ-311/122

Áslaug Jónsdóttir

(1963)
Fædd á Akranesi
Miðlar: bóklist, grafísk hönnun, myndlýsing

Áslaug Jónsdóttir kallar sig bókverkakonu en auk þess að gera bókverk starfar hún sem rithöfundur, myndlýsir og grafískur hönnuður. Hún gekk í Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík og síðar í Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði myndlist og grafíska hönnun. Áslaug hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, bæði skrif og myndlýsingar, hér heima og í útlöndum. Í bóklistinni hefur hún gert handgerðar bækur af ýmsum toga meðal annars þessa hér sem ber heitið Þangað og er frá árinu 2008.

Áslaug Jónsdóttir, Þangað, bókverk, 2008.
https://aslaugjonsdottir.com/

Ásmundur Sveinsson

(1893–1982)

Fæddur að Kolsstöðum í Dölunum

Miðill: skúlptúr

Ásmundur Sveinsson ólst upp í sveit og hafði gaman af því að smíða þegar hann var barn. Hann vildi fara til Reykjavíkur að læra tréskurð en kveið því að segja pabba sínum frá því enda hélt hann að pabbi hans ætlaðist til þess að Ásmundur yrði bóndi. En pabbi hans tók vel í hugmyndina því það væri hvort sem er ekkert bóndaefni í Ásmundi. Ásmundur hélt því til Reykjavíkur og árið 1919 lauk hann prófi frá Iðnskólanum en þar hafði Ríkharður Jónsson kennt honum tréskurð. Eftir það fór hann til Kaupmannahafnar, Stokkhólms og Parísar að læra meira og kynnast straumum og stefnum í myndlist í Evrópu. Hann flutti aftur heim árið 1929.

Ásmundur vildi að list væri sem víðast meðal fólks enda eru mörg verka hans í almenningsrýmum í Reykjavík. Hann var stöðugt að þróa stíl sinn og vann skúlptúrana með mismunandi efnum, tré, leir og síðar málmum. Ásmundur var mjög vinnusamur og sagði að að enginn skapaði neitt sem væri í fýlu því listin yrði að vera full af gleði og lífsfögnuði. (1)

Ásmundur byggði tvö hús um ævina sem eru bæði mjög sérstök. Fyrra húsið er við Freyjugötu þar sem nú er Ásmundarsalur. Seinna húsið sem hann byggði er við Sigtún en þar er nú Ásmundarsafn sem er hluti af Listasafni Reykjavíkur. Þar er hægt að skoða höggmyndir hans, bæði innan og utanhúss. Helreiðin er verk sem Ásmundur gerði þegar seinni heimsstyrjöldin gekk yfir Evrópu. Hann lét sig dreyma um að gera útfærslu af henni sem væri svo stór að bílaumferð kæmist í gegnum hana. Ásmundur lifði lengi og skildi eftir sig gríðarlega mikið höfundarverk. Þegar hann var beðinn um að lýsa því í viðtali hvað væri höggmyndalist svaraði hann að hún væri að „taka efni, forma það og láta ljósið leika við það. Hún er leikur að ljósi. Ljós og efni tala saman í höggmyndum”. (2)

 1. Bókin um Ásmund. Matthías Johannessen. Helgafell. Reykjavík. 1971.
 2. Bókin um Ásmund. Matthías Johannessen. Helgafell. Reykjavík. 1971. Bls 54.

Ásmundur Sveinsson, Helreiðin, tréskúlptúr, 56,50 x 71 cm, 1944.
Listasafn Íslands: LÍ 7072

Ásta Ólafsdóttir

(1948)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni

Ásta Ólafsdóttir stundaði kennaranám í Reykjavík og París áður en hún lærði myndlist. Eftir myndlistar- og handíðaskólann (sem heitir nú Listaháskólinn) fór hún til Maastricht í Hollandi (19811984) þar sem hún kynntist vídeólistinni sem var að verða til sem listform á þeim tíma. Hún var ein af frumkvöðlunum á Íslandi í vídeólist. 

Ásta á mjög fjölbreyttan feril sem myndlistarmaður, en hún hefur líka kennt, skrifað bækur, verið sýningarstjóri og unnið ýmis félagsstörf tengd myndlist. Verk Ástu hafa verið sýnd víða um Evrópu og í Kína. Að útskýra list Ástu í stuttu máli er dálítið flókið því hún hefur unnið listina í alla mögulega miðla; málverk, vídeó, gjörninga og skúlptúr svo nokkuð sé nefnt. Sjálf segist hún vilja hafa verkin sín einföld og tær, og að um þau leiki loft. Hún hefur sagt að skynjun sé mikilvægari en skilningur þegar kemur að list. Að hverjum og einum sé frjálst að sjá myndirnar hennar með sínum augum og að listin væri í eðli sínu opin, hún væri spurning en ekki svar. Hún segir myndlistina fjalla um það sem orð ná ekki yfir, að hún sé til því tungumálið henti ekki. (1)

Þ. (1993, 20. febrúar). Listin að skynja án þess að skilja. Morgunblaðið B, Menning og listir bls. 2B.

Ásta Ólafsdóttir, Kyrralíf, vídeóverk, 1992.
LÍ-7361/361

F

Finnbogi Pétursson

(1959)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: Hljóðskúlptúrar

 

Þegar Finnbogi Pétursson var lítill dvaldi hann í sveit á sumrin þar sem hann gerði mikið af því að skrúfa í sundur rafmagnstæki og raða upp á nýtt, búa til hljóð, rafmagn og finna út hvernig þau fyrirbæri virka. Hann var líka flinkur teiknari. Hann fór í Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík þar sem Dieter Roth hafði mikil á hann en hann var þá kennari við skólann. Auk Dieters var kennari að nafni Hermann Nitsch við skólann og í sameiningu kenndu þeir Finnboga það með óbeinum hætti að myndlistinni væru engin takmörk sett. (GK bls 1) Eftir myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík fór Finnbogi til Maastricht í Hollandi þar sem hann segist hafa fundið sína hillu og áhugi hans á hljóði, rafmagni og hátölurum varð efniviður í myndlistarverk. Síðan hefur Finnbogi fundið ýmsar leiðir til að sjóngera það sem við sjáum vanalega ekki, hljóð- og ljósbylgjur sem loftið er fullt af. Sjálfur segir Finnbogi að verkin hans séu hljóðmynd af núinu og fjalli um tímann. Verkið Pendúlar er frá árinu 1993 og var sýnt í Menningarmiðstöðinni Gerðuberg í Breiðholti. Í gagnrýni um sýninguna veltir greinarhöfundur fyrir sér hvort hljóð geti verið myndlist. Verkið er dæmigert fyrir aðferð Finnboga en þar sveiflast þrír pendúlar með hátalara á endanum og myndar hljóð sem magnast þegar pendúlarnir nálgast hátalara á gólfinu. Verkið er eftirminnilegt og var sterk upplifun að mati gagnrýnanda sem endar grein sína á því að segja að myndlist Finnboga sé með því áhugaverðasta sem fram hafi komið í íslenskri myndlist á síðasta áratug. Verkið Pendúlar er nú í eigu Listasafns Íslands. Finnbogi var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001, alþjóðlegri myndlistarsýningu sem haldin er í Feneyjum annað hvert ár. 

Heimildir:

Gunnar Kristjánsson. (2006) Hljóðmynd af núinu. Viðtal við Finnboga Pétursson. Kunst und Kirche. 

Hannes Sigurðsson. (1997) Sjónþing Vlll, Finnbogi Pétursson. Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg.

Ólafur Gíslason. (1997, 17. febrúar) Myndlistin sem atburður. DV.

FInnbogi Pétursson, Pendúlar, 465 x 755 x 350 cm, 1993.
LÍ 7360

Finnur Jónsson

(1892–1993)

Fæddur í Hamarsfirði

Miðlar: málaralist

Finnur Jónsson var á sjó á unglingsárum, stundaði járnsmíði og þegar hann flutti til Reykjavíkur árið 1915 fór hann að læra gullsmíði. Hann fékk tilsögn í teikningu en hugur hans beindist að málaralistinni. Finnur hélt til Kaupmannahafnar eftir gullsmíðanámið og lærði málaralist um tíma. Þaðan fór hann til frekara náms til Berlínar og Dresden í Þýskalandi en á þeim árum var svo mikið að gerast í myndlist í Evrópu að í raun var um byltingu að ræða. Finnur varð eðlilega fyrir áhrifum frá því sem var að gerast í kringum sig en skólinn sem hann stundaði í Dresden var undir miklum áhrifum frá Bauhaus. Bauhaus var skóli sem arkitektinn Walter Gropius stofnaði í Weimar og starfaði á árunum 1919-1933. Bauhaus boðaði nýja tíma í hönnun, hreinleika, einföld form og sameinaði hugmyndir og aðferðir úr heimum tækni og lista. Skólanum var lokað af fasistum árið 1933 en skólinn, og stefnan sem við hann er kennd er ein sú áhrifamesta á 20. öld. Í kennaraliði skólans voru nokkrir af þekktustu myndlistarmönnum 20. aldarinnar, Paul Klee, Vassily Kandinsky og László Maholy-Nagy. Tveir síðarnefndu tilheyrðu útgáfu og galleríi sem kallaðist Der Sturm, eða storminn, en Finni hlotnaðist sá heiður að eiga 8 verk á sýningu á vegum gallerísins sem fór um Evrópu árið 1925. Það segir mikla sögu um hversu áhugaverð verk hans voru. 

Finnur drakk í sig áhrif umhverfisins og málaði í abstrakt stíl. Á slíkum myndum er engin fyrirmynd, ekkert sem við þekkjum eins og náttúra, hús eða manneskja heldur eitthvað sem kemur úr ímyndunarafli þess sem málar. Þegar Finnur kom heim til Íslands með abstrakt myndir sínar skildi fólk ekki myndirnar og vildi sjá eitthvað kunnuglegt eins og sjómenn, fjöll og hús. Fólk gerði því grín að myndunum og Finnur skynjaði að það væri ekki tímabært að sýna Íslendingum abstrakt verk. Hann fór því að mála sjómenn, náttúru og annað sem fólk skildi betur. Löngu síðar fór hann aftur að mála abstrakt myndir, þegar fólk var búið að venjast því að horfa á eitthvað sem var ekki kunnuglegt. Þrátt fyrir það má segja að það sem er merkilegast við arfleifð Finns Jónssonar í myndlist eru abstrakt myndir hans frá 3. áratugnum enda var hann fyrsti Íslendingurinn til að sýna abstrakt verk á sýningu. 

Örlagateningurinn er eitt af þekktustu verkum Finns og er í eigu Listasafns Íslands. Í myndinni gætir áhrifa rússnesku myndlistarmannanna Malevich og Kandinsky sem voru að brjóta upp hefðbundin form myndlistar nokkru áður en Örlagateningurinn var málaður. 

Heimildir:

Brittanica. (2021). Bauhaus. https://www.britannica.com/topic/Bauhaus

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Selma Jónsdóttir. (1976). Finnur Jónsson. Yfirlitssýning okt-nóv 1976. Sýningarskrá. Reykjavík: Listasafn Íslands.

K

Karl Kvaran

(1924–1989)

Fæddur á Borðeyri við Hrútafjörð

Miðill: málaralist

Karl Kvaran stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík 1941–45, við Listaháskólann í Kaupmannahöfn og í einkaskóla Rostrub Boegesen 1945–49. Auk þess nam hann hjá Marteini Guðmundssyni, Birni Björnssyni, Jóhanni Briem og Finni Jónssyni.
Karl er þekktur fyrir strangflatarmálverk sín og afgerandi litanotkun þar sem hann notaði oft andstæða liti. Strangflatarlist er abstraktlist (óhlutbundin málaralist) þar sem áhersla er á notkun beinna lína, hornréttra myndflata og órofinna litaflata, nokkurskonar framhald á rannsóknarstefnu kúbisma. Karl byggði á einfaldri, markvissri formbyggingu og var trúr abstraktlistinni allan sinn feril. Málverk hans urðu stærri og útlínur flata skarpari eftir því sem leið á listamannaferil hans. Auk þess sem hann teiknaði bogadregnar línur sem gaf verkum hans meiri hreyfingu.

Grein úr Morgunblaðinu, Merkir Íslendingar: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1531628/
Frétt í tengslum við Safneign á sunnudegi, Gerðarsafn: https://www.facebook.com/gerdarsafn/posts/4757483994307103/

Katrín Sigurðardóttir

(1967)

Fædd í Reykjavík

Miðill: skúlptúr, teikningar, ljósmyndir, innsetningar

Katrín Sigurðardóttir vinnur oftast þrívíð verk og eru skúlptúrar hennar fjölbreyttir. Í mörgum verkanna er eins og hún sé að kortleggja staði og tíma. Listaverkin eru þess eðlis að áhorfandinn upplifir þau misjafnlega eftir því hvar hann er staðsettur.

Katrín hefur á ferli sínum sýnt skúlptúra, teikningar, ljósmyndaverk og stórar innsetningar sem eru til þess fallin að umbreyta reynslu og upplifun áhorfandans. Verk hennar hafa verið sýnd hér heima og víða erlendis en hún hefur m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, Sao Paulo Tvíæringnum í Brasilíu, Momentum í Noregi og Rabat tvíæringnum í Marokkó. Einkasýning hennar í Metropolitan safninu í New York borg árið 2010 vakti mikla athygli.

Verkin eru til þess fallin að áhorfandinn sér heiminn út frá nýjum og óvæntum vinkli, þar sem oft á tíðum byggingalist, korta- og módelgerð mætast.

Frétt af vef Hornafjarðar, 2021: https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/katrin-synir-verk-i-svavarssafni
Frétt af vef Listasafns Reykjavíkur, 2015: https://listasafnreykjavikur.is/syningar/katrin-sigurdardottir-horft-inni-hvitan-kassa-skulpturar-og-model

Kjarval - Jóhannes Sveinsson Kjarval

(1882–1972)

Fæddur í Meðallandi í V-Skaftafellssýslu

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhannes Sveinsson Kjarval var fimm ára var hann sendur í fóstur til Borgarfjarðar Eystri en foreldrar hans voru fátækir og áttu 13 börn. Þar var hann umkringdur náttúru og fór snemma að teikna. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1902 og sameinaðist þar fjölskyldu sinni. Jóhannes réði sig á skútu árið 1905 og málaði víst mikið á sjónum. 1911 sigldi hann til London og þaðan ári síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í myndlist. Hann giftist danskri konu sem hét Tove og þau fluttu heim til Íslands árið 1922. Þau eignuðust tvö börn sem Tove tók með sér til Danmerkur eftir að þau skildu árið 1924.

Þegar lesið er um Kjarval í blöðum og bókum er hann iðulega ávarpaður meistari Kjarval og segir það sögu um hversu mikil virðing var borin fyrir honum. Meistari Kjarval var sérstakur maður og dálítill sérvitringur. Hann notaði orðið gillígogg við ýmis tækifæri, t.d. þegar hann var yfir sig hrifinn af einhverju, og sagði aðspurður að þetta væri alíslenskt orð þótt hann hafi búið það til yfir allt það „sem gott er, halló, húrra og bravó, glym hill og bikini“. (1) Kjarval tók oft leigubíl á Þingvöll eða annað út fyrir bæjarmörkin og setti upp trönurnar sínar til að mála. Svo biðu leigubílstjórarnir heilu og hálfu dagana eftir að hann væri búinn að mála. Á sumrin var hann margar vikur úti á landi, bjó oft í tjaldi og málaði úti í öllum veðrum. 

Í ævisögu sinni segir Erró frá því hvað Kjarval hafði mikil áhrif á hann í æsku. Hann lýsir því hvernig var að fá Kjarval í heimsókn í sveitina á sumrin og sagði að það hafi ævinlega verið uppi fótur og fit þegar Kjarval mætti á drossíu frá Reykjavík, rétt eins og þjóðhöfðingi væri á ferð. (2)

Kjarval sagði að íslensk náttúra yrði sinn skóli og eftir 1930 einbeitti hann sér nær eingöngu að náttúrunni í sínum myndum. Auk þess teiknaði hann andlitsmyndir. Sagt er að Kjarval hafi kennt Íslendingum að meta náttúru landsins. Hann horfði niður á landið og málaði mosa og steina og stundum læddust furðuverur inn í málverkin. Kjarval er ástsælasti málari þjóðarinnar og þegar fyrsta byggingin var reist í Reykjavík fyrir myndlist, var hún nefnd eftir Kjarval, Kjarvalsstaðir sem tilheyra Listasafni Reykjavíkur. 

Eitt af verkum Kjarvals sem er í eigu Listasafns Íslands kallast Reginsund og er málað eftir draum sem konunni hans dreymdi. Myndin er þakklætisvottur Kjarvals til Tove og var máluð árið 1938. (3)

 1. Morgunblaðið. (8. september 1965). Gilligogg.
 2. Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró. Margfalt líf. Mál og menning: Reykjavík
 3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands.

Kjarval, Reginsund, olía á striga, 161 x 115 cm, 1938.
LÍ 1146

P

Í vinnslu

V

Í vinnslu

Ö

Í vinnslu

B

Barbara Árnason

(1911–1975)

Fædd í Englandi

Miðill: grafík, textíll o.fl.

Barbara Moray Williams fæddist í Englandi og kom til Íslands í námsferð þegar hún var að læra hönnun og grafík í London árið 1936. Hún var fengin til að myndskreyta íslensk fornrit og hitti tilvonandi eiginmann sinn í Íslandsferðinni, myndlistarmanninn Magnús Á. Árnason. Hún flutti til Íslands í kjölfarið. Verk Barböru eru fjölbreytt en auk grafíkverka, málaði hún, teiknaði, gerði textílverk og vatnslitaþrykkjur. Í Melaskóla gerði hún veggmynd og saumaði leiksviðstjald. Hún var afkastamikil og vann meðal annars mikið með íslenska ull sem hún notaði í veggteppi. Barbara myndskreytti fjölda bóka, m.a. passíusálma Hallgríms Péturssonar og síðar sagði hún í viðtali að af öllu sem hún hefði gert væri hún ánægðust með myndirnar í Passíusálma Hallgríms. (1)

Barbara Árnason, Þvottur á snúru, 19 x 23 cm, 1935.
Gerðarsafn: LKG 1663

(1) Sigríður Thorlacius. (1961, 20. apríl). Ég er ánægðust með myndirnar í Passíusálma Hallgríms. Tíminn. Bls. 1.

Benedikt Gröndal

(1826-1907)

Fæddur á Álftanesi

Miðlar: teikning, málaralist, skáld

Benedikt Gröndal var margt til lista lagt, hann var skáld, málari og náttúruáhugamaður. Hann lærði norræn fræði í Kaupmannahöfn og kenndi við Lærða skólann (nú MR). Bölsýni þjakaði Benedikt sem skrifaði sjálfsævisöguna Dægradvöl um skrautlega ævi sína. Þar rekur hann ævi sína, þvæling um heiminn, námsár í Kaupmannahöfn og samskipti sín við fólk sem reyndust honum oft erfið. Barlómur er áberandi í bókinni en þar segir hann sig hafa skort ást og hlýju, stuðning og skilning í lífinu. Hann missti konu sína árið 1881 og tvær dætur og eftir það varð hann dapur og vonlaus. Hann fór að drekka óhóflega mikið brennivín og missti kennarastöðu sína fyrir vikið árið 1883. 

Benedikt sat þó ekki auðum höndum. Hann skrifaði, teiknaði, skoðaði náttúruna og málaði hana. Fáir ef einhverjir voru að rannsaka náttúruna á þessum tíma á Íslandi og þegar Benedikt fór með teikningar sínar af fuglum til Alþingis í þeirri von að fá styrk til að halda áfram vinnunni fékk hann ekki áheyrn. Rúmum 100 árum síðar, árið 2011, var gefin út vegleg bók með teikningunum hans sem eru geymdar í Náttúruminjasafni Íslands. Bókin vakti mikla athygli og fögnuð enda mikill dýrgripur. 

Árið 2018 kom svo út bókin Reykjavík um 1900 með augum Benedikts Gröndal. Reykjavíkurborg lét gera upp hús Benedikts sem var opnað árið 2017 í Grjótaþorpinu undir nafninu Gröndalshús þar sem minningu hans er haldið á lofti. Það má því segja að á síðustu áratugum hefur Benedikt sannarlega hlotið uppreist æru. Um meðfylgjandi verk sagði Benedikt: „Árið fyrir þjóðhátíðina fór mér að detta ýmislegt í hug, hvurt ég ekki mundi geta teiknað eitthvað eða gert einhverja minningarmynd að gamni mínu, og var ég að þessu frá því í ágúst og þangað til í desember; þá var ég búinn með uppkastið, sem mér þó ekki líkaði; samt lét ég setja það í umgjörð og ánafnaði Magdalenu litlu það í tannfé“ Dægradvöl, 275.

Benedikt Gröndal, Til minningar um Íslands þúsund ára byggingu, vatnslitur, 55 x 75 cm, 1873.
LÍ 461

Björg Þorsteinsdóttir

(1940–2019)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: grafík, samklipp, málaralist

Björg Þorsteinsdóttir stundaði myndlistarnám í Reykjavík, Stuttgart og París. Hún var afkastamikill myndlistarmaður og sýndi verk sín víða um heim á yfir 200 sýningum. Verkin eru í eigu listasafna á Norðurlöndunum, Frakklandi, Spáni, Póllandi og víðar. Björg var um tíma undir áhrifum frá japanskri fagurfræði og notaði handunninn japanskan pappír sem hún litaði sjálf af mikilli natni með vatnslitum, olíulitum eða gvasslitum. 

Björg var spurð í viðtali hvort listin ætti að þjóna einhverjum tilgangi og hún svaraði því til að listin gæti eytt hversdagsleika og gráma og lyft okkur upp og veitt okkur aðra sýn á tilveruna. (1) Í safneign Listasafns Íslands er verkið Óskasteinn I frá 1986, þar sjáum við áferð steinsins og fínlegt mynstur. Í fyrstu verkum Bjargar eru abstrakt áherslur en síðar bættust við ýmiss konar form og tilvísanir í himingeiminn og óravíddir hans.

Björg Þorsteinsdóttir, Óskasteinn ll, 60 x 49 cm, 1986.
LÍ 11456

 1. EKJ. (1989, 14. október). …að segja eitthvað með öðrum orðum. Morgunblaðið, bls. ?

Björn Grímsson

(1575–1635)

Miðlar: málaralist

Einn fyrsti nafngreindi listamaður þjóðarinnar var Björn Grímsson sem er talinn hafa fengið tilsögn í málaralist í Þýskalandi árið 1597. Meðal merkra gripa sem varðveittir eru í Þjóðminjasafninu eru málverk eftir Björn á predikunarstól Bræðratungukirkju. Það eru líklega elstu málverk sem varðveist hafa eftir íslenskan listamann. Björn var titlaður málari og sýslumaður en hann var líka góður teiknari.

Björn Grímsson, málverk á predikunarstól úr Bræðratungukirkju, 1630.
6274/1912-52

(https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=327479)

Bragi Ásgeirsson

(1931–2016)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: grafík, málaralist

Þegar Bragi Ásgeirsson var lítill strákur dreymdi pabba hans að einn sona hans yrði listmálari. Í framhaldinu keypti hann listaverkabækur til að kveikja áhuga hjá börnum sínum. Bragi var sá eini sem sýndi bókunum áhuga og sagði Bragi að bækurnar hafi verið örlagavaldar í lífi sínu. (1) Bragi var heyrnarlaus frá 9 ára aldri en hann hóf nám í myndlist 16 ára gamall í Reykjavík. Þegar hann var 19 ára fór hann til Kaupmannahafnar og síðan Osló og Munchen í frekara listnám. Hann dvaldi á Ítalíu frá 1953-4. Bragi var víðförull og sótti áhrif víða að í myndlistinni. Bragi hélt sína fyrstu sýningu í Reykjavík í Listamannaskálanum árið 1955 en þá var hann enn að prófa sig áfram í listinni og ekki búinn að finna sinn stíl. Bragi var góður teiknari, vann mikið með grafík, gerði þrívíð málverk með hlutum sem hann fann á víðavangi og var einnig ötull við að mála. Hann var afkastamikill listamaður og listamannsferill hans spannar 60 ár. Hann vann einnig sem kennari í Myndlistar- og handíðaskólanum og listgagnrýnandi Morgunblaðsins. Bragi málaði og teiknaði margar konur á ferli sínum og ein þeirra er Frúin ófeimna frá árinu 1975. Í verkinu eru fundnir hlutir svo sem þang, snæri og dúkka. 

Bragi Ásgeirsson, Ófeimna frúin, fundnir hlutir, málning og epoxy-plastefni, 1975.
LÍ 3555

Þóroddur Bjarnason. (2008). Augnasinfónía. Myndlist Braga Ásgeirssonar í 60 ár. Reykjavík: Opna.

Brynja Baldursdóttir

Brynja Baldursdóttir (1964)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: Bóklist

Brynja lærði myndlist og hönnun í Reykjavík og London og er þekktust fyrir bóklistaverk en hún segir bóklistina bræða saman bók og myndlist. Listformið bjóða upp á aðra möguleika en list sem hengd er á vegg, til dæmis megi snerta bókverk og því er áhorfandinn meiri þátttakandi í verkinu. Í safneign Listasafn Íslands er verkið Rúnaljóðabók sem hún gerði árið 1992. Á þeim tíma voru gömlu rúnirnar Brynju hugleiknar og hún gerði hringlaga bækur með rúnum framan á en myndskreytingum við ljóð innan í. Frú Vigdís Finnbogadóttir gaf Noregskonungi eina slíka bók eftir Brynju árið 1993. 

Brynja Baldursdóttir, Rúnaljóðabók, 29 x 26 x 2,2 cm, 1994.
LÍ 5620

Brynjar Sigurðsson

(1986)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: hönnun og smíði

 

Brynjar Sigurðsson lærði vöruhönnun í Listaháskólanum í Reykjavík og Lausanne í Sviss. Þegar hann vann lokaverkefnið sitt í Listaháskólanum dvaldist hann í Vopnafirði í mánuð og kynntist staðháttum og menningu. Eitt af því sem hann lærði var að hnýta hnúta af gömlum hákarlasjómanni. Þekkinguna nýtti hann sér síðar í að hanna húsgagnalínuna Þögult þorp en þar blandar hann saman hnútum og fyrirbærum úr sjávarþorpi við hefðbundin húsgögn. Þannig nýtti hann gamla verkþekkingu í nútímahönnum en einnig er að finna fundna hluti eins og flotholt, fjöður og nælongirni. Brynjar nýtir menningararfinn og sagnaarfinn og reynir að koma á óvart með efnisval í verkum sínum. 

Brynjar Sigurðsson, Galerie Kreo, 2013. Ljósmynd eftir Fabrice Gousset.

G

Gabríela Friðriksdóttir

(1971)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: málaralist, teikning, skúlptúr, vídeólist, innsetningar, gjörningar

 

Gabríela vinnur fjölbreytt verk sín í ólíka miðla. Verk hennar einkennast af ævintýralegum furðuverum og furðuheimum þar sem þjóðsagnir og ýmiss konar tákn koma mikið við sögu. Teiknimyndastíll er ríkjandi í teikningum hennar og málverkum. Verk Gabríelu hafa sterk einkenni og hún segir sjálf að hún búi til veröld í kringum hvert og eitt verk sem á að vera sjálfstæð. Hún segir aðalatriðið að vera ekki hrædd og taka sig ekki hátíðlega. Í viðtali árið 2008 sagði Gabríela að hún væri upptekin af ævintýrum og spuna og að henni þætti ekkert sérlega gaman að herma eftir raunveruleikanum, nóg væri af honum. Hún sagði líka að henni þætti vænt um þegar fólk upplifði verkin hennar í líkamanum, ekki með hugsun.

 

Í málverkum Gabríelu eru oft skærir litir en í innsetningum sem hún hefur gert er stundum eins og miðaldir vakni til lífsins í brúnum tónum, mold, heyi og brúntóna búningum dansara og leikara sem hún fær til liðs við sig. Gabríela hefur unnið með fjölbreyttum og stórum hópi fólks úr öðrum listgreinum, t.d. dönsurum og tónlistarfólki. Hún og tónlistarkonan Björk hafa unnið mikið saman. Gabríela gerði plötuumslög fyrir Björk og Björk lék og gerði tónlist fyrir vídeóverk Gabríelu en Gabríela var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2005. Síðan hefur hún sýnt verk sín víða um heiminn. Eftir Feneyjar bjó hún í 3 ár í kastala í Belgíu sem var með risastórum garði og síki í kring. Gabríela lærði myndlist í Reykjavík og Prag og kláraði BA próf frá skúlptúrdeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands (MHÍ) árið 1998. Eitt af verkum Gabríelu í safneign Listasafns Íslands er Skugginn frá árinu 2007. Þar er furðuvera eða einhvers konar sambland af veru og tré og bleiki liturinn sem er í dálitlu uppáhaldi hjá Gabríelu.

Heimildir: 

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Hanna Björk Valsdóttir. (2005, 17. nóvember) Um töfrandi tilgangsleysi myndlistarinnar. Málið/Morgunblaðið, bls. 12.

Kolbrún Bergþórsdóttir. (2008, 4. mars). Ævintýrið og spuninn. 24 Stundir, bls. 18.

Ólafur Kvaran. (2011). Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. Aldar. Reykjavík: Listasafn Íslands & Forlagið.

www.gabriela.is

Gabríela Friðriksdóttir, Skugginn, MDF, akrýllitur, blek, blýantur. 90 x 90 x 2,2 cm, 2007.
LÍ 8507

Georg Guðni Hauksson

(1961–2011)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

 

Náttúran er eflaust algengasta viðfangsefni málara gegnum söguna, ekki síst á Íslandi þar sem náttúran er allt um lykjandi. Þegar Georg Guðni var í Myndlistar- og handíðaskólanum á árunum 1980–85 þótti það mjög hallærislegt að mála náttúruna, þá var í tísku að vinna myndlist út frá hugmyndum. Eitt sinn í skólanum varð honum litið út um gluggann þar sem Esjan stóð í öllu sínu veldi. Hann fór að mála fjallið og upp frá því, þótt Georg Guðni hafi ekki stefnt í þá átt, gerðist það af sjálfu sér að hann fór að gera náttúruna að sínu viðfangsefni. Málverk Georgs Guðna eru ekki eins og flest náttúrumálverk sem við þekkjum sem eru af ákveðnum stað eða fyrirbæri heldur fanga þau órætt landslag eða tilfinningu um landslag. Hann hélt sínu striki og fullkomnaði stíl sinn með tímanum. Málverkin hans snúast um birtu og landslag sem er að miklu leyti byggt í huga þess sem horfir á verkið. Þau eru einföld en sterk á sama tíma og hafa fáa liti. Georg Guðni er í hópi ástsælustu landslagsmálara Íslands og er talinn hafa komið með eitthvað alveg nýtt og einstakt í það gamla form, landslagsmálverkið. Georg Guðni varð bráðkvaddur árið 2011, aðeins 50 ára að aldri. Í safneign Listasafns Íslands er verk án titils sem ber öll hans helstu höfundareinkenni. Friður ríkir í myndinni, hún er ekki af neinum ákveðnum stað, himinn og jörð mætast, litir eru fáir, myndin er draumkennd, og á sama tíma einföld og sterk. 

Georg Guðni, Án titils, olía á striga, 185 x 200 x 3,5 cm, 1994.
LÍ 5649

Gerður Helgadóttir

(1928–1975)

Fædd í Neskaupstað

Miðlar: skúlptúr, glerlist

 

Í vonskuveðri á haustmánuðum árið 1947 sigldi Gerður Helgadóttir á frystiskipi til Ítalíu, 19 ára gömul. Nokkru fyrr var hún á leið til Kaupmannahafnar í myndlistarnám en á síðustu stundu þurfti að hætta við 1þar sem bræður hennar voru í námi erlendis og foreldrar hennar gátu ekki kostað hana líka til náms. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir alla en þegar vinnufélagar pabba hennar sáu sorgina sem þetta olli honum ákváðu þeir að hjálpa til með samskoti og að redda ókeypis fari til Ítalíu með skipi. Gerður var fyrst Íslendinga til að fara til náms í myndlist á Ítalíu og fyrst íslenskra kvenna til að leggja höggmyndalist fyrir sig. Fyrst lærði hún klassíska höggmyndalist í Flórens á Ítalíu og þótt það væri góður grunnur vildi hún ekki stunda það að herma eftir fyrirmyndum heldur fylgja eigin hugmyndum. Eftir tvö ár á Ítalíu fór hún til Parísar til að vera í hringiðu listalífsins. Um tíma sótti hún einkaskóla rússneska myndhöggvarans Ossip Zadkine en fór svo að fylgja sinni sýn og hætti að þiggja leiðsögn annarra. Gerður var á þessum tíma að átta sig á því að málmar væru hennar uppáhalds efni. Gerður vann mikið. Hún var fjölhæf, einbeitt og vandvirk. Hún áorkaði ótrúlega miklu á sinni stuttu ævi. Hún hélt sína fyrstu sýningu í París aðeins ári eftir komuna þangað. 

 

Árið 1954 skrifaði Michel Ragon, myndlistargagnrýnandi grein sem ber titilinn Galdramaðurinn Gerður. Hann sagði að París hafi þegar tekið Gerði í fóstur og álíti hana einn sinn besta myndhöggvara. Hann skrifaði líka að hún væri eini kvenmyndhöggvarinn sem hafi þorað að ráðast á járnið og að hæfileikar hennar væru furðulegir, hún hafi hoggið svo meistaralega úr steini en að hún hafi strax náð ákveðnari stíl með járninu. (1) Gerður hélt margar sýningar á fyrstu árum sínum í  París og víða í Evrópu. Á þessum tíma voru gjaldeyrishöft og meiriháttar mál að senda peninga milli landa. Það var erfitt að fá laun fyrir skúlptúra á þessum tíma svo hún sinnti líka verkefnum sem voru pöntuð hjá henni. Hún gerði brjóstmyndir, glerverk í glugga á nokkrum kirkjum á Íslandi, hannaði skartgripi og húsgögn. Hún gerði stórt mósaíkverk á Tollhúsið í Tryggvagötu þar sem Listaháskóli Íslands verður með húsnæði sitt innan fárra ára. Gerður tilheyrði hópi í París sem stundaði andlega leit og var það henni innblástur í verkin hennar. Hún fór til Egyptalands árið 1966 til að skoða forn-egypska skúlptúra og varð það henni líka innblástur. Elín Pálmadóttir vinkona Gerðar sem einnig skrifaði ævisögu hennar sagði að Gerður hafi trúað því alla tíð að einhvers staðar væri einhver kjarni, eitthvað hreint og fagurt og satt, sem væri þess virði að lifa fyrir. Í þessari heimspeki hafi Gerður fundið leiðir fyrir sína eigin leit sem endurspeglast í verkum hennar. (2) Verk eftir Gerði eru dreifð víða, í kirkjum, á torgum, í söfnum og á heimilum víða um heiminn. Erfingjar Gerðar gáfu Kópavogsbæ 1400 verk eftir hana árið 1977 og árið 1994 var Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn opnað þar sem hægt er að kynnast verkum hennar. Eitt af verkum Gerðar í safneign Listasafns Íslands ber heitið Abstraction og er frá árinu 1952. 

Verkið er gert úr svartmáluðu járni.

 1. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 
 2. Michel Ragon (1954, 2. júní) Galdramaðurinn Gerður. Morgunblaðið. 
 3. Guðbjörg Kristjánsdóttir. Gerður – meistari glers og málma. (2010). Kópavogur: Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn.

Gerður Helgadóttir, Abstraction, járn, 91 cm, 1952.
LÍ 7079

Guðjón Ketilsson

(1956)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni, skúlptúr

 

Listin má ekki vera hátíðleg sagði Guðjón Ketilsson eitt sinn í viðtali og bætti því við að þar ætti að finnast lífsneisti, ekki eitthvað fyrirfram ákveðið. Nær allir sem hafa skrifað um verk Guðjóns Ketilssonar dást að því hversu vel hann gerir verk sín. Guðjón þykir afar flinkur og vandvirkur handverksmaður og hann vinnur með ýmis efni, mikið með tré en líka járn, gifs, pappír og postulín. Flest verka Guðjóns eru einföld ásýndar en mikil vinna liggur að baki þeim þrátt fyrir það. Það tekur mikinn tíma að móta skúlptúra úr tré enda vill hann gera sem mest í höndum. Guðjón er flinkur teiknari og byrjar vinnuferlið á teikningu sem leiðir hann oft í að vinna teikninguna í þrívíðan hlut, oftast úr tré. Guðjón hefur unnið mikið með fundna hluti, húsbyggingar og húsgögn sem hann setur í nýtt samhengi og spyr um leið að hlutverki og tilgangi. Guðjón lærði myndlist í Reykjavík og Halifax í Kanada og hefur sýnt myndlist sína á fjölmörgum sýningum hér heima og úti í löndum. 

Í safneign Listasafn Íslands er verk eftir Guðjón sem ber titilinn Yfirborð–Mannvirki en verkið er til sýnis á sýningunni Fjársjóður þjóðar í Safnahúsinu við Hverfisgötu. 

Einar Örn Gunnarsson. (1991, 21. september) Einfalt og kyrrt. Morgunblaðið.

Guðjón Ketilsson, Yfirborð–Mannvirki, viður, 195 x 340 x 62 cm, 2011.
LÍ 8862

Guðmunda Andrésdóttir

(1922–2002) 

Fædd í Reykjavík

Miðill: málaralist

 

Guðmunda Andrésdóttir varð fyrir opinberun á sýningu Svavars Guðnasonar veturinn 1945–6. Sýningin hafði svo mikil áhrif á hana að hún ákvað að gerast málari og dreif sig til Stokkhólms í myndlistarnám ári eftir að hún sá sýninguna. Sýning Svavars fékk litlar undirtektir í Reykjavík en Guðmunda sagði að hún hafi verið eins og sprengja inn í okkar litla heim en hann málaði abstrakt myndir, myndir sem voru ekki af landslagi, húsi eða öðru sem við þekkjum. Guðmunda lærði myndlist í Stokkhólmi og var tvo vetur í París 1951–3. Þá ferðaðist hún mikið um Evrópu og skoðaði söfn og sýningar. Í París varð hún fyrir miklum áhrifum frá málurum sem stunduðu geómetríska abstrakt list sem byggir á þeirri hugmynd að listin eigi ekki að vera eftirmynd veruleikans heldur eigi listamaðurinn að skapa nýjan veruleika í verkum sínum sem hægt er að njóta á eigin forsendum. (1) Í París eftirstríðsáranna fór fram uppgjör við stríðið og fortíðina og málverkið átti að vera „hreint og klárt og án allra aukaatriða“.(2) Á Íslandi höfðu landslagsmálverk verið allsráðandi fram að þessu og almenningur á Íslandi átti stundum erfitt með að taka abstrakt málverk í sátt. Guðmunda sagði í viðtali að oft nálgaðist andúð almennings á abstraktverkum sjúklegt hatur en hún hélt sig alla tíð við abstrakt málverk. Hún fór gegnum mismunandi skeið í málaralistinni og sagði að myndirnar væru rannsóknarferli, „rannsókn á formi, hreyfingu og litum“.(3) 

Árið 1990 var haldin yfirlitssýning á verkum Guðmundu á Kjarvalsstöðum. Í viðtali tengdu sýningunni sagði Guðmunda að myndlistin væri henni sem ólæknandi sjúkdómur og að hún fengi sömu óþreyjuna að mála og þegar hún sá verk Svavars 45 árum áður. Guðmunda er í hópi þeirra listamanna sem ruddu brautina í abstraktlist á Íslandi. Hún dó árið 2002 og erfði Listasafn ÍSlands, Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Háskólans að verkum sínum. Með erfðafé lét hún stofna Styrktarsjóð Guðmundu Andrésdóttur, til að styrkja unga myndlistarmenn til náms. 

 1. Dagný Heiðdal. (2004) List Guðmundu Andrésdóttur, þróun og gagnrýni. Guðmunda Andrésdóttir. Tilbrigði við stef. Reykjavík: Listasafn Íslands. 
 2. Ólafur Gíslason. (1990) Myndlist er ólæknandi sjúkdómur. Guðmunda Andrésdóttir. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur 
 3. Ólafur Gíslason. (1990) Myndlist er ólæknandi sjúkdómur. Guðmunda Andrésdóttir. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur 

Guðmunda Andrésdóttir, Átrúnaður, olía á striga, 110 x 120 cm, 1971.
LÍ 1605

Guðmundur Einarsson frá Miðdal

(1895–1963)

Fæddur í Miðdal í Mosfellssveit

Miðlar: málaralist, leirlist

 

Guðmundur ólst upp í Miðdal í Mosfellssveit og var elstur 11 systkina. Hann var handlaginn og fjölhæfur, sótti sjóinn, vann öll sveitastörf og byrjaði snemma að mála. Hann var mikill íþróttamaður og fjallagarpur en hugur hans beindist að myndlist. Árið 1919 bauð Einar Benediktsson athafnamaður Guðmundi að koma til sín í Kaupmannahöfn og var hann þar um skeið. 1921 fór hann til Þýskalands að læra höggmyndalist en þar lærði hann líka leirbrennslu. Guðmundur ferðaðist víða um Evrópu og skoðaði söfn og sýningar. Hann sýndi og seldi þónokkuð af verkum sínum úti í löndum og var boðin kennarastaða í Þýskalandi en hann sagðist ekki hafa fest yndi neins staðar annars staðar en á Íslandi, ekki síst útaf því hvað hér væri mikið frelsi.(1) Hann flutti því heim. Guðmundur gerðist brautryðjandi í leirmunagerð en hann kom sér upp brennsluofni fyrstur manna árið 1927, auk þess fann hann sjálfur jarðefni í munina. 

Guðmundur var afkastamikill listamaður, gerði höggmyndir af Jóni Arasyni biskup, Skúla fógeta, steindi glugga ásamt Finni Jónssyni í Bessastaðakirkju og vann hvelfingar með steinum í Þjóðleikhúsið og Háskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt. Hann hélt reglulega sýningar á málverkum, höggmyndum og leirmunum og seldi vel en hann sendi fréttatilkynningar í blöðin með tölum um aðsókn á sýningar og fjölda seldra verka. Eftir því sem leið á 6. áratuginn fannst listgagnrýnendum í Reykjavík ekki mikið til Guðmundar koma enda var abstrakt málverkið í algleymingi. Guðmundur svaraði fyrir sig og átti í hörðum ritdeilum þar sem hann varði sína afstöðu til listarinnar sem hann hélt út lífið. Virðing fyrir náttúru, þjóðlegum gildum og klassískri myndlist skipti hann miklu. Hann taldi nútímalist vera tískufyrirbrigði. Í bréfi til sonar síns, Erró, árið 1955 sagði hann íslenska list í algjörum ógöngum og áréttaði að listamaðurinn er ábyrgur gagnvart þjóðinni. (2) Guðmundur hélt sínu striki allt til enda þrátt fyrir árásir gagnrýnenda og leyfði náttúrunni að vera sitt helsta viðfangsefni. Þekktasta arfleifð hans í dag eru leirmunir sem nú seljast dýrum dómi á uppboðum af rjúpu, fálka og öðrum dýrum. Verkið Loki og Sigyn byggir á sögu úr norrænni goðafræði og er í safneign Listasafns Íslands. (3)

 1. JB. (1944, 11.apríl) Á veltandi steini vex ekki mosi. Þjóðviljinn
 2. Illugi Jökulsson.(1997) Guðmundur frá Miðdal. Seltjarnarnes: Ormstunga. 
 3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Loki og Sigyn, bronsmálað gifs, H 71,5 cm, 1926.
LÍ 6233

Gunnlaugur Scheving

(1904–1972)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Gunnlaugur Scheving byrjaði snemma á mála og hafði mikinn áhuga á myndum frá barnsaldri, bæði að búa þær til sjálfur en líka að skoða myndir annarra. (1) Hann lærði fyrst að teikna hjá Einari Jónssyni myndhöggvara og Muggi (Guðmundi Thorsteinssyni) áður en hann sigldi til Kaupmannahafnar árið 1923 og fór í Listakademíuna þar. Hann flutti heim eftir námið og einbeitti sér að málaralistinni. Viðfangsefni hans var fólk við störf, bændur og sjómenn. Gunnlaugur var heillaður af sjónum og málaði gjarnan stórar myndir af sjómönnum við vinnu. Í þeim myndum er hreyfing en í sveitamyndunum af bændum og þeirra dýrum er friðsæld og ró. Þjóðlífið varð hans aðalsmerki sem málara en hann vildi fara aðra leið en að mála hefðbundin landslagsmálverk. Stundum notaði hann þjóðsagnararfinn sem grunn í verkum sínum. Málverkin hans voru oft mjög stór, þau voru litrík og stíllinn auðþekkjanlegur. 

Gunnlaugur vandaði sig mikið við að mála og teiknaði alltaf skissur fyrst. Þetta gerði hann til þess að spá í myndbyggingu málverksins. Hann hélt ekki margar sýningar en þegar það gerðist var mikið skrifað í blöðin og verkunum hrósað. Gunnlaugur var ástsæll og á stórafmælum hans skrifaði fólk miklar þakkarræður í blöðin, ekki bara vegna verka hans en líka vegna mannkosta. Hann hafði mikla frásagnargáfu og kímnigáfu og var traustur vinur. Listunnandinn Ragnar Jónsson sagði um Gunnlaug á fimmtugsafmæli hans að ekki mundi hann eftir skemmtilegri manni og að hann haldi að til séu fáir betri málarar í heiminum en Gunnlaugur þó leitað sé víða um lönd. (2)  

Gunnlaugur lést árið 1972 og þá stóð í Morgunblaðinu að konungur íslenskrar myndlistar væri allur. Hann arfleiddi Listasafn Íslands að mörgum verkum, eitt þeirra er Hákarlinn tekinn inn

 1. 1 Þar er lífsást og húmanisni í hverju pensilfari. Morgunblaðið 13. nóvember 1966
 2. 2 Stórveldin þrjú og Scheving. Ragnar Jónsson. Morgunblaðið 7. Júní 1964

Gunnlaugur Scheving, Hákarlinn tekinn inn, olía, 255 x 405 cm, 1965.
LÍ 1674

L

Í vinnslu

R

Í vinnslu

X

Í vinnslu

C

Í vinnslu

H

Helgi Þorgils

(1953)

Fæddur í Búðardal

Miðlar: málaralist

Helgi Þorgils fæddist í Búðardal og flutti til Reykjavíkur 15 ára gamall. Eftir myndlistarnám í Reykjavík fór hann til Hollands í framhaldsnám og sneri til baka árið 1979. Hann hefur verið virkur í sýningahaldi síðan þá og hafa verkið hans farið víða um heiminn. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1990 en það er stór alþjóðleg myndlistarsýning sem haldin er annað hvert ár í Feneyjum á Ítalíu.

Helgi er einn þeirra sem endurreisti málverkið til virðingar eftir að það datt úr tísku á 8. áratugnum. 

Viðfangsefni hans í myndlistinni er samband manns og náttúru. Á Listasafni Íslands er verkið Fiskar sjávar en það er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar. Í verkinu koma höfundareinkenni Helga vel í ljós, þar ríkir ákveðið tímaleysi, þar er nakinn maður, dýr og náttúra en hann notar þau viðfangsefni mikið í myndlist sinni. 

Helgi Þorgils, Fiskar sjávar, olía, 236 x 205 cm, 1995.
LÍ 6100

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter

(1969) 

Fædd í Reykjavík

Miðlar: textíll, skúlptúr

Hrafnhildur Arnardóttir flutti til New York árið 1994 og hefur búið þar síðan. Listamannanafnið Shoplifter er tilkomið eftir að einhver misskildi nafnið hennar þegar hún kynnti sig. Hún greip það á lofti og hefur notað það síðan. Hrafnhildur er þekkt fyrir skúlptúra sína sem hún vinnur úr hári, bæði alvöru hári og gervihári. Þegar hún var lítil geymdi amma hennar fléttu úr hári Hrafnhildar í skúffunni og upp frá því fór hún að spá í hári en nær öll hennar list notar hár sem efnivið. 

Hrafnhildur tekur sjálfa sig og listina ekki mjög hátíðlega og er húmor stór hluti af hennar verkum. List Hrafnhildar eru á mörkum hönnunar, myndlistar og tísku en hún hefur unnið með ýmsum listamönnum og hönnuðum í gegnum tíðina t.d. tónlistarkonunni Björk og japanska hönnunarfyrirtækinu Comme des Garcons. Verk Hrafnhildar Cromo sapiens sem sýnt var á Feneyjatvíæringnum árið 2019 er nú til sýnis í Höfuðstöðinni  í Ártúnsbrekku sem áður var kartöflugeymsla.

Í safneign Listasafns Íslands eru þrjú verk eftir Hrafnhildi, eitt þeirra nefnist Study for a Opera l, og eru höfundareinkenni hennar augljós í verkinu; litagleði og fléttur úr hári.  

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, Study for a Opera l, hár, 164 X 217 cm, 2009.
LÍ 9198

Hreinn Friðfinnsson

(1943) 

Fæddur í Dalasýslu

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni

Í sveitinni þar sem Hreinn ólst upp var ekkert myndefni nema hjá prestinum, þar var eitt málverk. Hreinn drakk í sig það litla myndefni sem kom með fólki í sveitina og teiknaði mikið. 15 ára gamall flutti hann til Reykjavíkur og hóf myndlistarnám. Með viðkomu í listnámi í London og Róm flutti Hreinn til Amsterdam árið 1971 og hefur búið þar síðan. Árið 1965 stofnaði hann SÚM hópinn ásamt þeim Sigurði Guðmundssyni, Kristjáni Guðmundssyni og fleiri myndlistarmönnum. Listamennirnir í hópnum vildu frelsa myndlistina frá abstrakt hreyfingunni en fyrir þeim var hægt að búa til listaverk úr hverju sem er og setja það fram hvernig sem er. Fyrir þeim var hugmyndin aðalatriði en verkið aukaatriði. 

Myndlist Hreins er einföld ásýndar, hún fjallar oft um hið smáa, þar er kímni og líka mikil hugsun. Hreinn hefur aldrei verið mikið fyrir að tala um verkin, vill að þau tali fyrir sig sjálf. Hann er hógvær og segist ekki vera með nein sérstök skilaboð til áhorfenda. (Ath quote) Þegar hann fékk Ars Fennica verðlaunin í Finnlandi árið 2000 fannst honum óþægilegt umstangið og athyglin þótt hann væri þakklátur. Við það tækifæri var sagt að hann hefði þann einstaka hæfileika að gera allt svo einfalt, en um leið svo áhrifamikið, náið og tilfinningaríkt. (1) Í umsögn um sýningu Hreins árið 1999 komst Áslaug Thorlacius svo að orði að það væri nautn að skoða verk Hreins Friðfinnssonar. Þau væru myndlist í sinni hreinustu mynd, heimspeki sem orkar á skynjunina, beint og orðalaust. 

Það er áhugavert hvað einfaldleikinn getur verið áhrifamikill. Verk Hreins hafa hreyft við mörgum og verið sýnd í virtum söfnum og galleríum um víða veröld, t.d. á Pompidou safninu í París, í Serpentine galleríinu í London og á Feneyjatvíæringnum en hann var fulltrúi Íslands þar árið 1993. 

Í safneign Listasafns Íslands eru nokkur verk eftir Hrein, eitt þeirra er ljósmyndaverk frá árinu 1973 og heitir Attending.

 1. Morgunblaðið 13. október 2000. Mestu myndlistarverðlaun Norðurlanda afhent í gær. Hreinn Friðfinnsson hlýtur finnsku Ars Fennica-verðlaunin.
 2. 2. Áslaug Thorlacius. (13. apríl 1999). Hreinn tónn. Dagblaðið.

Hreinn Friðfinnsson, Attending, ljósmyndun, 55 x 70 cm, 1973.
LÍ 8048

M

Í vinnslu

S

Í vinnslu

Y

Í vinnslu

D

Daði Guðbjörnsson

 (1954)

Fæddur í Reykjavík

Miðill: málaralist

 

Daði Guðbjörnsson er einn þeirra listamanna sem endurvakti málverkið til virðingar í upphafi 9. áratugarins eftir að það datt úr tísku að gera hefðbundin málverk. Daði lærði fyrst húsgagnasmíði en sneri sér síðan að myndlist og grafík sem hann lærði í Reykjavík og Hollandi. Málverk Daða eru litrík og í þeim er glaðværð. Daði þróaði með sér sérstakan stíl sem einkennist af flúri og skrauti sem nánast dansar á myndfletinum. Um stefnur í myndlist sagði Daði í viðtali að hann vildi útmá stefnur og strauma og vildi að listamenn einbeittu sér fyrst og fremst að því að rækta sinn eigin garð. Með þessu átti hann við að hver og einn fyndi sína eigin rödd í listinni í stað þess að horfa til annarra. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Sjávarljóð, gert árið 1994 sem sýnir vel einkenni Daða, léttleika, hringlaga form og litagleði.  

Daði Guðbjörnsson, Sjávarljóð, 46 x 68,5 cm, 1994.
LÍ 5707

Davíð Örn Halldórsson

(1976)

Fæddist í Reykjavík

Miðill: málaralist

Breiðhyltingurinn Davíð Örn kom inn í myndlistina með látum eftir útskrift frá Listaháskólanum árið 2002. Verk hans vöktu strax mikla athygli og hrifningu en Davíð Örn málar mikið á fundna hluti svo sem viðarplötur, bakka, ljósmyndir eða húsgögn. Hann notar skæra liti, marga liti og ekki endilega liti sem fólk er vant að sjá saman. Myndmál hans er sterkt og eftirminnilegt og það ríkir gleði í myndunum hans. Verkin eru unnin með spreybrúsum, iðnaðarlakki og tússi. Davíð Örn hefur unnið myndir á veggi í Reykjavík og víðar, m.a Ræktaðu garðinn þinn á húsgafli á Seljavegi sem hann vann með Söru Riel árið 2012. Davíð Örn fékk virta viðurkenningu frá Carngie Art awards árið 2013 sem besti ungi listamaðurinn á Carnegie sýningunni. Þá var sagt um verkin að í þeim væru sjálfstæðir og vel mótaðir heimar.  

Í safneign Listasafns Íslands er verkið Royal, gert árið 2008.

Davíð Örn Halldórsson, Royal, lakk, túss, viður, 80 x 128 cm, 2008.
LÍ 8062

Dieter Roth

(1930–1998)

Fæddur í Basel, Þýskalandi

Miðlar: bóklist, grafík, leirlist, skúlptúr

Þýsk-svissneski myndlistarmaðurinn Dieter Roth sagði eitt sinn að hann gerði myndlist til að styðja við þann vana sinn að gefa út bækur. Dieter var einna fyrstur til að gera listaverk úr bók en hann gerði líka skúlptúra úr súkkulaði og öðrum mat sem hefur reynst forvörðum dálítið erfitt því matur rotnar með tímanum. Dieter lærði grafíska hönnun og prenttækni í Bern í Sviss. Hann settist að á Íslandi árið 1957 eftir að hann kynntist íslenskri konu. Dieter flutti með sér nýja strauma inn í íslenskt listalíf og hafði mikil áhrif hér á landi. Með fyrstu bókverkum Dieters ruddi hann brautina fyrir bókverkagerð íslenskra listamanna. Dieter gerði fjölda dagbóka undir áhrifum frá flúxus hreyfingunni sem hafði það að markmiði að afmá mörkin milli lífs og listar. Hann kannaði rými bókarinnar og gerði ýmiss konar tilraunir með tungumálið og hlutverk þess. Dieter var stöðugt að rannsaka og kanna í listinni allt fram á síðasta dag og notaði alla mögulega miðla til þess. Dieter Roth er eitt af stóru nöfnunum í listasögu seinni hluta 20. aldar og hafa verk hans verið sýnd í mörgum stærstu listasöfum heims, til dæmis í MoMA í New York og Tate í London. Í Munchen í Þýskalandi er safn tileinkað honum sem rekið er af Rieter Roth estate, en verk listamannsins eru einnig á mála hjá hinu virta galleríi Hauser & Wirth. Verk eftir Dieter eru í nokkrum safneignum á Íslandi, flest í Nýlistasafninu. Í Listasafni Íslands er bókverkið Kinderbuch sem þýðir barnabók á þýsku. Bókin er 13 blöð og samanstendur af geometrískum myndum eftir Dieter. 

Dieter Roth, kinderbuch, 32 x 32 cm, pappír, 1957.
LÍ 8909

Dröfn Friðfinnsdóttir

(1946-2000)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: grafík

Dröfn lærði myndlist í Reykjavík, Akureyri og Lahti í Finnlandi. Hún bjó eftir nám á Akureyri þar sem hún stundaði list sína auk þess sem hún vann sem kennari. Í grafíkinni sótti hún form og liti í náttúruna og landið. Dröfn hélt fjölda sýninga hérlendis og erlendis og fékk ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, m.a. menningarverðlaun finnska sjónvarpsins. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Kundalini ll eftir Dröfn sem er unnið með þrykkaðferð. 

Dröfn Friðfinnsdóttir, Kundalini ll, grafík, tréristur, 1999.
LÍ-6140

I

Í vinnslu

N

Í vinnslu

T

Í vinnslu

Ý

Í vinnslu

E

Einar Falur Ingólfsson

(1966)

Fæddur í Keflavík

Miðill: ljósmyndun

Einar Falur Ingólfsson stundaði nám í ljósmyndun í School of Visual Arts í New York en fyrir það kláraði hann BA gráðu í bókmenntafræði. Einar hefur starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu auk þess sem hann sinnir ljósmyndun og kennslu. Hann hefur haldið og stýrt sýningum, ritstýrt ljósmyndabókum, kennt og haldið fyrirlestra um ljósmyndun. Hann hefur  fetað í fótspor W.G. Collingwood sem ferðaðist um Ísland á síðari hluta 19. aldar og málaði vatnslitamyndir af sögustöðum á Íslandi. Einar Falur tók röð ljósmynda á sömu slóðum sem hann nefnir Sögustaðir þar sem ummerki samtímans eins og skilti, skurðir, malbik, hús og fólk hafa bæst við sögusviðið og landslagið. Gefin var út bók um verkefnið samhliða sýningu í Þjóðminjasafninu. Í myndröðinni Skjól frá 2010 myndar Einar Falur ýmiss konar skjól í náttúrunni sem skepnur nýta sér og gerir þau að táknmyndum skjólsins sem þjóðin leitaði að í kjölfar efnahagshrunsins 2008.

Einar Hákonarson

(1945)

Fæddist í Reykjavík

Miðlar: grafík, málaralist

 

15 ára gamall hóf Einar nám í Myndlistar- og handíðaskólanum og eftir það lá leiðin til Svíþjóðar í meira nám í myndlist. 1968 flutti hann heim og tók með sér djúpþrykk pressu sem hann kom fyrir í Myndlistar- og haldíðaskólanum en hann fór að kenna við skólann í kjölfarið. Sama ár hélt hann sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins og sagt er að með sýningunni hafi kveðið nýjan tón í íslenskri myndlist en málverkin á sýningunni voru fígúratíf sem var í andstöðu við ríkjandi abstrakt stefnu flestra myndlistarmanna á þeim tíma. Auk þess að starfa að myndlist gegndi hann ýmsum störfum t.d. var hann um tíma skólastjóri Myndlistar- og handíðaskólans, var listrænn stjórnandi Kjarvalsstaða og var fyrsti aðilinn til að byggja og reka menningarmiðstöð, Listaskálann í Hveragerði sem nú er Listasafn Árnesinga. Á sjötugsafmæli Einars árið 2015 var haldin yfirlitssýning á verkum hans á Kjarvalsstöðum og segir í sýningarskrá að íslensk menning og náttúra hafi verið Einari hugleikin og að sem myndlistarmaður hafi hann í verkum sínum tekið púlsinn á Íslandi með manneskjuna í forgrunni. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Púls tímans sem hann málaði árið 1968.

Einar Hákonarson, Púls tímans, masónít, olíulitur, 150 x 115 cm, 1968.
LÍ 1420

Einar Jónsson

(1874–1954)

Fæddist að Galtafelli í Árnessýslu

Miðill: skúlptúr

 

Einar var mjög ungur þegar hann ákvað að verða listamaður en samt hafði hann enga list séð. Hann hafði ríkt ímyndunarafl og sá alls kyns verur fyrir sér sem hann stundum tálgaði í tré. 19 ára gamall sigldi hann til Kaupmannahafnar til að láta drauminn rætast. Hann lærði fyrst tréskurð og teikningu og kláraði nám árið 1899. Eftir námið starfaði hann í Kaupmannahöfn og einnig í Róm, Berlín, London og Bandaríkjunum. Einar var fyrsti Íslendingurinn til að gera listina að atvinnu. Það var óvenjulegt á þessum tíma fyrir Íslending að ferðast jafn mikið og Einar. Þegar hann hafði skoðað heiminn og flutti heim til Íslands reisti hann sér hús sem stendur á Skólavörðuholti þar sem hann bjó og starfaði. Ekkert var á Skólavörðuholti þegar húsið var reist. Enn er húsið eitt af þeim fallegustu og óvenjulegustu í borginni en það var opnað sem safn árið 1923, fyrsta safn á Íslandi sem var opið almenningi. Einari fannst að listin ætti ekki að vera eftirlíking af einhverju heldur alltaf frumsköpun. Mörg af verkum Einars eru orðin hluti af borgarlandslagi Reykjavíkur, til dæmis styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli, styttan af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum og styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Auk þess að gera mannamyndir leitaði Einar gjarnan myndefnis í þjóðsögur, goðsagnir, trúarlegar hugmyndir og náttúruform. Einar sýndi fyrsta verk sitt á sýningu í Kaupmannahöfn árið 1901. Það var verkið Útlagar sem nú stendur við Hólavallakirkjugarð í Reykjavík. Myndefnið er sótt í íslenskar þjóðsögur og sýnir útlaga sem arkar áfram með látna konu sína á herðunum og barn sitt í fanginu og hundurinn þeirra fylgir þeim. 

Einar Jónsson, Útlagar, gifs, 15 x 11 x 10 cm, 1901.
LÍ 8868

Erró, Guðmundur Guðmundsson

(1932)

Fæddist í Ólafsvík

Miðlar: málaralist, samklipp

Guðmundur Guðmundsson er sonur listamannsins Guðmundar frá Miðdal og hann ólst upp á Kirkjubæjarklaustri. Hann tók sér síðar listamannsnafnið Ferró en þegar hann bjó á Ítalíu við nám gat enginn sagt Guðmundur. Síðar datt f-ið út og eftir stendur Erró. Þegar Erró var lítill kom Kjarval í sveitina hans til að mála úti í náttúrunni. Það var hátíð í sveitinni þegar Kjarval renndi í hlað líkt og hann væri þjóðhöfðingi. Erró segir að Kjarval hafi kveikt hjá sér áhugann á að mála og síðar þegar hann var sjálfur orðinn listamaður rifjaði hann upp í bréfi til mömmu sinnar hversu mikil áhrif Kjarval hafði á sýn hans á myndlist. (1) 

Erró lærði myndlist í Reykjavík, Flórens, Ravenna og Osló og flutti til Parísar árið 1958 og hefur búið þar síðan. Hann dvelur í Tælandi á vetrum en í húsi sínu á Spáni á sumrin. Árið 1989 gaf Erró Listasafni Reykjavíkur 2.000 verk eftir sig en nú eru þau orðin 4.000. Viðfangsefni hans eru oftast samfélagið sjálft, ádeilur og viðfangsefni líðandi stundar; neyslusamfélagið, stríðsrekstur, oftrú á tækninni. List hans flokkast undir svokallaða popplist. Erró er fyrst og fremst málari en hefur mikið notað klippimyndir í list sinni. Verkin eru auðþekkjanleg enda litrík og hafa sterk höfundareinkenni. Erró er lífsglaður og orkumikill og hefur verið gríðarlega afkastamikill listamaður. Líf hans hefur verið mjög viðburðaríkt og ævintýralegt eins og lesa má í ævisögu hans. Í safneign Listasafns Íslands er verk án titils sem sýnir konu sem hefur orðið tæknivæðingunni að bráð og persónueinkenni hennar hafa máðst út. Verkið er gert árið 1958 en stíll hans átti eftir að breytast mikið eftir það.

Heimild:
Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró, margfalt líf. Reykjavík: Mál og Menning.

Erró, Án titils, samklipp, 32 x 25 cm, 1958.
LÍ 4830

Eyborg Guðmundsdóttir

(1924–1977)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: málaralist, skúlptúr

Eyborg ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Ingólfsfirði vestur á fjörðum. Hún veiktist af berklum þegar hún var 16 ára og í stað þess að fara í menntaskóla eyddi hún fjórum árum á spítala. Eftir spítalavistina flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún kynntist Dieter Roth, Sigríði Björnsdóttur og fleiri listamönnum en Dieter kenndi henni myndlist um tíma. Hann hvatti Eyborgu til að fara til Parísar að læra myndlist sem hún og gerði árið 1959, 35 að aldri. Skólinn átti illa við hana en þess í stað fékk hún einkakennslu hjá listamanninum Victor Vasarely. Hún fékk inngöngu í listahópinn Groupe Mesure og tók þátt í sýningum með hópnum víða um Evrópu á næstu árum. Eyborg vann til verðlaun fyrir list sína í París árið 1964. Hún flutti heim árið 1965 og hélt margar sýningar næstu árin, m.a. Í Bogasal Þjóðminjasafnsins og á Mokka árið 1966. Í glugganum á Mokka hangir enn verk eftir hana af þeirri sýningu. 

Árið 2019 var haldin yfirlitssýning á verkum Eyborgar á Kjarvalsstöðum. Þar voru verk frá öllum ferli hennar, sem var frekar stuttur en þrátt fyrir það náði hún að gera hátt í 200 verk. Eyborg sagði að hrein form og línur höfðuðu til hennar í listinni. Einfaldleikinn á bezt við mitt hugarfar, sagði hún í viðtali við Morgunblaðið árið 1965, „fyrst og fremst er ég að reyna að koma reglu á í mínum eigin hugarheimi.“ Mörg verka Eyborgar eru gerð í op-stíl, optical þýðir sjón og vísar í það þegar áhorfandinn upplifir sjónvillu eða sjónhverfingu við það að horfa á verk. Þetta á sér í lagi við um þrívíð verk sem hún gerði á 7.áratugnum úr plexigleri. Verk Eyborgar eru einföld og sterk á sama tíma. Þau eru geómetrísk, en það er hugtak sem kemur úr stærðfræði og þýðir að verkin hennar fáist við frumformin; hring, ferhyrning og línu. 

Í safneign Listasafn Íslands er verkið Titrandi strengir, málað árið 1974.

Eyborg Guðmundsdóttir, Titrandi strengir, olía á striga, 101 x 101 cm, 1974.
LÍ 3824

Heimildir:

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Gengi geometrískar listar fer sívaxandi. Morgunblaðið. 17. janúar 1965.

Mér finnst allt merkilegt sem vel er gert og af einlægni. Morgunblaðið. 29. Nóvember 1975.

(greinar teknar úr safni Listasafns ÍSlands og eru ekki með blaðsíðutali né höfundi)

Ólöf Kristín Sigurðardóttir. (2019) Eyborg Guðmundsdóttir, hringur, ferhyrningur og lína. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur.

Eyborg Guðmundsdóttir

(1924–1977)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: málaralist, skúlptúr

Eyborg ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Ingólfsfirði vestur á fjörðum. Hún veiktist af berklum þegar hún var 16 ára og í stað þess að fara í menntaskóla eyddi hún fjórum árum á spítala. Eftir spítalavistina flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún kynntist Dieter Roth, Sigríði Björnsdóttur og fleiri listamönnum en Dieter kenndi henni myndlist um tíma. Hann hvatti Eyborgu til að fara til Parísar að læra myndlist sem hún og gerði árið 1959, 35 að aldri. Skólinn átti illa við hana en þess í stað fékk hún einkakennslu hjá listamanninum Victor Vasarely. Hún fékk inngöngu í listahópinn Groupe Mesure og tók þátt í sýningum með hópnum víða um Evrópu á næstu árum. Eyborg vann til verðlaun fyrir list sína í París árið 1964. Hún flutti heim árið 1965 og hélt margar sýningar næstu árin, m.a. Í Bogasal Þjóðminjasafnsins og á Mokka árið 1966. Í glugganum á Mokka hangir enn verk eftir hana af þeirri sýningu. 

Árið 2019 var haldin yfirlitssýning á verkum Eyborgar á Kjarvalsstöðum. Þar voru verk frá öllum ferli hennar, sem var frekar stuttur en þrátt fyrir það náði hún að gera hátt í 200 verk. Eyborg sagði að hrein form og línur höfðuðu til hennar í listinni. Einfaldleikinn á bezt við mitt hugarfar, sagði hún í viðtali við Morgunblaðið árið 1965, „fyrst og fremst er ég að reyna að koma reglu á í mínum eigin hugarheimi.“ Mörg verka Eyborgar eru gerð í op-stíl, optical þýðir sjón og vísar í það þegar áhorfandinn upplifir sjónvillu eða sjónhverfingu við það að horfa á verk. Þetta á sér í lagi við um þrívíð verk sem hún gerði á 7.áratugnum úr plexigleri. Verk Eyborgar eru einföld og sterk á sama tíma. Þau eru geómetrísk, en það er hugtak sem kemur úr stærðfræði og þýðir að verkin hennar fáist við frumformin; hring, ferhyrning og línu. 

Í safneign Listasafn Íslands er verkið Titrandi strengir, málað árið 1974.

Eyborg Guðmundsdóttir, Titrandi strengir, olía á striga, 101 x 101 cm, 1974.
LÍ 3824

Heimildir:

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Gengi geometrískar listar fer sívaxandi. Morgunblaðið. 17. janúar 1965.

Mér finnst allt merkilegt sem vel er gert og af einlægni. Morgunblaðið. 29. Nóvember 1975.

(greinar teknar úr safni Listasafns ÍSlands og eru ekki með blaðsíðutali né höfundi)

Ólöf Kristín Sigurðardóttir. (2019) Eyborg Guðmundsdóttir, hringur, ferhyrningur og lína. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur.

Í

Í vinnslu

O

Í vinnslu

U

Í vinnslu

Þ

Í vinnslu

A

Alfreð Flóki Nielsen

(1938–1987)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Þegar Alfreð Flóki var lítill langaði hann að verða trúður í fjölleikahúsi þegar hann yrði stór. (1) Það gekk ekki eftir en í staðinn bjó hann til sína eigin ævintýraveröld gegnum myndirnar sem hann teiknaði. Fyrsta sýning Alfreðs Flóka vakti mikla athygli í Reykjavík enda líktist hún engu sem fólk hafði séð áður. Hún var haldin árið 1959 í Bogasal Þjóðminjasafnsins og voru bæði stíllinn og viðfangsefnin framandi. Meðal gesta á sýningunni var Kjarval sem horfði víst vel og lengi á hvert verk og sagði að myndirnar væru alveg gilligogg.(2) Hvað Kjarval átti við vitum við ekki en víst er að myndlistin hreyfði við fólki sem bæði dáðist og hneykslaðist á listamanninum og myndlistinni hans. Alfreð Flóki klæddist iðulega grænum flauels jakkafötum og stórri þverslaufu. 

Alfreð Flóki stundaði nám í myndlist í Reykjavík og Kaupmannahöfn þar sem hann bjó lengi. Hann var feiminn að eðlisfari en fór sínar eigin leiðir í myndlistinni. Í myndum hans eru konur oft í forgrunni, myndirnar eru stundum ógnvekjandi og dálítið grófar. Furðuverur, dulspeki, dauðinn, vísar í kynlíf og ýmis tákn koma fyrir í myndunum. Alfreð Flóki varð fyrir áhrifum frá hreyfingum í málaralist sem kenndar eru við súrrealima og expressionisma, meðal þeirra sem talið er að hann hafi orðið fyrir innblæsti af eru Otto Dix, Salvador Dalí, Aubrey Beardsley og Rene Margitte

Blóm flagarans er teikning í eigu Listasafns Íslands eftir Alfreð Flóka sem ber öll helstu höfundareinkenni hans: mynd af konu þar sem fegurð og ljótleiki kallast á og myndin er dularfull og myrk.

Alfreð Flóki, Blóm flagarans, blek á pappír, 41 x 38 cm, 1966.
LÍ 1326

 

 1. Jóhann Hjálmarsson. Alfreð Flóki Teikningar. 1963. Reykjavík.
 2. Nína Björk Árnadóttir, sýningarskrá Listasafns Reykjavíkur, Alfreð Flóki, verk úr eigu Listasafns Reykjavíkur ágúst – október 1992.

Anna Líndal

(1957)

Fædd að Lækjarmóti í Víðidal

Miðlar: textíllist, skúlptúr, vídeólist, innsetningar.

Anna Líndal lærði myndlist í Reykjavík, Antwerpen, London og Berlín eftir að hafa klárað fataiðn í Iðnskólanum í Reykjavík árið 1978. Framan af ferli sínum vann hún mikið með heimilislíf og hversdagsleikann í verkum sínum og tvinnaði saman textíl og umfjöllun um samfélagið. Íslensk hannyrðahefð og kynjahlutverk voru áberandi. Sem dæmi er verkið Eldhúslíf þar sem gafflar eru vafðir með tvinna í mörgum litum. Verkið minnir okkur á mikilvægi vinnu kvenna inni á heimilunum í áranna rás. 

Á síðari árum hefur náttúran og náttúruvísindi orðið fyrirferðameiri í verkum Önnu en hún hefur farið með náttúruvísindamönnum á hálendi Íslands frá árinu 1986, fylgst með vinnu þeirra og fengið hugmyndir og efnivið í ný verk. Árið 2017 var yfirlitssýning á 30 ára myndlistarferli Önnu í Listasafni Reykjavíkur sem bar heitið Leiðangur. Þar gat að líta verk sem urðu til í kjölfar jöklaleiðangra þar sem hún bjó til handsaumuð landakort.

Anna Líndal, Eldhúslíf, skúlptúr, blönduð tækni, 1994.
LÍ 7312

Á

Ásgerður Búadóttir

(1920–2014)

Fædd í Borgarnesi

Miðill: textíllist, vefnaðarlist

Ásgerður Búadóttir lærði myndlist í Reykjavík og við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Á ferðalagi um Frakkland árið 1949 kynntist hún vefnaði sem listformi og heillaðist svo að hún keypti sér vefstól og flutti með sér heim til Íslands. Ásgerður notaði ull til að vefa sem hún litaði sjálf með náttúrulegum litum. Hún teiknaði fyrst upp það sem hún ætlaði sér að vefa og vefaði svo. Það tók hana aldrei minna en tvo mánuði að gera hverja mynd.

Árið 1956 vann Ásgerður til gullverðlauna á alþjóðlegri list- og handverkssýningu í Munchen í Þýskalandi sem var hvati fyrir hana að halda áfram á braut sinni með vefnaðinn.

Þrátt fyrir að vefnaður væri ein elsta listgrein á Íslandi voru nær engir myndlistarmenn að vefa á þessum tíma en Ásgerður átti stóran þátt í því að opna augu almennings fyrir listvefnaði. Ásgerður leitaði sífellt nýrra leiða í vefnaðinum og þróaði persónulegan stíl, meðal annars notaði hún hrosshár í verkin en í vefnaði sínum tengdi hún nýjar og gamlar aðferðir. Verkin eru mörg hver í rauðum og bláum tónum með skírskotun í íslenska náttúru. Þetta verk eftir Ásgerði er frá árinu 1981 og kallast Tenning með tilbrigði ll og er búið til úr ull og hrosshárum.

Ásgerður Búadóttir, Tenning með tilbrigði II, ull og hrosshár, 63 x 55 cm, 1981.
LÍ 4156

Ásgrímur Jónsson

(1876–1958)

Fæddur í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa

Miðlar: Málaralist

Ásgrímur Jónsson var heillaður af náttúrunni og má rekja áhuga hans strax til ársins 1878 þegar hann var aðeins tveggja ára. Þá hófst eldgos í Kötlu og sá hann gosið af bæjarhlaðinu heiman frá sér. Hann var upp frá því upptekinn af náttúrunni, bæði fegurð hennar og líka því hvað hún getur verið ógnvekjandi. 

Þegar Ásgrímur var 21 árs ákvað hann að gerast listmálari og flutti stuttu síðar til Kaupmannahafnar til að læra myndlist. Hann  dvaldi 11 ár í Danmörku og eitt ár á Ítalíu og sneri aftur heim til Íslands árið 1909 reynslunni ríkari. Ásgrímur hóf strax handa við að mála íslenska náttúru sem hann hafði hugsað svo mikið um en líka tröll, skessur, álfa og huldufólk. Hann teiknaði og málaði mikið upp úr íslensku þjóðsögunum meðal annars þessa mynd sem ber heitið Nátttröllið á glugganum.

Ásgrímur var brautryðjandi í íslenskri myndlist og hafði mikil áhrif á þá listamenn sem á eftir komu. Hann var líka sá fyrsti til að hafa myndlist að aðalstarfi á Íslandi. Ásgrímur var upptekinn af litum og birtu í íslenskri náttúru, ljósaskiptum, sumarnóttum, bjarma af eldgosum og öðrum slíkum blæbrigðum. Hann var alla tíð heillaður af eldgosum eftir lífsreynsluna á bæjarhlaðinu og gerði um 50 verk af eldgosum um ævina.

Ásgrímur gaf íslenska ríkinu allar eigur sínar árið 1952 en hann átti ekki maka og börn. Við Bergstaðastræti 74, þar sem Ásgrímur bjó og starfaði, rekur Listasafn Íslands safn honum til heiðurs þar sem hægt er að kynnast verkum hans.

Ásgrímur Jónsson, Nátttröllið á glugganum, vatnslitur, 1950–1955.
LÍÁJ-311/122

Áslaug Jónsdóttir

(1963)
Fædd á Akranesi
Miðlar: bóklist, grafísk hönnun, myndlýsing

Áslaug Jónsdóttir kallar sig bókverkakonu en auk þess að gera bókverk starfar hún sem rithöfundur, myndlýsir og grafískur hönnuður. Hún gekk í Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík og síðar í Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði myndlist og grafíska hönnun. Áslaug hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, bæði skrif og myndlýsingar, hér heima og í útlöndum. Í bóklistinni hefur hún gert handgerðar bækur af ýmsum toga meðal annars þessa hér sem ber heitið Þangað og er frá árinu 2008.

Áslaug Jónsdóttir, Þangað, bókverk, 2008.
https://aslaugjonsdottir.com/

Ásmundur Sveinsson

(1893–1982)

Fæddur að Kolsstöðum í Dölunum

Miðill: skúlptúr

Ásmundur Sveinsson ólst upp í sveit og hafði gaman af því að smíða þegar hann var barn. Hann vildi fara til Reykjavíkur að læra tréskurð en kveið því að segja pabba sínum frá því enda hélt hann að pabbi hans ætlaðist til þess að Ásmundur yrði bóndi. En pabbi hans tók vel í hugmyndina því það væri hvort sem er ekkert bóndaefni í Ásmundi. Ásmundur hélt því til Reykjavíkur og árið 1919 lauk hann prófi frá Iðnskólanum en þar hafði Ríkharður Jónsson kennt honum tréskurð. Eftir það fór hann til Kaupmannahafnar, Stokkhólms og Parísar að læra meira og kynnast straumum og stefnum í myndlist í Evrópu. Hann flutti aftur heim árið 1929.

Ásmundur vildi að list væri sem víðast meðal fólks enda eru mörg verka hans í almenningsrýmum í Reykjavík. Hann var stöðugt að þróa stíl sinn og vann skúlptúrana með mismunandi efnum, tré, leir og síðar málmum. Ásmundur var mjög vinnusamur og sagði að að enginn skapaði neitt sem væri í fýlu því listin yrði að vera full af gleði og lífsfögnuði. (1)

Ásmundur byggði tvö hús um ævina sem eru bæði mjög sérstök. Fyrra húsið er við Freyjugötu þar sem nú er Ásmundarsalur. Seinna húsið sem hann byggði er við Sigtún en þar er nú Ásmundarsafn sem er hluti af Listasafni Reykjavíkur. Þar er hægt að skoða höggmyndir hans, bæði innan og utanhúss. Helreiðin er verk sem Ásmundur gerði þegar seinni heimsstyrjöldin gekk yfir Evrópu. Hann lét sig dreyma um að gera útfærslu af henni sem væri svo stór að bílaumferð kæmist í gegnum hana. Ásmundur lifði lengi og skildi eftir sig gríðarlega mikið höfundarverk. Þegar hann var beðinn um að lýsa því í viðtali hvað væri höggmyndalist svaraði hann að hún væri að „taka efni, forma það og láta ljósið leika við það. Hún er leikur að ljósi. Ljós og efni tala saman í höggmyndum”. (2)

 1. Bókin um Ásmund. Matthías Johannessen. Helgafell. Reykjavík. 1971.
 2. Bókin um Ásmund. Matthías Johannessen. Helgafell. Reykjavík. 1971. Bls 54.

Ásmundur Sveinsson, Helreiðin, tréskúlptúr, 56,50 x 71 cm, 1944.
Listasafn Íslands: LÍ 7072

Ásta Ólafsdóttir

(1948)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni

Ásta Ólafsdóttir stundaði kennaranám í Reykjavík og París áður en hún lærði myndlist. Eftir myndlistar- og handíðaskólann (sem heitir nú Listaháskólinn) fór hún til Maastricht í Hollandi (19811984) þar sem hún kynntist vídeólistinni sem var að verða til sem listform á þeim tíma. Hún var ein af frumkvöðlunum á Íslandi í vídeólist. 

Ásta á mjög fjölbreyttan feril sem myndlistarmaður, en hún hefur líka kennt, skrifað bækur, verið sýningarstjóri og unnið ýmis félagsstörf tengd myndlist. Verk Ástu hafa verið sýnd víða um Evrópu og í Kína. Að útskýra list Ástu í stuttu máli er dálítið flókið því hún hefur unnið listina í alla mögulega miðla; málverk, vídeó, gjörninga og skúlptúr svo nokkuð sé nefnt. Sjálf segist hún vilja hafa verkin sín einföld og tær, og að um þau leiki loft. Hún hefur sagt að skynjun sé mikilvægari en skilningur þegar kemur að list. Að hverjum og einum sé frjálst að sjá myndirnar hennar með sínum augum og að listin væri í eðli sínu opin, hún væri spurning en ekki svar. Hún segir myndlistina fjalla um það sem orð ná ekki yfir, að hún sé til því tungumálið henti ekki. (1)

Þ. (1993, 20. febrúar). Listin að skynja án þess að skilja. Morgunblaðið B, Menning og listir bls. 2B.

Ásta Ólafsdóttir, Kyrralíf, vídeóverk, 1992.
LÍ-7361/361

B

Barbara Árnason

(1911–1975)

Fædd í Englandi

Miðill: grafík, textíll o.fl.

Barbara Moray Williams fæddist í Englandi og kom til Íslands í námsferð þegar hún var að læra hönnun og grafík í London árið 1936. Hún var fengin til að myndskreyta íslensk fornrit og hitti tilvonandi eiginmann sinn í Íslandsferðinni, myndlistarmanninn Magnús Á. Árnason. Hún flutti til Íslands í kjölfarið. Verk Barböru eru fjölbreytt en auk grafíkverka, málaði hún, teiknaði, gerði textílverk og vatnslitaþrykkjur. Í Melaskóla gerði hún veggmynd og saumaði leiksviðstjald. Hún var afkastamikil og vann meðal annars mikið með íslenska ull sem hún notaði í veggteppi. Barbara myndskreytti fjölda bóka, m.a. passíusálma Hallgríms Péturssonar og síðar sagði hún í viðtali að af öllu sem hún hefði gert væri hún ánægðust með myndirnar í Passíusálma Hallgríms. (1)

Barbara Árnason, Þvottur á snúru, 19 x 23 cm, 1935.
Gerðarsafn: LKG 1663

(1) Sigríður Thorlacius. (1961, 20. apríl). Ég er ánægðust með myndirnar í Passíusálma Hallgríms. Tíminn. Bls. 1.

Benedikt Gröndal

(1826-1907)

Fæddur á Álftanesi

Miðlar: teikning, málaralist, skáld

Benedikt Gröndal var margt til lista lagt, hann var skáld, málari og náttúruáhugamaður. Hann lærði norræn fræði í Kaupmannahöfn og kenndi við Lærða skólann (nú MR). Bölsýni þjakaði Benedikt sem skrifaði sjálfsævisöguna Dægradvöl um skrautlega ævi sína. Þar rekur hann ævi sína, þvæling um heiminn, námsár í Kaupmannahöfn og samskipti sín við fólk sem reyndust honum oft erfið. Barlómur er áberandi í bókinni en þar segir hann sig hafa skort ást og hlýju, stuðning og skilning í lífinu. Hann missti konu sína árið 1881 og tvær dætur og eftir það varð hann dapur og vonlaus. Hann fór að drekka óhóflega mikið brennivín og missti kennarastöðu sína fyrir vikið árið 1883. 

Benedikt sat þó ekki auðum höndum. Hann skrifaði, teiknaði, skoðaði náttúruna og málaði hana. Fáir ef einhverjir voru að rannsaka náttúruna á þessum tíma á Íslandi og þegar Benedikt fór með teikningar sínar af fuglum til Alþingis í þeirri von að fá styrk til að halda áfram vinnunni fékk hann ekki áheyrn. Rúmum 100 árum síðar, árið 2011, var gefin út vegleg bók með teikningunum hans sem eru geymdar í Náttúruminjasafni Íslands. Bókin vakti mikla athygli og fögnuð enda mikill dýrgripur. 

Árið 2018 kom svo út bókin Reykjavík um 1900 með augum Benedikts Gröndal. Reykjavíkurborg lét gera upp hús Benedikts sem var opnað árið 2017 í Grjótaþorpinu undir nafninu Gröndalshús þar sem minningu hans er haldið á lofti. Það má því segja að á síðustu áratugum hefur Benedikt sannarlega hlotið uppreist æru. Um meðfylgjandi verk sagði Benedikt: „Árið fyrir þjóðhátíðina fór mér að detta ýmislegt í hug, hvurt ég ekki mundi geta teiknað eitthvað eða gert einhverja minningarmynd að gamni mínu, og var ég að þessu frá því í ágúst og þangað til í desember; þá var ég búinn með uppkastið, sem mér þó ekki líkaði; samt lét ég setja það í umgjörð og ánafnaði Magdalenu litlu það í tannfé“ Dægradvöl, 275.

Benedikt Gröndal, Til minningar um Íslands þúsund ára byggingu, vatnslitur, 55 x 75 cm, 1873.
LÍ 461

Björg Þorsteinsdóttir

(1940–2019)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: grafík, samklipp, málaralist

Björg Þorsteinsdóttir stundaði myndlistarnám í Reykjavík, Stuttgart og París. Hún var afkastamikill myndlistarmaður og sýndi verk sín víða um heim á yfir 200 sýningum. Verkin eru í eigu listasafna á Norðurlöndunum, Frakklandi, Spáni, Póllandi og víðar. Björg var um tíma undir áhrifum frá japanskri fagurfræði og notaði handunninn japanskan pappír sem hún litaði sjálf af mikilli natni með vatnslitum, olíulitum eða gvasslitum. 

Björg var spurð í viðtali hvort listin ætti að þjóna einhverjum tilgangi og hún svaraði því til að listin gæti eytt hversdagsleika og gráma og lyft okkur upp og veitt okkur aðra sýn á tilveruna. (1) Í safneign Listasafns Íslands er verkið Óskasteinn I frá 1986, þar sjáum við áferð steinsins og fínlegt mynstur. Í fyrstu verkum Bjargar eru abstrakt áherslur en síðar bættust við ýmiss konar form og tilvísanir í himingeiminn og óravíddir hans.

Björg Þorsteinsdóttir, Óskasteinn ll, 60 x 49 cm, 1986.
LÍ 11456

 1. EKJ. (1989, 14. október). …að segja eitthvað með öðrum orðum. Morgunblaðið, bls. ?

Björn Grímsson

(1575–1635)

Miðlar: málaralist

Einn fyrsti nafngreindi listamaður þjóðarinnar var Björn Grímsson sem er talinn hafa fengið tilsögn í málaralist í Þýskalandi árið 1597. Meðal merkra gripa sem varðveittir eru í Þjóðminjasafninu eru málverk eftir Björn á predikunarstól Bræðratungukirkju. Það eru líklega elstu málverk sem varðveist hafa eftir íslenskan listamann. Björn var titlaður málari og sýslumaður en hann var líka góður teiknari.

Björn Grímsson, málverk á predikunarstól úr Bræðratungukirkju, 1630.
6274/1912-52

(https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=327479)

Bragi Ásgeirsson

(1931–2016)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: grafík, málaralist

Þegar Bragi Ásgeirsson var lítill strákur dreymdi pabba hans að einn sona hans yrði listmálari. Í framhaldinu keypti hann listaverkabækur til að kveikja áhuga hjá börnum sínum. Bragi var sá eini sem sýndi bókunum áhuga og sagði Bragi að bækurnar hafi verið örlagavaldar í lífi sínu. (1) Bragi var heyrnarlaus frá 9 ára aldri en hann hóf nám í myndlist 16 ára gamall í Reykjavík. Þegar hann var 19 ára fór hann til Kaupmannahafnar og síðan Osló og Munchen í frekara listnám. Hann dvaldi á Ítalíu frá 1953-4. Bragi var víðförull og sótti áhrif víða að í myndlistinni. Bragi hélt sína fyrstu sýningu í Reykjavík í Listamannaskálanum árið 1955 en þá var hann enn að prófa sig áfram í listinni og ekki búinn að finna sinn stíl. Bragi var góður teiknari, vann mikið með grafík, gerði þrívíð málverk með hlutum sem hann fann á víðavangi og var einnig ötull við að mála. Hann var afkastamikill listamaður og listamannsferill hans spannar 60 ár. Hann vann einnig sem kennari í Myndlistar- og handíðaskólanum og listgagnrýnandi Morgunblaðsins. Bragi málaði og teiknaði margar konur á ferli sínum og ein þeirra er Frúin ófeimna frá árinu 1975. Í verkinu eru fundnir hlutir svo sem þang, snæri og dúkka. 

Bragi Ásgeirsson, Ófeimna frúin, fundnir hlutir, málning og epoxy-plastefni, 1975.
LÍ 3555

Þóroddur Bjarnason. (2008). Augnasinfónía. Myndlist Braga Ásgeirssonar í 60 ár. Reykjavík: Opna.

Brynja Baldursdóttir

Brynja Baldursdóttir (1964)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: Bóklist

Brynja lærði myndlist og hönnun í Reykjavík og London og er þekktust fyrir bóklistaverk en hún segir bóklistina bræða saman bók og myndlist. Listformið bjóða upp á aðra möguleika en list sem hengd er á vegg, til dæmis megi snerta bókverk og því er áhorfandinn meiri þátttakandi í verkinu. Í safneign Listasafn Íslands er verkið Rúnaljóðabók sem hún gerði árið 1992. Á þeim tíma voru gömlu rúnirnar Brynju hugleiknar og hún gerði hringlaga bækur með rúnum framan á en myndskreytingum við ljóð innan í. Frú Vigdís Finnbogadóttir gaf Noregskonungi eina slíka bók eftir Brynju árið 1993. 

Brynja Baldursdóttir, Rúnaljóðabók, 29 x 26 x 2,2 cm, 1994.
LÍ 5620

Brynjar Sigurðsson

(1986)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: hönnun og smíði

 

Brynjar Sigurðsson lærði vöruhönnun í Listaháskólanum í Reykjavík og Lausanne í Sviss. Þegar hann vann lokaverkefnið sitt í Listaháskólanum dvaldist hann í Vopnafirði í mánuð og kynntist staðháttum og menningu. Eitt af því sem hann lærði var að hnýta hnúta af gömlum hákarlasjómanni. Þekkinguna nýtti hann sér síðar í að hanna húsgagnalínuna Þögult þorp en þar blandar hann saman hnútum og fyrirbærum úr sjávarþorpi við hefðbundin húsgögn. Þannig nýtti hann gamla verkþekkingu í nútímahönnum en einnig er að finna fundna hluti eins og flotholt, fjöður og nælongirni. Brynjar nýtir menningararfinn og sagnaarfinn og reynir að koma á óvart með efnisval í verkum sínum. 

Brynjar Sigurðsson, Galerie Kreo, 2013. Ljósmynd eftir Fabrice Gousset.

D

Daði Guðbjörnsson

 (1954)

Fæddur í Reykjavík

Miðill: málaralist

 

Daði Guðbjörnsson er einn þeirra listamanna sem endurvakti málverkið til virðingar í upphafi 9. áratugarins eftir að það datt úr tísku að gera hefðbundin málverk. Daði lærði fyrst húsgagnasmíði en sneri sér síðan að myndlist og grafík sem hann lærði í Reykjavík og Hollandi. Málverk Daða eru litrík og í þeim er glaðværð. Daði þróaði með sér sérstakan stíl sem einkennist af flúri og skrauti sem nánast dansar á myndfletinum. Um stefnur í myndlist sagði Daði í viðtali að hann vildi útmá stefnur og strauma og vildi að listamenn einbeittu sér fyrst og fremst að því að rækta sinn eigin garð. Með þessu átti hann við að hver og einn fyndi sína eigin rödd í listinni í stað þess að horfa til annarra. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Sjávarljóð, gert árið 1994 sem sýnir vel einkenni Daða, léttleika, hringlaga form og litagleði.  

Daði Guðbjörnsson, Sjávarljóð, 46 x 68,5 cm, 1994.
LÍ 5707

Davíð Örn Halldórsson

(1976)

Fæddist í Reykjavík

Miðill: málaralist

Breiðhyltingurinn Davíð Örn kom inn í myndlistina með látum eftir útskrift frá Listaháskólanum árið 2002. Verk hans vöktu strax mikla athygli og hrifningu en Davíð Örn málar mikið á fundna hluti svo sem viðarplötur, bakka, ljósmyndir eða húsgögn. Hann notar skæra liti, marga liti og ekki endilega liti sem fólk er vant að sjá saman. Myndmál hans er sterkt og eftirminnilegt og það ríkir gleði í myndunum hans. Verkin eru unnin með spreybrúsum, iðnaðarlakki og tússi. Davíð Örn hefur unnið myndir á veggi í Reykjavík og víðar, m.a Ræktaðu garðinn þinn á húsgafli á Seljavegi sem hann vann með Söru Riel árið 2012. Davíð Örn fékk virta viðurkenningu frá Carngie Art awards árið 2013 sem besti ungi listamaðurinn á Carnegie sýningunni. Þá var sagt um verkin að í þeim væru sjálfstæðir og vel mótaðir heimar.  

Í safneign Listasafns Íslands er verkið Royal, gert árið 2008.

Davíð Örn Halldórsson, Royal, lakk, túss, viður, 80 x 128 cm, 2008.
LÍ 8062

Dieter Roth

(1930–1998)

Fæddur í Basel, Þýskalandi

Miðlar: bóklist, grafík, leirlist, skúlptúr

Þýsk-svissneski myndlistarmaðurinn Dieter Roth sagði eitt sinn að hann gerði myndlist til að styðja við þann vana sinn að gefa út bækur. Dieter var einna fyrstur til að gera listaverk úr bók en hann gerði líka skúlptúra úr súkkulaði og öðrum mat sem hefur reynst forvörðum dálítið erfitt því matur rotnar með tímanum. Dieter lærði grafíska hönnun og prenttækni í Bern í Sviss. Hann settist að á Íslandi árið 1957 eftir að hann kynntist íslenskri konu. Dieter flutti með sér nýja strauma inn í íslenskt listalíf og hafði mikil áhrif hér á landi. Með fyrstu bókverkum Dieters ruddi hann brautina fyrir bókverkagerð íslenskra listamanna. Dieter gerði fjölda dagbóka undir áhrifum frá flúxus hreyfingunni sem hafði það að markmiði að afmá mörkin milli lífs og listar. Hann kannaði rými bókarinnar og gerði ýmiss konar tilraunir með tungumálið og hlutverk þess. Dieter var stöðugt að rannsaka og kanna í listinni allt fram á síðasta dag og notaði alla mögulega miðla til þess. Dieter Roth er eitt af stóru nöfnunum í listasögu seinni hluta 20. aldar og hafa verk hans verið sýnd í mörgum stærstu listasöfum heims, til dæmis í MoMA í New York og Tate í London. Í Munchen í Þýskalandi er safn tileinkað honum sem rekið er af Rieter Roth estate, en verk listamannsins eru einnig á mála hjá hinu virta galleríi Hauser & Wirth. Verk eftir Dieter eru í nokkrum safneignum á Íslandi, flest í Nýlistasafninu. Í Listasafni Íslands er bókverkið Kinderbuch sem þýðir barnabók á þýsku. Bókin er 13 blöð og samanstendur af geometrískum myndum eftir Dieter. 

Dieter Roth, kinderbuch, 32 x 32 cm, pappír, 1957.
LÍ 8909

Dröfn Friðfinnsdóttir

(1946-2000)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: grafík

Dröfn lærði myndlist í Reykjavík, Akureyri og Lahti í Finnlandi. Hún bjó eftir nám á Akureyri þar sem hún stundaði list sína auk þess sem hún vann sem kennari. Í grafíkinni sótti hún form og liti í náttúruna og landið. Dröfn hélt fjölda sýninga hérlendis og erlendis og fékk ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, m.a. menningarverðlaun finnska sjónvarpsins. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Kundalini ll eftir Dröfn sem er unnið með þrykkaðferð. 

Dröfn Friðfinnsdóttir, Kundalini ll, grafík, tréristur, 1999.
LÍ-6140

E

Einar Falur Ingólfsson

(1966)

Fæddur í Keflavík

Miðill: ljósmyndun

Einar Falur Ingólfsson stundaði nám í ljósmyndun í School of Visual Arts í New York en fyrir það kláraði hann BA gráðu í bókmenntafræði. Einar hefur starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu auk þess sem hann sinnir ljósmyndun og kennslu. Hann hefur haldið og stýrt sýningum, ritstýrt ljósmyndabókum, kennt og haldið fyrirlestra um ljósmyndun. Hann hefur  fetað í fótspor W.G. Collingwood sem ferðaðist um Ísland á síðari hluta 19. aldar og málaði vatnslitamyndir af sögustöðum á Íslandi. Einar Falur tók röð ljósmynda á sömu slóðum sem hann nefnir Sögustaðir þar sem ummerki samtímans eins og skilti, skurðir, malbik, hús og fólk hafa bæst við sögusviðið og landslagið. Gefin var út bók um verkefnið samhliða sýningu í Þjóðminjasafninu. Í myndröðinni Skjól frá 2010 myndar Einar Falur ýmiss konar skjól í náttúrunni sem skepnur nýta sér og gerir þau að táknmyndum skjólsins sem þjóðin leitaði að í kjölfar efnahagshrunsins 2008.

Einar Hákonarson

(1945)

Fæddist í Reykjavík

Miðlar: grafík, málaralist

 

15 ára gamall hóf Einar nám í Myndlistar- og handíðaskólanum og eftir það lá leiðin til Svíþjóðar í meira nám í myndlist. 1968 flutti hann heim og tók með sér djúpþrykk pressu sem hann kom fyrir í Myndlistar- og haldíðaskólanum en hann fór að kenna við skólann í kjölfarið. Sama ár hélt hann sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins og sagt er að með sýningunni hafi kveðið nýjan tón í íslenskri myndlist en málverkin á sýningunni voru fígúratíf sem var í andstöðu við ríkjandi abstrakt stefnu flestra myndlistarmanna á þeim tíma. Auk þess að starfa að myndlist gegndi hann ýmsum störfum t.d. var hann um tíma skólastjóri Myndlistar- og handíðaskólans, var listrænn stjórnandi Kjarvalsstaða og var fyrsti aðilinn til að byggja og reka menningarmiðstöð, Listaskálann í Hveragerði sem nú er Listasafn Árnesinga. Á sjötugsafmæli Einars árið 2015 var haldin yfirlitssýning á verkum hans á Kjarvalsstöðum og segir í sýningarskrá að íslensk menning og náttúra hafi verið Einari hugleikin og að sem myndlistarmaður hafi hann í verkum sínum tekið púlsinn á Íslandi með manneskjuna í forgrunni. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Púls tímans sem hann málaði árið 1968.

Einar Hákonarson, Púls tímans, masónít, olíulitur, 150 x 115 cm, 1968.
LÍ 1420

Einar Jónsson

(1874–1954)

Fæddist að Galtafelli í Árnessýslu

Miðill: skúlptúr

 

Einar var mjög ungur þegar hann ákvað að verða listamaður en samt hafði hann enga list séð. Hann hafði ríkt ímyndunarafl og sá alls kyns verur fyrir sér sem hann stundum tálgaði í tré. 19 ára gamall sigldi hann til Kaupmannahafnar til að láta drauminn rætast. Hann lærði fyrst tréskurð og teikningu og kláraði nám árið 1899. Eftir námið starfaði hann í Kaupmannahöfn og einnig í Róm, Berlín, London og Bandaríkjunum. Einar var fyrsti Íslendingurinn til að gera listina að atvinnu. Það var óvenjulegt á þessum tíma fyrir Íslending að ferðast jafn mikið og Einar. Þegar hann hafði skoðað heiminn og flutti heim til Íslands reisti hann sér hús sem stendur á Skólavörðuholti þar sem hann bjó og starfaði. Ekkert var á Skólavörðuholti þegar húsið var reist. Enn er húsið eitt af þeim fallegustu og óvenjulegustu í borginni en það var opnað sem safn árið 1923, fyrsta safn á Íslandi sem var opið almenningi. Einari fannst að listin ætti ekki að vera eftirlíking af einhverju heldur alltaf frumsköpun. Mörg af verkum Einars eru orðin hluti af borgarlandslagi Reykjavíkur, til dæmis styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli, styttan af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum og styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Auk þess að gera mannamyndir leitaði Einar gjarnan myndefnis í þjóðsögur, goðsagnir, trúarlegar hugmyndir og náttúruform. Einar sýndi fyrsta verk sitt á sýningu í Kaupmannahöfn árið 1901. Það var verkið Útlagar sem nú stendur við Hólavallakirkjugarð í Reykjavík. Myndefnið er sótt í íslenskar þjóðsögur og sýnir útlaga sem arkar áfram með látna konu sína á herðunum og barn sitt í fanginu og hundurinn þeirra fylgir þeim. 

Einar Jónsson, Útlagar, gifs, 15 x 11 x 10 cm, 1901.
LÍ 8868

Erró, Guðmundur Guðmundsson

(1932)

Fæddist í Ólafsvík

Miðlar: málaralist, samklipp

Guðmundur Guðmundsson er sonur listamannsins Guðmundar frá Miðdal og hann ólst upp á Kirkjubæjarklaustri. Hann tók sér síðar listamannsnafnið Ferró en þegar hann bjó á Ítalíu við nám gat enginn sagt Guðmundur. Síðar datt f-ið út og eftir stendur Erró. Þegar Erró var lítill kom Kjarval í sveitina hans til að mála úti í náttúrunni. Það var hátíð í sveitinni þegar Kjarval renndi í hlað líkt og hann væri þjóðhöfðingi. Erró segir að Kjarval hafi kveikt hjá sér áhugann á að mála og síðar þegar hann var sjálfur orðinn listamaður rifjaði hann upp í bréfi til mömmu sinnar hversu mikil áhrif Kjarval hafði á sýn hans á myndlist. (1) 

Erró lærði myndlist í Reykjavík, Flórens, Ravenna og Osló og flutti til Parísar árið 1958 og hefur búið þar síðan. Hann dvelur í Tælandi á vetrum en í húsi sínu á Spáni á sumrin. Árið 1989 gaf Erró Listasafni Reykjavíkur 2.000 verk eftir sig en nú eru þau orðin 4.000. Viðfangsefni hans eru oftast samfélagið sjálft, ádeilur og viðfangsefni líðandi stundar; neyslusamfélagið, stríðsrekstur, oftrú á tækninni. List hans flokkast undir svokallaða popplist. Erró er fyrst og fremst málari en hefur mikið notað klippimyndir í list sinni. Verkin eru auðþekkjanleg enda litrík og hafa sterk höfundareinkenni. Erró er lífsglaður og orkumikill og hefur verið gríðarlega afkastamikill listamaður. Líf hans hefur verið mjög viðburðaríkt og ævintýralegt eins og lesa má í ævisögu hans. Í safneign Listasafns Íslands er verk án titils sem sýnir konu sem hefur orðið tæknivæðingunni að bráð og persónueinkenni hennar hafa máðst út. Verkið er gert árið 1958 en stíll hans átti eftir að breytast mikið eftir það.

Heimild:
Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró, margfalt líf. Reykjavík: Mál og Menning.

Erró, Án titils, samklipp, 32 x 25 cm, 1958.
LÍ 4830

Eyborg Guðmundsdóttir

(1924–1977)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: málaralist, skúlptúr

Eyborg ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Ingólfsfirði vestur á fjörðum. Hún veiktist af berklum þegar hún var 16 ára og í stað þess að fara í menntaskóla eyddi hún fjórum árum á spítala. Eftir spítalavistina flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún kynntist Dieter Roth, Sigríði Björnsdóttur og fleiri listamönnum en Dieter kenndi henni myndlist um tíma. Hann hvatti Eyborgu til að fara til Parísar að læra myndlist sem hún og gerði árið 1959, 35 að aldri. Skólinn átti illa við hana en þess í stað fékk hún einkakennslu hjá listamanninum Victor Vasarely. Hún fékk inngöngu í listahópinn Groupe Mesure og tók þátt í sýningum með hópnum víða um Evrópu á næstu árum. Eyborg vann til verðlaun fyrir list sína í París árið 1964. Hún flutti heim árið 1965 og hélt margar sýningar næstu árin, m.a. Í Bogasal Þjóðminjasafnsins og á Mokka árið 1966. Í glugganum á Mokka hangir enn verk eftir hana af þeirri sýningu. 

Árið 2019 var haldin yfirlitssýning á verkum Eyborgar á Kjarvalsstöðum. Þar voru verk frá öllum ferli hennar, sem var frekar stuttur en þrátt fyrir það náði hún að gera hátt í 200 verk. Eyborg sagði að hrein form og línur höfðuðu til hennar í listinni. Einfaldleikinn á bezt við mitt hugarfar, sagði hún í viðtali við Morgunblaðið árið 1965, „fyrst og fremst er ég að reyna að koma reglu á í mínum eigin hugarheimi.“ Mörg verka Eyborgar eru gerð í op-stíl, optical þýðir sjón og vísar í það þegar áhorfandinn upplifir sjónvillu eða sjónhverfingu við það að horfa á verk. Þetta á sér í lagi við um þrívíð verk sem hún gerði á 7.áratugnum úr plexigleri. Verk Eyborgar eru einföld og sterk á sama tíma. Þau eru geómetrísk, en það er hugtak sem kemur úr stærðfræði og þýðir að verkin hennar fáist við frumformin; hring, ferhyrning og línu. 

Í safneign Listasafn Íslands er verkið Titrandi strengir, málað árið 1974.

Eyborg Guðmundsdóttir, Titrandi strengir, olía á striga, 101 x 101 cm, 1974.
LÍ 3824

Heimildir:

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Gengi geometrískar listar fer sívaxandi. Morgunblaðið. 17. janúar 1965.

Mér finnst allt merkilegt sem vel er gert og af einlægni. Morgunblaðið. 29. Nóvember 1975.

(greinar teknar úr safni Listasafns ÍSlands og eru ekki með blaðsíðutali né höfundi)

Ólöf Kristín Sigurðardóttir. (2019) Eyborg Guðmundsdóttir, hringur, ferhyrningur og lína. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur.

Eyborg Guðmundsdóttir

(1924–1977)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: málaralist, skúlptúr

Eyborg ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Ingólfsfirði vestur á fjörðum. Hún veiktist af berklum þegar hún var 16 ára og í stað þess að fara í menntaskóla eyddi hún fjórum árum á spítala. Eftir spítalavistina flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún kynntist Dieter Roth, Sigríði Björnsdóttur og fleiri listamönnum en Dieter kenndi henni myndlist um tíma. Hann hvatti Eyborgu til að fara til Parísar að læra myndlist sem hún og gerði árið 1959, 35 að aldri. Skólinn átti illa við hana en þess í stað fékk hún einkakennslu hjá listamanninum Victor Vasarely. Hún fékk inngöngu í listahópinn Groupe Mesure og tók þátt í sýningum með hópnum víða um Evrópu á næstu árum. Eyborg vann til verðlaun fyrir list sína í París árið 1964. Hún flutti heim árið 1965 og hélt margar sýningar næstu árin, m.a. Í Bogasal Þjóðminjasafnsins og á Mokka árið 1966. Í glugganum á Mokka hangir enn verk eftir hana af þeirri sýningu. 

Árið 2019 var haldin yfirlitssýning á verkum Eyborgar á Kjarvalsstöðum. Þar voru verk frá öllum ferli hennar, sem var frekar stuttur en þrátt fyrir það náði hún að gera hátt í 200 verk. Eyborg sagði að hrein form og línur höfðuðu til hennar í listinni. Einfaldleikinn á bezt við mitt hugarfar, sagði hún í viðtali við Morgunblaðið árið 1965, „fyrst og fremst er ég að reyna að koma reglu á í mínum eigin hugarheimi.“ Mörg verka Eyborgar eru gerð í op-stíl, optical þýðir sjón og vísar í það þegar áhorfandinn upplifir sjónvillu eða sjónhverfingu við það að horfa á verk. Þetta á sér í lagi við um þrívíð verk sem hún gerði á 7.áratugnum úr plexigleri. Verk Eyborgar eru einföld og sterk á sama tíma. Þau eru geómetrísk, en það er hugtak sem kemur úr stærðfræði og þýðir að verkin hennar fáist við frumformin; hring, ferhyrning og línu. 

Í safneign Listasafn Íslands er verkið Titrandi strengir, málað árið 1974.

Eyborg Guðmundsdóttir, Titrandi strengir, olía á striga, 101 x 101 cm, 1974.
LÍ 3824

Heimildir:

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Gengi geometrískar listar fer sívaxandi. Morgunblaðið. 17. janúar 1965.

Mér finnst allt merkilegt sem vel er gert og af einlægni. Morgunblaðið. 29. Nóvember 1975.

(greinar teknar úr safni Listasafns ÍSlands og eru ekki með blaðsíðutali né höfundi)

Ólöf Kristín Sigurðardóttir. (2019) Eyborg Guðmundsdóttir, hringur, ferhyrningur og lína. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur.

F

Finnbogi Pétursson

(1959)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: Hljóðskúlptúrar

 

Þegar Finnbogi Pétursson var lítill dvaldi hann í sveit á sumrin þar sem hann gerði mikið af því að skrúfa í sundur rafmagnstæki og raða upp á nýtt, búa til hljóð, rafmagn og finna út hvernig þau fyrirbæri virka. Hann var líka flinkur teiknari. Hann fór í Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík þar sem Dieter Roth hafði mikil á hann en hann var þá kennari við skólann. Auk Dieters var kennari að nafni Hermann Nitsch við skólann og í sameiningu kenndu þeir Finnboga það með óbeinum hætti að myndlistinni væru engin takmörk sett. (GK bls 1) Eftir myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík fór Finnbogi til Maastricht í Hollandi þar sem hann segist hafa fundið sína hillu og áhugi hans á hljóði, rafmagni og hátölurum varð efniviður í myndlistarverk. Síðan hefur Finnbogi fundið ýmsar leiðir til að sjóngera það sem við sjáum vanalega ekki, hljóð- og ljósbylgjur sem loftið er fullt af. Sjálfur segir Finnbogi að verkin hans séu hljóðmynd af núinu og fjalli um tímann. Verkið Pendúlar er frá árinu 1993 og var sýnt í Menningarmiðstöðinni Gerðuberg í Breiðholti. Í gagnrýni um sýninguna veltir greinarhöfundur fyrir sér hvort hljóð geti verið myndlist. Verkið er dæmigert fyrir aðferð Finnboga en þar sveiflast þrír pendúlar með hátalara á endanum og myndar hljóð sem magnast þegar pendúlarnir nálgast hátalara á gólfinu. Verkið er eftirminnilegt og var sterk upplifun að mati gagnrýnanda sem endar grein sína á því að segja að myndlist Finnboga sé með því áhugaverðasta sem fram hafi komið í íslenskri myndlist á síðasta áratug. Verkið Pendúlar er nú í eigu Listasafns Íslands. Finnbogi var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001, alþjóðlegri myndlistarsýningu sem haldin er í Feneyjum annað hvert ár. 

Heimildir:

Gunnar Kristjánsson. (2006) Hljóðmynd af núinu. Viðtal við Finnboga Pétursson. Kunst und Kirche. 

Hannes Sigurðsson. (1997) Sjónþing Vlll, Finnbogi Pétursson. Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg.

Ólafur Gíslason. (1997, 17. febrúar) Myndlistin sem atburður. DV.

FInnbogi Pétursson, Pendúlar, 465 x 755 x 350 cm, 1993.
LÍ 7360

Finnur Jónsson

(1892–1993)

Fæddur í Hamarsfirði

Miðlar: málaralist

Finnur Jónsson var á sjó á unglingsárum, stundaði járnsmíði og þegar hann flutti til Reykjavíkur árið 1915 fór hann að læra gullsmíði. Hann fékk tilsögn í teikningu en hugur hans beindist að málaralistinni. Finnur hélt til Kaupmannahafnar eftir gullsmíðanámið og lærði málaralist um tíma. Þaðan fór hann til frekara náms til Berlínar og Dresden í Þýskalandi en á þeim árum var svo mikið að gerast í myndlist í Evrópu að í raun var um byltingu að ræða. Finnur varð eðlilega fyrir áhrifum frá því sem var að gerast í kringum sig en skólinn sem hann stundaði í Dresden var undir miklum áhrifum frá Bauhaus. Bauhaus var skóli sem arkitektinn Walter Gropius stofnaði í Weimar og starfaði á árunum 1919-1933. Bauhaus boðaði nýja tíma í hönnun, hreinleika, einföld form og sameinaði hugmyndir og aðferðir úr heimum tækni og lista. Skólanum var lokað af fasistum árið 1933 en skólinn, og stefnan sem við hann er kennd er ein sú áhrifamesta á 20. öld. Í kennaraliði skólans voru nokkrir af þekktustu myndlistarmönnum 20. aldarinnar, Paul Klee, Vassily Kandinsky og László Maholy-Nagy. Tveir síðarnefndu tilheyrðu útgáfu og galleríi sem kallaðist Der Sturm, eða storminn, en Finni hlotnaðist sá heiður að eiga 8 verk á sýningu á vegum gallerísins sem fór um Evrópu árið 1925. Það segir mikla sögu um hversu áhugaverð verk hans voru. 

Finnur drakk í sig áhrif umhverfisins og málaði í abstrakt stíl. Á slíkum myndum er engin fyrirmynd, ekkert sem við þekkjum eins og náttúra, hús eða manneskja heldur eitthvað sem kemur úr ímyndunarafli þess sem málar. Þegar Finnur kom heim til Íslands með abstrakt myndir sínar skildi fólk ekki myndirnar og vildi sjá eitthvað kunnuglegt eins og sjómenn, fjöll og hús. Fólk gerði því grín að myndunum og Finnur skynjaði að það væri ekki tímabært að sýna Íslendingum abstrakt verk. Hann fór því að mála sjómenn, náttúru og annað sem fólk skildi betur. Löngu síðar fór hann aftur að mála abstrakt myndir, þegar fólk var búið að venjast því að horfa á eitthvað sem var ekki kunnuglegt. Þrátt fyrir það má segja að það sem er merkilegast við arfleifð Finns Jónssonar í myndlist eru abstrakt myndir hans frá 3. áratugnum enda var hann fyrsti Íslendingurinn til að sýna abstrakt verk á sýningu. 

Örlagateningurinn er eitt af þekktustu verkum Finns og er í eigu Listasafns Íslands. Í myndinni gætir áhrifa rússnesku myndlistarmannanna Malevich og Kandinsky sem voru að brjóta upp hefðbundin form myndlistar nokkru áður en Örlagateningurinn var málaður. 

Heimildir:

Brittanica. (2021). Bauhaus. https://www.britannica.com/topic/Bauhaus

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Selma Jónsdóttir. (1976). Finnur Jónsson. Yfirlitssýning okt-nóv 1976. Sýningarskrá. Reykjavík: Listasafn Íslands.

G

Gabríela Friðriksdóttir

(1971)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: málaralist, teikning, skúlptúr, vídeólist, innsetningar, gjörningar

 

Gabríela vinnur fjölbreytt verk sín í ólíka miðla. Verk hennar einkennast af ævintýralegum furðuverum og furðuheimum þar sem þjóðsagnir og ýmiss konar tákn koma mikið við sögu. Teiknimyndastíll er ríkjandi í teikningum hennar og málverkum. Verk Gabríelu hafa sterk einkenni og hún segir sjálf að hún búi til veröld í kringum hvert og eitt verk sem á að vera sjálfstæð. Hún segir aðalatriðið að vera ekki hrædd og taka sig ekki hátíðlega. Í viðtali árið 2008 sagði Gabríela að hún væri upptekin af ævintýrum og spuna og að henni þætti ekkert sérlega gaman að herma eftir raunveruleikanum, nóg væri af honum. Hún sagði líka að henni þætti vænt um þegar fólk upplifði verkin hennar í líkamanum, ekki með hugsun.

 

Í málverkum Gabríelu eru oft skærir litir en í innsetningum sem hún hefur gert er stundum eins og miðaldir vakni til lífsins í brúnum tónum, mold, heyi og brúntóna búningum dansara og leikara sem hún fær til liðs við sig. Gabríela hefur unnið með fjölbreyttum og stórum hópi fólks úr öðrum listgreinum, t.d. dönsurum og tónlistarfólki. Hún og tónlistarkonan Björk hafa unnið mikið saman. Gabríela gerði plötuumslög fyrir Björk og Björk lék og gerði tónlist fyrir vídeóverk Gabríelu en Gabríela var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2005. Síðan hefur hún sýnt verk sín víða um heiminn. Eftir Feneyjar bjó hún í 3 ár í kastala í Belgíu sem var með risastórum garði og síki í kring. Gabríela lærði myndlist í Reykjavík og Prag og kláraði BA próf frá skúlptúrdeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands (MHÍ) árið 1998. Eitt af verkum Gabríelu í safneign Listasafns Íslands er Skugginn frá árinu 2007. Þar er furðuvera eða einhvers konar sambland af veru og tré og bleiki liturinn sem er í dálitlu uppáhaldi hjá Gabríelu.

Heimildir: 

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Hanna Björk Valsdóttir. (2005, 17. nóvember) Um töfrandi tilgangsleysi myndlistarinnar. Málið/Morgunblaðið, bls. 12.

Kolbrún Bergþórsdóttir. (2008, 4. mars). Ævintýrið og spuninn. 24 Stundir, bls. 18.

Ólafur Kvaran. (2011). Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. Aldar. Reykjavík: Listasafn Íslands & Forlagið.

www.gabriela.is

Gabríela Friðriksdóttir, Skugginn, MDF, akrýllitur, blek, blýantur. 90 x 90 x 2,2 cm, 2007.
LÍ 8507

Georg Guðni Hauksson

(1961–2011)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

 

Náttúran er eflaust algengasta viðfangsefni málara gegnum söguna, ekki síst á Íslandi þar sem náttúran er allt um lykjandi. Þegar Georg Guðni var í Myndlistar- og handíðaskólanum á árunum 1980–85 þótti það mjög hallærislegt að mála náttúruna, þá var í tísku að vinna myndlist út frá hugmyndum. Eitt sinn í skólanum varð honum litið út um gluggann þar sem Esjan stóð í öllu sínu veldi. Hann fór að mála fjallið og upp frá því, þótt Georg Guðni hafi ekki stefnt í þá átt, gerðist það af sjálfu sér að hann fór að gera náttúruna að sínu viðfangsefni. Málverk Georgs Guðna eru ekki eins og flest náttúrumálverk sem við þekkjum sem eru af ákveðnum stað eða fyrirbæri heldur fanga þau órætt landslag eða tilfinningu um landslag. Hann hélt sínu striki og fullkomnaði stíl sinn með tímanum. Málverkin hans snúast um birtu og landslag sem er að miklu leyti byggt í huga þess sem horfir á verkið. Þau eru einföld en sterk á sama tíma og hafa fáa liti. Georg Guðni er í hópi ástsælustu landslagsmálara Íslands og er talinn hafa komið með eitthvað alveg nýtt og einstakt í það gamla form, landslagsmálverkið. Georg Guðni varð bráðkvaddur árið 2011, aðeins 50 ára að aldri. Í safneign Listasafns Íslands er verk án titils sem ber öll hans helstu höfundareinkenni. Friður ríkir í myndinni, hún er ekki af neinum ákveðnum stað, himinn og jörð mætast, litir eru fáir, myndin er draumkennd, og á sama tíma einföld og sterk. 

Georg Guðni, Án titils, olía á striga, 185 x 200 x 3,5 cm, 1994.
LÍ 5649

Gerður Helgadóttir

(1928–1975)

Fædd í Neskaupstað

Miðlar: skúlptúr, glerlist

 

Í vonskuveðri á haustmánuðum árið 1947 sigldi Gerður Helgadóttir á frystiskipi til Ítalíu, 19 ára gömul. Nokkru fyrr var hún á leið til Kaupmannahafnar í myndlistarnám en á síðustu stundu þurfti að hætta við 1þar sem bræður hennar voru í námi erlendis og foreldrar hennar gátu ekki kostað hana líka til náms. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir alla en þegar vinnufélagar pabba hennar sáu sorgina sem þetta olli honum ákváðu þeir að hjálpa til með samskoti og að redda ókeypis fari til Ítalíu með skipi. Gerður var fyrst Íslendinga til að fara til náms í myndlist á Ítalíu og fyrst íslenskra kvenna til að leggja höggmyndalist fyrir sig. Fyrst lærði hún klassíska höggmyndalist í Flórens á Ítalíu og þótt það væri góður grunnur vildi hún ekki stunda það að herma eftir fyrirmyndum heldur fylgja eigin hugmyndum. Eftir tvö ár á Ítalíu fór hún til Parísar til að vera í hringiðu listalífsins. Um tíma sótti hún einkaskóla rússneska myndhöggvarans Ossip Zadkine en fór svo að fylgja sinni sýn og hætti að þiggja leiðsögn annarra. Gerður var á þessum tíma að átta sig á því að málmar væru hennar uppáhalds efni. Gerður vann mikið. Hún var fjölhæf, einbeitt og vandvirk. Hún áorkaði ótrúlega miklu á sinni stuttu ævi. Hún hélt sína fyrstu sýningu í París aðeins ári eftir komuna þangað. 

 

Árið 1954 skrifaði Michel Ragon, myndlistargagnrýnandi grein sem ber titilinn Galdramaðurinn Gerður. Hann sagði að París hafi þegar tekið Gerði í fóstur og álíti hana einn sinn besta myndhöggvara. Hann skrifaði líka að hún væri eini kvenmyndhöggvarinn sem hafi þorað að ráðast á járnið og að hæfileikar hennar væru furðulegir, hún hafi hoggið svo meistaralega úr steini en að hún hafi strax náð ákveðnari stíl með járninu. (1) Gerður hélt margar sýningar á fyrstu árum sínum í  París og víða í Evrópu. Á þessum tíma voru gjaldeyrishöft og meiriháttar mál að senda peninga milli landa. Það var erfitt að fá laun fyrir skúlptúra á þessum tíma svo hún sinnti líka verkefnum sem voru pöntuð hjá henni. Hún gerði brjóstmyndir, glerverk í glugga á nokkrum kirkjum á Íslandi, hannaði skartgripi og húsgögn. Hún gerði stórt mósaíkverk á Tollhúsið í Tryggvagötu þar sem Listaháskóli Íslands verður með húsnæði sitt innan fárra ára. Gerður tilheyrði hópi í París sem stundaði andlega leit og var það henni innblástur í verkin hennar. Hún fór til Egyptalands árið 1966 til að skoða forn-egypska skúlptúra og varð það henni líka innblástur. Elín Pálmadóttir vinkona Gerðar sem einnig skrifaði ævisögu hennar sagði að Gerður hafi trúað því alla tíð að einhvers staðar væri einhver kjarni, eitthvað hreint og fagurt og satt, sem væri þess virði að lifa fyrir. Í þessari heimspeki hafi Gerður fundið leiðir fyrir sína eigin leit sem endurspeglast í verkum hennar. (2) Verk eftir Gerði eru dreifð víða, í kirkjum, á torgum, í söfnum og á heimilum víða um heiminn. Erfingjar Gerðar gáfu Kópavogsbæ 1400 verk eftir hana árið 1977 og árið 1994 var Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn opnað þar sem hægt er að kynnast verkum hennar. Eitt af verkum Gerðar í safneign Listasafns Íslands ber heitið Abstraction og er frá árinu 1952. 

Verkið er gert úr svartmáluðu járni.

 1. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 
 2. Michel Ragon (1954, 2. júní) Galdramaðurinn Gerður. Morgunblaðið. 
 3. Guðbjörg Kristjánsdóttir. Gerður – meistari glers og málma. (2010). Kópavogur: Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn.

Gerður Helgadóttir, Abstraction, járn, 91 cm, 1952.
LÍ 7079

Guðjón Ketilsson

(1956)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni, skúlptúr

 

Listin má ekki vera hátíðleg sagði Guðjón Ketilsson eitt sinn í viðtali og bætti því við að þar ætti að finnast lífsneisti, ekki eitthvað fyrirfram ákveðið. Nær allir sem hafa skrifað um verk Guðjóns Ketilssonar dást að því hversu vel hann gerir verk sín. Guðjón þykir afar flinkur og vandvirkur handverksmaður og hann vinnur með ýmis efni, mikið með tré en líka járn, gifs, pappír og postulín. Flest verka Guðjóns eru einföld ásýndar en mikil vinna liggur að baki þeim þrátt fyrir það. Það tekur mikinn tíma að móta skúlptúra úr tré enda vill hann gera sem mest í höndum. Guðjón er flinkur teiknari og byrjar vinnuferlið á teikningu sem leiðir hann oft í að vinna teikninguna í þrívíðan hlut, oftast úr tré. Guðjón hefur unnið mikið með fundna hluti, húsbyggingar og húsgögn sem hann setur í nýtt samhengi og spyr um leið að hlutverki og tilgangi. Guðjón lærði myndlist í Reykjavík og Halifax í Kanada og hefur sýnt myndlist sína á fjölmörgum sýningum hér heima og úti í löndum. 

Í safneign Listasafn Íslands er verk eftir Guðjón sem ber titilinn Yfirborð–Mannvirki en verkið er til sýnis á sýningunni Fjársjóður þjóðar í Safnahúsinu við Hverfisgötu. 

Einar Örn Gunnarsson. (1991, 21. september) Einfalt og kyrrt. Morgunblaðið.

Guðjón Ketilsson, Yfirborð–Mannvirki, viður, 195 x 340 x 62 cm, 2011.
LÍ 8862

Guðmunda Andrésdóttir

(1922–2002) 

Fædd í Reykjavík

Miðill: málaralist

 

Guðmunda Andrésdóttir varð fyrir opinberun á sýningu Svavars Guðnasonar veturinn 1945–6. Sýningin hafði svo mikil áhrif á hana að hún ákvað að gerast málari og dreif sig til Stokkhólms í myndlistarnám ári eftir að hún sá sýninguna. Sýning Svavars fékk litlar undirtektir í Reykjavík en Guðmunda sagði að hún hafi verið eins og sprengja inn í okkar litla heim en hann málaði abstrakt myndir, myndir sem voru ekki af landslagi, húsi eða öðru sem við þekkjum. Guðmunda lærði myndlist í Stokkhólmi og var tvo vetur í París 1951–3. Þá ferðaðist hún mikið um Evrópu og skoðaði söfn og sýningar. Í París varð hún fyrir miklum áhrifum frá málurum sem stunduðu geómetríska abstrakt list sem byggir á þeirri hugmynd að listin eigi ekki að vera eftirmynd veruleikans heldur eigi listamaðurinn að skapa nýjan veruleika í verkum sínum sem hægt er að njóta á eigin forsendum. (1) Í París eftirstríðsáranna fór fram uppgjör við stríðið og fortíðina og málverkið átti að vera „hreint og klárt og án allra aukaatriða“.(2) Á Íslandi höfðu landslagsmálverk verið allsráðandi fram að þessu og almenningur á Íslandi átti stundum erfitt með að taka abstrakt málverk í sátt. Guðmunda sagði í viðtali að oft nálgaðist andúð almennings á abstraktverkum sjúklegt hatur en hún hélt sig alla tíð við abstrakt málverk. Hún fór gegnum mismunandi skeið í málaralistinni og sagði að myndirnar væru rannsóknarferli, „rannsókn á formi, hreyfingu og litum“.(3) 

Árið 1990 var haldin yfirlitssýning á verkum Guðmundu á Kjarvalsstöðum. Í viðtali tengdu sýningunni sagði Guðmunda að myndlistin væri henni sem ólæknandi sjúkdómur og að hún fengi sömu óþreyjuna að mála og þegar hún sá verk Svavars 45 árum áður. Guðmunda er í hópi þeirra listamanna sem ruddu brautina í abstraktlist á Íslandi. Hún dó árið 2002 og erfði Listasafn ÍSlands, Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Háskólans að verkum sínum. Með erfðafé lét hún stofna Styrktarsjóð Guðmundu Andrésdóttur, til að styrkja unga myndlistarmenn til náms. 

 1. Dagný Heiðdal. (2004) List Guðmundu Andrésdóttur, þróun og gagnrýni. Guðmunda Andrésdóttir. Tilbrigði við stef. Reykjavík: Listasafn Íslands. 
 2. Ólafur Gíslason. (1990) Myndlist er ólæknandi sjúkdómur. Guðmunda Andrésdóttir. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur 
 3. Ólafur Gíslason. (1990) Myndlist er ólæknandi sjúkdómur. Guðmunda Andrésdóttir. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur 

Guðmunda Andrésdóttir, Átrúnaður, olía á striga, 110 x 120 cm, 1971.
LÍ 1605

Guðmundur Einarsson frá Miðdal

(1895–1963)

Fæddur í Miðdal í Mosfellssveit

Miðlar: málaralist, leirlist

 

Guðmundur ólst upp í Miðdal í Mosfellssveit og var elstur 11 systkina. Hann var handlaginn og fjölhæfur, sótti sjóinn, vann öll sveitastörf og byrjaði snemma að mála. Hann var mikill íþróttamaður og fjallagarpur en hugur hans beindist að myndlist. Árið 1919 bauð Einar Benediktsson athafnamaður Guðmundi að koma til sín í Kaupmannahöfn og var hann þar um skeið. 1921 fór hann til Þýskalands að læra höggmyndalist en þar lærði hann líka leirbrennslu. Guðmundur ferðaðist víða um Evrópu og skoðaði söfn og sýningar. Hann sýndi og seldi þónokkuð af verkum sínum úti í löndum og var boðin kennarastaða í Þýskalandi en hann sagðist ekki hafa fest yndi neins staðar annars staðar en á Íslandi, ekki síst útaf því hvað hér væri mikið frelsi.(1) Hann flutti því heim. Guðmundur gerðist brautryðjandi í leirmunagerð en hann kom sér upp brennsluofni fyrstur manna árið 1927, auk þess fann hann sjálfur jarðefni í munina. 

Guðmundur var afkastamikill listamaður, gerði höggmyndir af Jóni Arasyni biskup, Skúla fógeta, steindi glugga ásamt Finni Jónssyni í Bessastaðakirkju og vann hvelfingar með steinum í Þjóðleikhúsið og Háskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt. Hann hélt reglulega sýningar á málverkum, höggmyndum og leirmunum og seldi vel en hann sendi fréttatilkynningar í blöðin með tölum um aðsókn á sýningar og fjölda seldra verka. Eftir því sem leið á 6. áratuginn fannst listgagnrýnendum í Reykjavík ekki mikið til Guðmundar koma enda var abstrakt málverkið í algleymingi. Guðmundur svaraði fyrir sig og átti í hörðum ritdeilum þar sem hann varði sína afstöðu til listarinnar sem hann hélt út lífið. Virðing fyrir náttúru, þjóðlegum gildum og klassískri myndlist skipti hann miklu. Hann taldi nútímalist vera tískufyrirbrigði. Í bréfi til sonar síns, Erró, árið 1955 sagði hann íslenska list í algjörum ógöngum og áréttaði að listamaðurinn er ábyrgur gagnvart þjóðinni. (2) Guðmundur hélt sínu striki allt til enda þrátt fyrir árásir gagnrýnenda og leyfði náttúrunni að vera sitt helsta viðfangsefni. Þekktasta arfleifð hans í dag eru leirmunir sem nú seljast dýrum dómi á uppboðum af rjúpu, fálka og öðrum dýrum. Verkið Loki og Sigyn byggir á sögu úr norrænni goðafræði og er í safneign Listasafns Íslands. (3)

 1. JB. (1944, 11.apríl) Á veltandi steini vex ekki mosi. Þjóðviljinn
 2. Illugi Jökulsson.(1997) Guðmundur frá Miðdal. Seltjarnarnes: Ormstunga. 
 3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Loki og Sigyn, bronsmálað gifs, H 71,5 cm, 1926.
LÍ 6233

Gunnlaugur Scheving

(1904–1972)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Gunnlaugur Scheving byrjaði snemma á mála og hafði mikinn áhuga á myndum frá barnsaldri, bæði að búa þær til sjálfur en líka að skoða myndir annarra. (1) Hann lærði fyrst að teikna hjá Einari Jónssyni myndhöggvara og Muggi (Guðmundi Thorsteinssyni) áður en hann sigldi til Kaupmannahafnar árið 1923 og fór í Listakademíuna þar. Hann flutti heim eftir námið og einbeitti sér að málaralistinni. Viðfangsefni hans var fólk við störf, bændur og sjómenn. Gunnlaugur var heillaður af sjónum og málaði gjarnan stórar myndir af sjómönnum við vinnu. Í þeim myndum er hreyfing en í sveitamyndunum af bændum og þeirra dýrum er friðsæld og ró. Þjóðlífið varð hans aðalsmerki sem málara en hann vildi fara aðra leið en að mála hefðbundin landslagsmálverk. Stundum notaði hann þjóðsagnararfinn sem grunn í verkum sínum. Málverkin hans voru oft mjög stór, þau voru litrík og stíllinn auðþekkjanlegur. 

Gunnlaugur vandaði sig mikið við að mála og teiknaði alltaf skissur fyrst. Þetta gerði hann til þess að spá í myndbyggingu málverksins. Hann hélt ekki margar sýningar en þegar það gerðist var mikið skrifað í blöðin og verkunum hrósað. Gunnlaugur var ástsæll og á stórafmælum hans skrifaði fólk miklar þakkarræður í blöðin, ekki bara vegna verka hans en líka vegna mannkosta. Hann hafði mikla frásagnargáfu og kímnigáfu og var traustur vinur. Listunnandinn Ragnar Jónsson sagði um Gunnlaug á fimmtugsafmæli hans að ekki mundi hann eftir skemmtilegri manni og að hann haldi að til séu fáir betri málarar í heiminum en Gunnlaugur þó leitað sé víða um lönd. (2)  

Gunnlaugur lést árið 1972 og þá stóð í Morgunblaðinu að konungur íslenskrar myndlistar væri allur. Hann arfleiddi Listasafn Íslands að mörgum verkum, eitt þeirra er Hákarlinn tekinn inn

 1. 1 Þar er lífsást og húmanisni í hverju pensilfari. Morgunblaðið 13. nóvember 1966
 2. 2 Stórveldin þrjú og Scheving. Ragnar Jónsson. Morgunblaðið 7. Júní 1964

Gunnlaugur Scheving, Hákarlinn tekinn inn, olía, 255 x 405 cm, 1965.
LÍ 1674

H

Helgi Þorgils

(1953)

Fæddur í Búðardal

Miðlar: málaralist

Helgi Þorgils fæddist í Búðardal og flutti til Reykjavíkur 15 ára gamall. Eftir myndlistarnám í Reykjavík fór hann til Hollands í framhaldsnám og sneri til baka árið 1979. Hann hefur verið virkur í sýningahaldi síðan þá og hafa verkið hans farið víða um heiminn. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1990 en það er stór alþjóðleg myndlistarsýning sem haldin er annað hvert ár í Feneyjum á Ítalíu.

Helgi er einn þeirra sem endurreisti málverkið til virðingar eftir að það datt úr tísku á 8. áratugnum. 

Viðfangsefni hans í myndlistinni er samband manns og náttúru. Á Listasafni Íslands er verkið Fiskar sjávar en það er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar. Í verkinu koma höfundareinkenni Helga vel í ljós, þar ríkir ákveðið tímaleysi, þar er nakinn maður, dýr og náttúra en hann notar þau viðfangsefni mikið í myndlist sinni. 

Helgi Þorgils, Fiskar sjávar, olía, 236 x 205 cm, 1995.
LÍ 6100

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter

(1969) 

Fædd í Reykjavík

Miðlar: textíll, skúlptúr

Hrafnhildur Arnardóttir flutti til New York árið 1994 og hefur búið þar síðan. Listamannanafnið Shoplifter er tilkomið eftir að einhver misskildi nafnið hennar þegar hún kynnti sig. Hún greip það á lofti og hefur notað það síðan. Hrafnhildur er þekkt fyrir skúlptúra sína sem hún vinnur úr hári, bæði alvöru hári og gervihári. Þegar hún var lítil geymdi amma hennar fléttu úr hári Hrafnhildar í skúffunni og upp frá því fór hún að spá í hári en nær öll hennar list notar hár sem efnivið. 

Hrafnhildur tekur sjálfa sig og listina ekki mjög hátíðlega og er húmor stór hluti af hennar verkum. List Hrafnhildar eru á mörkum hönnunar, myndlistar og tísku en hún hefur unnið með ýmsum listamönnum og hönnuðum í gegnum tíðina t.d. tónlistarkonunni Björk og japanska hönnunarfyrirtækinu Comme des Garcons. Verk Hrafnhildar Cromo sapiens sem sýnt var á Feneyjatvíæringnum árið 2019 er nú til sýnis í Höfuðstöðinni  í Ártúnsbrekku sem áður var kartöflugeymsla.

Í safneign Listasafns Íslands eru þrjú verk eftir Hrafnhildi, eitt þeirra nefnist Study for a Opera l, og eru höfundareinkenni hennar augljós í verkinu; litagleði og fléttur úr hári.  

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, Study for a Opera l, hár, 164 X 217 cm, 2009.
LÍ 9198

Hreinn Friðfinnsson

(1943) 

Fæddur í Dalasýslu

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni

Í sveitinni þar sem Hreinn ólst upp var ekkert myndefni nema hjá prestinum, þar var eitt málverk. Hreinn drakk í sig það litla myndefni sem kom með fólki í sveitina og teiknaði mikið. 15 ára gamall flutti hann til Reykjavíkur og hóf myndlistarnám. Með viðkomu í listnámi í London og Róm flutti Hreinn til Amsterdam árið 1971 og hefur búið þar síðan. Árið 1965 stofnaði hann SÚM hópinn ásamt þeim Sigurði Guðmundssyni, Kristjáni Guðmundssyni og fleiri myndlistarmönnum. Listamennirnir í hópnum vildu frelsa myndlistina frá abstrakt hreyfingunni en fyrir þeim var hægt að búa til listaverk úr hverju sem er og setja það fram hvernig sem er. Fyrir þeim var hugmyndin aðalatriði en verkið aukaatriði. 

Myndlist Hreins er einföld ásýndar, hún fjallar oft um hið smáa, þar er kímni og líka mikil hugsun. Hreinn hefur aldrei verið mikið fyrir að tala um verkin, vill að þau tali fyrir sig sjálf. Hann er hógvær og segist ekki vera með nein sérstök skilaboð til áhorfenda. (Ath quote) Þegar hann fékk Ars Fennica verðlaunin í Finnlandi árið 2000 fannst honum óþægilegt umstangið og athyglin þótt hann væri þakklátur. Við það tækifæri var sagt að hann hefði þann einstaka hæfileika að gera allt svo einfalt, en um leið svo áhrifamikið, náið og tilfinningaríkt. (1) Í umsögn um sýningu Hreins árið 1999 komst Áslaug Thorlacius svo að orði að það væri nautn að skoða verk Hreins Friðfinnssonar. Þau væru myndlist í sinni hreinustu mynd, heimspeki sem orkar á skynjunina, beint og orðalaust. 

Það er áhugavert hvað einfaldleikinn getur verið áhrifamikill. Verk Hreins hafa hreyft við mörgum og verið sýnd í virtum söfnum og galleríum um víða veröld, t.d. á Pompidou safninu í París, í Serpentine galleríinu í London og á Feneyjatvíæringnum en hann var fulltrúi Íslands þar árið 1993. 

Í safneign Listasafns Íslands eru nokkur verk eftir Hrein, eitt þeirra er ljósmyndaverk frá árinu 1973 og heitir Attending.

 1. Morgunblaðið 13. október 2000. Mestu myndlistarverðlaun Norðurlanda afhent í gær. Hreinn Friðfinnsson hlýtur finnsku Ars Fennica-verðlaunin.
 2. 2. Áslaug Thorlacius. (13. apríl 1999). Hreinn tónn. Dagblaðið.

Hreinn Friðfinnsson, Attending, ljósmyndun, 55 x 70 cm, 1973.
LÍ 8048

J

Jóhann Briem

(1907–1991)

Fæddur að Stóra Núpi í Gnúpverjahreppi

Miðlar: málaralist

Jóhann ólst upp í sveit þar sem hann sinnti sveitastörfum á sumrin en gekk í skóla á veturna. Einar Jónsson myndhöggvari ólst upp á næsta bæ og Ásgrímur Jónsson málari var tíður gestur á heimilinu. Jóhann hafði því nálægar fyrirmyndir í æsku en hann byrjaði snemma að teikna og mála. 13 ára flutti hann til Reykjavíkur og byrjaði í teiknitímum hjá Jóni bróður Ásgríms. Eftir stúdentspróf árið 1927 stundaði hann nám í málaralist fyrst í Reykjavík en svo í Dresden í Þýskalandi. Árið 1934 flutti Jóhann heim til Íslands og hélt sína fyrstu sýningu í Góðtemplarahúsinu sem vakti mikla athygli. Þá stofnaði hann málaraskóla ásamt Finni Jónssyni sem var rekinn til ársins 1940.

Miklar hræringar voru í listalífinu í Reykjavík á þessum tíma. Jóhann var formaður nýstofnaðs Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) á árunum 1941-3. Hann ásamt fleiri myndlistarmönnum háði ritdeilu við Jónas frá Hriflu sem hafði ráðist á málara sem voru að prófa sig áfram með nýja hluti í málaralistinni. Jónas setti upp háðssýningu á verkum nokkurra listamanna í Alþingishúsinu og upp spratt Listamannadeilan, deila milli þjóðlegra gilda Jónasar og kröfu listamanna um frelsi til að gera það sem þeim sýndist í listinni. 

Árið 1944 var Jóhann fenginn til að gera málverk í forsal Laugarnesskóla og áttu þau að vera úr íslensku þjóðlífi og þjóðsögum. Auk þess málaði hann altaristöflur í nokkrar kirkjur og myndskreytti fjölda bóka. Jóhann málaði frá mars og fram á haust, aldrei á veturna en hann lét dagsbirtuna stýra ferðinni. Á veturna kenndi hann teikningu í gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Verk Jóhanns eru litrík og frekar einföld ásýndar. Litavalið var oft óvenjulegt, grænir hestar eða bleikt gras. Hann málaði sveitalíf, dýr og fólk við vinnu en leitaði líka í brunn ævintýra og þjóðsagna í myndum sínum. Jóhann ferðaðist til Palestínu árið 1951 sem var svo óvenjulegt á þeim tíma að um það var skrifað í blöðin. Hann ferðaðist líka til Sýrlands, Líbanon og Egyptalands.  Á ferðalögunum sá hann nýja liti og öðruvísi líf sem hann notaði sem efnivið í þó nokkur málverk. Í safneign Listasafns Íslands eru  19 verk eftir Jóhann. Eitt þeirra kallast Svört fjöll og er frá árinu 1963. Verkið er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar.

Jóhann Briem, Svört fjöll, olíumálverk, 70 x 65 cm, 1963.
LÍ 1252

Jóhanna Kristín Ingvadóttir

(1953–1991)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhanna hélt sína fyrstu sýningu í Reykjavík árið 1983 vöktu verk hennar mikla athygli. Hún hafði lært myndlist í Myndlistar- og handíðaskólanum og síðar í Ríkisakademíunni í Amsterdam. Hún bjó líka vetrarlangt í Svíþjóð og Sikiley. Jóhanna sagðist vera alltaf að mála sjálfa sig og tilfinningar sínar en myndirnar hennar eru óvenju dökkar og oft drungalegar. Hún hefði ekkert um verkin að segja, þau töluðu sínu máli sjálf. Hún sagðist ekki vera orðsins manneskja og feimin að eðlisfari. (1) 

Jóhanna Kristín var virk í sýningahaldi á 9. áratugnum og hélt sig alla tíð við expressíónískan stíl og málaði fólk, aðallega konur og börn. Hún glímdi við veikindi og lést fyrir aldur fram aðeins 37 ára árið 1991. Þrátt fyrir stutta ævi skildi hún eftir sig stórt safn verka með mjög sterk og sérstök höfundareinkenni. Yfirlitssýningar á verkum hennar voru haldnar á Kjarvalsstöðum árið 1992, í Gerðarsafni árið 2013 og á Listasafni Íslands árið 2019. Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands gáfu út bækur í tilefni af sýningunum um Jóhönnu og verk hennar. Í safneign Listasafns Íslands eru fimm verk eftir Jóhönnu Kristínu. Eitt þeirra er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar og kallast Á ögurstundu

 1. Heimsmynd. 6. tbl. 2. árg. November 1987

Jóhanna Kristín Ingvadóttir, Á ögurstundu, olía á striga, 190 x 190 cm, 1987.
LÍ 5602

Jóhannes Sveinsson Kjarval

(1882–1972)

Fæddur í Meðallandi í V-Skaftafellssýslu

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhannes Sveinsson Kjarval var fimm ára var hann sendur í fóstur til Borgarfjarðar Eystri en foreldrar hans voru fátækir og áttu 13 börn. Þar var hann umkringdur náttúru og fór snemma að teikna. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1902 og sameinaðist þar fjölskyldu sinni. Jóhannes réði sig á skútu árið 1905 og málaði víst mikið á sjónum. 1911 sigldi hann til London og þaðan ári síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í myndlist. Hann giftist danskri konu sem hét Tove og þau fluttu heim til Íslands árið 1922. Þau eignuðust tvö börn sem Tove tók með sér til Danmerkur eftir að þau skildu árið 1924.

Þegar lesið er um Kjarval í blöðum og bókum er hann iðulega ávarpaður meistari Kjarval og segir það sögu um hversu mikil virðing var borin fyrir honum. Meistari Kjarval var sérstakur maður og dálítill sérvitringur. Hann notaði orðið gillígogg við ýmis tækifæri, t.d. þegar hann var yfir sig hrifinn af einhverju, og sagði aðspurður að þetta væri alíslenskt orð þótt hann hafi búið það til yfir allt það „sem gott er, halló, húrra og bravó, glym hill og bikini“. (1) Kjarval tók oft leigubíl á Þingvöll eða annað út fyrir bæjarmörkin og setti upp trönurnar sínar til að mála. Svo biðu leigubílstjórarnir heilu og hálfu dagana eftir að hann væri búinn að mála. Á sumrin var hann margar vikur úti á landi, bjó oft í tjaldi og málaði úti í öllum veðrum. 

Í ævisögu sinni segir Erró frá því hvað Kjarval hafði mikil áhrif á hann í æsku. Hann lýsir því hvernig var að fá Kjarval í heimsókn í sveitina á sumrin og sagði að það hafi ævinlega verið uppi fótur og fit þegar Kjarval mætti á drossíu frá Reykjavík, rétt eins og þjóðhöfðingi væri á ferð. (2)

Kjarval sagði að íslensk náttúra yrði sinn skóli og eftir 1930 einbeitti hann sér nær eingöngu að náttúrunni í sínum myndum. Auk þess teiknaði hann andlitsmyndir. Sagt er að Kjarval hafi kennt Íslendingum að meta náttúru landsins. Hann horfði niður á landið og málaði mosa og steina og stundum læddust furðuverur inn í málverkin. Kjarval er ástsælasti málari þjóðarinnar og þegar fyrsta byggingin var reist í Reykjavík fyrir myndlist, var hún nefnd eftir Kjarval, Kjarvalsstaðir sem tilheyra Listasafni Reykjavíkur. 

Eitt af verkum Kjarvals sem er í eigu Listasafns Íslands kallast Reginsund og er málað eftir draum sem konunni hans dreymdi. Myndin er þakklætisvottur Kjarvals til Tove og var máluð árið 1938. (3)

 1. Morgunblaðið. (8. september 1965). Gilligogg.
 2. Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró. Margfalt líf. Mál og menning: Reykjavík
 3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands.

Kjarval, Reginsund, olía á striga, 161 x 115 cm, 1938.
LÍ 1146

Jón Engilberts

(1908–1972)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Jón Engilberts byrjaði að hugsa um myndlist þegar hann var mjög lítill og sá alltaf fyrir sér myndir þegar amma hans las fyrir hann sögur um álfa og huldufólk. Jón lærði fyrst myndlist hjá Muggi, í Teikniskóla Guðmundar Thorsteinssonar en hélt síðar til Kaupmannahafnar og Osló þar sem hann hélt áfram námi. Málverkin hans voru undir áhrifum stéttabaráttu og þjóðfélagshræringa þess tíma á Norðurlöndunum en seinna meir breyttust viðfangsefni hans, fyrst í átt að náttúrunni, síðar urðu þau meira abstrakt.

Árið 1943 hélt hann sína fyrstu sýningu í Reykjavík eftir dvölina í útlöndum. Auk þess voru verk hans sýnd á Norðurlöndunum og greindu íslensk dagblöð frá því að þau hafi vakið mikla athygli. Verkin væru ævintýraleg, fögur og ljómandi var skrifað um þau í Kaupmannahöfn árið 1952. (1)

Eitt af verkum Listasafns Íslands eftir Jón fjallar um vinnandi fólk en það málaði hann á námsárunum í Kaupmannahöfn. Verkið kallast Fólk að koma frá vinnu, og var málað árið 1936. 

 1.  (Verk Jón Engilberts vekja mikla athygli á sýningu í Kaupmannahöfn, Þjóðviljinn 24. nóv, 1952).

Jón Engilberts, Fólk að koma frá vinnu, olía á striga, 126 x 175 cm, 1936.
LÍ 794

K

Karl Kvaran

(1924–1989)

Fæddur á Borðeyri við Hrútafjörð

Miðill: málaralist

Karl Kvaran stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík 1941–45, við Listaháskólann í Kaupmannahöfn og í einkaskóla Rostrub Boegesen 1945–49. Auk þess nam hann hjá Marteini Guðmundssyni, Birni Björnssyni, Jóhanni Briem og Finni Jónssyni.
Karl er þekktur fyrir strangflatarmálverk sín og afgerandi litanotkun þar sem hann notaði oft andstæða liti. Strangflatarlist er abstraktlist (óhlutbundin málaralist) þar sem áhersla er á notkun beinna lína, hornréttra myndflata og órofinna litaflata, nokkurskonar framhald á rannsóknarstefnu kúbisma. Karl byggði á einfaldri, markvissri formbyggingu og var trúr abstraktlistinni allan sinn feril. Málverk hans urðu stærri og útlínur flata skarpari eftir því sem leið á listamannaferil hans. Auk þess sem hann teiknaði bogadregnar línur sem gaf verkum hans meiri hreyfingu.

Grein úr Morgunblaðinu, Merkir Íslendingar: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1531628/
Frétt í tengslum við Safneign á sunnudegi, Gerðarsafn: https://www.facebook.com/gerdarsafn/posts/4757483994307103/

Katrín Sigurðardóttir

(1967)

Fædd í Reykjavík

Miðill: skúlptúr, teikningar, ljósmyndir, innsetningar

Katrín Sigurðardóttir vinnur oftast þrívíð verk og eru skúlptúrar hennar fjölbreyttir. Í mörgum verkanna er eins og hún sé að kortleggja staði og tíma. Listaverkin eru þess eðlis að áhorfandinn upplifir þau misjafnlega eftir því hvar hann er staðsettur.

Katrín hefur á ferli sínum sýnt skúlptúra, teikningar, ljósmyndaverk og stórar innsetningar sem eru til þess fallin að umbreyta reynslu og upplifun áhorfandans. Verk hennar hafa verið sýnd hér heima og víða erlendis en hún hefur m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, Sao Paulo Tvíæringnum í Brasilíu, Momentum í Noregi og Rabat tvíæringnum í Marokkó. Einkasýning hennar í Metropolitan safninu í New York borg árið 2010 vakti mikla athygli.

Verkin eru til þess fallin að áhorfandinn sér heiminn út frá nýjum og óvæntum vinkli, þar sem oft á tíðum byggingalist, korta- og módelgerð mætast.

Frétt af vef Hornafjarðar, 2021: https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/katrin-synir-verk-i-svavarssafni
Frétt af vef Listasafns Reykjavíkur, 2015: https://listasafnreykjavikur.is/syningar/katrin-sigurdardottir-horft-inni-hvitan-kassa-skulpturar-og-model