A/Á

Abstraktlist

Abstraklist er listastefna sem varð til í upphafi 20. aldar. Það að mynd sé abstrakt þýðir að hún sé óhlutbundin, þ.e. á henni eru engir þekkjanlegir hlutir eða verur. Málverkin eru oft máluð sterkum litum og með geómetrísk form. Abstraktlistin þróaðist aðallega út frá expressjónisma og kúbisma. Listamenn sem aðhyllast þessa stefnu vilja að litirnir og formin myndi verkið ein og sér og halda því fram verkin hafi sitt eigið listræna gildi þótt þau líktust engu ákveðnu.

Aðalatriði

Aðalatriði og smáatriði vísar í myndefnið og hvernig það er unnið. Aðalatriði er það sem augað nemur fyrst. Smáatriði eru mjög mikilvæg þegar heildin er skoðuð. Þau geta t.d. falist í nákvæmri litanotkun, teikningu, áferð eða endurtekningu.

Akrýllitir

Akrýl er málning sem gerð er úr litadufti, vatni og plastbindiefni. Akrýllitir þorna mjög hratt. Hægt er að nota vatn til að blanda litina en þegar þeir eru þornaðir hrinda þeir vatni frá sér.

Akrýlmálverk

Myndverk máluð með akrýllitum, þ.e. litum úr litarefni sem er bundið með blöndu af akrýlresíni og vatni. Akrýllitir eru vatnsleysanlegir og fljótir að þorna.(e. acrylic paintings) | Málaralist

Akvatinta

Grafísk djúpþrykksaðferð, afbrigði af ætingu, notuð síðan í lok 18. aldar. Fíngerðu dufti úr viðarkvoðu eða asfalti er sáldrað yfir kopar- eða sinkplötu. Platan er hituð og bráðna þá duftkornin og festast við plötuna. Sýruhelt lakk eða fernis er borið á þá fleti sem eiga að vera hvítir og platan síðan lögð í sýru sem ætir hana milli duftkornanna. Þegar platan hefur legið um stund í sýrunni er hún tekin upp úr og lakkað yfir þá fleti sem eiga að vera ljósgráir og síðan lögð aftur í sýrubaðið. Þannig er haldið áfram að lakka yfir og leggja í sýru og nást þá fjölbreyttir tónar. Þeir fletir sem lengst liggja í sýrunni verða dekkstir á afþrykkinu; þrykkt á sama hátt og æting. Afþrykkið nefnist einnig akvatinta.
(e. aquatint) | Grafík

Action painting

Málunaraðferð þar sem litunum er skvett, slett og þeir látnir drjúpa á strigann. Einnig kallað átakamálverk eða skyndimálun.

Andstæðir litir

Litir sem eru staðsettir andspænis hvor öðrum á litahringnum. Ef blandað er saman rauðum og bláum verður til fjólublár, gulur er andstæður litur þess fjólubláa. Þegar andstæðir litir eru settir hlið við hlið hafa þeir sterk áhrif hvor á annan. Það getur t.d. verið gott að skapa hreyfingu með því að nota andstæða liti.

Andstæður

Vísar í gagnstæðar einingar s.s. ljóst og dökkt; gróft og slétt; stórt og smátt o.s.frv. Það er gert í myndbyggingu til að skapa áhugaverð sjónræn áreiti sem skapar líf í myndflötinn.

Andstæðulitir

Litir sem eru á móti hvor öðrum á litahringnum. Þessir litir eru í mestri mögulegri andstæðu sín á milli. Dæmi um andstæðuliti má nefna rauðan og grænan, appelsínugulan og bláan, fjólubláan og gulan.

Annars stigs litablöndun

Annars stigs litablöndun eru þeir litir sem myndast þegar frumlitunum er blandað saman. Gulur og rauður verða appelsínugulur, blár og gulur verða grænn; blár og rauður verða fjólublár.

Arkitektúr

List- og fræðigrein um hönnun húsa (utan og innan), garða og borga. Byggingarlist.

Álþrykk

Mynd teiknuð á álplötu í stað kalksteins.
Steinprentsaðferð.

Áferð

Útlit yfirborðs. Áferð er fjölbreytt, hún getur verið gróf, slétt, loðin, hrjúf o.s.frv. Hægt er að tala um áferð á þrívíðum hlut eins og stein, hraunmola og trékassa. Þá er vísað í snertingu. En það er líka hægt að tala um áferð teikningar og málverks. Þá er vísað í það sem augað sér.
(e. texture)

Áherslur

Áherslur eru notaðar til að gera ákveðna hluta myndflatarins áberandi. Áherslur búa til brennidepil (fókus punt) sem fær áhorfandann til að horfa fyrst á þann stað myndverksins.

Átakamálverk

Málunaraðferð þar sem litunum er skvett, slett og þeir látnir drjúpa á strigann. Einnig kallað skyndimálun og action painting.

Átök

Þegar listaverkum er lýst þá er stundum talað um að eitthvað takist á. Það er t.d. þegar mikil spenna og hreyfing er í myndfletinum.

B

Bakgrunnur

Bakgrunnur vísar í myndefnið sem er lengst í burtu eða aftast í myndfletinum.

Barbizonmálarar

Hópur franskra landslagsmálara sem hélt til í bænum Barbizon á árunum 1835-1870.

Barokk

Listastefna sem var ríkjandi meira og minna alla 17. öldina. Stíllinn er breytilegur eftir löndum. Mikilfenglegur ýkjustíll sem einkennist af viðhafnarmiklum og svellandi formum. Á ítölsku og portúgölsku þýðir barokk „óregluleg perla“. Helstu einkenni barokktímans í myndlist eru þau að í málaralist urðu birtuskil skarpari en áður. Sjónarhornið færðist neðar, líkt og horft væri upp til fólksins á myndinni. Alþýðufólk og öldungar voru oftar fyrirsætur. Auk þess varð hreyfing og frásögn mikilvægari í málverkunum.

Bauhaus-skólinn

Bauhaus-skólinn sem starfræktur var í Weimar og í Dessau í Þýskalandi á árunum 1919-1933 var þekktur fyrir nýjar hugmyndir um listkennslu. Stjórnendur skólans höfðu það meðal annars að markmiði að binda endi á þá íhaldssömu skiptingu í myndlist og handverki sem hafði verið viðhöfð og leggja þess í stað áherslu á tækni og verkkunnáttu samhliða listrænni sköpun.

Blandaður litur

Blandaður litur vísar í að búið er að blanda litinn með gráum, hvítum eða svörtum. Einnig er hægt að blanda lit með andstæðum lit af litahringnum.Blandaður litur vísar í að búið er að blanda litinn með gráum, hvítum eða svörtum. Einnig er hægt að blanda lit með andstæðum lit af litahringnum.

Blek

Litaður vökvi eða þykkni notað til að skrifa, teikna eða prenta. Það er til í mörgum litatónum. Efnasamsetning bleks er oft flókin en það getur t.d. innihaldið litarefni, trjákvoðu og leysiefni.
(e. ink drawing) | Teikning

Blýantsteikningar

Myndverk teiknuð með blýanti, þ.e. skriffæri úr grafít, sem er pressað með leir í mismunandi hörku.
(e. pencil drawings) | Teikning

Blönduð tækni

Myndverk þar sem blandað er saman mismunandi efnum og aðferðum. Listamenn geta í raun notað hvaða efni sem er í verk sín. Sumir skapa ólík verk hverju sinni eftir því hvað hentar á meðan aðrir vinna með ákveðna miðla og sérhæfa sig í þeim eins og til dæmis leirlist og textíl. Erfitt getur reynst að flokka verk þegar það er búið til með fjölbreyttum aðferðum og ólíkum efnum og því getur reynst vel að nefna að um blandaða tækni sé að ræða.
(e. mixed media) | Blönduð tækni

Bóklist

Myndverk í formi bókar þar sem eiginleikar bókarinnar eru notaðir í myndlistarlegum tilgangi.
(e. book art) | Bóklist

Bókverk

Myndverk þar sem eiginleikar bókarinnar eru notaðir í myndlistarlegum tilgangi. Bókverk eru framleidd af listamönnum og eru yfirleitt gefin út í takmörkuðu, oftast tölusettu, upplagi en geta þó verið einstök. Margvísleg tækni hefur verið nýtt við gerð bókverka og er innihaldið ýmist myndir eða textar eða hvort tveggja. Blaðsíður sem hægt er að flétta einkenna flest bókverk. Gerð bókverka var stór þáttur í listsköpun ítalskra og rússneskra fútúrista og var tekinn upp á ný á sjötta áratugnum af listamönnum á borð við Ed Ruscha og Dieter Roth.
(e. artist’ books) | Bóklist

Bútasaumsverk

Myndverk samsett úr tilsniðnum efnisbútum með saumi, ýmist í höndunum eða með saumavél.
(e. patchwork) | Textíllist

Byggingarlist

Listrænn og tæknilegur þáttur í byggingu mannvirkja. Eins og í öðrum listgreinum nær byggingarlist bæði yfir fagurfræði og notagildi sem eru samofnir þættir í hverju verki. Áherslur á hvort um sig eru mismunandi eftir verkum. Flest menningarsamfélög hafa þróað með sér sérstakan byggingarstíl og háþróuð samfélög hafa tileinkað sér fjölbreytta tækni, stíl- og byggingartegundir.

C/D/Ð

Camera lucida

Camera lucida var notað sem hjálpartæki til að draga upp myndir. Aðferðin sem leit dagsins ljós árið 1807 fólst í svipaðri tækni og camera obscura en var minna og handhægara tæki. Í stað myrkvaðs rýmis er vörpunin gerð í birtu. Glerplata sem brýtur upp ljósgeisla er fest á stiku fyrir ofan teiknibretti. Glerið er staðsett milli teiknarans og pappírsins þannig að hann sér myndina sem ætlunin er að teikna eftir varpast á flötinn og getur þannig dregið útlínur eftir henni.

Camera obscura/myrkvað herbergi

Fyrirrennari myndavélarinnar kallast Camera obscura eða myrkvað herbergi. Tæknin felst í því að gera örlítið gat, ljósop, á svartan kassa eða gluggalaust herbergi og láta geisla sólarinnar varpa skuggamynd á hvolfi á gagnstæða hlið eða vegg kassans sem er svo teiknað eftir.

Dadaismi

Dadaismi varð til sem listastefna sem andóf gegn fyrri heimsstyrjöldinni en dada merkir rugguhestur á frönsku. Upphafsfólki stefnunnar ofbauð hryllingur stríðsins en fundu ekki hjá sér neina rökrétta leið til að túlka hana svo þeir gerðu verk sem virtust merkingarlaus, undarleg eða fólu í sér háðsádeilu.

Djúpþrykk

Aðferð í grafík sem byggist á því, að línur sem hafa verið ristar eða ættar með sýru í málmplötu, eru fylltar með lit, sem síðan er þrykkt á pappír í þrykkpressu.
Grafík.

Dórískar súlur

Súlnagerðir Forn-Grikkja. Dórískar súlur höfðu engan fót en ferkantað höfuð. Þær gildnuðu lítið eitt um miðjuna og mjókkuðu síðan upp. Þetta var gert til að láta þær sýnast hærri.

Dúkristur

Myndverk unnin með grafískri háþrykksaðferð þar sem mynd er skorin út í línóleumdúk með dúkskurðarhníf, svertu eða lit valsað yfir og síðan þrykkt á pappír. Línurnar sem skornar voru í dúkinn haldast þá hvítar en aðrir fletir þrykkjast í lit. Ef myndin á að þrykkjast í fleiri en einum lit þarf eina plötu fyrir hvern lit. Þessi aðferð hefur verið notuð í grafíklist frá því um 1920.
(e. linocuts) | Grafík

Dýpt

Dýpt getur bæði vísað í dýpt myndbyggingarinnar s.s. litadýpt, fjarvíddartilfinningu og heildarmyndina. Listaverk með mikla dýpt hefur bæði forgrunn, miðrými og bakgrunn. Einnig er stundum talað um dýpt ef inntak myndefnisins hefur skýra djúpa samfélagslega skírskotun.

E/É

Egg tempera

Egg tempera er aðferð sem notuð er í listmálun. Aðferðin byggir á fornri málunartækni sem kom fyrst fram á 13. öld. Þegar unnið er með egg temperu er notað litaduft sem blandað er saman við eggjarauðu sem bindur litinn. Málverk sem unnin eru með egg temperu eru mjög endingargóð.

Eiginskuggi

Skuggi sem kastast af hlut eða veru á málverki.

Einföldun

Það að sýna hluti einfaldari en þeir eru í raun og veru. Til dæmis með því að sleppa smáatriðum.

Einþrykk

Grafísk flatþrykksaðferð, notuð frá lokum 17. aldar. Myndin er máluð beint á plötu, t.d. úr málmi eða gleri, og þrykkt á pappír. Aðeins er hægt að gera eitt afþrykk af hverri plötu og nefnist það mónótýpa eða einþrykk.
(e. monotypes) | Grafík

Endurreisn

Hreyfing í evrópskri menningu sem kom upp á Ítalíu á 14. öld og náði hámarki á 15. og 16. öld. Endurreisn leitaði fyrirmynda í klassískri fornöld og byggðist að sumu leyti á miðaldamenningu en markaði jafnframt endalok hennar og upphaf nýrrar aldar. Endurreisn einkenndist af árás á heildarhyggju kirkju og keisara, með aukinni þjóðerniskennd og áherslu á jarðlífið. Í myndlist náðu menn auknu valdi á líffærafræði (anatómíu), þróuðu jafnt línufjarvídd sem andrúmsfjarvídd og leituðu sér viðfangsefna utan heilagrar ritningar, ekki síst í klassískum goðsögnum og bókmenntun. Í byggingarlist ítrekuðu menn samræmi, jafnvægi og hófsemi.

Endurtekning

Vísar í að sama formið eða sami litur er endurtekinn í listaverkinu. Endurtekning getur líka vísað í áferð, stefnu, staðsetningu og stærð.

Etnísk list

List einstakra þjóðabrota. Orðið er dregið af gríska orðinu ethnos sem þýðir þjóð.

Expressjónismi

Listastefnan Expressjónismi varð til í lok nítjándu aldar. Á ensku og fleiri málum þýðir sögnin „express“ bæða að tjá og sýna svipbrigði og það er einmitt það sem expressjónistarnir vildu gera. Þeir vildu tjá tilfinningar sínar, líðan og reynslu. Til þess notuðu expressjónistar oft sterka liti og gróf pensilför. Litirnir í myndunum þurftu ekki að vera eins og í raunveruleikanum. Þeir máluðu himininn rauðan, hafið gult og blá andlit ef það fangaði þær tilfinningar sem þeir vildu lýsa. Þannig fengu litirnir táknræna merkingu og þessir málarar eru því einnig kallaðir symbólistar.

Expressjónísk abstraktlist

Listastefna sem einkennist af óhlutbundnum verkum með áherslu á sköpunarferlið.

F/G

Fauvismi

Franskt afbrigði af expressjónisma í málaralist er kom formlega fram á sjónarsviðið á frönsku haustsýningunni 1905. Nafnið er komið frá gagnrýnandanum Louis Vauxcelles sem uppnefndi listamennina Les Fauves (villidýrin). Eins og aðrir expressjónistar snerust fávistar gegn raunsæi impressjónismans og reyndu að túlka tilfinningar sínar gagnvart hinu sýnilega með óheflaðri teikningu og sterku litrófi. Fremstur í flokki fávista var H. Matisse.

Fegrun

Það að fegra raunveruleikann.

Fingraaðferð

Fingraaðferð dregur nafn sitt af því að form eru eingöngu mótuð með fingrunum, nánar til tekið þá er leir klipinn til milli fingra annarrar handar. Þessi aðferð er stundum kölluð holuaðferðin, því byrjað er á að búa til holu í leirkúlu sem síðan er mótuð áfram. Ef hankar eða önnur form eiga að vera utan á aðalforminu er þeim bætt við þegar mótun aðalformsinser lokið.

Fígúratív

Á við um myndverk sem líkir eftir raunveruleikanum (hlutbundinn, abstrakt), oftast notað sem hugtak yfir listaverk sem innihalda dýr eða manneskjur.

Fjarvídd

Fjarvídd vísar í þegar stærðarhlutföll myndefnis birtast á þann hátt að hluturinn sýnist minnka eftir því sem fjær dregur auganu. Málverk með mikla fjarvídd eru sögð hafa dýpt.

Fjarvíddarlínur

Línur sem mynda fjarvídd.

Fjarvíddarpunktur

Punktur þar sem allar fjarvíddarlínur mætast.

Fjöllistamaður

Listamaður sem lætur til sín taka á fleiri en einu listasviði, til dæmis myndlist, tónlist, bókmenntum og svo framvegis.

Fjöltækni

Samtímalistaverk þar sem ýmis listform eru notuð til listsköpunar í einu og sama verkinu. Fyrir listaverk þar sem blandað er saman nokkrum listtegundum til að mynda nýtt listform skal nota intermedia. Ef um er að ræða margvísleg efni í sama verki skal nota blandaða tækni.
(e. multimedia work) | Nýir miðlar

Flatarmál

Grunnflötur. Stærð flatar í tilteknum einingum.

Flatþrykk

Grafísk þrykkaðferð sem skilur sig frá öðrum grafískum aðferðum, þ.e. háþrykki og djúpþrykki, á þann hátt að ekki er um neinn hæðarmun að ræða á þrykkplötunni. Þeir fletir og línur sem taka við svertunni liggja á sama grunni og þeir sem ekki taka við lit.
Grafík

Flúxus

Alþjóðleg hreyfing fjöllistamanna. Hafði sig mest í frammi í Bandaríkjunum, Japan og V-Evrópu um 1960. Í uppákomum flúxusmanna fóru saman þættir úr tónlist, leiklist, myndlist og kvikmyndum. Áhrifa frá flúxus gætti í myndverkum SÚM áhangenda 1965-70, þ.á m. Diether Roth, Þórðar Ben Sveinssonar og Sigurðar og Kristjáns Guðmundssona.

Flötur

Flötur myndast þegar línur tengjast saman. Stundum er talað um myndflöt þá er átt við alla myndina eða allt málverkið. Flötur getur líka verið eining innan myndflatarins.

Forgrunnur

Forgrunnur vísar í myndefnið sem er næst okkur eða fremst í myndinni. Forgrunnur getur verið hvar sem er á myndfletinum.

Form

Lögun sýnilegra forma geta bæði verið geometrísk eða lífræn. Form geta bæði verið huglæg og sýnileg. Huglæg form birtast ekki á myndfletinum heldur eru þau formin sem við sjáum fyrir okkur sem form, þegar augun mynda línur á milli mismunandi eininga á myndfletinum. Form hafa ólíka liti og ólíka áferð.

Formfræði

Öll listaverk eru byggð upp úr formum. Þeim er raðað á myndflöt eða í höggmynd og mynda heildstætt listaverk. Formfræði fjallar um tengslin á milli punkta, lína og flata sem mynda listaverkið. Með því að skoða form og tengslin á milli þeirra má læra margt um myndlist.

Fornklassísk list

Hugtak sem notað er um gríska og rómverska menningu og list fram að 6. öld eftir Krist.

Fókus

Mikilvægasti og mest áberandi hluti myndar. Einnig kallað miðpunktur.

Frávik

Frávik vísar í að einhver eining innan listaverksins er ólík heildinni. Þetta getur vísað til litar, forms, stefnu, aðferðar eða áferðar.

Freska

Veggmálverk málað með vatnslitum á raka kalkhúð þannig að liturinn binst múrnum meðan hann er að þorna (buon’ fresco). Stundum eru freskur þó málaðar á þurran vegg (fresco secco) og eru þá litirnir blandaðir límefni. Kostur þessarar tækni er að málningin flagnar ekki af þó að veggurinn springi. Liturinn getur haldið sér í margar aldir. Myndirnar geta samt dökknað af sóti frá reykelsi og kertum. Freskur eru mjög algengar í kirkjum. Listamenn endurreisnartímabilsins máluðu t.d. sín verk með freskutækninni.
(e. frescoes) | Málaralist

Frumlitir

Litir sem ekki er hægt að búa til með blöndun. Frumlitirnir eru þrír: gulur, rauður og blár.

Frumstæð list

List frumstæðra þjóðflokka sem búa í nánum tengslum við náttúruna, einkum í Afríku og á Kyrrahafseyjunum.

Funksjónalisminn

Funksjónalisminn byggðist á einföldum formum, hófsemi í litavali og ákveðinni kerfishugsun í hönnun hluta fyrir heimilið sem hæfði nútímalífsstíll.

Fútúrismi

Stefna í listum, einkum bókmenntum og myndlist. Uppfinning ítalska skáldsins F.T. Marinetti, sem 1909 birti hugmyndir sínar um list framtíðarinnar er taka átti mið af lífsorkunni, hraðanum, vélaraflinu og hávaða borgarlífsins.

Geómetrísk abstraktlist

Geómetrísk abstraktlist (strangflatalist) blómstraði í íslenskri myndlist á 6. áratug tuttugustu aldar. Geómetrían var andstæða fígúratívu listarinnar þar sem hún skírskotar ekki til neinnar þekktrar fyrirmyndar heldur túlkar hún innri sjón og tilfinningar málarans.

Geómetrískar myndir

Myndir sem sýna mannverur sem ferhyrninga, ferninga, þríhyrninga og hringa.

Gifsmyndir

Þrívíð myndverk unnin í gifs.
(e. plasster sculptures) | Skúlptúr

Gildismat

Mat á almennum verðmætum í lífinu, annaðhvort persónubundið eða háð félagshópum.

Gjörningur

Tímabundið verk þar sem upplifunin er aðalatriðið og verður útkoman skipulögð og táknræn athöfn framkvæmd af listamanni í viðurvist áhorfanda þar sem ólíkum listgreinum er blandað saman. Gjörningur er notað til aðgreiningar frá leiklist. Mest áhersla er lögð á líkama listamannsins, hreyfingar og hljóð. Eina heimild gjörnings er ljósmynd eða myndbandsupptaka.
(e. performance art)

Glermálverk

Mynd sett saman úr mislitum glerstykkjum. Steint gler.

Glerskúlptúrar

Þrívíð myndverk unnin í gler.
(e. glass sculptures) | Skúlptúr

Glerungur

Glerungur er gler og önnur steinefni sem blandað er saman í ákveðnum hlutföllum þannig að þau bráðni og haldist á leirmunum í gegnum háan hita, harðni og festist á þeim við kólnun. Leirmunir eru glerjaðir til að gera þá sterkari og til að gefa þeim liti, áferð og skreytingu.

Glerverk

Tvívíð myndverk unnin í gler þar sem áhersla er lögð á samspil birtu og glers. Verk sett saman úr lituðum glerflísum greyptum í blýbönd eru kölluð steind glerverk eða steindir gluggar.
(e. glass works)

Gouache litir/Þekjulitir

Eru þekjandi vatnsleysanlegir litir sem eiga uppruna sinn í Frakklandi. Þeir eru útbúnir með því að blanda litadufti við vatn og bindiefni, s.s. arabískt gúmmí.

Gotneskur stíll

Gotneskur stíll var stíll vaxandi borgarmenningar sem dafnaði frá 12. til 15. öld. Gotneski stíllinn er með oddboga í stað hringboga en oddurinn myndast þegar tveir hringbogar skerast.

Grafík

Sú grein myndlistar sem byggist á hvers konar þrykktækni. Myndirnar eru t.d. unnar á málmplötu, stein, tré eða línóleumdúk, síðan er litur/sverta borin á flötinn og myndin þrykkt á pappír, oftast í takmörkuðu upplagi. Afþrykkin eru síðan tölusett og árituð af listamanninum sem oftast annast prentunina sjálfur.
(e. graphic art)

Grafíklist

Tækni sem sprettur af þörfinni á að fjölfalda og dreifa myndum og texta. Það getur t.d. verið tréskurður, litógrafía eða steinþrykk, sáldþrykk eða silkiþrykk.

Grafíklistamaður

Listamaður sem notar grafíska tækni, til dæmis tréskurð.

Grafískur hönnuður

Myndlistarmaður sem hefur sérhæft sig í auglýsingagerð og útlitshönnun á efni m.a. fyrir bæklinga, sjónvarp, umbúðir, bækur o.fl.

Grog

Grog er brenndur leir sem hefur verið brotinn niður og malaður í ákveðnar stærðir. Algeng kornastærð grogs er á bilinu 0,2-1,5 mm. Grog er bætt í leirinn til að hann verpist síður og þoli betur þurrkun og brennslu. Magn grogs í leir getur verið á bilinu 10-50%. Notað er gróft grog eða mikið magn af því haft í leirnum, þegar verið er að byggja upp stóra hluti í leir. Ef yfirborð flatarins á að vera slétt og fíngert á ekki að nota grog.
(d. chamotte) | Leirlist

Grunnform

Grunnformin eru til í öllum litum og margskonar samsetningum. Tvívíð form eru hringur, ferningur og þríhyrningur. Þau hafa lengd og breidd. Þau eru líka til þrívíð en þá eru þau kúla, teningur og píramídi. Þau hafa lengd, breidd og hæð.

Grunnlitir – frumlitir

Frumlitirnir eru þrír: Gulur, rauður og blár. Ekki er hægt að búa þá til úr öðrum litum.

Gullinsnið

Gullinsnið er hugtak sem gríski rúmfræðingurinn Pythagoras (560-480 BC) gerði frægt. Hann hafði mikinn áhuga á hlutföllum. Hann sýndi t.d. fram á hvernig margir hlutir í náttúrunni væru byggðir upp í hlutföllum gullinsniðs eins og t.d. kuðungur. Listamenn endurreisnatímabilsins eins og Leonardo DaVinci höfðu mjög mikinn áhuga á hlutföllum og gerðu margar uppgötvanir tengdar gullinsniði. Þeir skoðuðu hvernig staðsetning og hlutföll flata og forma í myndverkum skiptir máli. Gullinsnið er hlutföll milli tveggja mislangra lína, sú styttri skal vera jafnmikill hluti hinnar lengri og sú lengri stór hluti af þeim báðum samanlögðum. Listamenn hafa oft nýtt sér gullinsnið í myndbyggingu til að gera listaverk aðgengilegri og fallegri. Til eru ýmis tæki sem hjálpa listamönnum til að ná fram gullinsniði eins og t.d. gullinsniðsmáti. Hann virkar svipað og sirkill en er í raun bara mælistika sem sniðugt er að nota þegar maður er að hanna eitthvað og vill hafa það í Gullnusniði eða hlutfalli.

Gvassmyndir

Myndverk máluð með vatnslitum sem kallast gvasslitir (úr fr. gouache, skola úr ít. guazzo, pollur) eða þekjulitir og eru blandaðir hvítu litarefni og miklu bindiefni sem gefur sérstæða þekjandi, matta áferð.
(e. gouaches) | Málaralist

H/I/Í

Handíðaskólinn (síðar Handíða- og myndlistaskólinn)

Handíðaskólinn (síðar Handíða- og myndlistaskólinn) var stofnaður árið 1939 af Lúðvíg Guðmundssyni (1897-1966) sem jafnframt var fyrsti skólastjóri hans. Skólinn útskrifaði handavinnukennara fyrir barna- og unglingastigið og húsmæðraskólana. Markmið skólans var að efla verklega kennslu með því að móta íslensk stíleinkenni og leggja áherslu á íslenskt handverk. Með skólanum þróaðist heimilisiðnaðurinn yfir í listiðnað sem fór smám saman að skipa hærri sess í íslensku menningarlífi og réðst það helst af þeirri stefnu að gefa gamalli og þjóðlegri iðn nýtískulegan blæ. Með skólanum opnuðust augu manna fyrir mikilvægi handíða og spilaði íslenska ullin, listvefnaður og listsaumur þar stórt hlutverk í ýmiss konar listvarningi. Árið 1965 fékk skólinn nafnið Myndlista- og handíðaskóli Íslands og upp frá því var lögð meiri áhersla á myndlist og sjálfstæða listsköpun.

Handmálaðar ljósmyndir

Svarthvítar ljósmyndir sem eru málaðar eftir framköllun.
(e. hand-tinted photographs)

Háþrykk

Grafísk þrykkaðferð sem byggist á því, að þeir fletir, sem svertan eða liturinn er borinn á, eru upphækkaðir fyrir ofan niðurskorinn botn. Þeir hlutar í myndinni, sem eru hvítir samsvara niðurskornum flötum í þrykkplötunni. Algengustu háþrykksaðferðirnar eru trérista/tréskurður, dúkrista/dúkskurður og tréstunga.

Hekluð verk

Myndverk unnin með heklunál og þræði.
(e. crochets) | Textíllist

Hjálparlínur

Hjálparlínur eru línurnar sem notaðar eru til að ná fram línulegri fjarvídd. Þegar myndin er tilbúin eru hjálparlínurnar strokaðar út.

Hliðstæðir litir

Þrír litir sem eru við hliðina á hver öðrum á litahjólinu: Rauður, appelsínugulur og gulur. Hliðstæðir litir geta framkallað áhrif samfellu.

Hljóðverk

Myndverk sem nýta, búa til eða endurvarpa hvers konar hljóðum, bæði manngerðum og náttúrulegum. Hljóðin eru ýmist samin sérstaklega fyrir verkin eða sótt í umhverfið og geta verið bæði tilviljanakennd og taktföst.
(e. sound) | Nýir miðlar

Hlutfall

Hlutfall segir til um hversu vel hlutir passa saman og skapa heild.
Stærðarhlutfall á milli eininga á myndfletinum getur verið sýnt með ólíkri staðsetningu í rými og fjölda eininga. Ef stórt form eða litaflötur er staðsettur vinstra megin á myndfleti á móti litlum hlut hægra megin myndast ójafnvægi. Til að ná jafnvægi getur listamaðurinn valið að bæta við fleiri minni flötum hægra megin eða nota þyngri lit á móti létta litnum. Hlutfall byggir bæði á stærð og staðsetningu.

Hlutföll

Hlutfallið milli einstakra parta í málverki.

Horfið vax

Er rómversk bronssteypuaðferð. Forn aðferð til að búa til afsteypur úr málmi af höggmyndum eða nytjahlutum. Fyrst er höggmyndin mótuð í leir eða tálguð úr tré. Síðan er búið til mót af henni úr gifsi. Ef myndin er einföld er gifsmótið í tveimur hlutum en stundum þarf mótið að vera samsett úr mörgum einingum. Upprunalega höggmyndin er tekin innan úr gifsmótinu og það sett saman á nýjan leik. Þá er bráðnu vaxi hellt ofan í mótið, ekki ólíkt því hvernig páskaeggin eru búin til. Þannig verður til afsteypa af upprunalegu höggmyndinni úr vaxi. Við vaxmyndina er bætt greinum úr vaxi sem verða síðar að aðfærsluæðum fyrir bráðinn málminn. Síðan er steypt mót utan um vaxmyndina úr hitaþolnu efni en ólíkt fyrra mótinu er þetta mót ekki með samskeytum. Síðan er mótið hitað í brennsluofni þannig að vaxið bráðnar og rennur burt og eftir stendur mótið tómt, tilbúið til að taka við bráðnum málminum sem oftast er brons. Þegar málmurinn hefur kólnað er mótið brotið utan af, aðfærsluæðarnar skornar burt og höggmyndin slípuð og lagfærð. Styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli eftir Einar Jónsson var búin til með þessari aðferð.

Hornalínur

Beinar línur sem liggja á ská frá einu horni myndar í annað. Einnig nefndar skálínur.

Hópmyndir

Málverk af mörgum einstaklingum í einni og sömu myndinni.

Hreinir litir

Litur sem ekki er blandaður svörtum eða hvítum lit.

Hreinn litur

Vísar í að liturinn er beint af litahringnum.

Hringbogi

Rómverjar gerðu margt mikilvægt á listasviðinu. Þeir notuðu bogaform frá Mesópótamíumönnum í stað grísku súlnanna sem voru frekar notaðar til skrauts. Þannig gátu þeir aukið burðarþolið. Bogaformið er kallað rómanskur bogi og var hann uppistaðan í hinu mikla hringleikahúsi í Róm, Colosseum, sem var reist á árabilinu ´70-´80 eftir Krist. Gotneski stíllinn er með oddboga í stað hringboga.

Hreyfing

Hreyfing og kyrrð segir til um hvernig augað færist yfir myndflötinn og myndbygginguna. Með því að búa til endurtekningu á formum í myndfletinum skapast oft meiri hreyfing. Eðli formanna og litanna í myndfletinum skapar hreyfingu hvort sem þau eru þung eða létt. Hrynjandi og endurtekning skapar einnig hreyfingu.

Hrynjandi

Hrynjandi er eins og taktur sem vísar í hvers kyns reglubundna endurtekningu. Hrynjandi er notuð til að vekja upp áhuga og samloðun. Hrynjandi og hreyfing eru nátengd hugtök.

Hugmyndalist

Listastefna (einkum útbreidd 1965-´75) þar sem listaverkið felst einkum í hugmynd sem er studd, miðlað eða vísað til með hinum áþreifanlegu eða sjáanlegu hlutum þess. Konseptlist.

Huldukonurnar

Konur sem fóru í myndlistarnám erlendis á síðustu áratugum 19. aldar og upp úr aldamótum. Þær voru frumkvöðlar en þar sem tilvera þeirra innan listarinnar var flestum hulin þar til nýlega hafa þær stundum verið nefndar „huldukonurnar“ í íslenskri myndlist.

Hvarfpunktur

Hvarfpunktur er sá punktur þar sem hjálparlínurnar byrja. Myndir geta haft fleiri en einn hvarfpunkt.

Hönnuður

Einstaklingur sem hannar. Gerir grunnteikningu (eftir eigin hugmynd). Hannar t.d. nytjahluti til iðnaðarframleiðslu.

Hönnun

Mótun eða skipulag hluta, mannvirkja eða umhverfis til framleiðslu eða byggingar þar sem sameinað er fagurfræðilegt og hagkvæmt gildi. Hönnun felst í því að móta og ákveða útlit og form hluta en hún felur líka í sér að leita nýrra lausna, breyta hugmynd, endurgera hluti, betrumbæta eða samþætta heildarmynd. Þannig hefur hugmyndafræði hönnunar og fagurfræði oft mikil áhrif á umhverfi okkar og daglegt líf. Hönnun er ekki hluturinn sjálfur heldur allir þeir þættir sem hún byggist á eins og hugmynd, rannsókn, rökhugsun, fagurfræði og ímyndunarafli. Orðið hönnun, design á ensku er dregið af ítalska orðinu disegno sem merkir teikning og var einnig notað um hugmyndina að baki ákveðnu verki á tímum endurreisnarinnar á 15. og 16. öld.

Innsetningar

Þrívíð myndverk sem eru samsett úr mörgum hlutum sem geta verið mjög fjölbreyttir að gerð en mynda eina heild í sýningarrýminu. Sýningarrýmið er því hluti af verkinu og við skoðun gengur áhorfandinn inn í verkið.
(e. installations) | Nýir miðlar

Impressjónismi

Frönsk listastefna frá lokum 19. aldar og er oftast talin vera fyrsta nútímalistastefnan. Impressjónískir málarar töldu birtuna mikilvægasta þáttinn í málverki og yfirgáfu vinnustofur sínar og fóru að mála utandyra. Þeir vildu mála hughrifin sem þeir urðu fyrir af umhverfinu á ákveðnu augnabliki. Hin nýja uppfinning, að setja tilbúna olíuliti í túpur, auðveldaði listamönnum slíkt. Fyrir vikið varð litavalið mun bjartara. Þeir máluðu hratt því þeir vildu fanga augnablikið og birtubrigðin. Það þýddi að í myndunum var ekki mikið um smáatriði og pensilförin voru þykk og öll á iði.

Iðnhönnun

Mótun hluta til fjöldaframleiðslu.

J/K

Jafnvægi

Jafnvægi milli einstakra hluta í málverki. Jafnvægi í myndverki er þegar þyngdinni er dreift jafnt báðum megin við lóðrétta ásinn. Samhverft jafnvægi notar eins einingar til að ná jafnvæginu en ósamhverft jafnvægi nýtir ólík form. Það er ekki bara stærð hluta sem skapar jafnvægi. Litir hafa líka áhrif á jafnvægi og styrkur þeirra. Jafnvægi fer eftir stærð flata, styrk og magn lita, magn hluta, hvort þeir eru ljósir eða dökkir, hvernig andstæðir litir eru notaðir og hvernig jákvætt og neikvætt rými listaverksins er nýtt.

Jarðleir

Rauður jarðleir er algengastur jarðleirstegunda og hann er rauður af því að hann inniheldur mikið járn. Einnig er til gulur og hvítur jarðleir. Jarðleirinn verður að brenna við lægsta hitastigið af öllum leirtegundum og ef hann er brenndur við of hátt hitastig bráðnar hann niður. Yfirleitt er hann ekki brenndur við hærra hitastig en 1060°C en sumar tegundir þola 1120 gráður. Rauðbrúnir blómapottar eru úr rauðum jarðleir.
(e. terracotta) | Leirmótun

Jarðlitir

Litarefni unnin úr lituðum steintegundum, einkum járnsteindalituðum leir. Þeir fást með því að blanda saman frumlitunum þremur í mismunandi hlutföllum.

Jákvætt rými

Rými eða form fyrirmyndar, aðalatriði, eins og ský á himni.

Jónískar súlur

Súlnagerðir Forn-Grikkja. Jónískar súlur voru heldur skrautlegri en dórísku súlurnar. Þær voru grennri, höfðu snúða á súluhöfðinu og hringlaga fót.

Jurtalitun

Það að nota jurtir til að lita efni eða garn eða sjóða saman efni og liti.

Kaolín

Er aðaluppistaðan í postulíni en það hefur umbreyst úr líparíti.

(e. caolin) | Leirlist

Kaldir litir

Eru þeir litir sem innihalda yfirgnæfandi magn af bláum, grænum eða fjólubláum litatónum.

Keramiklistamaður

Listamaður sem býr til og skreytir hluti úr leir.

Klippimynd

Myndir sem eru búnar til með því að líma saman ýmislegt efni, svo sem úrklippur úr dagblöðum, litaðan pappír og svo framvegis. Einnig kallað kollas.

Kolateikningar

Myndverk teiknuð með koli, þ.e. koluðu tré sem gefur blæbrigðaríkan svartan lit.(e. charcoal drawings) | Teikning

Kollas

Myndir sem eru búnar til með því að líma saman ýmislegt efni, svo sem úrklippur úr dagblöðum, litaðan pappír og svo framvegis. Einnig kallað klippimynd.

Koparstungur

Grafísk djúpþrykksaðferð. Mynd er grafin með stikli í sléttfægða koparplötu, með stiklinum er hægt að fá fram kantlausa og hreina línu sem er einkennandi fyrir aðferðina; þrykkt á sama hátt og æting.
(e. copper engravings ) | Grafík

Korinþusúlur

Súlnagerðir Forn-Grikkja. Korinþusúlurnar líktust þeim jónísku nema þær voru enn grennri. Helsti munurinn er fólginn í mjög skrautlegu súluhöfði með sveigðum laufblöðum og blómum.

Krítarteikningar

Myndverk teiknuð með krít, þ.e. ritstifti úr ýmsum hreinum litarefnum, t.d. svartkrít (úr kolefnisríkum leirskífum), rauðkrít (úr járnleir eða rauðum kalksteini), hvítri krít (úr hvítum kalksteini) eða litkrít úr litarefni.
(e. chalk drawings) | Teikning

Kúbismi

Kúbismi er listastefna sem kom fram í kringum árið 1907. Myndefnið er sett fram með rúmfræðilegum formum og flötum, stundum frá mörgum sjónarhornum samtímis. Stíll í málaralist sem birtist í því að umbreyta náttúrulegum formum í geómetrísk. Pablo Picasso og Georges Braque voru frumkvöðlar þessa stíls.

L

Lakkmálverk

Myndverk máluð með lakki, þ.e. fljótandi efni sem er blandað litarefni og myndar þétta og slétta gljáhúð.

(e. lacquer paintings) | Myndlist

Lágmynd

Lágmynd er höggmynd sem er gerð á flatt yfirborð þannig að myndin virðist koma út úr bakgrunninum.
(e. relief sculptures) | Skúlptúr

Öfugt við hefðbundnar höggmyndir eru lágmyndir aðeins skoðaðar framan frá líkt og málverk og eru gerðar til þess að skapa sjónhverfingu fyrir áhorfandann.
Krónupeningurinn er ágætt dæmi um lágmynd.

Leifaleir

Er leir sem brotnar niður og umbreytist á sama stað, t.d. í fjallshlíð. Hann er blanda af leirsteindum, bergbrotum, leirvatni og öðrum steindum.

(e. residental clay) | Leirlist

Leirlist

Leirlist nær yfir gerð skúlptúra, skrautmuna og nytjahluta úr brenndum leir en annað orð yfir brenndan leir er keramik.

Leirmyndir

Þrívíð myndverk unnin í leir.

(e. ceramic sculptures) | Skúlptúr

Listastefna

Tilhneiging til ákveðinnar þróunar í listum.

Litablöndun ljóss

Þegar unnið er með ljós eins og í tölvum, sjónvarpi eða ljóskösturum eru grunnlitirnir rauður, gulur og grænn. (RGB) Þegar þeim er blandað saman myndast annarsstigs litir sem kallast magnenta sem er bleikur litur, cyan sem er grænblár og gulur. Litatónarnir sem eru notaðir í litaprenturum eru oft kallaðir eftir þeim. Þegar allir litirnir blandast saman myndast hvítur. Enginn litur sýnir svartan.

Litafjarvídd

Litafjarvídd er náð fram með því að dekkja og lýsa liti. Almennt virðast heitir ljósir hlutir vera nær meðan dekkri kaldir litir virka fjær. Ein undantekning frá þessu er áhrif andrúmsloftsins. Mistur hefur tilhneigingu til að létta hluti í fjarlægð, eins og sjá má á litasamsetningunni hér að neðan.

Litafræði

Fræði um liti og það hvernig þeir orka hver á annan.

Litagildi

Vísar í hversu bjartur eða dökkur liturinn er. Gildi litar er breytt með því að bæta við hvítum eða svörtum lit. Lögun, lína og áferð hafa áhrif á hvernig við upplifum gildi litarins.

Litahringur – 6 litahringur – 12 litahringur

Mynd af flokkun litanna. Listamaðurinn Isaac Newton bjó til litablöndunarkerfi þar sem hann raðaði frumlitunum (grunnlitunum) í þríhyrning. Út frá þríhyrningnum teiknaði hann þrjá þríhyrninga sem hann málaði með þeim litum sem mynduðust þegar hann blandaði frumlitunum saman í jöfnu hlutfalli (annarsstigs litablöndun). Hornin á þeim þríhyrningum vísa inn í hringskífu með 12 afmörkuðum litaflötum eins og sést á myndinni. 3 frumlitir og 3 annarsstigs litir. Sitthvoru megin við annarsstigs litinn eru litafletir sem myndast þegar frumlitnum er blandað saman við annarsstigs litinn.

Litaspjald/Litapalletta

Bakki eða fjöl til að blanda liti á.

Litastjarna Ittens

Johannes Itten bjó til litastjörnu þar sem litagildi litahringsins er sýnt. Litirnir í litahringnum eru í stjörnunni ýmist dekktir með svörtum eða lýstir með hvítum lit.

Litatónn

Vísar til ólíkra tóna sama litar. Hver litur hefur marga tóna.

Litljósmyndir

Myndverk sem byggjast á notkun myndavéla og nýta allt litrófið.

(e. color photographs) | Ljósmyndun

Lífræn form

Lífræn form hafa mjúkar og ávalar línur. Þau eru líka stundum nefnd náttúruleg form.

Lína

Lína hefur upphaf og endi í punkti. Hún getur haft fjölbreytta lögun, verið óregluleg og regluleg, bein, hlykkjótt, loðin, áberandi, gróf, fíngerð o.s.frv.

Línuleg fjarvídd

Hlutir eru teiknaðir smærri í meiri fjarlægð og stærri þegar þeir eru nálægt. Þá eru notaðar stuðningslínur til að hjálpa til við myndbygginguna.

Ljóskastaraáhrif

Sérstök birtunotkun sem samsvarar því að ljóskastara sé beint að veru eða hlut. Málarar barokktímans nýttu sér einkum þessa tækni.

Ljósmyndun

Sú grein myndlistar sem byggir á notkun myndavéla, þ.e. á hvers kyns hagnýtingu á virkni ljóss á ljósnæm efni eða ljósnæmar flögur til að gera varanlegar kyrrar myndir.

(e. photography) | Ljósmyndun

Lýsingar

Í íslenskum handritum er víða að finna lýsingar en svo kallast myndskreytingar handrita, t.d. af upphafsstöfum en einnig myndir sem tengjast efni þeirra

M/N

Malerískur

Hugtak sem er tökuorð úr þýsku ,,malerisch“. Það lýsir málarastíl þar sem litir, birta og skuggi eru notuð til að mynda formin. Útlínur eru oft óskýrar og litirnir fljóta saman.

Maníerismi

Listastefna sem átti upptök sín í kringum árið 1520 og birtist sem andsvar við hinni fullkomnu og samstilltu list endurreisnarinnar.

Marmari

Marmari er mjúkt berg og er til í mörgum litum. Formgerð kristallanna er einsleit og sá eiginleiki gerir marmarann hentugan til að höggva og móta.

Málaralist

Sú grein myndlistar sem einkennist af einstæðum myndverkum þar sem litarefni blandað bindiefni, t.d. vatni, olíu, eggjarauðu eða öðrum hentugum vökva, er borið á tvívítt undirlag, t.d. striga, viðarfjöl eða pappír. Liturinn er yfirleitt borinn á undirlagið með pensli en önnur verkfæri eru einnig notuð.

(e. painting) | Málaralist

Málmskúlptúrar

Þrívíð myndverk unnin í málm, t.d. brons, kopar, járn og stál.

(e. metal sculptures) | Skúlptúr

Mesópótamía

Mesópótamía er á milli stórfljótanna Efrat og Tígris, nafnið er komið úr grísku og merkir „milli fljóta“. Í dag er landið Írak á þessum slóðum. Margir gripir hafa fundist við fornleifarannsóknir á svæðinu þar sem Mesópótamía var fyrir ævalöngu. Þeir bera vitni um fágun og siðmenningu.

Mezzótinta

Mynd gerð með grafískri djúpþrykksaðferð. Sink- eða koparflötur er ýfður upp og fletir sem eiga að vera ljósir eru sléttaðir. Að lokum er myndin svert og þrykkt. Koparplata er ýfð upp með sérstöku smátenntu verkfæri svo yfirborðið verður allt hrjúft. Myndin er síðan unnin í plötuna með því að slípa niður þá fleti og línur sem eiga að vera ljósir, mest þá sem eiga að vera hvítir. Sverta er borin á plötuna og síðan strokin af og situr hún þá eftir í hrjúfa hluta plötunnar, mest þar sem hrjúfast er. Þrykkt er á rakan pappír í grafíkpressu. Einkenni mezzotintu eru djúpsvartir og gráir tónar (úr ít. mezzotinto, miðlungs tónn).

Miðpunktur

Mikilvægasti og mest áberandi hluti myndar. Einnig kallaður fókus.

Miðrými

Miðrými vísar í myndefnið sem er milli forgrunns og bakgrunns.

Minimalisti

Einhver sem aðhyllist naumhyggju.

Módernismi

Stefna í listum á 20. öld, m.a. mótuð af iðnaðar- og borgarsamfélagi Vesturlanda, kenningum Nietzsches, Freuds og Marx og aukinni fjarlægð milli listamanna og almennings.

Mósaík

Myndverk samsett úr smáum einingum oftast úr steini eða gleri sem eru reglulegar að lögun og í mismunandi litum. Flísarnar eru lagðar í blautan múr eða festar með steinlími, oftast á vegg eða gólf.

(e. mosaics) | Skúlptúr

Mótíf

Það sem listamaður velur að mála hverju sinni. Einnig kallað myndefni.

Myndband

Myndbandið er talið síðasti framúrstefnumiðillinn í listum á 20. öld. Evrópskir og bandarískir listamenn hófu að gera tilraunir með miðilinn á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Fyrsta eiginlega myndbandsverkið gerði kóreski myndlistarmaðurinn Nam June Paik (1932-2006) sem nefndur hefur verið faðir vídeólistarinn árið 1965.

Myndbandslist

Saga myndbandslistar á Íslandi hófst ekki fyrr enn upp úr 1980 en síðan þá hefur listgreinin verið í stöðugri þróun og er nú algengt listform. Með aukinni tæknivæðingu bættust stafrænar aðferðir inn í listsköpunina sem bauð uppá tví- og þrívíða myndgerð og enn frekari samruna listmiðla og listgreina.

Myndbygging

Öll listaverk eru með eina ríkjandi myndbyggingu. Þegar myndbygging er rædd er vísað í alla uppbyggingu myndverksins með því að fjalla t.d. um liti, fleti, línur, stefnu, hreyfingu, dýpt, rými, forgrunn, bakgrunn, miðrými.

Myndefni

Það sem listamaður velur að mála hverju sinni. Einnig kallað mótíf.

Myndhöggvari

Listamaður sem býr til höggmyndir/skúlptúra og slíkt.

Myndlist

List sem byggist á einhvers konar myndum, til að mynda málverk.

Myndmál

Mál eða stíll sem tjáir hugsanir og tilfinningar í myndum.

Myndvefnaður

Myndverk ofin í vefstól þar sem þræðir mætast hornrétt þannig að þeir fléttast saman í samfellda heild.

(e. tapestries) | Textíllist

Mynstur

Mynstur er gert með því að endurtaka sömu formin eða litina aftur og aftur á sama hátt. Hugurinn leitar þá ósjálfrátt eftir reglu í endurtekningunni og greinir mynstur. Mynstur er reglulegt þegar endurtekningin er alltaf eins en ef að listamaðurinn endurtekur formin og litina á ólíkan máta er mynstrið óreglulegt.

Natúralismi

Listastefna sem leggur áherslu á að líkja eftir fyrirmyndum náttúrunnar og einkennist oft af mjög nákvæmum lýsingum á raunveruleikanum.

Natúralískur

Það að reyna að gefa eins raunsanna og nákvæma mynd af raunveruleikanum og kostur er.

Náttúruleg form

Náttúruleg form hafa mjúkar og ávalar línur. Þau eru líka stundum nefnd lífræn form.

Neikvætt rými

Rými eða form sem umlykur fyrirmynd, bakgrunnur, eins og himinn umhverfis ský.

Nútímalist

Hugtak notað um list 20. aldarinnar. Hún einkennist einkum af því að allar reglur fyrri alda eru brotnar.

Nýir miðlar

Listamennirnir nýta sér margskonar tækni og tæki til þess að miðla listaverkum sínum eins og tölvutækni, vídeó, rafmagni, hljóð og tónlist og margir blanda saman fleiri en einni listgrein í margslungnum verkum. Gjörningar, þátttökuverk og önnur tímatengd verk tilheyra líka þessum flokki listmiðla.

(e. new media art) | Nýir miðlar/Blönduð tækni

Nýklassík

Átjándu öldinni hefur verið skipt í tvennt: rókókóstílinn sem er hástig skreytilistar sem kennd er við barokkstílinn og nýklassíska stílinn sem hafnaði alfarið skrauti og prjáli rókókótímans en áhangendur hans vildu hverfa aftur til grísk-rómverskrar hófsemdar.

Nýplastískur stíll

Stefna í málaralist sem Piet Mondrian og samstarfsmaður hans, T. Doesburg innleiddu á árunum 1912-´20. Skv. henni átti myndlist að vera óhlutbundin, myndbygging hornrétt með láréttum og lóðréttum línum og aðeins mátti nota frumliti ásamt svörtu, hvítu og gráu.

Ný tækni

Listamenn nútímans geta notað ýmsa tækni sem áður var ekki tiltæk til listsköpunar og í hönnun. Tölvur opnuðu möguleika á sköpun sem áður hefði verið óhugsandi og ýmis forrit eru nú mikilvæg hjálpartæki listamanna á ýmsum sviðum. Sumt myndlistarfólk nýtir sér tækni sem sköpuð var fyrir aðra geira í verk sín. Margir listamenn nýta stafræna tækni þegar þeir skapa ljósmynda- og vídeóverk og stundum er óljóst hvort útkoman sé myndlistarverk, kvikmynd eða jafnvel tölvuleikur.

Nýtt málverk

Með hinu svokallaða Nýja málverki sem spratt fram á árunum kringum 1980 varð málverkið að aðallistformi margra ungra myndlistarmanna á Íslandi en segja má að það hafi ekki átt upp á pallborðið hjá þeim á tíma hugmyndalistarinnar. Nýja málverkið hafði blómstrað víða í Evrópu sérstaklega í Þýskalandi en þangað fóru margir íslenskir listamenn til náms, auk Spánar, Ítalíu og Frakklands en líka til Bandaríkjanna. Tjáning listamannanna var hispurslaus þar sem tilvist mannsins og tilvistarkreppa var aðalviðfangefnið. Málverkin voru oft stór og vinnubrögðin groddaleg og kraftmikil. Segja má að nýja málverkið hafi stuðlað að endurkomu málverksins því það opnaði fyrir frjálsa tjáningu og frelsi til þess að fara eigin leiðir í málverkinu. Nýja málverkið var ærslafullt, hrátt og pönkað í nokkur ár en svo fundu flestir listamannanna sinn persónulega stíl og stefnu, ýmist í hefðbundnu málverki, máluðum myndum sem einkenndust af frásögn eða hugmyndamálverkum þar sem hugmyndalist er sett fram í myndrænni framsetningu í málverki.

O/Ó

Oddbogi

Gotneski stíllinn er með oddboga í stað hringboga sem tíðkaðist hjá Rómverjum. Oddurinn myndast þegar tveir hringbogar skerast. Tæknilega er oddbogi sterkari en hringbogi því álagið sem myndast leitar meira niður á við en til hliðanna. Þess vegna þarf ekki eins mikinn ytri stuðning við oddboga og við hringboga. Því var hægt að gera veggina léttari og koma fyrir gluggum. Gotneskar byggingar eru þar af leiðandi mun bjartari en rómanskar byggingar.

Offsetprent/tölvuþrykk

Er notað í prentiðnaði en líka við gerð myndverka. Þá kemur ál- eða zinkplata í stað steinsins en hún er meðfærilegri og gefur ýmiss konar nýja möguleika, til dæmis þegar unnið er með ljósmyndir. Aðferðin felst í því að mynd er lýst yfir á álplötu sem fest er á þrykkvals. Platan er bleytt og sverta borin á. Myndin færist af plötunni yfir á gúmmívals og af honum á pappírinn eins og í steinþrykki.

Olíulitir

Eru litir sem eru gerðir úr litadufti og olíu. Olían er notuð sem bindiefni til að festa litinn á myndflötinn sem verið er að vinna. Það tekur olíuliti mjög langan tíma að þorna. Sumir listamenn velja að blanda sína eigin liti. Olíulitir voru fundnir upp á 15. öld.

Olíumálverk

Myndverk máluð með olíulitum, þ.e. litum úr litarefni og jurtaolíu t.d. línolíu og eru þeir gjarnan þynntir með terpentínu.

(e. oil paintings) | Málaralist

Oplist

Listastefna sem kom fram upp úr 1960. Í oplist er lögð áhersla á að kalla fram sjónvillu hjá áhorfendum með flóknu samspili óhlutbundinna forma eða munstra.

Óhlutbundin list

Stundum sýnir listin ekki bara hlut heldur hugmynd. Þá er talað um óhlutbundna list. Listin vísar þá til einhvers sem er ósýnilegt. Þannig verður til táknheimur og er stafrófið og ritlistin ágætt dæmi um þetta.

Óhreinir litir

Litur sem er blandaður svörtu eða hvítu.

P/R

Pappamassi

Pappír sem legið hefur í bleyti í volgu vatni þar til hann verður gegnsósa og mjúkur t.d. yfir nótt.

Pappírsskúlptúrar

Þrívíð myndverk unnin í ýmiss konar pappír.

(e. paper sculptures) | Skúlptúr

Pastelmyndir

Myndverk unnin með pastellitum (úr ít. pastello, mjúkur litblýantur) sem eru gerðir úr litarefni sem blandað er örlitlu bindiefni (gúmmíkvoðu eða metýlsellulósu).

(e. pastels) | Málaralist

Pennateikningar

Myndverk teiknuð með penna og bleki, sem oftast er unnið úr svörtu litarefni sem er blandað í vökva.

(e. pen drawings) | Teikning

Pensilglerungur

Glerungur er gler og önnur steinefni sem blandað er saman í ákveðnum hlutföllum þannig að þau bráðni og haldist á leirmunum í gegnum háan hita, harðni og festist á þeim við kólnun. Pensilglerungar, líka kallaðir leirglerungar eða slippglerungar (dregið af enska orðinu slipglaze), innihalda sérstakan leir og þess vegna er hægt að mála með þeim með pensli á hrábrennda hluti.

Piktorialismi

Stefna í ljósmyndun. Þar var lögð áhersla á að fagurfræðilegt gildi ljósmyndarinnar hefði meira vægi en sannleiksgildið. Ljósmyndarar áttu að líkja eftir vinnubrögðum listmálaranna, þar sem fegrun og lagfæring er möguleg og leikið með litbrigði ljóss og skugga. Hinn fagurfræðilegi þáttur ljósmyndarinnar sem miðils var aðalatriðið. Þeir ljósmyndarar sem aðhylltust þessa stefnu litu á sig sem listamenn fyrst og fremst og héldu sýningar á verkum sínum. Með piktorialismanum var brotið blað í ljósmyndasögunni því hann ýtti undir sjálfstæði listformsins þar sem eiginleikar og möguleikar miðilsins voru aðalatriðin.

Píramídi

Grafhýsi (minnismerki) egypskra konunga. Píramídi er uppmjór steinstrendingur með fjóra eða fleiri þríhyrnda fleti eða hliðar.

Plastskúlptúrar

Þrívíð myndverk unnin í plast.

(e. plastic sculptures) | Skúlptúr

Popplist

Stefna í myndlist sem fram kom í Evrópu og Bandaríkjunum um 1960 þar sem myndefni er sótt m.a. í myndasögur og auglýsingar, með áherslu á neyslusamfélagið. Eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar urðu heilmiklar breytingar á lifnaðarháttum í hinum vestræna heimi. Fjöldaframleiðsla alls kyns neysluvarnings jókst og ofbauð hópi listamanna í London neysluhyggjan.

Portrett

Mynd af einhverri ákveðinni manneskju. Einnig kallað andlitsmynd.

Portrettmálari

Málari sem málar portrett eða andlitsmyndir.

Postulín

Postulín er hreinasta leirtegundin, sem þýðir að í því eru engar lífrænar leifar og liturinn er hvítur. Leirsteindin kaólín er aðaluppistaða postulíns en það verður til úr niðurbroti á graníti eða líparíti. Postulín er yfirleitt brennt við 1300°C en einnig er til postulín sem þolir 1400°C og jafnvel hærra. Postulín er ekki notað í skólastarfi, þó að gott sé að móta úr því, vegna þess að það vill springa og brotnar frekar í vinnslu en t.d. jarðleir. Einnig skekkist það auðveldlega í brennslu. Matarstell eru oftast unnin úr postulíni, af því að það er brennt við svo hátt hitastig og hefur því mikinn styrk og er ekki líklegt til að brotna.

Póstmódernismi

Margvíslegir straumar í menningu og listum á síðasta hluta 20. aldar sem einkennast oft af blöndun ólíkra stíltegunda, listgreina eða menningarsviða og af efasemdum um ýmsar meginstoðir vestrænnar hugsunar.

Punktalist

Stefna innan impressjónismans þar sem litir eru málaðir í litlum punktum hlið við hlið.

Punktur

Punktur er stök eining. Hann getur bæði verið reglulegur og óreglulegur, stór og lítill. Þegar punktur verður mjög stór breytist hann í flöt.

Raunsæi

Stefna sem kom fram um miðja 19. öld en meginmarkmið hennar er að lýsa umhverfinu eins skýrt og skilmerkilega og kostur er. Öfugt við rómantísku stefnuna þá fjallaði raunsæisstefnan um það almenna fremur en hið sérstæða. Hún hafnaði trúarlegum, sögulegum og goðsögulegum viðfangsefnum. Þess í stað var samtímanum lýst með beittri gagnrýni á yfirstéttina en hinar lægri stéttir fengu vinsamlegri umfjöllun. Þannig varð raunsæisstefnan að verkfæri í pólitískri baráttu. Raunsæisstefnan varð ekki langlíf en hún rann saman við impressjónismann eftir 1860.

Refilsaumur

Refilssaumur dregur nafn sitt af reflum eða veggtjöldum sem unnin voru hér á landi fram á 17. öld og höfð í híbýlum manna en þekktastur er hann í altarisklæðum frá síðmiðöldum. Saumgerðin hefur hin síðari ár verið endurvakin og viðhaldið. Íslenski refilsaumurinn er náskyldur þeim sem notaður er í Bayeuxreflinum sem nefndur er eftir borginni Bayeux í Frakklandi en hann er eitt merkasta veraldlega listaverkið sem varðveist hefur frá miðöldum.

Rókókó

Evrópskur skreytistíll er einkenndi tímabilið milli barokks og nýklassísks stíls, um 1720-1780. Rókókó einkennist af ósamhverfu og órólegu völu- og skeljaskrúði (rocaille), sveigðum og beygðum línum, ríkulega útskornum og gylltum þiljum og björtum pastellitum á veggjum og húsgögnum.

Rómanskur stíll

Rómanski stíllinn (um 900-1200) var stíll dreifbýlisins og margar tígulegar rómanskar kirkjur er að finna í litlum og afskekktum þorpum Evrópu.

Rómantík

Stefna í bókmenntum og listum sem fram kom í Evrópu á fyrri hluta 19. aldar, einkennist m.a. af tilfinningahita, einstaklingshyggju, náttúrudýrkun og áherslu á þjóðleg og alþýðleg verðmæti. Draugar, tröll og forynjur eru vinsælt yrkisefni listamanna rómantísku stefnunnar.

Rúmmál

Rúmið/rýmið sem einhver hlutur fyllir, málið sem tilgreinir það magn sem ílát getur rúmað. Oft mælt í lítrum, rúmmetrum, rúmsentimetrum o.s.frv.

Rými

Rými er þegar tvívíð form eru látin mynda tilfinningu fyrir rúmmáli og vídd. Bakgrunnur er mjög mikilvægur í rými myndverks. Það fer eftir bakgrunninum hvernig við upplifum rýmið hvort það hefur dýpt og sýnir perspektíf. Í þrívíðum verkum skiptir umhverfi verksins miklu máli því að rýmið í kringum verkið hefur áhrif á hvernig við upplifum fleti og form.
Jákvætt rými er aðalatriði myndflatar eða rýmisverks.
Neikvætt rými er rýmið sem myndast í kringum aðalatriðið.

Rýmisskuggi

Skuggi sem kastast af hlut eða veru á listaverki.

Rýmisverk

Uppröðun sem oft er sett saman úr þrívíðum hlutum og komið fyrir í herbergi til þess að hluturinn eða rýmið fái nýja merkingu.

S

Samklipp

Samklipp (collage) er miðill og aðferð í myndlist þar sem úrklippum úr dagblöðum, tímaritum, auglýsingabæklingum eða öðru prentuðu efni, lituðum pappír, miðum og jafnvel umbúðum er raðað saman og það svo límt á tvívíðan flöt. Franska orðið „collage“ er alþjóðlegt heiti yfir samklipp eða klippimynd en límmynd væri þó nákvæmari þýðing því að orðið „coller“ þýðir að líma á frönsku. Gerð klippimynda má rekja langt aftur í tímann og þær má meðal annars finna í japanskri skrautritun frá 12. öld og talið er að evrópskir munkar hafi notað samklipp í handritslýsingum á miðöldum. Það var þó ekki fyrr en í byrjun 20. aldar sem tæknin öðlaðist sess í listasögunni. Flestallir framúrstefnulistamenn á fyrri hluta 20. aldar sem unnu verk undir merkjum dadaisma, súrrealisma og kúbisma heilluðust af samklippinu og þeim möguleikum sem það bauð upp á.

(e. collage) | Samklipp

Samræmi

Vísar til þess að allt í myndfletinum passar saman og skapar órofa heild. Stundum er enska orðið harmony notað og sagt t.d. að litir málverks harmoneri vel saman.

(e. harmony)

Samsetning

Tengsl milli hluta á myndfleti. Formræn uppbygging teikningar eða málverks.

Samtímalist

Hugtakið samtímalist nær yfir list samtímans. Helsta einkenni hennar er frelsi listamannsins til þess að beita ólíkum stíl og tæknibrögðum. Þess vegna er hugtakið samtímalist fremur safnheiti en nafn á tiltekinni stefnu eða stíl. Listamenn dagsins í dag hafa nánast ótakmarkað val um efnivið og efnistök. Þeir geta málað hefðbundin olíumálverk, tekið ljósmyndir, sýnt gjörninga, unnið vídeóverk eða jafnvel notað demanta og dýrahræ í verk sín. Samtímalist er, rétt eins og eldri list, oft andsvar við eða þróun frá eldri stefnum eða stílum. Listamenn geta tjáð afstöðu sína með verkum sínum eða vakið áhorfendur til umhugsunar.

Sáldþrykk

Tækni sem gengur út á að pressa lit í gegnum fínofinn silki- eða nælondúk sem er strekktur á tréramma. Hægt er að búa til margar líkar myndir með sama rammanum. Einnig kallað silkiþrykk.

Septemberhópur

Sýningarhópur íslenskra myndlistarmanna stofnað árið 1947. Takmark hópsins var að ryðja nýjum viðhorfum í myndlist braut. Hann hélt sýningar á árunum 1947-´48 og 1951-´52. Fyrsta sýningin markaði tímamót í ísl. listasögu en þar haslaði abstraktlistin sér völl.

Setleir

Er leir sem hefur flust til og molnað í agnarsmáar eindir í jörðinni með vatni, jöklum eða jarðskjálftum og orðið fyrir rofi veðurs og vinda. Hann hefur fundist í jörðu í Búðardal og svæðinu þar um kring.

(e. sedimentary clay ) | Leirlist

Silkiþrykk

Myndverk unnin með grafískri flatþrykksaðferð þar sem mynd er unnin á fínofinn silki- eða nælondúk sem strekktur er á ramma. Límkennt fylliefni er borið á þá fleti sem eiga að vera hvítir en vefurinn hafður opinn þar sem litur á að komast í gegn. Einnig má nota ljósmyndatækni og skapalón til að yfirfæra myndir á vefinn. Ramminn er lagður ofan á pappír á þrykkborði og litur skafinn jafnt yfir vefinn þannig að mynd kemur fram á pappírnum. Fyrir hvern lit myndarinnar er útbúinn sérstakur rammi. Þessi aðferð hefur verið notuð frá lokum 19. aldar og er einnig nefnd sáldþrykk eða serigrafía (úr lat. sericum, silki og gr. grafein, skrifa).

(e. serigraphhs) | Grafík

Silkiþrykk

Tæknin sem gengur út á að pressa lit í gegnum fínofinn silki- eða nælondúk sem er strekktur á tréramma. Hægt er að búa til margar líkar myndir með sama rammanum. Einnig kallað sáldþrykk.

Síð-impressjónismi

Margir héldu að impressjónisminn væri kominn til að vera sem stefna en hann var aðeins upphafið á löngu ferli formbreytinga sem enn þá stendur yfir.

Sjálfsmynd

Portrett sem listamaður málar eða teiknar af sjálfum sér.

Sjónarhorn

Sjónarhorn vísar í að hægt er að skoða sama hlutinn frá ólíkri staðsetningu. Við getum horft framan frá, aftan frá, neðan frá og frá hlið. Sjónarhorn getur líka vísað í að ólíkar manneskjur séu að horfa á hlutinn t.d. sjónarhorn barns eða sjónarhorn fullorðinna. Þeir sjá hlutina á ólíkan hátt, bæði ef tekið er mið af augunum og líka huganum.

Sjóndeildarhringur

Sjóndeildarhringur liggur þvert á hvarfpunktinn en það er sá punktur þar sem hjálparlínur byrja. Myndir geta haft fleiri en einn hvarfpunkt.

Sjónræn litblöndun

Hugtak um það fyrirbæri þegar nýir litir verða til við að ljós frá tveimur eða fleiri litum renna saman í auganu.

Skagamálarar

Hópur málara sem bjó á Skaga á Norður-Jótlandi í Danmörku á árunum eftir 1870. Meðal þess sem dró þá þangað var hin sérstaka birta sem er á Skaga á sumrin.

Skálínur

Beinar línur sem liggja á ská frá einu horni myndar í annað. Einnig nefndar hornalínur.

Skerpa

Aðferð í grafík sem byggist á því, að línur sem hafa verið ristar eða ættar með sýru í málmplötu, eru fylltar með lit, sem síðan er þrykkt á pappír í þrykkpressu.
Grafík.

Skissa

Uppkast að listaverki.

Skissubækur

Vinnubækur með mörgum skissum eða teikningum sem eru ekki fullunnin verk heldur gerðar sem æfingar eða undirbúningur fyrir önnur verk.

(e. sketchbooks)

Skúlptúr

Þrívíð myndverk sem standa ein og sér eða eru fest á vegg (lágmyndir). Heitið kemur af latneska orðinu sculpere sem þýðir höggva eða meitla og eru verkin því einnig nefnd höggmyndir. Þrátt fyrir nafngiftina eru aðferðirnar við gerð verkanna mjög fjölbreyttar og eru þau t.d. höggvin, mótuð, skorin, steypt eða skeytt saman. Margs konar efniviður er einnig notaður í verkin t.d. gifs, leir, málmar, viður og ýmsar steintegundir.

(e. sculpture) | Skúlptúr

Skyndimálun

Málunaraðferð þar sem litunum er skvett, slett og þeir látnir drjúpa á strigann. Einnig kallað átakamálverk og action painting.

Skörun

Skörun vísar í að einingar innan myndflatarins skarast. T.d. þegar verið er að teikna fjallgarð þar sem ólíkir fjallgarðar liggja fyrir framan hvor annan.

Slönguaðferð

Aðferðin felst í því að búnar eru til lengjur úr leir og þeim síðan vafið upp hring eftir hring. Að lokum er yfirborðið sléttað út með fingrum eða sköfu.

Smáatriði

Aðalatriði og smáatriði vísar í myndefnið og hvernig það er unnið. Aðalatriði er það sem augað nemur fyrst. Smáatriði eru mjög mikilvæg þegar heildin er skoðuð. Þau geta t.d. falist í nákvæmri litanotkun, teikningu, áferð eða endurtekningu.

Smækkun

Það að mála suma hluti í mynd minni en aðra og búa á þann hátt til dýpt og rými í myndinni. Einnig kallað firðing.

Spenna

Spenna undirstrikar kraftana sem við upplifum í listaverkum. Spenna getur myndast milli sýnilegra og ósýnilegra forma og lína. Listamaðurinn notar spennu til að leiða auga áhorfandans í gegnum myndbygginguna.

Stafræn list

Listtjáning þar sem stafræn tækni er notuð, til dæmis tölva.

Stálstunga

Grafísk djúpþrykksaðferð; mynd skorin út með málmstungu í stálplötu eða koparplötu með stályfirborði.

Stefna og staða

Vísar í hvernig form eða litir liggja í listaverki. Bæði tvívíð og þrívíð verk hafa stefnu. Hún getur ýmist verið lóðrétt, lárétt eða legið á ská.

Steinleir

Steinleir er oftast grá- eða brúnleitur og það eru málmsölt og ýmis lífræn efni sem gefa honum ólíka liti og áferð. Hægt er að nota hann í alla leirmótun, bæði fyrir nytjahluti og skúlptúra. Hann er oftast brenndur á bilinu 1240-1290°C og gerir þessi mikli hiti hann sterkan. Steinleirinn er því ekki gljúpur eins og jarðleirinn, sem þýðir að hann heldur vatni. Algengt er að gólfflísar séu unnar í steinleir svo og ýmsir nytjahlutir.

Steinskúlptúrar

Þrívíð myndverk unnin í ýmiss konar steintegundir, t.d. marmara, grástein eða granít.

(e. stone sculptures) | Skúlptúr

Steinþrykk

Myndverk unnin með grafískri flatþrykksaðferð þar sem mynd er teiknuð með feitri krít eða bleki á slípaðan kalkstein. Steinninn er síðan vættur með sýru sem ætir hreina fleti og gerir þá vatnsdræga. Teikningin er þvegin af með terpentínu og steinninn bleyttur með vatni sem smýgur inn í hann þar sem hann var ættur en fitan úr blekinu/krítinni hrindir vatninu frá sér. Þegar feitri prentsvertu er valsað yfir steininn, sest hún á feitu myndfletina en hrekkur af þeim röku. Myndin er síðan þrykkt á pappír í pressu. Þessi aðferð var fundin upp í lok 18. aldar og og er einnig nefnd litógrafía (úr gr. lithos, steinn og grafein, skrifa). Í stað kalksteins er hægt að nota sink- eða álplötu.

(e. lithographs) | Grafík

Stigbreyting

Stundum er stígandi kallað stigbreyting en stígandi vísar í að litur eða form breytist smám saman.

Stígandi

Stígandi vísar í að litur eða form breytist smám saman. Stundum er stígandi líka kallað stigbreyting. Stígandi er þegar eitthvað hækkar eða magnast eftir því sem á líður. Það getur verið í listaverki þegar það er skoðað frá vinstri til hægri eða niður og upp.

Strigi

Málari málar á strigann sem er strekktur á tréramma. Notaður við gerð olíumálverka.

SÚM

Íslensk listamannasamtök, stofnuð 1965 og störfuðu fram á áttunda áratuginn. Meðlimir hópsins voru frumkvöðlar í gjörningum og hugmyndalist hér á landi. Margir sem störfuðu með hópnum vildu breyta hugmyndum fólks um myndlist og litu á list sem lífsmáta fremur en skrautmuni. Listamenn sem sýndu með hópnum unnu í marga ólíka miðla og kröfðust meira frelsis í listsköpun sinni en almennt tíðkaðist í listsköpun á þeim tíma. Hreyfingin var fremur óformleg en rak um tíma gallerí og stóð fyrir ýmsum sýningum, bæði einkasýningum róttækra listamanna sem og samsýningum.

Súrrealismi

Á árunum milli heimstyrjaldanna fyrri og síðari varð til hreyfing í bókmenntum og listum sem bar nafnið súrrealismi sem á íslensku mætti kalla ofurveruleiki þar sem orðið „sur“ á frönsku þýðir „fyrir ofan“. Segja má að súrrealisminn hafi sprottið út frá dadaismanum. Súrrealistar vildu, líkt og dadaistarnir, hrista upp í hugmyndum fólks en ekki bara um list heldur einnig um lífið sjálft, upplifanir okkar og skynjun. Þeir vildu gera uppreisn gegn ríkjandi hugsunarhætti og afmá öll mörk á milli draums og vöku, ímyndunar og veruleika.

Svarthvítar ljósmyndir

Myndverk sem byggja á notkun myndavéla og nýta aðeins svarta, hvíta og gráa tóna.

(e. black and white photographs) | Ljósmyndun

Symbólismi

Listastefna frá árunum um 1885 til 1920. Samkvæmt henni var hlutverk listarinnar að tjá hið huglæga fremur en hið hlutlæga. Hugmyndir átti að setja fram með táknum. Einnig kallað táknsæisstefna.

T

Tákn

Hlutur eða fyrirbæri sem látinn er tákna eitthvað annað en hann í rauninni er.

Táknsæisstefna

Listastefna frá árunum um 1885 til 1920. Samkvæmt henni var hlutverk listarinnar að tjá hið huglæga fremur en hið hlutlæga. Hugmyndir átti að setja fram með táknum. Einnig kallað symbólismi.

Tegundamálari

Tegundamálari er listamaður kallaður sem sérhæfir sig í ákveðnu viðfangsefni, t.d. blómamyndum, mannamyndum eða náttúrumyndum.

Teikning

Sú grein myndlistar sem byggir á því að dregnar eru línur á slétt undirlag, oftast pappír, með hjálp blýants, penna, krítar eða annars áhalds sem skilur eftir sig spor. Áhersla er lögð á útlistun forma frekar en notkun lita. Teikningar eru oft einlitar eða með mjög takmarkaðan litaskala.

Tempera

Þekjulitur úr hreinu litardufti og seigfljótandi, vatnsleysanlegu efni, s.s. eggjarauðu. Elstu dæmi um notkun temperu eru frá Egyptalandi hinu forna, Mesópótamíu og Krít. Á miðöldum og á endurreisnartímanum var málað með temperu á gifsborinn tréflöt.

Temperamálverk

Myndverk máluð með temperalitum (úr lat. temperare, blanda í réttu hlutfalli) úr litarefni sem er blandað seigfljótandi, vatnsleysanlegu efni, t.d. eggjarauðu. Verkin eru yfirleitt máluð á gifsborinn tréflöt.

(e. tempera paintings) | Málaralist

Textíll

Orðin textíll og texti eru komin af latneska orðinu texere sem merkir að vefa saman.
Textíll tengist daglegu lífi mannsins og vinna með þráð og voð hefur í gegnum aldir verið stunduð bæði í hagnýtum og listrænum tilgangi og er einn af elstu listmiðlunum. Textíllist byggir á rótgróinni handverkshefð sem á sér djúpar rætur í menningu flestra þjóða og hefur þróast með breyttum lifnaðarháttum og þörfum í samtímanum.

Textíllist

Sú grein myndlistar sem einkennist af textílum, þ.e. verkum sem eru unnin úr þræði með ýmsum aðferðum, t.d. vefnaði, prjóni, hekli eða útsaumi.

(e. textile art)

Trélitir

Eru litir í föstu formi sem eru búnir til úr litadufti, vaxi og/eða olíu og bindiefni. Sumir trélitir eru vatnsleysanlegir og geta virkað vel með blautum pensli.

Tréskúlptúrar

Þrívíð myndverk unnin í ýmiss konar tré.

(e. wood sculptures) | Skúlptúr

Trérista/tréskurður

Grafísk háþrykksaðferð er barst frá Kína til Evrópu í lok 14. aldar. Skorin er mynd í við, sneiddan langsum, með tréskurðarhníf. Áður en myndin er skorin í plötuna, er hú strokin yfir með svörtum lit og mynd teiknuð á flötinn. Að lokum er þrykkt á sama hátt og dúkrista.

(e. wood engravings) | Grafík

Tréstunga

Grafísk háþrykksaðferð er þróaðist út frá tréskurði seint á 18. öld í Englandi. Aðferðin byggir á sömu lögmálum og trérista/tréskurður. Mynd er grafin í endatré (öfugt við tréskurð, sem er skorin í lengdartréð) mjög harðs viðar með stikli; þrykkt á sama hátt og dúkrista og tréskurður.

Trönur

Málaragrind/trégrind til að festa á striga eða annað sem málað er á.

Túskteikningar

Myndverk unnin með túski, þ.e. svörtu þunnfljótandi teiknibleki úr fínu sóti eða kinroki í límupplausn. Túskteikningar eru ýmist gerðar með penna eða pensli.

(e. tusch drawings) | Teikning

Túss

Eru bæði til í fljótandi formi og í pennum. Þeir eru búnir til úr litadufti, vatni og bindiefni. Það er mismunandi eftir framleiðendum hvaða bindiefni eru notuð.

Tvívídd

Það er lengd og breidd. Hlutir í tvívídd eru flatir eins og pönnukaka. Þeir hafa hafa semsagt hæð og breidd en enga þykkt.  Tvívíð teikning sýnir eingöngu eina hlið á fyrirmyndinni.

Tvívítt form

Form geta bæði verið tvívíð eða þrívíð. Þegar listaverk er tvívítt þá er það flatt með hæð og breidd. Þrívíð listaverk eru hins vegar með þrjár hliðar hæð, breidd og þykkt.

Tækni

Færni eða aðferð í handverki og listum.

Tölvulistaverk

Myndverk unnin með tölvutækni og miðlað í gegnum tölvu.

(e. computer art) | Nýir miðlar

Tölvumálverk

Málverk sem eiga rætur sínar á myndbandi. Upptökurnar eru færðar í stafrænt form eða settar í tölvu og prentaðar á stóran striga.

Tölvuprent

Tvívíð myndverk sem eru að einhverju, eða öllu leyti unnin í tölvu og prentuð með hjálp tölvutækni, t.d. á pappír eða striga.

(e. digital prints) | Nýir miðlar

U/Ú/V

Ummál

Lengd lokaðs ferils sem umlykur flöt, t.d. marghyrnings eða hrings. Ummál marghyrnings er fundið með því að leggja saman hliðar hans.

Uppbygging

Uppbygging vísar í heildarskipulag verksins. Uppbygging myndverka getur verið hugsuð út frá hjálparlínum sem ýmist eru ósýnilegar eða sýnilegar og geta verið láréttar, lóðréttar og legið á ská.

Útlínur

Svartar línur utan um form eða hluti, til dæmis í teiknimyndasögum.

Útsaumsverk

Myndverk saumuð með nál og þræði í textíla, t.d. með krosssaumi.

(e. embroideries) | Textíllist

Vatnslitamyndir

Myndverk máluð með vatnslitum, þ.e. litum úr litarefni sem er bundið með límefni, t.d. akasíulími, og þynnt með vatni.

(e. watercolours) | Málaralist

Vatnslitir

Eru gagnsæir litir sem eru búnir til úr litadufti og arabísku gúmmí sem bindiefni. Þegar unnið er með vatnslitum er glært vatn notað sem hvítur og til að ná dýpri lit þá er notað meira af litnum.

Vaxlitamyndir

Myndverk unnin með vaxlitum, þ.e. litum sem eru steyptir úr vaxi (t.d. parafín-, bý- eða pálmavaxi) og litadufti.

(e. wax crayon drawings) | Málaralist

Vaxlitir

Eru litir í föstu formi. Þeir eru búnir til úr litarefni og vaxi.

Veflistamaður

Listamaður sem notar vefnað í skapandi starf.

Veggmálverk

Málverk sem málað er á blauta múrhúð. Einnig kallað freska.

Viðlæg litblöndun

Litir sem nást með því að blanda saman tveimur frumlitum. Til eru þrír litir sem fást á þennan hátt, appelsínurauður, grænn og fjólublár.

Þ/Æ

Þekjulitir/Gouache litir

Eru þekjandi vatnsleysanlegir litir sem eiga uppruna sinn í Frakklandi. Þeir eru útbúnir með því að blanda litadufti við vatn og bindiefni, s.s. arabískt gúmmí.

Þjóðlífsmálverk

Málverk sem lýsa hversdagslegu lífi fólks.

Þrívídd

Það er lengd, breidd og hæð. Allt í kringum okkur eru þrívíðir hlutir eins og stólar, borð, styttur, leikföng, námsgögn og fleira. Teikningar og ljósmyndir eru oftast af þrívíðum hlutum en það eru myndirnar sjálfar sem eru í tveimur víddum (lengd og breidd).

Þurrkrítar

Eru krítar sem eru steyptar í form úr efni sem er blandað saman af litarefni og vatni. Í þurrkrít er lítið bindiefni og því þarf oft að spreyja festi fyrir myndina ef maður vill að hún haldist óbreytt.

Þurrnál

Grafísk djúpþrykksaðferð, notuð frá lokum 15. aldar, og felst í því að rista mynd á kopar- eða sinkplötu með hvassri nál sem gefur af sér loðna línu, þ.e. nálaroddurinn er umlukinn smáköntum úr kopar. Þegar svertan er borin á plötuna fer hún ofan í línuna og situr einnig eftir á köntunum í kring, sem gefa línunni meiri breidd og mýkri áferð.

Þæfing

Meðhöndlun á voð, einkum ullarvoð, til að þétta hana og styrkja. Voðinni er haldið heitri og rakri meðan hún er pressuð milli tveggja flata sem hreyfast hvor gegn öðrum.

Æting

Mynd gerð með grafískri djúpþrykksaðferð. Sýruheldur grunnur, úr vaxi, viðarkvoðu eða asfalti, er borinn á kopar- eða sinkplötu. Í grunninn er teiknað með nál eða öðru áhaldi í þá hluta, sem eiga að vera svartir. Grunnarnir skiptast í harðgrunn, mjúkgrunn og akvatintugrunn.