Skip to main content

HORFIÐ VAX

Er rómversk bronssteypuaðferð. Forn aðferð til að búa til afsteypur úr málmi af höggmyndum eða nytjahlutum. Fyrst er höggmyndin mótuð í leir eða tálguð úr tré. Síðan er búið til mót af henni úr gifsi. Ef myndin er einföld er gifsmótið í tveimur hlutum en stundum þarf mótið að vera samsett úr mörgum einingum. Upprunalega höggmyndin er tekin innan úr gifsmótinu og það sett saman á nýjan leik. Þá er bráðnu vaxi hellt ofan í mótið, ekki ólíkt því hvernig páskaeggin eru búin til. Þannig verður til afsteypa af upprunalegu höggmyndinni úr vaxi. Við vaxmyndina er bætt greinum úr vaxi sem verða síðar að aðfærsluæðum fyrir bráðinn málminn. Síðan er steypt mót utan um vaxmyndina úr hitaþolnu efni en ólíkt fyrra mótinu er þetta mót ekki með samskeytum. Síðan er mótið hitað í brennsluofni þannig að vaxið bráðnar og rennur burt og eftir stendur mótið tómt, tilbúið til að taka við bráðnum málminum sem oftast er brons. Þegar málmurinn hefur kólnað er mótið brotið utan af, aðfærsluæðarnar skornar burt og höggmyndin slípuð og lagfærð. Styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli eftir Einar Jónsson var búin til með þessari aðferð.