Listamenn verja oft löngum tíma í að velta fyrir sér hvernig þeir eigi að setja saman eða byggja upp verk sín. Þegar mynd er byggð upp er mismunandi formum og línum raðað saman.

Myndbygging merkir að setja saman ólíka hluti á þann hátt að þeir myndi heild. Myndlistarmenn hugsa um það hvernig setja eigi saman ólíka hluta málverks og innbyrðis tengsl þeirra á svipaðan hátt og tónskáld. Hollenski listmálarinn Piet Mondrian (1872-1944) leitaðist sérstaklega eftir svona myndbyggingu. Hann málaði margar myndir með ferhyrndum flötum og hreinum litum. Með þessum verkum var hann meðal annars að reyna að búa til mynd með fullkomnu jafnvægi.

Piet Mondrian (1872-1944), Samsetning II í rauðu, bláu og gulu, 45 x 45 cm, 1930.
Samsetning er uppröðun forma og mynda í eina mynd.
Wikimedia

Nálægð og fjarlægð

Þegar myndefni listaverks virðist vera nálægt þá er talað um nálægð en þegar myndefnið virðist vera langt í burtu er talað um fjarlægð.

Þessi málverk eru bæði af hestum úti í náttúrunni. Annað þeirra ber þess merki að listamaðurinn hefur verið nálægt fyrirmyndinni á meðan hann hefur verið lengra frá á hinni myndinni.

Þórarinn B. Þorláksson, Þingvellir, olía á striga, 57,5 x 81,5 cm, 1900.
Listasafn Íslands: LÍ 1051

Þórarinn B. Þorláksson, Hvítá, olía á striga, 37,3 x 62,9 cm, 1903.
Listasafn Íslands: LÍ 6093

Staða og stefna

Línur hafa mismunandi stefnu eftir því hvernig þær liggja, geta farið upp eða niður, á ská og til hliðar.

Nína Tryggvadóttir, Gos, olía á striga, 131,5 x 105 cm, 1964.
Listasafn Íslands: LÍ 1383

Skoðaðu hvernig formin í þessu málverki stefna í allar áttir. Það er eins og þegar steinar og hraun spýtast út um allt í eldgosi.

Guðmunda Andrésdóttir. Átrúnaður, olía á striga, 110 x 120 cm, 1971.
Listasafn Íslands: LÍ 1605

Við lesum texta frá vinstri til hægri og ósjálfrátt skoðum við myndir eins. Hringirnir virðast snúast eins og sólin og stefna frá vinstri til hægri.

Kyrrð og hreyfing

Með endurtekningu forma eða lita má skapa hreyfingu. Hreyfing er ekki einangrað atriði heldur felst hún í allri myndinni, svipað og taktar í tónlist. Skapa má kyrrð með láréttum línum. Með lóðréttum línum má ná fram lífi og þegar línur liggja á ská myndast spenna og hreyfing.

Hvert eftirtalinna málverka finnst þér hafa mestu hreyfinguna?

Þorvaldur Skúlason, Sveiflur, olía á striga, 200 x 146 cm, 1964.
Listasafn Íslands: LÍ 1325

Ásgerður Búadóttir, Vúlkan, myndvefnaður, 216 x 200 cm, 1986.
Listasafn Íslands: LÍ 4686

Eyborg Guðmundsdóttir, Titrandi strengir, olía, 1974.
Listasafn Íslands: LÍ 3824

Mesta hreyfingin er í verkinu Sveiflur.

Þyngd

Þegar við skoðum myndir af ólíkum hlutum getum við gert okkur í hugarlund hvað þeir eru þungir. Hlutir geta verið þungir eða léttir, stöðugir eða óstöðugir. Þegar við ímyndum okkur þyngd skoðum við lit, áferð og stöðu hlutanna. Það fer ekki bara eftir stærð hlutarins hvort við teljum hann þungan. Eins og í þessu tilviki, þá erum við fljót að átta okkur á hvaða bolti er léttastur. Hvaða bolti er það?

Golfkúla.
Shutterstock

Tennisbolti.
Shutterstock

Sundbolti.
Shutterstock

Frumþættir

LITIR

FORM

RÝMI OG DÝPT

LISTRÝNI