Listamenn verja oft löngum tíma í að velta fyrir sér hvernig þeir eigi að setja saman eða byggja upp verk sín. Þegar mynd er byggð upp er mismunandi formum og línum raðað saman.
Myndbygging merkir að setja saman ólíka hluti á þann hátt að þeir myndi heild. Myndlistarmenn hugsa um það hvernig setja eigi saman ólíka hluta málverks og innbyrðis tengsl þeirra á svipaðan hátt og tónskáld. Hollenski listmálarinn Piet Mondrian (1872-1944) leitaðist sérstaklega eftir svona myndbyggingu. Hann málaði margar myndir með ferhyrndum flötum og hreinum litum. Með þessum verkum var hann meðal annars að reyna að búa til mynd með fullkomnu jafnvægi.