Listrýni
Alla daga sjáum við myndir í kringum okkur, þær eru sjálfsagður hluti af umhverfinu og þjóna margskonar tilgangi. Við lærum að lesa myndir og greina í sundur listaverk, auglýsingar, skýringarmyndir og skrautmyndir. Því oftar sem við skoðum og greinum myndir því auðveldara verður að þekkja þær. Þegar listaverk er skoðað er hægt að skoða öll smáatriði þess, hvernig það er sett saman og velta fyrir sér um hvað það fjallar. Einnig má nota ímyndunaraflið og búa til sögu um það.
Fegurðarmat
Smekkur fólks er mismunandi og ýmislegt sem hefur áhrif á hann. Fólk er oft hrifnara af þeim hlutum sem það þekkir frekar en hinum óþekktu. Þegar listamenn fóru að mála abstrakt myndir fannst mörgum þær ljótar enda voru þær ólíkar listaverkum sem fólk var vant. Skilgreining á fegurð breytist líka í aldanna rás.
Sjónarhorn
Sjónarhorn er mikilvægt í myndlist. Hvort sem um er að ræða teikningu, uppstillingu, formfræði og þess háttar er mikilvægt að opna augu nemenda fyrir mismunandi sjónarhornum og túlkunarmöguleikum þeirra. Fréttaljósmyndarar geta haft áhrif á hvernig fólk les myndir. Hópur mótmælenda getur virst smár ef tekin er ljósmynd ofan af þaki nálægra bygginga en virst mjög fjölmennur ef fréttaljósmyndari tekur mynd inn í þvöguna og smellir af innan hópsins. Í sjálfu sér eru báðar myndirnar sannar, það er sjónarhornið og stærð viðfangsefnisins á myndinni sem ræður túlkun.
Hægt er að sjá sama hlutinn frá mörgum sjónarhornum s.s. að framan, aftan, ofan, neðan og frá hlið.