Listrýni

Alla daga sjáum við myndir í kringum okkur, þær eru sjálfsagður hluti af umhverfinu og þjóna margskonar tilgangi. Við lærum að lesa myndir og greina í sundur listaverk, auglýsingar, skýringarmyndir og skrautmyndir. Því oftar sem við skoðum og greinum myndir því auðveldara verður að þekkja þær. Þegar listaverk er skoðað er hægt að skoða öll smáatriði þess, hvernig það er sett saman og velta fyrir sér um hvað það fjallar. Einnig má nota ímyndunaraflið og búa til sögu um það.

Fegurðarmat

Smekkur fólks er mismunandi og ýmislegt sem hefur áhrif á hann. Fólk er oft hrifnara af þeim hlutum sem það þekkir frekar en hinum óþekktu. Þegar listamenn fóru að mála abstrakt myndir fannst mörgum þær ljótar enda voru þær ólíkar listaverkum sem fólk var vant. Skilgreining á fegurð breytist líka í aldanna rás.

Sjónarhorn

Sjónarhorn er mikilvægt í myndlist. Hvort sem um er að ræða teikningu, uppstillingu, formfræði og þess háttar er mikilvægt að opna augu nemenda fyrir mismunandi sjónarhornum og túlkunarmöguleikum þeirra. Fréttaljósmyndarar geta haft áhrif á hvernig fólk les myndir. Hópur mótmælenda getur virst smár ef tekin er ljósmynd ofan af þaki nálægra bygginga en virst mjög fjölmennur ef fréttaljósmyndari tekur mynd inn í þvöguna og smellir af innan hópsins. Í sjálfu sér eru báðar myndirnar sannar, það er sjónarhornið og stærð viðfangsefnisins á myndinni sem ræður túlkun.

Hægt er að sjá sama hlutinn frá mörgum sjónarhornum s.s. að framan, aftan, ofan, neðan og frá hlið.

Innkaupakerra frá þremur sjónarhornum.
Shutterstock

Þórarinn B. Þorláksson, Fánanefndin, olía, 20 x 25 cm, 1913-1924.
Listasafn Íslands: LÍ 1566

Þórarinn B. Þorláksson, Þingvellir, olía á striga, 57,5 x 81,5 cm, 1900.
Listasafn Íslands: LÍ 1051

Sjónarhorn í málverki Þórarins B. Þorlákssonar Fánanefndin er án dýptar, flatt og þröngt en vítt og hástætt í mynd hans frá Þingvöllum.

Tillaga að verkefnum:

  • Til að fá nemendur til að nálgast viðfangsefni sín frá öðrum sjónarhóli en þeir eru vanir má setja uppstillingu á gólf og nemendur standa á stólum eða borðum þannig að horft er ofan á hlutina. Nemendur skissa upp og vinna áfram með uppstillinguna.
  • Kvikmyndir og sjónvarpsauglýsingar eru e.t.v. nærtækasta dæmið um hvernig sjónarhorn getur haft áhrif á túlkun. Biðjið nemendur að fylgjast með einum auglýsingatíma og skrá niður það sem fyrir augu ber út frá sjónarhorni fugls og meta hvernig slíkt sjónarhorn getur aukið myndræn áhrif.
  • Biðjið nemendur að nefna kvikmyndir þar sem unnið er með mismunandi sjónarhorn (Dæmi: Lord of the Rings, Matrix).

Dýpt

Mynd með mikla dýpt er með forgrunn, miðrými og bakgrunn en mynd með litla dýpt virðist oft öll á einum grunni. Í þessari mynd er mikil dýpt. Það er eins og áhorfandinn dragist inn í hana. Við sjáum tvær manneskjur í forgrunni, hóp af fólki í miðrými og tvær manneskjur í bakgrunni.

Jón Engilberts, Kvöld í sjávarþorpi, olía, 116 x 142 cm, 1937.
Listasafn Íslands: LÍ 634

Mat á listaverkum

Með því að rýna í listaverk getum við öðlast meiri skilning á sögu, menningu og samfélaginu í heild á sama tíma og það hjálpar okkur að eflast sem persónur.

Gott er að hafa eftirfarandi spurningar í huga þegar að verið er að rýna í listaverk:

  • Eftir hvern er listaverkið?
  • Hvað nefnist það?
  • Hvers eðlis er það? Er það ljósmynd, málverk, höggmynd (skúlptúr), grafíkverk, teikning, bókverk, blönduð tækni, vídeó eða úr leir (keramik)?
  • Lýstu verkinu í nokkrum málsgreinum. Hvað sérðu? Eru einhver skilaboð í verkinu?
  • Lýstu litum, línum, áferð, birtu, skyggingu, myndbyggingu, formum.
  • Hvernig myndir þú lýsa verkinu fyrir manneskju sem hefur ekki séð það?
  • Ef verkið sýnir fólk, að hvaða leyti er það líkt þér eða ólíkt? Hvernig líður því?
  • Ef verkið sýnir landslag (náttúru eða borgarlandslag) hversu kunnuglegt er landslagið?
  • Ef verkið er hlutbundið málverk, hvað er þá í forgrunni, miðrými og bakgrunni?
  • Ef það er abstrakt verk, hvar eru andstæðir litir?
  • Ef það er höggmynd (skúlptúr), táknar það eitthvað sérstakt eða er það leikur listamannsins með form?
  • Þegar þú virðir listaverkið fyrir þér, finnst þér einhver umhverfishljóð/tónlist eiga vel við með því?
  • Ef listaverkið er málverk, hvernig fellur birtan?
  • Sérðu láréttar, lóðréttar eða skálínur í listaverkinu?
  • Hvernig er áferðin?
  • Hvernig eru formin? Eru grunnform eða náttúruleg form?
  • Hvernig eru litirnir í verkinu? Eru þeir heitir eða kaldir? Eru andstæðir litir í því?
  • Vekur listaverkið einhverja tilfinningu með þér? Finnur þú fyrir hryggð eða gleði, undrun eða einsemd? Finnst þér það bera með sér fegurð? Finnur þú kulda stafa frá því? Finnur þú fyrir ótta?
  • Hefðir þú haft verkið öðruvísi ef þú hefðir verið í sporum listamannsins? Ef svo er, hvernig þá?

Frumþættir

LITIR

FORM

MYNDBYGGING

RÝMI OG DÝPT