Form

Myndir eru byggðar úr formum. Þegar þeim er raðað á myndflöt verður til mynd. Allar myndir eru settar saman úr punktum, línum og flötum. Með því að skoða formin og tengslin á milli þeirra má læra margt um myndlist.

Grunnform

Grunnformin eru til í öllum litum og margskonar samsetningum. Tvívíð form eru hringur, ferningur og þríhyrningur. Þau hafa lengd og breidd. Formin eru líka til þrívíð en þá eru þau kúla, teningur og píramídi. Þau hafa lengd, breidd og hæð.

Tvívíðir fletir (l x b)

Þrívíð form (l x b x h)

Þegar listamaður byggir upp verk sitt lætur hann myndefnið oft mynda geómetrísk form. Það geta verið þríhyrningar, ferhyrningar og hringir. Listamaðurinn Adolph Tidemand (1814–1876) beitti slíkri aðferð við uppbyggingu á myndinni Haugeítarnir.

Tideman, Haugeítarnir, 147 x 183 cm, 1852.
Wikimedia

Maðurinn sem stendur á stól er að túlka orð Guðs. Samkvæmt gamalli hefð er þríhyrningurinn notaður sem guðlegt tákn. Tidemand setur flest fólkið inn í slíkan þríhyrning.

Eiginleikar tvívíddar felast í því að aðeins er hægt að ferðast upp og niður eða til hægri og vinstri um formin. Hins vegar þegar þriðja víddin bætist við þá er dýptin komin inn í myndina. Færa má rök fyrir að tvívíddin sé tímalaus því til að upplifa þrívídd þarf að ferðast um í tíma og rúmi. Það á að vísu eingöngu við um raunverulega þrívídd en ekki þá þrívíddarblekkingu sem myndir byggjast á. Sú þrívídd er í raun tvívíð. Færa má sannfærandi rök fyrir því að togstreita milli þrívíðs raunveruleika og tvívíðrar túlkunar á honum sé orsök þess að teikning vefst fyrir mörgum. Með þjálfun er hægt að draga úr þessari togstreitu og efla teiknifærni. Hin þrívíðu systurform hinna tvívíðu grunnforma eru teningur, kúla og keila. Með skuggum aukast þrívíddaráhrifin. Þrívíð grunnform geta síðan tekið breytingum s.s. teningur orðið að rétthyrndum stöpli og kúlan að sívalningi en sívalningur er mikilvægt form í myndsköpun, samsett af kúlu og teningi. Píramídi er samsettur úr þríhyrningum og teningi.

Tillögur að verkefnum:

  • Ljósritið valin listaverk og finnið grunnformin. Dragið útlínur formanna með lit á blaðið.
  • Veltið fyrir ykkur og ræðið saman í pörum eða hópum hvaða form eru ríkjandi í eftirfarandi listaverkum. Eru það grunnformin eða jafnvel önnur form?

Guðmunda Andrésdóttir. Átrúnaður, olía á striga, 110 x 120 cm, 1971.
Listasafn Íslands: LÍ 1605

Finnur Jónsson, Örlagatengingurinn, olía á striga, 45 x 45 cm, 1925.
Listasafn Íslands: LÍ 4784

Leonardo Da Vinci, Studies of hands, teikning, ca. 1480.
Wikimedia

Louise Matthiasdóttir, Fólk í landslagi, 1978.
Wikiart

Hörður Ágústsson, Uppsalir, olía á striga, 95 x 100 cm, 1953.
Listasafn Íslands: LÍ 6134

Náttúruleg form

Náttúruleg form hafa mjúkar og ávalar línur. Þau eru líka stundum nefnd lífræn form.
Hver af þessum skúlptúrum telur þú að hafi náttúrulegt form?

Ásmundur Sveinsson, Ráðskonan (Gólfþvottur), skúlptúr, brenndur leir, hæð 50 cm, 1950.
Listasafn Íslands: LÍ 7127

Gerður Helgadóttir, Abstraktion, málmskúlptúr, 91 cm, 1952.
Listasafn Íslands: LÍ 7079

Guðjón Ketilsson, Þyrping, skúlptúr – lágmynd, tré, 38 x 24 x 5 cm, 1995.
Listasafn Íslands: LÍ 7342

Verkið Ráðskonan er gert úr náttúrulegum formum. Formin á hinum tveimur verkunum eru bein og mjög regluleg og því ekki náttúruleg. Mörg form má sjá í náttúrunni, sjá dæmi um verkefni: Form – finndu form í náttúrunni.

Tvívíð form

Hlutir í tvívídd eru flatir eins og pönnukaka. Þeir hafa hæð og breidd en enga þykkt. Tvívíð teikning sýnir bara eina hlið af fyrirmyndinni. Við þurfum því að ímynda okkur hvernig aðrar hliðar hlutarins líta út.

Þrívíð form

Þrívíð verk hafa hæð, breidd og dýpt. Hægt er að ganga í kringum þau.

Allt í kringum okkur eru þrívíðir hlutir eins og stólar, borð, leikföng, námsgögn, hús, matvæli og fatnaður. Styttur má líka skoða frá öllum hliðum. Þær eru dæmi um þrívíð listaverk. Teikningar og ljósmyndir eru oftast af þrívíðum hlutum. Það eru myndirnar sjálfar sem eru flatar og bara í tveimur víddum, hæð og breidd.

Í þrívíddarteikningu er unnið með þrjár víddir: hæð, breidd og dýpt. Þegar form eru teiknuð þrívíð eru notaðir mismunandi litatónar til að þau virki þrívíð.

Hvert þessara verka er í þrívídd?

Þórdís Aðalsteinsdóttir, Sjálfsmynd og kyrralíf, akrýl á striga, 91,5 x 91,5 cm, 2010.
Listasafn Íslands: LÍ 9067

Steingrímur Eyfjörð, Ekki gleyma Benedikt Gröndal, tréskúlptúr, 148 x 101,5 x 100 cm, 2007.
Listasafn Íslands: LÍ 8094

Kristján Guðmundsson, Punktar í ljóðum Halldórs Laxness, 18 x 15 x 0,3 cm, 1972.
Listasafn Íslands: LÍ 8766

Verkið Ekki gleyma Benedikt Gröndal eftir Steingrím Eyfjörð er í þrívídd.

Áferð

Talað er um áferð hluta. Þegar við skoðum hluti nálægt sést áferð þeirra betur. Ef við snertum hlutinn, getur hann t.d. reynst mjúkur, hrjúfur, loðinn, sléttur eða slímugur. Þegar horft er á hlutinn, getur hann virst kornóttur, hrufóttur eða gljáandi.

Tillaga að verkefni:

  • Hægt er að búa til mynd með því að þrykkja hlutum með mismunandi áferð á blað og útbúa þannig mynstur. Sjá dæmi: Matur með áferð.

 

Mynstur

Hvert sem litið er má sjá mynstur, á fötum, teppum, flísum, dúkum, púðum og myndum. Mynstur er búið til með því að endurtaka sömu form aftur og aftur, á sama hátt, og úr verður reglulegt munstur. Ef mynstrið er ekki alltaf endurtekið á sama hátt verður það óreglulegt.

Litaflötunum er alltaf raðað eins saman. Þegar við getum sagt til um hvaða litur eða mynd á að koma næst þá er mynstrið reglulegt.

Hér má sjá reglulegt mynstur:

M.C. Escher, Study of Regular Division of the Plane with Reptiles, 1974.
Wikimedia

Litaflötunum er alltaf raðað eins saman. Þegar við getum sagt til um hvaða litur eða mynd á að koma næst þá er mynstrið reglulegt.

Punktur

Eitt af því mikilvægasta sem hafa þarf í huga þegar listaverk er byggt upp er hvað listamaðurinn vill að áhorfandinn sjái fyrst á myndinni. Þetta verður miðpunktur eða fókus myndarinnar. Listamaðurinn kemur mikilvægustu hlutum verksins fyrir á ákveðnum stöðum þannig að þeir verði mest áberandi. Auk þess að nota staðsetningu ákvarða listamenn oft miðpunktinn með birtu, skugga eða línum. Í verki Rembrandt Næturverðirnir kemur þetta glögglega í ljós.

Rembrandt, Næturverðirnir, 371 x 445 cm, 1642.
Wikimedia

Hverju heldur þú að Rembrandt vilji að áhorfandinn veiti fyrst athygli á málverkinu? Hvaða aðferð notar hann? Er allt fólkið jafnstórt?

Þegar punktur er á miðri mynd ríkir jafnvægi.

Þegar tveir punktar eru á blaði fara þeir að tala hvor við annan. Augað myndar ósýnilega línu á milli þeirra af því að augun í okkur reyna að tengja saman það sem við sjáum. Ósjálfrátt horfa allir fyrst á punktinn til vinstri og tengja hann við punktinn til hægri.

Þegar horft er á fleiri en tvo punkta á blaði tengja augun ósýnilega línu á milli þeirra þannig að form myndast. Hér eru punktarnir þrír og því sjáum við þríhyrning.

Það myndast spenna þegar við færum punktinn úr miðju myndarinnar út í horn.

Lína

Lína á sér eigið upphaf og endi og er stysta leið milli tveggja punkta.

Þegar við skoðum línu sem er mynduð með punktum dregur augað ósýnilega línu í gegnum punktana.

Línur eru margvíslegar, þær geta t.d. verið harðar, mjúkar, oddhvassar, láréttar, lóðréttar, breiðar, mjóar, langar, stuttar, rólegar, órólegar, óöruggar, öruggar, brotnar, loðnar, stefnulausar, ákveðnar eða truflandi.

Tvær línur sem liggja samsíða mynda þriðju línuna á milli sín, hún er í sama lit og bakgrunnurinn. Línan sem myndast í miðjunni er jafn mikilvæg og hinar tvær. Þess vegna skipta þeir fletir sem við skiljum eftir þegar við erum að teikna eða móta miklu máli.

LÍNUR OG LISTAVERK

Listamenn beita ýmsum brögðum til að skapa líf og hreyfingu í verkum sínum. Þeir nota t.d. andstæða liti en einnig hornalínur eða skálínur frekar en hornréttar línur til að mynda meiri eftirvæntingu.

Þetta sést meðal annars í verkinu Næturverðirnir eftir Rembrandt. Hann notar auk þess sveigðar línur til að skapa hreyfingu og eftirvæntingu.

Rembrandt, Næturverðirnir, 371 x 445 cm, 1642.
Wikimedia

Annað dæmi er Ópið eftir Munch. Á því myndar handriðið kraftmikla skálínu sem á þátt í að búa til dýpt eða fjarvídd í málverkinu. Hann notar einnig sveigðar línur í himininn og bakgrunninn og býr þannig til andstæðu við beinu línurnar.

Munch, Ópið, 91 x 74 cm, 1893.
Wikimedia

Á enn einni mynd, í verkinu Gufuskip í kafaldsbyl, eftir Turner sést hvernig himinninn og hafið mynda hringhreyfingu sem stefnir á litla skipið. Turner skapar á þennan hátt eftirvæntingu á myndinni auk þess sem línurnar beina augnaráði okkar að skipinu á miðri myndinni.

William Turner, Gufuskip í kafaldsbyl, 91 x 122 cm, 1842.
Wikimedia

Eftirfarandi verk einkennast af línum, hvert þeirra hefur loðnustu línurnar?

Karl Kvaran, Orka, olía, 130 x 145 cm, 1978-1979.
Listasafn Íslands: LÍ 4081

Kristján Guðmundsson, Tært útsýni ofan við svart málverk, lakk, 44 x 220 x 2 cm, 1999.
Listasafn Íslands: LÍ 7386

Jóhannes Kjarval, Þórólfur Ríkarðsson, pennateikning, 35 x 35 cm, 1926.
Listasafn Íslands: LÍ 305

Verk Kjarvals hefur loðnustu línurnar.

Skoðið eftirfarandi verk og veltið fyrir ykkur línunum.

  • Grannar og þykkar línur í verki Guðmundu Andrésdóttur Átrúnaður, sjá: Sarpur.
  • Sveigðar lífrænar línur Kjarvals í verki hans Fantasíu, sjá: Sarpur.
  • Láréttar línur Kristjáns Guðmundssonar í Tært útsýni ofan við svart málverk, sjá: Sarpur.
  • Lóðréttar línur í þrívíðu steinverki Rögnu Róbertsdóttur „Án titils“, sjá: Sarpur.
  • Hvítar útlínur Tryggva Ólafssonar í málverkinu Bölti, sjá: Sarpur.

Frumþættir

LITIR

MYNDBYGGING

RÝMI OG DÝPT

LISTRÝNI