Litir

Frumlitir

Frumlitirnir eru gulur, rauður og blár. Þeir eru grunnur að öllum öðrum litum nema svörtum og hvítum sem strangt til tekið eru ekki litir.

Piet Mondrian, Samsetning II í rauðu, bláu og gulu, 45 x 45 cm, 1930.
Wikimedia

Málning og penslar.
Shutterstock

Með frumlitunum er hægt að blanda ALLA liti. Þegar þeir blandast saman verða til margskonar litatónar. Litir sem við sjáum þegar við horfum á regnboga myndast við blöndun frumlitanna.

Regnbogi myndast þegar birta sólarinnar fer í gegnum vatnsdropa í lofthjúpnum. Skoðaðu vel litatónana næst þegar þú sérð regnboga.

Litahringur

Litahringurinn sýnir m.a. hvaða liti við fáum þegar við blöndum frumlitunum saman, þeir nefnast 2. stigs litir.

Í litahringnum sést einnig hvernig 3. stigs litir eru búnir til en þeir eru gerðir úr einum frumlit og einum 2. stigs lit.

Andstæðir litir

Hollenski listmálarinn Vincent Van Gogh notaði mikið andstæða liti. Skoðaðu vel verkið Krákur á kornakri og sjáðu hvernig hann notar andstæða liti:

Vincent van Gogh, Krákur á kornakri, 1890.
Wikimedia

Heitir litir

eru gulir, appelsínugulir og rauðir litir. Þeir eru hægra megin á litahringnum. Við tengjum heita liti við eld og sól.

Kaldir litir

eru bláir og grænir litir og þeir eru vinstra megin á litahringnum. Við tengjum þá oft við himin, ský og vatn.

Listamenn nota oft liti til að tjá tilfinningu. Til dæmis er hægt að nota heita liti til að tákna ást, gleði eða reiði. Kalda liti má til dæmis nota til að tjá tómleika, einsemd eða sorg.

Hver þessara mynda er nær eingöngu í heitum litum?

Kristín Jónsdóttir, Við Þvottalaugarnar, olía á striga, 100 x 123 cm, 1931.
Listasafn Íslands: LÍ 459

Svavar Guðnason, Gullfjöll, olía, abstrakt, 122,5 x 150,5 cm, 1946.
Listasafn Íslands: LÍ 4786

Helgi Þorgils Friðjónsson. Fiskar sjávar, olía á striga, 236 x 205,2 cm, 1995.
Listasafn Íslands: LÍ 6100

Verk Svavars Guðnasonar, Gullfjöll, er nær eingöngu í heitum litum.

Litatónar

Hægt er að gera liti ljósari með því að blanda hvítum lit saman við þá og dekkri með því að blanda svörtum lit saman við. Í litastjörnu Ittens má sjá hvernig litir lýsast og dekkjast eftir því hvort hvítum eða svörtum lit er blandað saman við.

Hér má sjá mismunandi tóna af sama fjólubláa litnum.

Tveir litir tóna saman þegar þeir eru að hluta búnir til úr sama litnum. Gulur og appelsínugulur tóna saman vegna þess að appelsínugulur er búinn til úr gulum og rauðum lit. Dæmi um slíka mynd:

Daði Guðbjörnsson, Rauð tunga, olía á striga, 128 x 108 cm, 1982.
Listasafn Íslands: LÍ 8028

Ljós og skuggar

Alls staðar þar sem er ljós eru einnig skuggar. Þeir sjást þar sem birtan nær ekki til. Horfðu bara í kringum þig. Hvaðan kemur birtan sem fellur á þig? Frá ljósi í loftinu eða inn um glugga? Eða ef til vill frá báðum stöðum? Sérðu skugga? Þegar birta fellur á hluti kasta þeir af sér skugga.

Til að málverk sýnist vera í þrívídd þarf listamaðurinn að taka skugga ólíkra hluta á myndinni með í reikninginn. Með skuggunum mótar hann eða býr til rými. Skuggar eru oft með lögun hlutarins sem birtan fellur á. Ljósgjafinn getur verið náttúrulegur eins og sólarljós eða tilbúinn eins og ljósaperur og kerti. Skuggarnir breytast eftir því hvernig ljósið fellur á hlutinn. Þegar sólin er hátt á lofti verða skuggarnir styttri en þegar hún er lágt á lofti lengjast þeir. Ef notaður er lampi eða vasaljós má sjá hvernig hægt er að láta skugga hluta styttast og lengjast með því að hreyfa ljósgjafann.

Gott er að skoða hvernig ljós fellur á hluti eða dýr og hvernig skuggarnir birtast. Úr hvaða átt kemur birtan á þessum myndum?

Rósa GísladóttirUppstilling I, gifs, 1999.
Listasafn Íslands: LÍ 7379
(Ljósið kemur frá hægri)

Jón Stefánsson, Útigangshestar, olíulitur, 100 x 130 cm, 1929.
Listasafn Íslands: LÍ 365
(Ljósið kemur frá vinstri)

Á myndinni Við lampaljós eftir Harriet Backer, sést hvernig hún hefur náð að skapa bæði dýpt og sérstakt andrúmsloft með því að beita birtu og skugga.
Harriet Backer, Við lampaljós, 55 x 66,5 cm, 1890.
Wikimedia

Nálægð og fjarlægð

Myndir eru byggðar úr formum. Þegar þeim er raðað á myndflöt verður til mynd. Allar myndir eru settar saman úr punktum, línum og flötum. Með því að skoða formin og tengslin á milli þeirra má læra margt um myndlist.

Frumþættir

FORM

MYNDBYGGING

RÝMI OG DÝPT

LISTRÝNI